Fréttir og pistlar

Haustráðstefna Stjórnvísi 11.október 2022 kl.09:00-11:00 á Grand Hótel og í beinu streymi.

Þú bókar þig með því að smella hér. FRÍR AÐGANGUR - ALLIR VELKOMNIR. Bæði á Grand Hótel og í beinu streymi. Haustráðstefna Stjórnvísi hefur undanfarin ár farið fram á netinu við góðar viðtökur.  Við höldum því áfram og sendum dagskrána út í beinu streymi og bjóðum alla þá sem áhuga hafa velkomna á Grand hótel meðan húsrúm leyfir. 
Linkur á streymið er hér.   

Fyrir hvern: Fyrir alla Stjórnvísifélaga.  Mikilvægt er að velja við skráningu hvort þú mætir á staðinn eða fylgist með í streymi. Boðið upp á glæsilegt morgunverðarhlaðborð frá kl.08:30 og einnig í hléi.  

Þema ráðstefnunnar: "GRÓSKA -  Vöxtur, þroski, árangur"  
Ráðstefnustjóri:  Salóme Guðmundsdóttir, stjórnarmaður hjá Eyri Ventures og Viðskiptaráði Íslands. 

Pallborðsstjórnandi:  Haraldur Agnar Bjarnason, framkvæmdastjóri Auðkennis. 

Dagskrá: 
09:00 Formaður stjórnar Stjórnvísi Sigríður Harðardóttir, sviðsstjóri mannauðs- og gæðasviðs Strætó setur ráðstefnuna. 

09:10 FYRIRLESTUR:  Gísli Herjólfsson, forstjóri Controlant. 

09:30 SPJALL:  Haraldur Bjarnason ræðir við Andra Þór Guðmundsson forstjóra Ölgerðarinnar og Hrund Rudolfsdóttur forstjóra Veritas

09:55 FYRIRLESTUR: Berglind Ósk Bergsdóttir, notendamiðaður textasmiður.  - Hefurðu upplifað loddaralíðan? (Imposter syndrome)

10:15 FYRIRLESTUR:   Matti Ósvald Stefánsson, heildrænn heilsufræðingur og atvinnumarkþjálfi.  - Fjórar stoðir persónulegs vaxtar/grósku.

10:35 FYRIRLESTUR: Þórhildur Helgadóttir, forstjóri Póstsins. 

Sigríður Harðardóttir sviðsstjóri mannauðs-og gæðasviðs Strætó, formaður stjórnar Stjórnvísi setur ráðstefnuna kl. 09:00. Því næst munu verða flutt erindi og pallborðsumræður. 

Verið öll hjartanlega velkomin.

Aðgangur er frír.

Samantekt frá okkar fyrsta viðburði

Nú er vika liðin frá fyrsta viðburði okkar sem fjallaði um hver tilgangur miðlunar og gagnvirkra samskipta fjölmiðla og lögaðila á milli.

Þar sem fyrirhugað er að halda sambærileg erindi á landsbyggðinni á komandi vetri viljum við veita innsýn í það sem fór fram á viðburðinum og miðla þannig áfram því sem við höfum tök á, að teknu tilliti til trúnaðar við frummælendur og áheyrendur.

  

Hvert er helsta vandamál miðlunar?

Kjarni þess erindis sem Ingvar Örn Ingvarsson, framkvæmdastjóri Cohn og Wolfe á Íslandi flutti, var sá að innan almannatengsla á Íslandi hefur lengi skort fagmennsku. Staðreyndin er sú að stór hluti þeirra sem sinna almannatengslum með áberandi hætti, eins og upplýsingafulltrúar, koma úr fjölmiðlaheiminum og hafa litla eða enga faglega þekkingu á faglegri hliðum almannatengsla. Þau sem hafa aflað sér þekkingar og reynslu starfa yfirleitt á bak við tjöldin, til dæmis við stefnumótun, samskiptaáætlanir og framkvæmd þeirra. Þetta veldur bjögun í almennri umræðu þar sem sýnilegi hluti almannatengslanna er oft á tíðum ekki sá faglegi.

Mögulega stafi slík vinnubrögð af því að það séu eins konar ranghugmyndir í gangi varðandi samskipti fjölmiðla og lögaðila annars vegar og hins vegar  lögaðila og almannatengla til dæmis varðandi hvert hlutverk fjölmiðla raunverulega er. Í þessu samhengi velti Ingvar sérstaklega upp spurningum um mikilvægi fjölmiðla fyrir almannatengsl.  

Við teljum okkur flest vita að hlutverk fjölmiðla er að upplýsa almenning um það sem á sér stað í samfélaginu. Upplýsa á þann hátt að það sé verið að segja satt og rétt frá og gagnsæi fylgir störfum fjölmiðla, sem stuðlar að því að skipulagsheildir vilji koma hreint fram í garð almennings.

Ef við skoðun hlutverk almannatengsla er kjarninn almennt sá að breyta viðhorfum í jákvæða átt með upplýsingamiðlun til að mynda og viðhalda gagnkvæmum tengslum, skilningi, samþykki og samvinnu hagaðila á milli.

Þar sem meginhlutverkin eru skýr þarf að velta fyrir sér hvað gæti hamlað þessum hlutverkum.

 

Samkvæmt alþjóðlegum siðareglum almannatengla er ekki leyfilegt að beita sefjun gagnvart fjölmiðlafólki eða almenningi. Raunin er sú að oft er verið að reyna að sefja fjölmiðla eða almenning til að fylkja sér að baki málstað án þess að áheyrendur skilaboðanna viti nokkuð um raunverulegu markmið þess að reynt er að hafa áhrif á hann. Almannatenglar sem ekki hafa hlotið fagmenntun eða tilhlýðilega þjálfun þekkja ekki þessa reglu og fylgja henni því ekki. Að líkindum stuðlar þetta að ranghugmyndum um starfshætti almannatengla. Þetta skapar því vantraust, og réttilega.

Hver er lausnin?

Lítið hefur breyst í grundvallar þáttum alþjóðlegra siðareglna almannatengla, sem Basil Clarke setti í byrjun síðustu aldar. Clarke, sem starfaði á þeim tíma sem blaðamaður hjá Daily Mail, talaði fyrir því að allt efni sem kæmi frá almannatengli yrði merkt sendanda og skýrt tekið fram um hvers konar efni var um að ræða og að þetta væri mikilvægasti punkturinn að það sé skylt að upplýsa hver viðskiptavinurinn er og í hvaða tilgangi efninu væri miðlað.

Okkar aðferð í faghópnum er að stuðla að fagmennsku með samtali fagaðila á milli, ásamt því að leggja línurnar þar sem fagaðilar geta í framhaldinu dregið einhver mörk og skapað málefnalega gagnrýni á ófagleg vinnubrögð kollega sinna og stutt við fagleg vinnubrögð sem geta leitt til betri samskipta og miðlunar á milli fjölmiðla, almannatengla og lögaðila.

  

Niðurstaða umræðnanna?

Að erindi loknu tóku við pallborðsumræður þar sem Brynjar Níelsson, varaþingmaður og aðstoðarmaður dómsmálaráðherra og fjölmiðlarýnir og Þórarinn Þórarinsson, einn reyndasti blaðamaður landsins og nú starfandi á Fréttablaðinu, svöruðu ásamt Ingvari spurningum úr sal.
Umræðan hverfðist fljótt um hlutverk fjölmiðla en í þeim geira eru skiptar skoðanir um það hvort skilgreina beri fjölmiðla sem fjórða valdið eða ekki. Bæði Brynjar og Þórarinn vildu meina að sú skilgreining ætti ekki rétt á sér. Fjölmiðlar hefðu ekkert formlegt vald og ættu að forðast það að líta á sig sem fjórða valdið því annars gætu fjölmiðlarnir orðið hluti af „establishmentinu“ sem ynni gegn þekktum tilgangi þeirra. Fór þessi umræða fram á þeirri forsendu sem Ingvar nefndi í sínu erindi að fjölmiðlafólkið sjálft væri að meirihluta sammála þeirri skilgreiningu; að fjölmiðlar eru fjórða vald samfélagsins.

Þá kom einnig fram að vantraust fjölmiðlafólks gagnvart almannatenglum væri almennt enda eru fjölmiðlar undir stöðugum þrýstingi að birta umfjöllun um allskonar hluti sem væri í raun ekki áhugaverðir frá sjónarhóli fjölmiðla. Faglegt traust gæti þó myndast þar sem almannatenglar taka hlutverk sitt alvarlega gagnvart fjölmiðlum með einskonar hliðvörslu gagnvart fjölmiðlum þar sem viðskiptavinir eru stoppaðir af með málefni sem ekki ættu raunverulegt erindi í fjölmiðlum.

Það virðist þó samróma niðurstaða fundarins að hlutverk fjölmiðla, óháð því hvort þeir eru skilgreindir sem fjórða valdið eða ekki, er eitt það mikilvægasta í frjálsu og lýðræðislegu samfélagi. Af því leiðir að almannatenglum ber að umgangast fjölmiðla af ábyrgð þar sem heiðarlegir starfshættir eru hafði að leiðarljósi og barist er gegn sefjun með öllum tiltækum ráðum.

 

Við kveðjum að sinni og viljum við minna fólk á að fylgjast með hliðstæðum viðburðum á landsbyggðinni á næstunni.

 

 

 

 

 

 

 

"Bylting í stjórnun 2022 - Í auga stormsins" ráðstefna 30. september

Faghópur um leiðtogafærni vekur athygli á einstaklega áhugaverðri ráðstenu "Bylting í stjórnun 2022 - Í auga stormsins" sem fer fram í Gamla bió 30. september. Nánari upplýsingar og skráning hér http://manino.is/i-auga-stormsins/  

TÍMAMÓTATAL – reynslusaga stjórnanda úr heilbrigðiskerfinu.

TÍMAMÓTATAL – reynslusaga stjórnanda úr heilbrigðiskerfinu.
 
Jón Magnús deilir upplifun sinni af markþjálfun og því hvernig aðferðin gerði honum kleift að finna köllun sína í starfi, vita hver hann raunverulega er og hvernig hann gæti eftirleiðis lifað í sátt við sig með því að taka fulla ábyrgð á eigin lífi og líðan.
Að lokum mun Jón Magnús Kristjánsson sitja fyrir svörum ásamt markþjálfa sínum Aldísi Örnu Tryggvadóttur, PCC vottuðum markþjálfa hjá Heilsuvernd.
 
 
Jón Magnús Kristjánsson bráðalæknir er ráðgjafi heilbrigðisráðherra í málefnum bráðaþjónustu í heilbrigðisþjónustunni á Íslandi. Jón útskrifaðist með embættispróf í læknisfræði frá HÍ og sem sérfræðingur í almennum lyflækningum og bráðalækningum frá háskólasjúkrahúsinu í Lundi. Hann er auk þess með MBA-gráðu frá HR. Jón hefur viðtæka reynslu sem stjórnandi í heilbrigðiskerfinu og starfaði sem yfirlæknir bráðamóttöku Landspítala og síðar framkvæmdastjóri hjá Heilsuvernd þar til hann hætti þar störfum í júní sl. Heilsuvernd er sjálfstætt starfandi heilbrigðisfyrirtæki sem rekur hjúkrunarheimili og heilsugæslustöð auk þess að vera einn stærsta veitandi fyrirtækjaþjónustu á heilbrigðissviði á Íslandi. Jón hefur auk þess starfað með íslensku rústabjörgunarsveitinni og farið í sendiferðir á vegum alþjóða Rauða Krossins.

Á mitt vörumerki heima á TikTok?

Faghópur um þjónustu- og markaðsmál hóf starfsárið af krafti í morgun með fundi sem haldinn var í Háskólanum í Reykjavík. Streymi af fundinum er aðgengilegt á facebooksíðu félagsins.  

Samfélagsmiðillinn og myndbandsveitan TikTok hefur á stuttum tíma orðið einn vinsælasti samfélagsmiðillinn í heimi og mörg fyrirtæki byrjað að nýta sér vettvanginn í kjölfarið í markaðslegum tilgangi.

Ásmundur Atlason, markaðsstjóri Domino's og Unnur Aldís Kristinsdóttir, markaðsstjóri Smitten sögðu frá því hvernig TikTok hefur haft áhrif á þeirra markaðsmál og hvernig þau hafa náð árangri með sitthvorri áherslunni.

Dominos á Íslandi voru ein af fyrstu fyrirtækjunum á Íslandi til að nýta sér TikTok. Efnið þeirra hefur vakið heimsathygli og eru þau með yfir 160 þúsund fylgjendur.

Smitten er ört vaxandi sprotafyrirtæki sem hefur verið að teygja sig til Danmerkur. TikTok hefur verið eitt helsta vopnið fyrir góðum vexti í Danmörku með notkun TikTok ads og áhrifavalda þarlendis.

 

Diversify Nordic Summit

Í síðustu viku héldu tvær stjórnarkonur faghóps um fjölbreytileika og inngildingu til Osló til að taka þátt í fyrsta Diversify Nordic Summit. Ráðstefnan var haldin í fallegu umhverfi við Holmenkollen skíðasvæðið. Á ráðstefnuna var mætt fólk víðsvegar að úr heiminum, flest frá Norðurlöndunum en auk þeirra voru þátttakendur frá Norður-Ameríku, Afríku og annars staðar frá Evrópu. Þátttakendur höfðu það flest sameiginlegt að brenna fyrir fjölbreytileika og inngildingu fólks til atvinnuþátttöku og í samfélögum sínum almennt. Ráðstefnan var skipulögð af Diversify sem eru samtök, ekki rekin í hagnaðarskyni, sem vinna að því að auka fjölbreytileika innan fyrirtækja og auka skilning samfélagsins á mikilvægi inngildingar.

Chisom Udeze sem stofnaði Diversify Nordics og er forsprakki þess að ráðstefnan var sett á fót, er upprunalega frá Nígeríu. Chisom hefur búið í Noregi í fjöldamörg ár og fannst tími til kominn að stofnað væri til samtals milli Norðurlandanna á sviði inngildingar. Hún viðurkenndi í setningarræðu sinni að gera þyrfti betur á næsta ári, því enginn fyrirlesara eða þátttakenda í pallborðsumræðum voru einstaklingar með fötlun eða frá frumbyggjaþjóðum líkt og Inúíta eða Sama. Einnig var skortur á þátttakendum frá Grænlandi, Færeyjum og Álandseyjum og sagðist Chisom staðráðin í því að bæta um betur á næsta ári. Að takast á við vankanta sinnar eigin ráðstefnu strax í upphafi setti tóninn fyrir það sem eftir kom. Umræður voru innihaldsríkar, gagnrýnar og á sama tíma leituðust þátttakendur til að sýna hvorum öðrum skilning. Öll voru vissulega komin til að læra af hvoru öðru, öðlast reynslu og betrumbæta sín samfélög eða fyrirtækjamenningu.

Þann lærdóm sem við drógum helst af þessari ráðstefnu er að Ísland er ekki bara komið frekar stutt á veg í þessu málefni, heldur eru Norðurlöndin ekki endilega komin mikið lengra en við í þessari umræðu. Hin svokallaða samnorræna „afneitun“ (e. Nordic denial), þ.e. tilhneigingin til að halda svo fast í þá hugmynd að allt hljóti að vera í lagi í velferðarríkjunum okkar að ekki gefst rými til að tala um vandamálin, eða hlusta á raddir þeirra sem verða fyrir óréttlæti í okkar eigin ríkjum, ristir enn djúpt. Nauðsynlegt er að horfast í augu við þá fordóma sem eru ríkjandi hjá okkur sjálfum og skoða hvernig ómeðvituð hlutdrægni heldur aftur af ákveðnum hluta fólks.

Þrátt fyrir að öll Norðurlöndin geti greinilega gert mun betur til að breyta hugarfari sínu gagnvart fjölbreyttu starfsfólki þá þykir okkur enn vanta upp á að samtalið sé tekið á Íslandi. Frá hinum löndunum mátti sjá mjög fjölbreyttan hóp einstaklinga sem starfa við mannauðsmál, fjölbreytileika- og inngildingarstjórnun fyrir hin ýmsu fyrirtæki og var umræðan eftir því. Þetta er ólíkt því sem gerist alla jafna á Íslandi. Hér er vissulega fjölbreytileiki til staðar, enda næstum fjórðungur íbúa landsins innflytjendur, börn innflytjenda eða einstaklingar með erlendan bakgrunn. Samt sem áður skortir fjölbreytileikann enn í mörgum geirum og sérstaklega í stjórnunarstöðum. 

Við viljum ekki að Ísland verði eftirbátur hinna landanna, enda höfum við allt bolmagn til þess að vera framarlega á sviði inngildingar, líkt og í svo mörgu öðru. Það er von okkar að sá aukni áhugi sem við finnum fyrir að fólk sýni inngildingu færi íslenskum fyrirtækjum og íslensku samfélagi meiri velferð. Enda hafa fjölbreyttar raddir, með fjölbreytta reynslu, sannað að þær færa sínu nærumhverfi hagsæld og hamingju - svo fremi sem þær upplifa inngildingu. 

Miriam Petra Ómarsdóttir Awad, stjórnarmeðlimur

Irina S. Ogurtsova, formaður

 

Fyrirmyndarfyrirtækjum veitt viðurkenning

Í dag hlutu 16 fyrirtæki viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið nafnbótina Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum. Viðurkenningarnar voru veittar við hátíðlega athöfn á Nauthóli, að viðstöddum fulltrúum fyrirmyndarfyrirtækjanna en það eru Stjórnvísi, Viðskiptaráð, Samtök atvinnulífsins og Nasdaq Iceland veita viðurkenningarnar. Hér má sjá myndir frá viðburðinum og frétt í visir.is

Fyrirmyndarfyrirtæki í fjölbreyttri starfsemi 

Fyrirmyndarfyrirtækin 16 eru í afar fjölbreyttri starfsemi en þar má nefna fjármála- og tryggingastarfsemi, fjarskipti, fjölmiðlarekstur og verkfræðiþjónustu. Fyrirtækin þykja öll vel að nafnbótinni komin enda eru starfshættir stjórna þeirra vel skipulagðir og framkvæmd stjórnarstarfa til fyrirmyndar. 

Eftirtalin fyrirtæki voru að þessu sinni útnefnd Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum: 

  • Arion banki hf.
  • Eik fasteignafélag hf.
  • Íslandssjóðir hf.
  • Kvika banki hf.
  • Landsbankinn hf.
  • Lánasjóður sveitarfélaga ohf.
  • Mannvit hf.
  • Reginn hf.
  • Reiknistofa bankanna hf.
  • Reitir hf.
  • Stefnir hf.
  • Sýn hf.
  • TM hf.
  • Vátryggingafélag Íslands hf.
  • Vörður hf.
  • Ölgerðin Egill Skallagríms hf. 

Tilnefningarnefndir hafa aukið gegnsæi og áhuga 

Á viðurkenningarathöfninni hélt Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland, stutt erindi um hluthafalýðræði og tilnefningarnefndir. Í máli Magnúsar kom meðal annars fram að reynsla af tilnefningarnefndum, sem farið hefur ört fjölgandi á síðustu árum, sé almennt góð. Nefndirnar auki gegnsæi og fagleika auk þess sem framboðum til stjórnarsetu hafi almennt fjölgað með tilkomu þeirra, sem verði að teljast vel.

 

Þá fór Jón Gunnar Borgþórsson frá JGB ráðgjöf stuttlega yfir verkefnið Fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum sem sett var á laggirnar fyrir rúmum áratug. Markmið verkefnisins er að stuðla að góðum stjórnarháttum með því að skýra hlutverk og ábyrgð stjórnenda fyrirtækja og auðvelda þeim þannig að rækja störf sín. Liður í því er meðal annars útgáfa, og regluleg uppfærsla, leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja sem sjá má á www.leidbeiningar.is

Það var svo Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, verkefnastjóri hjá Samtökum atvinnulífsins, sem veitti viðurkenningarnar en fundarstjóri var Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.

 

 

 

Áhugaverð ráðstefna í Dubai í október

Við viljum vekja athygli á áhugaverði ráðstefnu framtíðarfræðinga sem verður daganna 10 til 12 október næstkomandi í Dubai. Ráðstefnan verður í Framtíðarsafninu, sem nýlega hefur verið opnað, og hefur vakið heimsathygli.

Sjá nánar á eftirfarandi vefslóðum:

Ráðstefnan: https://www.dubaifuture.ae/dubaifutureforum/

Framtíðarsafnið: https://www.youtube.com/watch?v=E1VjsgCs63U

Stjórnarfundur í faghópi framtíðarfræða

Skemmtilegur og gagnlegur stjórnarfundur faghóps framtíðarfræða var haldinn í dag. Góðar umræður og hugleiðingar áherslur og viðburði á komandi starfsári. Næstu dagar varða nýttir til að koma fram með dagsetta viðburði. Fylgist með.

Faghópur Markþjálfunar hjá Stjórnvísi

Í dag miðvikudaginn 17. ágúst hittist kröftug  9 manna stjórn faghóps markþjálfunar (tveir gátu ekki mætt) á sinn annan fund þessa komandi starfsárs. Lögð voru metnaðarfull drög af dagskrá þar sem áherslan er að varpa ljósi á mátt markþjálfunar.

Við hlökkum mikið til að deila og fræða um þessa mögnuðu aðferðafræði sem við öll í stjórninni heillumst svo að. Við erum alltaf opin fyrir samstarfi við aðra faghópa ásamt því að ef ÞÚ hefur ábendingu handa okkur varðandi hvað þér finnst vanta eða þú hefur hugmynd að viðburði ekki hika við að vera i bandi við okkur.

Sjáumst og skjáumst!

Stjórn faghóps markþjálfunar hjá Stjórnvísi

GRÓSKA er þema Stjórnvísi 2022-2023

Í dag fundaði stjórn Stjórnvísi en almennt eru stjórnarfundir Stjórnvísi haldnir fyrsta þriðjudag hvers mánaðar kl.11:00-12:00.  Í stjórn félagsins eru 9 aðilar og eru fundir til skiptist á Teams og á vinnustöðum stjórnarmanna. Þema starfsársins er „ GRÓSKA“. Stjórn gerði með sér samskiptasáttmála þar sem m.a. var rætt um að:   1. Mæta undirbúin á stjórnarfundi 2. Mæta tímanlega 3. Taka ábyrgð á verkefnum  4. Hafa uppbyggilega gagnrýni 5. Samskipti opin og eðlileg 6. Vera á staðnum. Stjórn félagsins á samskipti með tölvupóstum, á Facebook undir: „stjórn Stjórnvísi“ og á Teams.

Í byrjun starfsárs skipti stjórn með sér verkum og eru þrjú áhersluverkefni starfsárið 2022-2023

  1. Ásýnd og vöxtur -  Stefán, Haraldur, Ósk Heiða
  2. Stuðningur við stjórnir faghópa -  Lilja Gunnarsdóttir, Auður, Falasteen
  3. Útrás/Gróska -  Baldur, Laufey, Sigríður

Stjórn skiptir með sér þessum áhersluverkefnum og fundar um þau sérstaklega milli fastra stjórnarfunda.  Öll áhersluverkefni vísa til meginmarkmiða Stjórnvísi, eiga sér undirverkefni og mælikvarða. (sjá neðar í texta).  Formaður félagsins stýrir stjórnarfundum þar sem áhersluverkefni stjórnar eru rædd ásamt öðrum verkefnum.  Stjórn hefur aðgengi að sameiginlegu svæði í skýinu. Fundargerðir stjórnar eru öllum opnar hér.

Á aðalfundi haldinn 3. maí 2022 voru kosin í stjórn félagsins:

Sigríður Harðardóttir, mannauðs-og gæðastjóri Strætó, formaður (2022-2023)
Auður Daníelsdóttir, framkvæmdastjóri sölu-og ráðgjafasviðs Sjóvár (2022-2024)
Baldur Vignir Karlsson, verkefnastjóri á menntadeild Landspítala (2021-2023)
Falasteen Abu Libdeh, framkvæmdastjóri og eigandi hjá Ráði ehf. (2021-2023)
Haraldur Bjarnason, framkvæmdastjóri Auðkenni. (2021-2023)
Laufey Guðmundsdóttir, sýningarstjóri Jarðhitasýningar ON (2021-2023)
Lilja Gunnarsdóttir, sérfræðingur hjá Reykjavíkurborg, sjálfstætt starfandi markþjálfi og teymisþjálfi (2022-2024)
Ósk Heiða Sveinsdóttir, forstöðumaður þjónustu og markaðaa hjá Póstinum  (2022-2023) kosin í stjórn (2020-2022)
Stefán Hrafn Hagalín, forstöðumaður samskipta og markaðsmála hjá Háskólanum í Reykjavík (2022-2023) kosinn í stjórn  (2020-2022) 

Fagráð:

Aðalheiður Ósk Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Vök Baths (2022-2024)
Eyþór Ívar Jónsson, Akademías (2022-2024)
Guðfinna S. Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri LC Ráðgjöf (2021-2023)
Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár (2022-2024)
Þorkell Sigurlaugsson, viðskiptafræðingur (2021-2023) 

Skoðunarmenn:

Sigríður Soffía Sigurðardóttir, endurskoðunarsviði KPMG (2022-2024)
Hjördís Ýr Ólafsdóttir, endurskoðunarsviði KPMG (2022-2024)

Áhersluverkefni stjórnar 2022-2023

Valin voru þrjú áhersluverkefni – í hverju felast þau? – hverjir eru mælikvarðar?

oo= rauntíma mælaborð á síðu Stjórnvísi www.stjornvisi.is

ooomælt árlega í viðhorfskönnun til félagsmanna

 

  1. Ásýnd og vöxtur: Ábyrgðaraðilar eru  Stefán Hrafn, Haraldur og Ósk Heiða.
  • Fjölgun fyrirtækja  oo
  • Fjölgun fyrirtækja með 200 eða fleiri starfsmenn oo
  • Fjölgun fyrirtækja með 100-199 starfsmenn oo
  • Fjölgun á heildarfjölda notenda (innri markaðssetning fyrirtækja) oo
  • Fjölgun virkra félaga oo
  • Fjölgun nýrra virkra félaga oo
  • Aukning á nýskráningum í mánuðinum oo
  • Fjölgun nýrra háskólanema oo
  • Fagmennska sé ávallt höfð að leiðarljósi í öllum störfum  ooo
  • Stjórn efli og viðhaldi trausti á félagið með fagmennsku að leiðarljósi og starfi skv. stefnu félagsins ooo
  • Stjórnvísi sé áhugaverður og sýnilegur vettvangur umfjöllunar um faglega stjórnun, miðlun þekkingar og reynslu ooo
  • Stjórnvísi þróist í takt við síbreytilegar áherslur og kröfur félagsmanna, atvinnulífsins og samfélagsins ooo
  • Framsæknir og hæfir einstaklingar starfi af heilindum fyrir félagið ooo
  • Framkvæmdastjóri félagsins hafi leiðtogahæfileika sé styðjandi og virkur ooo

