Fréttir og pistlar
Til að tilnefna fyrir árið 2026 smellið hér
Óskað er eftir tilnefningum til Stjórnunarverðlauna Stjórnvísi 2026. Sjá myndband.
Stjórnvísifélagar eru hvattir til að hafa í huga að þema stjórnar starfsárið 2025-2026 er "Framsýn forysta".
Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi 2026 verða veitt í sautjánda sinn í febrúar næstkomandi við hátíðlega athöfn á Grand hótel, Háteigi, kl.16:00-17:10. Forseti Íslands Frú Halla Tómasdóttir afhendir verðlaunin og flytur stutt ávarp.
Við hvetjum alla landsmenn til að taka þátt með því að tilnefna og rökstyðja 1. millistjórnendur 2. yfirstjórnendur 3.frumkvöðla/brautryðjendur í fyrirtækjum innan sem utan raða Stjórnvísi sem þeim þykir hafa skarað framúr á sínu sviði.
Dómnefnd birtir lista yfir þá sem hljóta lágmarksfjölda tilnefninga.
Frestur til að tilnefna rennur út 17. desember 2025.
Hver og einn Stjórnvísifélagi getur tilnefnt og rökstutt eins marga og hann vill innan sem utan síns fyrirtækis. Opið er fyrir tilnefningar í öllum faghópum Stjórnvísi sem sjá má á vef félagsins; https://www.stjornvisi.is/is/
Dómnefnd tekur við öllum tilnefningum, vinnur úr þeim og útnefnir verðlaunahafa.
Viðmið við tilnefningu:
Að stjórnandinn hafi í starfi sínu eða einstöku verkefni sýnt af sér forystu, bæði í stjórnun og nýjum hugmyndum ásamt því að stuðla að auknum árangri í starfsemi þess fyrirtækis eða stofnunar sem hann starfar hjá.
Markmið Stjórnunarverðlauna Stjórnvísi er að vekja athygli á framúrskarandi starfi stjórnenda, örva umræðu um faglega stjórnun og hvetja félagsfólk til að auka þekkingu sína, hæfni og færni sem stjórnendur. Þannig vill Stjórnvísi stuðla að aukinni fagmennsku á sviði stjórnunar á Íslandi.
Dómnefnd.
Það er Stjórnvísi mikið í mun að verðlaunin séu byggð á faglegu mati og því eru viðmið og ferli verðlaunanna vel skilgreind og dómnefnd er skipuð sérfræðingum og reynslumiklum stjórnendum.
Dómnefnd 2026 skipa eftirtaldir:
Salóme Guðmundsdóttir, formaður dómnefndar, framkvæmdastjóri Ísorku og stjórnarformaður Kadeco.
Borghildur Erlingsdóttir, forstjóri Hugverkastofunnar.
Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár.
Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.
Katrín S. Óladóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri Hagvangs.
Margrét Guðmundsdóttir, fyrrverandi forstjóri Icepharma hf.,og stjórnarkona.
Þröstur Olaf Sigurjónsson, prófessor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.
Ritari dómnefndar er Gunnhildur Arnardóttir, framkvæmdastjóri Stjórnvísi.
Nánari upplýsingar um Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi er að finna á heimasíðu félagsins: https://www.stjornvisi.is/is/
Endurvakinn faghópur Stjórnvísi um almannatengsl, miðlun og samskipti hélt vel heppnaðan haustfund í Húsi máls og menningar við Laugaveg miðvikudaginn 5. nóvember 2025. Fundurinn var opinn öllu áhugasömu fólki og fjölsóttur. Faghópurinn fékk þrautreynda reynslubolta í faginu til að opna fundinn með stuttri framsögn um sig og sín verkefni, ásamt vangaveltum yfir framþróun fagsins. Þau voru Ásgeir Friðgeirsson ráðgjafi, Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir ráðgjafi, Eva Bergþóra Guðbergsdóttir samskiptastjóri Reykjavíkurborgar, Gísli Freyr Valdórsson blaðamaður og ráðgjafi, Særún Ósk Pálmadóttir ráðgjafi hjá KOM og Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir ráðgjafi hjá Aton. Umræðum stýrði Stefán Hrafn Hagalín framkvæmdastjóri Þrettánellefu.
Endurvakinn faghópur Stjórnvísi um þjónustu- og markaðsstjórnun hélt fyrsta viðburð haustsins í Björtuloftum í Hörpu föstudaginn 7. nóvember síðastliðinn.
Hvert sæti var skipað þegar Ingibjörg Kristinsdóttir þjónustuhönnuður hélt erindi sitt „Frá innsýn til aðgerða“ í Hörpu. Hún leiddi þar gesti í gengum skemmtilega blöndu af fræðum og reynslu.
„Þjónustuhönnun hefur löngum sannað sig sem aðferðafræði sem eykur ánægju viðskiptavina og starfsfólks, eykur tekjur fyrirtækja, minnkar kostnað, eykur skilvirkni, minnkar áhættu, eykur tryggð viðskiptavina og eykur líkurnar á að viðskiptavinurinn velji fyrirtækið aftur og aftur“ segir í kynningu viðburðarins.
Ingibjörg fékk fjölmargar spurningar og í lokin spjölluðu gestir og nutu samverunnar í fallegu útsýni Björtulofta.
Stjórn faghópsins þakkar gestum kærlega fyrir komuna og minnir á næsta viðburð faghópsins sem verður í húsakynnum Icelandair í Hafnarfirði 27. nóvember nk.
Enn eru nokkur pláss laus á STAÐFUNDINUM "Gæðastjórnun - Kaffi og kafað á dýptina" sem fram fer 28. okt. kl. 09:00-10:30 í húsnæði Náttúrufræðistofunar Urriðaholtsstræti 6-8, Garðabæ. Sjá nánar í hér að neðan.
Skráning fer fram að venju á vef Stjórnvísi - sjá hér: https://www.stjornvisi.is/is/vidburdir/kaffi-og-kafad-a-dyptina
---
Faghópur um gæðastjórnun býður áhugafólki um gæðamál og stjórnunarkerfi á staðviðburð þar sem þátttakendur hittast og taka þátt í umræðum um sín uppáhalds viðfangsefni. Sett verða upp umræðuborð með umræðustjórnendum (moderators) sem halda utan um samtalið á hverju borði. Viðfangsefnin ákvarða þátttakendur í sameiningu í upphafi viðburðar og velja sér í kjölfarið borð/málefni sem þeir hafa áhuga á og gefst kostur á að koma á framfæri hugmyndum og áskorunum ásamt því að fá innblástur frá öðrum. Möguleiki er að skipta um borð/málefni einu sinni á viðburðinum ef fólk kýs. Viðburðinum lýkur svo með stuttri samantekt þar sem hver umræðustjórnandi kynnir helstu niðurstöðurnar sem fram komu á viðkomandi borði - svo allir fái innsýn í umræður og lærdóma morgunsins.
Kjörið tækifæri til að ræða gæðamál á dýptina, fá nýja sýn á áskoranir og viðfangsefni og hitta kollega í morgunkaffi og gæðaspjall😊
Fjöldi þátttakenda er miðaður við hámark 25 manns. Áhugasamir eru hvattir til að skrá sig sem fyrst – fyrstur kemur, fyrstur fær.
Stjórnvísifélagar fjölmenntu í JBT Marel í morgun þar sem Lilja Birgisdóttir (HSE/ÖHU Manager) hjá JBT Marel fræddi okkur um hvernig HSE (ÖHU) og LEAN vinna saman, kosti þess og galla.
Boðið var upp á morgunhressingu fyrir kynninguna kl. 08:30. Eftir kynninguna var öllum boðið upp á fræðslu og útsýningshring á svölunum þar sem hægt verður að horfa yfir framleiðsluna.
Fjöldi áhugaverðra aðila sýndu áhuga á að setjast í stjórn faghóps um sjálfbæra þróun, loftslagsmál og umhverfi allt afburðarfólk. Úr vöndu var að ráða við að móta stjórn hópsins.
Úr varð sextán manna stjórn, sem endurspeglar vel fjölbreytileika þeirra sem áhuga sýndu. Fyrsti fundur nýrrar stjórnar var á Kringlukránni í dag þar sem félagar kynntu sig og farið var yfir ábyrgð og hlutverk stjórna faghópa Stjórnvísi. Stjórnin mun hittast í næstu viku til að móta hugsanlegar áherslur hópsins. Stjórnin kaus Eirík Hjálmarsson, Orkuveitunni, sem formann og Rakel Lárusdóttur, Hörpu, sem varaformann. Áhugasamir eru hvattir til að skrá sig í faghópinn með því að smella hér.
Stjórn faghópsins skipa: Erla Rós Gylfadóttir Advania, Sara Elísabet Svansdóttir Austurbrú, Þóra Dögg Jörundsdóttir Bananar, Páll Sveinsson Brú lífeyrissjóður, Ásdís Nína Magnúsdóttir Carbfix, Harpa Júlíusdottir Festa, Björg Jónsdóttir Háskólinn á Bifröst, Ragnhildur Helga Jónsdottir Landbúnaðarháskóli Íslands, Klara Rut Ólafsdóttir Landspítali, Sandra Rán Ásgrímsdóttir COWI Ísland, Guðbjörg Lára Sigurðardóttir Urta, Hólmfríður Bjarnadóttir Vegagerðin, Eiríkur Hjálmarsson Orkuveitan, Freyr Eyjólfsson Sorpa, Marta Jóhannesdóttir Grant Thornton og Rakel Lárusdóttir Harpa.
Í dag hélt faghópur um góða stjórnarhætti sinn fyrsta fund í Grósku. Fundurinn var einstaklega áhugaverður og vel sóttur. Hægt er að nálgast glærur fyrirlesara á innraneti Stjórnvísi með því að smella hér og velja "ítarefni". Hér má nálgast myndir sem voru teknar.
NIS2 er Evróputilskipun um net- og upplýsingaöryggi (Network and Information Systems Directive) sem tók gildi í Evrópu í október 2024 og kemur til með að vera innleidd í íslensk lög. Tilskipunin mun ná yfir fleiri fyrirtæki á Íslandi en fyrri tilskipun og ábyrgð stjórnenda á netöryggi verður gerð skýrari.
Nanitor mun bjóða til morgunverðarfundar þar sem fjallað verður um tilskipunina og áhrif hennar á stjórnir og stjórnendur fyrirtækja.
Dagskrá viðburðarins:
- Hildur Sif Haraldsdóttir, yfirlögfræðingur Advania flytur erindi um áhrif NIS2 á íslensk fyrirtæki
- Heimir Fannar Gunnlaugsson forstjóri Nanitor: Frá óvissu til yfirsýnar á 24 klst með Nanito
Viðburðurinn er haldinn í móttökurými á 2. hæð í Grósku hugmyndahúsi, Bjargargötu 1. Húsið opnar klukkan 8.30.
Á aðalfundi faghóps um almannatengsl, miðlun og samskipti var ný stjórn kjörin. Stjórnina skipa þau Andrea Guðmundsdóttir, fagstjóri og lektor við Háskólann á Bifröst, Anna Margrét Gunnarsdóttir ráðgjafi hjá Altso, Aðalbjörg Kristín Jóhannsdóttir ráðgjafi hjá Apríl og Nasdaq á Íslandi, Dóra Magnúsdóttir samskiptastjóri Hafrannsóknastofnunar, Erla Björg Eyjólfsdóttir ráðgjafi og stundakennari við Háskólann á Bifröst, Grétar Theodórsson ráðgjafi hjá Innsýn samskiptum og Stefán Hrafn Hagalín, framkvæmdastjóri Þrettánellefu og fyrrverandi formaður Stjórnvísi, en hann er jafnframt formaður faghópsins.
Hópurinn er eins og aðrir faghópar Stjórnvísi öllum opinn, hvort heldur fólk hefur áhuga á faginu, starfar við það eða sækir sér menntun á þessu sviði. Smelltu hérna til ganga til liðs við hópinn: https://www.stjornvisi.is/is/faghopar/almannatengsl-e-public-relations-og-samskiptastjornun
Á vinnufundum stjórnar síðustu vikur og mánuði hefur verið mótuð metnaðarfull dagskrá fyrir veturinn, sem verður birt á vef og samfélagsmiðlum Stjórnvísi. Má þar nefna tvo staðfundi við upphaf og lok vetrar til að efla tengslamyndun þar sem sérfræðingar stíga á stokk og fara yfir stefnur og strauma í faginu. Einnig eru áætlaðir mánaðarlegir fundir með fjölbreyttum umfjöllunarefnum.
- Október: Staðfundur með góðum gestum og tengslamyndun
- Október: Hagnýting gervigreindar í faginu
- Nóvember: Samskiptastjórnun og sjálfbærni
- Desember: Almannatengsl fyrir frumkvöðla, nýsköpun og sprotafyrirtæki
- Janúar: Almannatengsl fyrir stjórnmálaflokka og hagsmunasamtök
- Febrúar: Fjárfestatengsl og almannatengsl í skráðum og óskráðum fyrirtækjum
- Mars: Innri samskipti og markaðssetning á vinnustöðum
- Apríl: Menntun og símenntun í almannatengslum og samskiptum
- Maí: Almannatengsl á opinberum vinnustöðum.
- Júní: Staðfundur með góðum gestum og tengslamyndun
Tilgangur faghópsins er að efla faglega þróun á sviði almannatengsla, miðlunar og samskipta innan skipulagsheilda, ásamt því að auka vitund um mikilvægi atvinnugreinarinnar með því að bjóða upp á fræðandi og hvetjandi fyrirlestra frá fyrirtækjum, stofnunum, háskólum og sérfræðingum. Metnaður er lagður í að bjóða upp á fyrirlestra sem veita áhorfendum aukna þekkingu, færni og innsæi í starfsvettvang fagsins, hér heima og erlendis.
Mikil vitundarvakning hefur orðið hér á landi undanfarin ár um mikilvægi góðra almannatengsla og markvissrar miðlunar og samskipta. Fagleg, heiðarleg og stöðug upplýsingagjöf við mikilvæga hagsmunahópa byggir og styrkir góða ímynd og eykur um leið velferð og virðingu hvort sem um ræðir skipulagsheildir eða einstaklinga.
Eftir fjölda áskorana hefur faghópur Stjórnvísi um mannauðsstjórnun verið endurvakinn.
Mikill áhugi er á að taka þátt í starfinu og hefur nú verið skipuð sextán manna stjórn, sem endurspeglar vel þann fjölbreytileika sem hópurinn býr yfir. (Sjá frétt hér )
Í faghópnum eru yfir 900 manns, sem gerir hann að einum stærsta faghópnum innan Stjórnvísi. Þar sem sífelld endurnýjun á sér stað í fyrirtækjum hvetjum við ykkur til að framsenda þetta skeyti til áhugasamra einstaklinga innan ykkar fyrirtækja og hvetja þá til að skrá sig í hópinn.
Ný stjórn kemur saman á næstunni og mun í kjölfarið setja fram dagskrá vetrarins.
Fyrsti viðburður vetrarins
Fyrsti viðburður er í anda vetrarins um framsýna forystu og er í samstarfi við FranklinCovey á Íslandi.
Áhersla er á framtíð vinnustaða og vinnumenningar og mikilvægi mannlegra gilda á tímum örra tæknibreytinga, gervigreindar og alþjóðlegs umróts. Hvernig má stuðla að því að starfsfólk þrói með sér þá færni sem þarf til framtíðar?
Viðburðurinn er nk. fimmtudag, 4. september og er á Teams (8:30-10:00). Skráning hér
Við vonumst til að sjá ykkur sem flest á viðburðum vetrarins.
Stjórn faghóps um mannauðsstjórnun.
Hér má sjá myndir frá fundinum.
Í dag hittust stjórnir faghópa Stjórnvísi í Lava Show þar sem nýju starfsári var startað með sannkölluðum sprengikrafti. Þema starfsársins er "Framsýn forysta". Farið var yfir ýmis atriði til að létta stjórnendum faghópa starfið í vetur, góður tími gafst til að sameinast um viðburði, skerpt var á stefnu og gildum félagsins og boðið var upp á morgunkaffi í einstaklega fallegu og notalegu umhverfi. .
Krafturinn í stjórnum faghópanna er mikill eins og meðfylgjandi excelskjal sýnir þar sem komin eru drög að á annað hundruð viðburða í vetur. Einnig hlýddum við á einstaklega áhugavert erindi frá stofnanda Lava Show Ragnhildi Ágústsdóttir. Að lokum var öllum boðið á þessa mögnuðu sýningu. Í lok hennar voru allir leystir út með gjöf.
Yfir fjörtíu áhugaverðir aðilar sýndu áhuga á að setjast í stjórn faghóps um mannauðsstjórnun, allt afburðarfólk. Úr vöndu var að ráða við að móta stjórn hópsins.
Úr varð sextán manna stjórn, sem endurspeglar vel fjölbreytileika þeirra sem áhuga sýndu. Fyrsti fundur nýrrar stjórnar var á Kringlukránni í dag þar sem félagar kynntu sig og farið var yfir ábyrgð og hlutverk stjórna faghópa Stjórnvísi. Stjórnin mun hittast fljótlega aftur til að móta hugsanlegar áherslur hópsins. Stjórnin kaus Helgu Rún Jónsdóttur sem formann og Völu Jónsdóttur sem varaformann. Áhugasamir eru hvattir til að skrá sig í faghópinn með því að smella hér.
Stjórn faghópsins skipa: Dagný Guðsteinsdóttir Efling, Dóra Lind Pálmarsdóttir FSRE, Geir Andersen Fastus ehf, Hanna Lind Garðarsdóttir Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Helga Rún Jónsdóttir Swappagency, Helgi Guðjónsson Veitur, Hildur Steinþórsdóttir KPMG, Hrefna Sif Jónsdóttir Tixly, Ingólfur Helgi Héðinsson Kilroy, Laufey Inga Guðmundsdóttir Fagkaup, Lilja Hrönn Guðmundsdóttir Strætó, María Baldursdóttir Hafnarfjarðarbær, Ólafur Ólafsson Faxaflóahafnir, Sigurður Ólafsson Gott og gilt og Vala Jónsdóttir Carbfix.
Á hátíðlegri athöfn á Nauthóli í dag hlutu 17 íslensk fyrirtæki nafnbótina Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum. Viðurkenningarnar eru veittar af Stjórnvísi, Viðskiptaráði Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Nasdaq Iceland.
Fyrirtækin sem hlutu viðurkenningu árið 2025 eru:
Alvotech, Arion banki, Eik fasteignafélag, Fossar fjárfestingarbanki, Heimar, Icelandair Group, Íslandssjóðir, Kvika banki, Orkan IS, Reiknistofa bankanna, Reitir fasteignafélag, Sjóvá, Skagi, Stefnir, VÍS, Vörður tryggingar og Ölgerðin Egill Skallagríms.
Markmið verkefnisins er að efla traust í viðskiptalífinu og styrkja innviði fyrirtækja með því að hvetja til skýrra vald- og ábyrgðarskipta innan stjórna og stjórnenda. Fylgni við góða stjórnarhætti stuðlar að faglegri ákvarðanatöku, ábyrgari rekstri og bættri samskiptamenningu innan fyrirtækja. Þannig verður stjórnarstarf bæði skilvirkara og traustara í augum almennings. Liður í því er meðal annars útgáfa, og regluleg uppfærsla, leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja sem sjá má á www.leidbeiningar.is.
Fyrirmyndarfyrirtækin 17 eru afar fjölbreytt en þar má nefna fjármála- og tryggingastarfsemi, fjarskipti, leigustarfsemi, eignaumsýslu og ferðaþjónustu. Fyrirtækin þykja öll vel að nafnbótinni komin enda eru starfshættir stjórna þeirra vel skipulagðir og framkvæmd stjórnarstarfa til fyrirmyndar.
Erindi flutti Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra og stjórnarformaður nýs Rannsóknarseturs HÍ um jafnrétti í efnahags-og atvinnulífi. Viðurkenningarnar voru afhentar af Sigríði Margréti Oddsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins. Fundarstjóri var Björn Brynjúlfur Björnsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.
Aðalfundur var haldinn í maí. Á fundinum var samþykkt að halda sömu stjórn og síðasta ár.
Stjórn félagsins var því endurkjörin og skipa hana eftirtalin:
-
Formaður: Hrafnhildur Birgisdóttir
-
Meðstjórnendur:
-
Erla Jóna Einarsdóttir
-
Jónína Guðný Magnúsdóttir
-
Magnús Bergur Magnússon
-
Magnús Ívar Guðfinnsson
-
Súsanna Magnúsdóttir
-
Þóra Kristín Sigurðardóttir
-
Nýlega kom út áhugaverð skýrsla frá Dubai Future Fountation. Hér eru tvær tilvitnanir er tengjast efni skýrslunnar:
Gervigreindarfulltrúar hafa möguleika á að verða öflugir bandamenn bæði leiðtoga og starfsmanna. Þeir geta aukið mannlega getu, umbreytt fyrirtækjum innan frá og tryggt að nýsköpun skapi varanlegt virði fyrir skipulagið.
— Lidia Kamleh, aðallögfræðingur, Dubai Future Foundation
„Gervigreind er ekki bara tæki, heldur umbreytandi afl sem getur gjörbreytt uppbyggingu, tilgangi og umfangi fyrirtækjadeilda.“
— John Jeffcock, forstjóri Winmark
Skýrslan dregur saman umræður, athuganir og framtíðarsýn sem komu fram á lokuðum fundi sem Winmark hélt í samstarfi við Dubai Future Foundation.
Skýrsluna má nálgast á eftirfarandi vefslóð:
https://www.dubaifuture.ae/insights/re-imagining-business-with-ai/
Hér er viðtal við Eric Schmidt, fyrir framkvæmdastjóra Google, fjárfestir og hugsuður um þróun gervigreindar. Viðtalið er nokkuð langt, en áhugavert. Tækifæri til að drepa tíman og hugleiða framtíðina, í hvíld sumarsins :)
https://www.youtube.com/watch?v=qaPHK1fJL5s
Nýlega barst fyrirspurn til Stjórnvísi frá áhugasömum félaga um að endurvekja stjórn faghóps um þjónutu-og markaðsstjórnun. Í framhaldi var sendur út póstur til félaga þar sem óskað var eftir áhugasömum í stjórn faghópsins. Viðbrögðin létu ekki á sér standa þar sem búið er að mynda 10 manna stjórn sem fundaði á VOX. Þar kynntu félagara sig og farið var yfir ábyrgð og hlutverk stjórna faghópa Stjórnvísi. Stjórnin kaus Maríu Ágústsdóttur ON sem formann og Hildi Ottesen sem varaformann. Áhugasamir eru hvattir til að skrá sig í faghópinn með því að smella hér.
Stjórn faghópsins skipa: Ásdís Gíslason Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, Brynja Ragnarsdóttir Veitur, Heiðrún Grétarsdóttir Bananar, Hildur Ottesen Harpa, Hjördís María Ólafsdóttir Happdrætti Háskóla Íslands, Ingibjörg Magnúsdóttir Pílukast ehf, María Ágústsdóttir ON, Sædís Jónasdóttir Samgöngustofa, Unnur Líndal ON og Þórhallur Örn Guðlaugsson Háskóli Íslands.
Yfir þrjátíu áhugaverðir aðilar sýndu áhuga á að setjast í stjórn faghóps um verkefnastjórnun, allt afburðarfólk. Úr vöndu var að ráða við að móta stjórn hópsins. Úr varð fjórtán manna stjórn, sem endurspeglar vel fjölbreytileika þeirra sem áhuga sýndu. Fyrsti fundur nýrrar stjórnar var á Kringlukránni í dag þar sem félagar kynntu sig og farið var yfir ábyrgð og hlutverk stjórna faghópa Stjórnvísi. Þar sem helmingur stjórnar var staddur erlendis stefnir stjórnin á að hittast aftur í júní til að móta hugsanlegar áherslur hópsins. Stjórnin kaus Gísla Rafn Guðmundsson sem formann og Aðalstein Ingólfsson sem varaformann. Áhugasamir eru hvattir til að skrá sig í faghópinn með því að smella hér.
Stjórn faghópsins skipa: Aðalsteinn Ingólfsson MT Sport, Auður Íris Ólafsdóttir Hagar, Daníel Sigurbjörnsson Efla, Eygerður Margrétardóttir Ríkislögreglustjóri, Gísli Rafn Guðmundsson Framkvæmdasýslan-Ríkiseignir, Halldóra Traustadóttir Reykjavíkurborg, Hannes Bjarnason Sjúkrahúsið á Akureyri, Íris Elma Guðmann Dómstólasýslan, Lísbet Hannesdóttir Háskólinn á Akureyri, Signý Jóna Hreinsdóttir Landspítali, Sigurður Blöndal Háskólinn á Bifröst, Steinunn Anna Eiríksdóttir Háskóli Íslands, Þóra Kristín Sigurðardóttir Eimskip og Unnur Helga Kristjánsdóttir Strategia.
Fundur haldinn: 4 júní 2025
Aðilar: Vilborg Magnúsdóttir Isavia Innanlands, Lilja Birgisdóttir Marel, Viðar Arason HS Orka, Snorri Páll Davíðsson Háskóli Íslands, Eggert Jóhann Árnason Bætt Öryggi, Erlingur E. Jónasson LSE og Fjóla Guðjónsdóttir Isavia Ohf sem jafnframt ritaði fundargerð.
Gísli Níls Einarsson og Eyþór Víðisson boðuðu forföll.
Dagskrá:
- Yfirferð síðasta starfstímabils
- Kosning í stjórn og formanns
- Drög að viðburðum næsta starfstímabils
- Önnur mál
Yfirferð síðasta starfstímabils
Nokkur lægð var í starfsemi hópsins á tímabilinu september 2024 til maí 2025. Þrátt fyrir að drög hefðu verið lögð að viðburðum tímabilsins og margar góðar hugmyndir komu fram til að efla og fjalla um öryggismá á víðum grunni þá raungerðust þær ekki.
Eini viðburðurinn var haldinn í júní í samstarfi við Öryggishóp Samorku og bar yfirsögnina Orka og Öryggi. Þar var fjallað um helstu áskoranir þeirra starfsvettvangur á við að etja og leiðir sem og aðferðir sem þeir hafa tekið upp. Virkilega áhugavert og verður spennandi að fylgjast með áframhaldandi vinnu.
Hópurinn var sammála um að efling öryggisumræðu væri mikilvæg og þessi vettvangur gæti lagt mikið til. Áríðandi að allir í stjórn séu virkir og taki frumkvæði að því að koma með hugmyndir og setja upp viðburði.
Kosning í stjórn og formanns
Auglýst hafði verið eftir aðilum í stjórn þar sem tveir aðilar hafa hætt á tímabilinu.
Viðbót í stjórn: Viðar Arason HS Orka, Snorri Páll Davíðsson Háskóli Íslands og Eggert Jóhann Árnason Bætt Öryggi hafa því bæst við í stjórn Öryggishóps Stjórnvísi.
Formaður: Fjóla Guðjónsdóttir bauð sig fram til formanns til aðalfundar 2026. Engin mótframboð voru og því framboð samþykkt.
Samsetning stjórnar 2025-2026 er því eftirfarandi:
Vilborg Magnúsdóttir Isavia Innanlands, Lilja Birgisdóttir Marel, Viðar Arason HS Orka, Snorri Páll Davíðsson Háskóli Íslands, Eggert Jóhann Árnason Bætt Öryggi, Erlingur E. Jónasson LSE, Fjóla Guðjónsdóttir Isavia Ohf. Gísli Níls Einarsson Öryggisstjórnun/Alda Öryggi og Eyþór Víðisson Reykjavíkurborg.
Formaður sendir fundarseríu á stjórn fyrir starfstímabil.
Drög að viðburðum næsta starfstímabils
Margar góðar hugmyndir komu fram og stjórnin einhuga um að bjóða upp á fræðandi og flotta dagskrá.
Drög að dagskrá vetrarins:
- Öryggi og LEAN á það samleið og eykur LEAN öryggi
- Ábyrgð Lilja, september 2025
- Hvað er Bætt Öryggi og hvernig vinnur fyrirtækið til að auka öryggi
- Ábyrgð Eggert, nóvember 2025
- Hvernig eru og fyrir hvað standa Gullnu Reglurnar
- Ábyrgð Viðar, október 2025 eða janúar 2026
- Vinna í opnu rými, hefur það áhrif á heilsu?
- Ábyrgð Vilborg haldið í samvinnu við Vinnís
- Tæknin og öryggi, hvernig vinnur Tesla að bættu öryggi með tækni
- Ábyrgð Lilja (Fjóla) tími ekki ákveðinn
Önnur mál
Vilborg sagði frá alþjóðlegri ráðstefnu um atferlismiðaða hegðun sem haldin verður þann 9 og 10 október 2025.
Þann 21.maí var haldinn aðalfundur faghóps um stjórnun upplýsingaöryggis.
Farið var yfir þá viðburði sem haldnir voru á starfsárinu sem var að líða. Rætt var um markmið og tilgang hópsins, hver sé markhópur þeirra kynninga sem hópurinn stendur fyrir og hvort að tækifæri séu til að gera betur. Þessi mál verða rædd nánar á komandi starfsári en hópurinn var sammála um að mörg tækifæri eru fyrir hópa eins og þennan.
Kosning stjórnar fór fram þar sem Jón Kristinn Ragnarsson var endurkjörinn sem formaður hópsins. Auk hans gáfu Benedikt Rúnarsson, Friðbjörn Steinar Ottósson, Sigurður Bjarnason og Tryggvi Níelsson aftur kost á sér. Hrefna Gunnarsdóttir bættist við hópinn eftir áramót og bauð einnig kost á sér. Auk þeirra voru ný framboð, Auður Íris Ólafsdóttir og Gná Guðjónsdóttir buðu kost á sér í hópinn og eru þær boðnar velkomnar. Fyrirkomulag hópsins er að fjöldi og fjölbreytileiki stjórnar er mikill kostur og þess vegna eru öll boðin velkomin að taka þátt í þessari vinnu.
Faghópurinn fer nú í sumarfrí en mun hefja skipulagsvinnu að sumri loknu.
Nýkjörin stjórn Stjórnvísi hélt í dag vinnufund stjórnar þar sem m.a. var ákveðið þema fyrir starfárið 2025-2026. Þemavinnan var unnin í miro.com og var niðurstaðan sú að þemað var valið "Framsýn forysta". Útfærslan verður kynnt nánar á Kick off fundi í ágúst.
- Samskiptasáttmáli. Fundurinn hófst með því að Anna Kristín Kristinsdóttir formaður stjórnar Stjórnvísi bauð alla velkomna og fór yfir dagskrá og markmið fundarins. Formaður Stjórnvísi kynnti hugmynd að samskiptasáttmála stjórnar 2025-2026 þar sem m.a. var rætt um að: 1. Mæta undirbúin á stjórnarfundi 2. Mæta tímalega 3. Taka ábyrgð á verkefnum 4. Hafa uppbyggilega gagnrýni 5. Samskipti opin og eðlileg 6. Vera á staðnum. 7. Allt stjórnarfólk sé virkt í starfi stjórnar. 8. Stjórn ákveði sameiginlega hvar og hvernig samskipti eiga sér stað.
- Í framhaldi kynnti stjórnarfólk sig og sagði örstutt frá sér.
- Yfirferð á framtíðarsýn, stefnu, gildum, lögum og siðareglum. Anna Kristín fór yfir framtíðarsýn, stefnu, gildi, meginmarkmið lög og siðareglur.
- Áætlun og lykilmælikvarðar. Áætlun félagsins stenst og eru tekjur á áætlun. Áætlun félagsins er uppfærð reglulega allt árið og er aðgengileg stjórnarfólki í Sharepoint. Stjórn var hvött af framkvæmdastjóra félagsins til að fara inn á Sharepoint reglulega.
- Farið var yfir aðganga stjórnar að Sharepoint, Teams, Facebook og skráning stjórnar í faghópinn „stjórn Stjórnvísi“.