Vandaðri vinnubrögð með CAF
Síðan 2011 hefur verið unnið að því innan stjórnkerfisins að meta fýsileika þess að innleiða sjálfsmatslíkan fyrir stjórnsýsluna. Erlendis hefur reynslan af slíkum líkönum verið góð, bæði fyrir einkageirann og opinbera geirann. Unnið er að því að meta CAF sjálfsmatslíkanið (Common Assessment Framework) sem hannað var sérstaklega fyrir opinberar stofnanir og sveitarfélög um aldamótin. CAF notendur eru komnir fyrir 3000 og má finna þá í flestum ríkjum Evrópu, í Asíu, Mið-Ameríku og á fleiri stöðum.
CAF sjálfsmatslíkanið hefur almennt ekki verið tekið upp á Íslandi þó dæmi sé um að stofnanir hafi notað CAF. Um mitt ár 2011 hóf fjármálaráðuneytið samstarf við velferðarráðuneytið um að vinna að innleiðingu CAF á Íslandi. Ákveðið var að hefja tilraunaferli með því að prufakeyra CAF hjá fimm stofnunum. Tilgangurinn var að afla upplýsinga um tækið svo að hægt væri að meta fýsileika þess og taka ákvörðun um hvort CAF væri tæki sem stofnanir á Íslandi eigi almennt að nota. Með tilraunaferlinu var ætlunin að meta áhrif CAF líkansins á starfsemi stofnana, safna upplýsingum er snúa að framkvæmd og úrvinnslu en jafnframt meta hvort þróa þurfi aðferðina frekar.
Tilraunaferlinu er nú lokið og má segja að tilraunastofnanir séu almennt ánægðar með CAF sjálfsmatslíkanið. Stofnanir sjá fyrir sér betri nýtingu fjármuna m.a. með endurforgangsröðun verkefna í samræmi við þarfir viðskiptavina. Einnig sjá stofnanir fyrir sér breytingar á verklagi og skipulagi til að ná betur markmiðum stofnunar. Frekari upplýsingar um CAF sjálfsmatslíkanið og tilraunaverkefnið má nálgast vef á fjármála- efnahagsráðuneytisins.
Pétur Berg Matthíasson, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu