Tökum flugið í FlyOver Iceland - Kick off fundur Stjórnvísi

Kæru stjórnendur í faghópum Stjórnvísi. 
Hérna er slóð á fundinn fyrir þá sem ekki komast á staðinn. 

Mikilvægt er að fylla út í skjal á vefnum drög að dagskrá en búið er að senda slóð að skjalinu á allar stjórnir faghópa.  Nú styttist í Kick off fund stjórna faghópa Stjórnvísi sem haldinn verður þriðjudaginn 29.ágúst nk. í FlyOver Iceland. Vonumst til að sjá sem flesta á staðnum því öllum sem áhuga hafa verður boðið í flugferð -  en fyrir þá sem ekki komast verður settur upp hlekkur á streymið. 

Tilgangur fundarins er að starta nýju starfsári af krafti. Farið verður yfir ýmis atriði sem létta stjórnendum faghópa starfið í vetur, búinn verður til vettvangur fyrir faghópana til að sameinast um viðburði, rýnt verður í helstu áskoranir faghópastarfsins en umfram allt fá innblástur til þess að gera komandi starfsár enn öflugra en þau síðustu.

Stjórnir faghópa eru hvattar til að hittast sem fyrst, borða saman hádegisverð í boði félagsins og huga að dagskrá starfsársins.  Á tímabilinu júní-ágúst er oft best að bóka fyrirlesara.  Stjórn vekur athygli á að stjórnum faghópa gefst tækifæri tvisvar á starfsárinu að hittast í hádegisverði hvar sem er í boði félagsins, hægt er að setja í reikning á Nauthól, Vox og á Kringlukránni.  Mikilvægt er að kvitta undir reikninginn og skrifa nafn faghópsins. Ef aðrir staðir verða fyrir valinu er afrit af reikningi sent á Stjórnvísi og reikningurinn greiddur samdægurs.

Smelltu hér til að fylla út í skjal á vefnum drög að dagskrá en búið er að senda slóð að skjalinu á allar stjórnir faghópa.

Hér er tengill á fundinn í maí sem haldinn var fyrir stjórnir faghópa  á Teams. 

Stefnt er að því að senda út drög að dagskrá haustsins til félaga þann 1.september.

Staðsetning viðburðar

Fréttir af viðburðum

Stjórnvísi tók á loft í dag í FlyOverIceland.

Hér má sjá myndir frá viðburðinum. Hérna er hlekkur á upptöku af fundinum.  
Í dag hittust stjórnir faghópa Stjórnvísi í FlyOverIceland þar sem nýju starfsári var startað af krafti.  Farið var yfir ýmis atriði til að létta stjórnendum faghópa starfið í vetur, örstuttur tími gafst til að sameinast um viðburði,  skerpt var á stefnu og gildum félagsins.

Krafturinn í stjórnum faghópanna er meiri en nokkru sinni fyrr eins og meðfylgjandi excelskjal sýnir þar sem komin eru drög að á annað hundruð viðburða í vetur.

Í lok fundar þar sem ríkti bæði gleði og kátína var boðið upp á einstaklega skemmtilega flugferð.  

 

Tengdir viðburðir

Gæðastjórnun – Aftur er boðið upp á kaffi á meðan við köfum á dýptina

Faghópur um gæðastjórnun ætlar að endurtaka viðburð sem fór fram 28. október síðastliðinn. En aðfaranótt þess dags byrjaði að snjóa all verulega þannig að einungis örfáir aðilar komust á fundarstað. Þess vegna ætlar ætlum við að endurtaka leikinn og bjóða áhugafólki um gæðamál og stjórnunarkerfi á staðviðburð þar sem þátttakendur hittast og taka þátt í umræðum um sín uppáhalds viðfangsefni. Sett verða upp umræðuborð með umræðustjórnendum (moderators) sem halda utan um samtalið á hverju borði. Viðfangsefnin ákvarða þátttakendur í sameiningu í upphafi viðburðar og velja sér í kjölfarið borð/málefni sem þeir hafa áhuga á og gefst kostur á að koma á framfæri hugmyndum og áskorunum ásamt því að fá innblástur frá öðrum. Möguleiki er að skipta um borð/málefni einu sinni á viðburðinum ef fólk kýs. Viðburðinum lýkur svo með stuttri samantekt þar sem hver umræðustjórnandi kynnir helstu niðurstöðurnar sem fram komu á viðkomandi borði - svo allir fái innsýn í umræður og lærdóma morgunsins.

Kjörið tækifæri til að ræða gæðamál á dýptina, fá nýja sýn á áskoranir og viðfangsefni og hitta kollega í morgunkaffi og gæðaspjall😊

Fjöldi þátttakenda er miðaður við hámark 25 manns. Áhugasamir eru hvattir til að skrá sig sem fyrst – fyrstur kemur, fyrstur fær.

InnSæi og áttaviti stjórnenda í samtímanum

 

Hrund Gunnsteinsdóttir býður Stjórnvísi félögum í samstarif við fagóp um leiðtogafærni upp á þennan viðburð. Hlekkur á viðburðinn

Á klukkutíma svörum við eftirfarandi spurningum:

👉 Hvernig get ég eflt hugrekkið og traust á eigin dómgreind?
👉 Af hverju er vel þjálfað innsæi svona mikilvægt í dag, í lífi og starfi?
👉 Hvernig hjálpar skapalónið InnSæi mér að stilla mig inn á og ná meistaratökum á innsæinu?
👉 Hvernig er innsæið grundvöllurinn fyrir greind okkar, innra jafnvægi og ákvarðanir?
👉 Ég þrái breytingar, en ekki fleiri verkefni. Er InnSæi eitthvað fyrir mig?


Á sama tíma og innsæið hefur gríðarlega mikil áhrif á hegðun okkar og ákvarðanir, höfum við allof oft misskilið það eða vanrækt. Núna er tímabært að endurskilgreina samband okkar við og skilning á innsæi.

Innsæið verður sérstaklega mikilvægt þegar við stöndum frammi fyrir óvissu, álagi, flóknum verkefnum og vilja til að nota gervigreindina á áhrifaríkan hátt.

“Hrund's advice can change your life. In a world of AI, your intuition will be your defining difference.”

- Bill George, Senior Fellow Harvard Business School & metsöluhöfundur bókarinnar True North

Hlökkum mikið til að sjá ykkur.

 

Um Hrund:

Hrund Gunnsteinsdóttir er leiðtogaþjálfi, höfundur og fyrirlesari. Bókin hennar InnSæi kom út í fyrra og er nú seld um allan heim á 14 tungumálum.

Hrund hefur unnið með innsæið og rannsakað það í yfir 20 ár. Hún stýrði Prisma diplómanáminu (LHÍ, Bifröst og RA) sem var viðurkennt af Norræna ráðherraráðinu fyrir að svara hvað best kröfum vinnumarkaðarins á 21. öldinni. Hrund er handritshöfundur og meðleikstjóri alþjóðlegu heimildarmyndinnar InnSæi (2016). Hrund er vottaður leiðtogaþjálfi, hefur stundað stjórnenda-og leiðtoganám hjá Harvard Kennedy School, Yale, Stanford og Oxford Said Business School. Hún er Yale World Fellow, sat í ráðgjafaráði International Leadership Center hjá Yale, og hefur hlotið viðurkenningar eins og World Economic Forum Young Global Leader, Cultural Leader og Viðurkenningu Sjávarklasans fyrir leiðtogastörf á sviði sjálfbærni. Hrund hefur haldið fjölmarga fyrirlestra og haldið vinnstofur fyrir leiðtoga á þessu sviði og víða um heim, t.d. á vettvangi TED, World Economic Forum, Yale háskóla, Alibaba, Unilever, IMAGINE Leaders, og á Mannauðsdeginum. Hrund hefur einnig víðtæka stjórnunarreynslu hér heima og erlendis. Sjá meira hér.

Nýlega birtist viðtal við Hrund um mikilvægi innsæis á okkar tímum á CNN, grein eftir Hrund í TIME Magazine, og nýleg podcöst viðtöl eru t.d. The Evolving Leader og What's Next með Philip Meissner.

Heilsufarsupplýsingar - aðþjóðaflutningar, heilbrigðisrannsóknir, áskoranir og tækifæri

Heilsufarsupplýsingar eru stór hluti af daglegu lífi okkar og fara víða – bæði innanlands og utan. Vinnslu þeirra fylgja flóknar reglur og áskoranir, sérstaklega þegar þær eru fluttar út fyrir landssteinana. Á þessum viðburði á vegum faghóps um persónuvernd ræðum við m.a. hvernig þessi mál standa í dag, hvaða upplýsingar þetta eru og hvaða reglur gilda en einnig hvaða tækifæri eru til nýtingar gagnanna.

Við byrjum á morgunkaffi, te og smákökum í salnum kl. 9 áður en erindin hefjast kl. 9:15. Áætlað er að viðburðurinn standi til klukkan 11 ef líflegar umræður skapast. 

Viðburðurinn verður haldinn hjá Íslenskri erfðagreiningu, Sturlugötu 8, 102 Reykjavík í salnum Tjörninni sem er til hægri þegar gengið er inn í húsið. 

Við hvetjum ykkur til að mæta, taka þátt í umræðum og efla tengslanetið. Ath. að ekki verður boðið upp á streymi frá viðburðinum.

Dagskrá:

  • Alþjóðaflutningur persónuupplýsinga og heilbrigðisrannsóknir
    Anna Kristín Úlfarsdóttir, fagdirektør í alþjóðadeild norsku Persónuverndar (Datatilsynet) og sérfræðingur í undirhópi Persónuverndarráðsins (EDPB) um alþjóðaflutning síðan 2018. Erindið var einnig haldið 16. október sl. í París á ráðstefnu um persónuvernd í heilbrigðismálum (EHDPC).

  • Heilsufarsupplýsingar – reglur, vernd og framtíðarmöguleikar
    Elfur Logadóttir, framkvæmdastjóri ERA og sérfræðingur í tæknirétti, fjallar um hvaða reglur gilda, um hverja þær gilda, hvernig gögnin eru vernduð í dag og hvað við getum gert til að bæta öryggi og nýtingu þeirra eða m.ö.o. hvernig er hægt að heyja túnið þannig að uppskeran verði að gagni.

  • Skipulag og starfsemi Datatilsynet
    Anna Kristín lokar svo viðburðinum með því að gefa okkur innsýn í hlutverk og starfsemi norsku Persónuverndarinnar.

Áhættustýring og loftslagsbreytingar – Er þitt fyrirtæki berskjaldað?

Smelltu hér til að bóka þig á viðburðinn.
Loftslagsbreytingar eru þegar farnar að hafa áhrif á íslenskt samfélag, hagkerfi og virðiskeðjur. Á þessum sameiginlega viðburði Festu og Stjórnvísi skoðum við hvernig slíkar breytingar geta haft áhrif á rekstur, hvernig við getum beitt ímyndunarafli í áhættustýringu og hversu vel fyrirtæki og opinberir aðilar eru undirbúin fyrir vaxandi loftslagsáhættu. Fundurinn er rafrænn og fer fram þann 16. desember kl 13:00 - 14:00.

Dagskrá:

  • Dr. Anna Hulda Ólafsdóttir, sérfræðingur í loftslagsaðlögun hjá Veðurstofu Íslands, segir okkur frá mögulegum afleiðingum loftslagsbreytinga á Íslandi.
  • Hafsteinn Hauksson, aðalhagfræðingur Kviku, fer yfir ráð gegn óhugsandi áhættu.
  • Dr. Mikael Allan Mikaelsson, sérfræðingur á sviði loftslagsstefnumótunar hjá Stockholm Environment Institute, mun fjalla um hvernig loftslagsbreytingar eru að endurmóta áhættulandslag íslenskra fyrirtækja og hagkerfisins í heild ásamt því að kynna nýtt framtak á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar.

 

Að loknum erindum verður opið fyrir umræður. Þátttakendur eru hvattir til að íhuga eftirfarandi spurningar fyrir fundinn:

 

  • Hefur íslenskt atvinnulíf þegar orðið fyrir áhrifum af truflunum í hnattrænum virðiskeðjum?
  • Hversu meðvituð og vel undirbúin eru íslensk fyrirtæki fyrir loftslagstengdar truflanir í virðiskeðjum?
  • Hvernig er hægt að nýta samstarf hins opinbera og einkageirans til að styrkja efnahagslegt öryggi á tímum vaxandi loftslagsáhrifa?

 

Verkefnið sem Dr. Mikael kynnir er nýtt framtak á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar þar sem norrænar rannsóknarstofnanir — þar á meðal Stockholm Environment Institute — kanna hvernig auka megi loftslagsþol efnahagskerfisins með öflugu samstarfi opinberra aðila og atvinnulífsins. Verkefnið beinir sjónum að því hvar slíkt samstarf er nauðsynlegt til að vernda mikilvægar virðiskeðjur fyrir norrænt samfélag.

 

Í framhaldi af þessu verða haldnir geirasértækir hringborðsfundir snemma árs 2026, þar sem fyrirtæki víðsvegar af Norðurlöndum verða boðuð til þátttöku. Þar koma saman leiðtogar fyrirtækja og opinberra aðila til að móta hagnýtar lausnir til að draga úr loftslagsdrifnum röskunum.

Gullnu reglunar mínar - Dauðans alvara

“Ef banaslys er möguleg afleiðing og starfsfólk getur beitt varnarreglu, þá á það að vera Gullin Regla.”
  • Gullnar Reglur eru ekki bara setning á vegg.
  • Þær eru loforð.
  • Loforð um að þegar líf er í húfi tökum við alltaf réttu ákvörðunina.
Fyrirlesari:
Viðar Arason, öryggisfulltrúi HS Orku og eigandi Skyndihjálparskólans

 

Viðar Arason hefur djúpar rætur í viðbragðsþjónustu, þar sem sekúndur skipta máli og rétt ákvörðun getur bjargað lífi.
Með áralanga reynslu úr framlínunni hefur hann séð hversu öflug öryggisvitund getur verið — og hversu hratt hlutir geta farið úr böndunum þegar hún bregst.
Sem eigandi Skyndihjálparskólans leiðir Viðar fræðslu þar sem öryggi, mannleg hegðun og fyrstu viðbrögð í áföllum eru í fyrirrúmi. Hann leggur sérstaka áherslu á að kenna fólki hvernig á að bregðast rétt við þegar allt gerist á örfáum augnablikum — í slysum, áfallaatvikum og óvæntum uppákomum.
Markmiðið er skýrt: að búa fólk og vinnustaði undir raunveruleikann, ekki bara kenningarnar.
Í dag starfar Viðar við öryggismál hjá HS Orku, þar sem hann vinnur að því á hverjum degi að tryggja það mikilvægasta: "Allir komi heilir heim, alltaf".

Nýr landspítali - fyrirkomulag innkaupa

Everything you want to know about ISO 27001 but have never dared to ask

Ráðgjöf og handleiðsla leiðtoga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum

Ert þú í upphafi vegferðar með sprota- eða nýsköpunarfyrirtæki? Eða stefnirðu á vaxtasprett? Ef svo er, Þá er þetta viðburðurinn fyrir þig. Sandra Mjöll hjá Fönn ráðgjöf deilir reynslu sinni sem frumkvöðull og innsýn í hvernig best sé að stýra þróun, forystu og vexti í nýsköpun.
Þú munt fá:
  • Innsýn í áskoranir sem verða til þegar vísindi, tækni og nýsköpun mætast
  • Hagnýt ráð um hvernig markviss handleiðsla og traust forysta getur hjálpað sprotafyrirtækjum að vaxa hraðar, án þess að fórna sátt við sjálfan sig eða teymi sitt
  • Leiðir til að byggja upp heilbrigt, vel skipulagt og framtíðarhæft fyrirtæki með stuðningi, þekkingu og sjálfbærri stjórn
Viðburðurinn höfðar til allra sem starfa við eða hafa áhuga á sprotum, nýsköpun, frumkvöðlastarfi og forystu og vilja kynnast því hvernig vísindi og viðskipti geta sameinast í áhrifaríkri og mannúðlegri framtíðarsýn.
Hver er Sandra Mjöll Jónsdóttir-Buch hjá Fönn ráðgjöf?
Svo fátt eitt sé nefnt:
  • Hún er með doktorspróf í Líf- og læknavísindum, með sérsvið í vefjaverkfræði og frumulíffræði.
  • Hún hefur yfir 14 ára reynslu af vísindum, nýsköpun og forystu, bæði í akademíu og viðskiptalífinu.
  • Hún var útnefnd „Kvenfrumkvöðull ársins 2017“ af alþjóðlegu samtökunum Global Women Inventors & Innovators Network (GWIIN).
  • Hún er í hópi topp 100 kvenna í nýsköpun sem fjárfestar ættu að líta til að mati Forbes

Frá ferlum til fólks: Hönnun nýs spítala

Hvernig verður nýr spítali hannaður með bæði ferla og fólk í huga?
Á viðburðinum skoðum við hvernig samspil starfsfólks, sjúklinga og verkferla getur mótað framtíðarlausnir sem nýtast öllum.

 

Fjarfundur.

Nánari upplýsingar þegar nær dregur.

Eldri viðburðir

Stjórnarfundur Stjórnvísi - (lokaður fundur)

Stjórnarfundir Stjórnvísi eru haldnir fyrsta fimmtudag hvers mánaðar kl.11:00-12:00. Í stjórn félagsins eru 9 aðilar og eru fundir til skiptis á Teams og á vinnustöðum stjórnarfólks. Þema starfsársins er „FRAMSÝN FORYSTA“. Á fyrsta vinnufundi stjórnar sem haldinn var í júní 2025 gerði stjórn með sér samskiptasáttmála þar sem m.a. var rætt um að:

  1. Mæta undirbúin á stjórnarfundi 2. Mæta tímalega 3. Taka ábyrgð á verkefnum 4. Hafa uppbyggilega gagnrýni 5. Samskipti séu opin og eðlileg 6. Vera á staðnum 7. Allt stjórnarfólk sé virkt í starfi stjórnar 8. Stjórn ákveði sameiginlega hvar og hvernig samskipti eiga sér stað; tölvupóstur sé hinn formlegi vettvangur utan funda, en að fundir og spjall eigi sér stað á Microsoft Teams.

Stjórn er komin með drög að áhersluverkefnum starfsársins 2025-2026 sem eru fjögur. Þau verða útfærð nánar og sett á þau mælikvarða til að fylgjast með framvindu:

  1. Faghópar
    • Undirverkefni
    • Ábyrgðaraðilar
  2. Heimasíða
    • Undirverkefni
    • Ábyrgðaraðilar
  3. Myndbönd
    • Undirverkefni
    • Ábyrgðaraðilar
  4. Sóknarfæri
    • Undirverkefni
    • Ábyrgðaraðilar

 

Unnið verður í þessum áhersluverkefnum og fundað um þau sérstaklega milli fastra stjórnarfunda. Öll áhersluverkefni vísa til meginmarkmiða Stjórnvísi, eiga sér undirverkefni og mælikvarða. (sjá neðar í texta). Formaður og/eða framkvæmdastjóri félagsins stýrir stjórnarfundum þar sem áhersluverkefni stjórnar eru rædd ásamt öðrum verkefnum. Stjórn hefur aðgengi að sameiginlegu svæði í skýinu. Fundargerðir stjórnar eru öllum opnar hér.

 

Á aðalfundi haldinn 7. maí 2025 voru kosin í stjórn félagsins:

Stjórn Stjórnvísi 2025-2026.
Anna Kristín Kristinsdóttir, Engineering Manager Lead, JBT Marel, formaður (2025-2026)
Auður Daníelsdóttir, forstjóri Orkunnar kosin í stjórn (2022-2026)
Héðinn Jónsson, Chief Product Officer hjá Helix health. (2025-2027)
Ingibjörg Loftsdóttir, sérfræðingur í lýðheilsu og stjórnun, formaður faghóps um Heilsueflandi vinnuumhverfi (2023-2026)
Lilja Gunnarsdóttir, sjálfstætt starfandi markþjálfi og teymisþjálfi kosin í stjórn (2022-2026)
Matthías Ásgeirsson, Bláa Lónið, stofnandi faghóps um aðstöðustjórnun kosinn í stjórn (2024-2026)
Snorri Páll Sigurðsson, deildarstjóri innkaupastýringar Alvotech, formaður faghóps um innkaupstýringu (2023-2026)
Tinna Jóhannsdóttir, forstöðumaður markaðsmála og sjálfbærni ON (2025-2027)
Viktor Freyr Hjörleifsson, mannauðssérfræðingur hjá Vegagerðinni. (2025-2027)

Kosin voru í fagráð félagsins.

Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar (2025-2027)
Haraldur Agnar Bjarnason, forstjóri Auðkennis (2025-2027)
Margrét Tryggvadóttir, skemmtanastjóri NOVA (2024-2026)
Sigríður Harðardóttir, mannauðsstjóri Norðuráls (2024-2026)
Sigurður Brynjar Pálsson, forstjóri BYKO (2024-2026)

Kosnir voru tveir skoðunarmenn til 2ja ára á síðasta aðalfundi:

Sigríður Soffía Sigurðardóttir, endurskoðunarsviði KPMG (2024-2026)
Hjördís Ýr Ólafsdóttir, endurskoðunarsviði KPMG (2024-2026)

Eftirfarandi eru fyrstu tillögur/drög að mælikvörðum stjórnar 2025-2026

 

Mælikvarðar fyrir áhersluverkefni stjórnar 2025-2026

oo= rauntíma mælaborð á síðu Stjórnvísi www.stjornvisi.is

ooo= mælt árlega í viðhorfskönnun til félagsmanna

  1. Faghópar
      • Aukning á virkni faghópa oo
      • Viðburðir séu sýnilegir og auglýstir tímanlega ooo
      • Stjórn sé í reglulegu og góðu sambandi við stjórnir faghópanna ooo
      • Verkferlar félagsins fyrir stjórnir faghópa, faghópafundi og ráðstefnuhald eru skráðir og unnið eftir þeim. ooo

 

  1. Myndbönd
    1. Talning á fjölda félaga sem horfa á myndbönd á innri vef Stjórnvísi (verði sett inn í mælaborð)
    2. Fjöldi myndbanda sem er settur inn á (verði sett inn í mælaborð)
    3. Áhorf á Facebook

 

  1. Sóknarfæri
  1. Fjölgun fyrirtækja oo
        1. Fjölgun fyrirtækja með 200 eða fleiri starfsmenn oo
        2. Fjölgun fyrirtækja með 100-199 starfsmenn oo
  1. Fjölgun á heildarfjölda notenda (innri markaðssetning fyrirtækja) oo
  2. Fjölgun virkra félaga oo
  3. Fjölgun nýrra virkra félaga oo
  4. Fjölgun viðburða oo
  5. Fjölgun félaga á fundum oo
  6. Aukning á nýskráningum í mánuðinum oo
  7. Aukning á félagafjölda í faghópum oo
  8. Aukning á virkum fyrirtækjum oo
  9. Fjölgun nýrra háskólanema oo
  10. Fagmennska sé ávallt höfð að leiðarljósi í öllum störfum ooo
  11. Stjórnin efli og viðhaldi trausti á félagið með fagmennsku að leiðarljósi og starfi skv. stefnu félagsins ooo

Stjórnarfundur Stjórnvísi - Farið yfir átaksverkefni 2025-2026. (lokaður fundur)

"Óformlegi leiðtoginn" - Að starfa sem leiðtogi

Hvað þýðir það í raun að vera leiðtogi?

Einstakt tækifæri til að taka þátt í lifandi samtali þar sem við deilum reynslu, speglum okkur í hvoru öðru og finnum nýjar leiðir til að vaxa sem leiðtogar í ólíkum hlutverkum. 

 

Í atvinnuauglýsingum er alltaf verið að ráða inn leiðtoga!
En hvað þýðir það í raun að vera leiðtogi – ekki bara á pappírnum heldur í verki?
Að vera ráðinn inn sem leiðtogi er stór titill að fylla upp í.  Fjölmörg hlutverk gera ráð fyrir að viðkomandi sé leiðandi afl - leiði breytingar, leiði þróun, verkefni eða hópa án þess þó að vera formlegur yfirmaður. 

Hvernig get ég verið leiðtogi í raun?
Hvaða leiðir get ég farið til að efla mig?
Hvaða veggi rekst ég sífellt á – og hvaða áskoranir eru raunverulegar fyrir mig?
Og hvað er allt þetta geggjaða fólk þarna úti sem virðist vera „alveg með þetta“ að gera?

Komdu og fáðu speglun, nýjar hugmyndir og innsýn – tengjast öðrum leiðtogum og deildu þínum eigin lærdómi!
Við notum Open Space aðferðina til að skapa lifandi flæði þar sem við gefum og þiggjum, tengjumst og vöxum saman.

Þú færð tækifæri til að:
🌿 ræða raunverulegar áskoranir í leiðtogahlutverkinu
🌿 tengjast kollegum á nýjan og dýpri hátt
🌿 fá ferskar hugmyndir, innblástur og hvatningu
🌿 og stækka sjóndeildarhringinn í góðum félagsskap

Viðburðurinn er 2,5 klst og hentar öllum sem vilja vaxa í leiðtogahlutverki sínu – hvort sem þú ert nýr í því eða með reynslu í farteskinu.

✨ Komdu, speglaðu þig, lærðu og taktu næsta skref í þinni leiðtogafærni! ✨

 

Viðburðurinn er haldinn í samstarfi faghóps um leiðtogafærni hjá Stjórnvísi og Opna háskólans í HR. Opni háskólinn hefur mikla reynslu af skapandi námskeiðishaldi fyrir þá sem vilja efla sig í starfi og bjóða upp á frábært umhverfi og aðstöðu fyrir slíka vinnu. 

Hann verður leiddur af Láru Kristínu Skúladóttur. Lára Kristín er lóðs og leiðtogaþjálfi sem brennur fyrir því að skapa rými þar sem fólk tengist, lærir og eflist saman. Lára er að byggja upp nýtt konsept, Co-Create – vettvang fyrir leiðtoga og teymi sem vilja þróa árangursríka samvinnu með skapandi og þátttökudrifnum hætti.

Henni til aðstoðar verður Ásta Þöll Gylfadóttir. Ásta er í stjórn faghóps stjórnvísi um leiðtogafærni og hefur mikinn áhuga á að efla einstaklinga og teymi. Hún hefur lokið þjálfaravottun frá ICAgile í agile leiðtogafærni og að vinna í að ljúka vottun eftir grunnnámið í markþjálfun en starfar sem deildarstjóri í vörustýringu og vefþróun á Þjónustu og nýsköpunarsviði hjá Reykjavíkurborg.

 

 

Hvað er Open Space - og hverju má ég búast við?

Open Space er lifandi og sveigjanleg aðferð þar sem þátttakendur skapa dagskrána sjálfir út frá því hvar ástríðan og áhuginn liggur. Við byrjum saman í hring, þema dagsins er kynnt og þátttakendur eru leiddir í að móta saman umræðuefni sem þeim finnst skipta máli. Með þeim mótum við svo dagskrá viðburðarins.

Þú getur lagt til umræðuefni, tekið þátt í þeim umræðum sem vekja forvitni þína og/eða þar sem þú hefur margt að gefa – og fært þig á milli hópa eftir því hvar þú finnur mestan lærdóm eða innblástur.

Andrúmsloftið er opið, skapandi og óformlegt, þar sem allir leggja sitt af mörkum.
Þú færð tækifæri til að tengjast fólki, spegla þig í öðrum og finna nýjar leiðir til að vaxa sem leiðtogi – í rými þar sem enginn hefur öll svörin, en allir hafa eitthvað að gefa.

🌿 Komdu með forvitni, opinn huga og löngun til að taka þátt í samtali sem nærir og hvetur.

Frá notanda til viðskiptavinar

Þjónusta í fyrsta sæti. 
 
Á örfáum árum hafa Veitur ohf. breytt starfsemi sinni og viðhorfi og sett viðskiptavini í forgrunn alls sem gert er. Veitur eru fyrirtæki í sérleyfisstarfssemi og viðskiptavinir hafa ekki val um að fara annað og þess vegna er sérstaklega mikilvægt að þjónusta sé í fyrsta sæti.
 
Brynja Ragnarsdóttir, fyrrum forstöðukona Þjónustu hjá Veitum, segir frá því hvernig Veitur breyttu menningu innan fyrirtækisins með markvissum hætti.
 
Veitur hlutu bronsverðlaun í stærstu þjónustukeppni í Evrópu árið 2024 og eru nú aftur komin í úrslit fyrir þjónustu við viðskiptavini.
 
Fundurinn fer fram í Rímu á jarðhæð Hörpu. Næg bílastæði í bílakjallara Hörpu. Ekki verður boðið upp á streymi á vef.

Þjónusta framtíðarinnar: SAGA Icelandair

Fundurinn fer fram í húsakynnum Icelandair, ekki verður boðið upp á streymi á vef.

 

Undanfarin ár hefur Icelandair lagt mikla áherslu á stafræna umbreytingu í þjónustu við viðskiptavini. Hluti af þeirri vegferð er þróun stafræns þjónustufulltrúa, SÖGU, sem hannaður er til að svara og leysa úr spurningum og vandamálum bæði tilvonandi og núverandi viðskiptavina.

SAGA er ekki einföld leitarvél eða spjallbotti sem vísar notendum áfram á vefsíðuna. Markmiðið er mun metnaðarfyllra: að skapa snjallan þjónustufulltrúa sem getur leyst úr meirihluta mála án þess að viðskiptavinurinn þurfi að hafa samband við mannlegan starfsmann.

Þróunin byggir á nákvæmri gagnaöflun, tengingu við kerfi Icelandair og stöðugri þjálfun á samtölum og svörum. SAGA lærir af samskiptum við viðskiptavini og þróast þannig til að veita betri og persónulegri þjónustu.

Stóra markmiðið með verkefninu er að breyta viðhorfi fólks til þjónustu:
að fyrsta hugsunin sé ekki lengur „ég þarf að tala við manneskju“, heldur „ég get leyst þetta sjálf – strax“.

Þessi umbreyting snýst ekki aðeins um tækni, heldur um menningarbreytingu innan fyrirtækisins og meðal viðskiptavina. Með því að efla sjálfsafgreiðslu og sjálfvirkni í þjónustu hefur Icelandair þegar náð að:

  • Minnka álag á þjónustuver
  • Stytta biðtíma og bæta upplifun viðskiptavina
  • Skapa rými fyrir þjónustufulltrúa til að sinna flóknari og verðmætari málum

Framtíðarsýn Icelandair er að SAGA verði órjúfanlegur hluti af þjónustuupplifun fyrirtækisins, þar sem manneskjur og gervigreind vinna saman að því að veita skilvirka, mannlega og skilningsríka þjónustu – hvenær sem er, hvar sem er.

 

Arndís Halldórsdóttir, vörustjóri í stafrænni þjónustu hjá Icelandair, hefur undanfarin ár stýrt þróun stafræna þjónustufulltrúans Sögu – verkefnis sem markar stórt skref í framtíðarþjónustu Icelandair.

Með henni kemur Guðný Halla, forstöðumaður þjónustu hjá Icelandair, sem hefur tekið þátt í mótun framtíðarstefnu fyrirtækisins í stafrænum samskiptalausnum. Mikil breyting hefur orðið í þessum málum undanfarin ár og hafa þær leitt uppbyggingu öflugra þjónustuleiða sem sameina sjálfsafgreiðslu, gervigreind og aðgengi að sérhæfðu þjónustufólki á mörgum tungumálum.

Saman munu þær segja frá vegferð Icelandair í átt að snjallari, persónulegri og aðgengilegri þjónustu sem nýtir tækni, innsýn og mannlega nálgun til að skapa betri upplifun fyrir viðskiptavini.

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?