25. október 2024 14:23
Við vorum svo heppin að fá boð í heimsókn til HVIN, þar sem Ásdís Halla Bragadóttir ráðuneytisstjóri og Þórir Hrafnsson mannauðsstjóri tóku á móti okkur í nýju og glæsilegu húsi ráðuneytisins að Reykjastræti 6.
Ásdís Halla fór vel yfir það sem þau kalla Stiklur í starfsemi sinni og er leiðarvísir þeirra að árangri fyrir Ísland. HVÍNandinn var ræddur sem leggur áherslu á að samstarfsfólk hjálpist að og vandi sig, viðurkenni mistök og læri af þeim, hlusti, virði og sýni hvert öðru umhyggju, gleðjist og fagni áföngum og viðhaldi heiðarlegum samskiptum. Þau Ásdís Halla og Þórir telja að þetta sé búið að ganga mjög vel og húsið sé eins og hannað fyrir þessi samskipti með opnum rýmum.
Þau fóru einnig vel yfir hvernig verkefni innan ráðuneytisins eru unnin. Þá er verkefnum forgangsraðað og þau bútuð niður og unnin í tímasettum sprettum. Þau beita sýnilegri stjórnun þar sem farið er yfir sprettina einu sinn í viku á töflum sem eru sýnilegar öllum. Með þessari aðferð hefur náðst að ljúka við fleiri verkefni, einnig þau sem alla jafna þurfa að bíða þegar önnur mikilvæg verkefni sem brennur á að ljúka koma fram. Verkefnin eru skilgreind sem þríþætt, sífellu verkefni, tilfallandi verkefni og sprettir. Verkefnin eru eðlilega ólík að stærð og úrlausnir þeirra kalla oft á ólík vinnubrögð. Verklagið stýrir því í hvaða flokk verkefnin fara og stundum geta þau þróast þannig að þau færast á milli flokka.
Starfsfólk ráðuneytisins starfar í þverfaglegum teymum þar sem sérfræðingar frá ólíkum skrifstofum starfa saman og leiða saman einstaklinga sem hafa sérþekkingu á ólíkum sviðum. Að lokum fengum við túr um húsnæðið þar sem einn starfsmaður frá hverri skrifstofu sagði stuttlega frá þeirra verkefnum og uppbyggingu.
Heimsóknin var virkilega skemmtileg og fróðleg, það var gaman að spjalla við starfsfólkið og allir tóku hópnum okkar vel. Við þökkum öllum í HVIN fyrir að gefa sér þennan dýrmæta tíma til að taka á móti okkur og félögum okkar í breytingastjórnunarhópnum.