Úthrif
Þegar staða fyrirtækja er greind og stefna mótuð er yfirleitt einblínt á þætti sem tengjast rekstrinum sjálfum, viðskiptavinum, birgjum og samkeppnisumhverfi. Áhrif á umhverfi og samfélag að öðru leyti liggja oftast milli hluta. Þau ættu þó ekki endilega að gera það.
Úthrif (e. externalities) kallast öll þau áhrif, jákvæð eða neikvæð, sem rekstur fyrirtækja og stofnana hefur á umhverfi þeirra, en leiða ekki til kostnaðar fyrir fyrirtækið né hafa áhrif á verðlagningu vöru þess eða þjónustu. Mengun er þekkt dæmi um neikvæð úthrif. Gagnsemi sem nágrannar fyrirtækisins hafa af öryggiseftirliti er aftur dæmi um jákvæð úthrif. (Atvinnusköpun, áhrif á þjóðarframleiðslu eða virði vörumerkja eru hins vegar vitanlega ekki dæmi um úthrif.)
Þótt úthrifin valdi ekki beinum, sýnilegum kostnaði eða ávinningi fyrir fyrirtækið geta þau gefið vísbendingu um atriði sem hafa áhrif á rekstur þess. Fallegar og snyrtilegar höfuðstöðvar sem fegra umhverfið, öllum til hagsbóta, gætu líka laðað að hæft starfsfólk. Óþefur og mengun gætu fælt frá.
Hefðbundin greining stöðu og samkeppnishæfni tekur úthrifin ekki með í reikninginn. Áhrif þeirra geta þó oft verið umtalsverð. Því er skynsamlegt að vinna kerfisbundna greiningu á þeim jafnhliða hinni hefðbundnu greiningu. Hún getur leitt í ljós styrkleika, sýnt fram á tækifæri og afhjúpað veikleika og ógnanir sem haft geta umtalsverð áhrif á rekstur og samkeppnishæfni. Þótt fyrirtæki njóti ekki ávinningsins eða beri kostnaðinn af úthrifunum beint geta þau gefið vísbendingu um atriði sem rétt er að taka tillit til við stefnumótun.
Þorsteinn Siglaugsson
Sjónarrönd ehf.