 2. Stuðningur við stjórnir faghópa: Ábyrgðaraðilar eru: Lilja, Auður og Falasteen. 

  • Fjölgun viðburða oo
  • Fjölgun félaga á fundum oo
  • Aukning á virkni faghópa oo
  • Aukning á félagafjölda í faghópum oo
  • Aukning á virkum fyrirtækjum oo
  • Viðburðir séu sýnilegir og auglýstir tímanlega  ooo
  • Hækkun á NPS skori oo
  • Félagar upplifi sig auðugri af þekkingu um stjórnun og leiðtogafærni ooo
  • Félagar öðlist aukið tengslanet með þátttöku í félaginu ooo
  • Ábendingar eigi sér skýran farveg ooo
  • Stöðugt sé unnið að umbótum ooo
  • Í upphafi hvers fundar bendi ábyrgðaraðilar  á að eftir fundinn verði send út stutt könnun. Allir hvattir til að gefa sér örstutta stund og svara. Þar er tilvalið að koma með ábendingu um hvað betur má fara.
  • Stjórn sé í reglulegu og góðu sambandi við stjórnir faghópanna ooo
  • Verkferlar félagsins fyrir stjórnir faghópa, faghópafundi og ráðstefnuhald eru skráðir og unnið eftir þeim. ooo
  • Myndbönd
  • Stafræn fræðsla

 3. Útrás/Gróska:   Ábyrgðaraðilar: Baldur, Laufey, Sigríður

  • Dagskrá Stjórnvísi verði aðgengileg fyrir alla landsbyggðina
  • Fjölgun fyrirtækja á landsbyggðinni
  • Fjölgun kynninga og fyrirlesara af landsbyggðinni
  • Fjölgun erlendra fyrirlesara

Er framtíðin betri en við höldum? Hugleiðingar við upphaf starfs

Í byrjun mánaðarins, var ég þátttakandi í beinu streymi sem, fyrirlesarinn og framtíðarfræðingurinn, Gerd Leonhard stóð fyrir, undir fyrirsögninni; „Hvers vegna er framtíðin betri en við höldum.“Hægt er að nálgast framangreinda fyrirlestur hér: https://www.youtube.com/watch?v=nH5iuLZYUkY 

Mér finnst tilvalið að hlusta á Gerd og hans viðhorf um „hugsanlega góða tíð framundan“ við upphaf á starfi faghóps um framtíðarfræði. Fljótlega munum við kalla saman hópinn til að skipuleggja starfið framundan. Endilega hafið einnig samband ef þið viljið að hópurinn taki til umræðu tiltekin atriði.

Upp á síðkastið virðist margur móta sér sífellt svartsýnni sýn á framtíðina. Svo virðist sem nýtt vonleysi ríkir - sérstaklega meðal Z & Y kynslóðanna. Það eru margar ástæður fyrir þessu - covid19 eða Rússland/Úkraínu stríðið eða skautun í pólitík- eða frásögnin um framtíðina sé annaðhvort undir stjórn Big Tech (Meta, Google, IBM, Amazon, Baidu o.s.frv.) eða Hollywood ( eða öllu heldur "StreamyWood" þ.e. Netflix o.fl.).

Í fyrirlestrinum fær Gerd, Aline Frankford til að ræða við sig um aðra nálgun eða leið til að horfa á framtíðina.  Aline er sérfræðingur í skapandi hugsun og stefnumótandi nýsköpun, „Narrative Practionner,“ listamaður og meðhöfundur bókarinnar „Shapership, the Art of Shaping the Future“ og meðlimur Rómarklúbbsins.

Sjáumst fljótlega

Faghópur um sjálfbæra þróun

Aðalfundur faghóps um samfélagslega ábyrgð var haldinn í byrjun maí. Í stjórnina voru kjörin Eiríkur Hjálmarsson, Orkuveitunni, Eva Magnúsdóttir, Podium, Freyr Eyjólfsson, Sorpu, Halldóra Ingimarsdóttir, Sjóvá, Harpa Júlíusdóttir, Festu, Rósbjörg Jónsdóttir, SPI á Íslandi/Orkuklasinn, Viktoría Valdimarsdóttir, Ábyrgum lausnum, Þóra Rut Jónsdóttir, Advania og Þórdís Sveinsdóttir, Lánasjóði sveitarfélaga. Á fundinum var jafnframt ákveðið að leggja til nafnabreytingu. Á fyrsta stjórnarfundi nýrrar stjórnar í júní var  samþykkt að breyta nafninu og heitir hópurinn hér eftir faghópur um sjálfbæra þróun. Eva Magnúsdóttir mun áfram vera formaður.

Fyrsta verkefni nýrrar stjórnar verður að gera könnun meðal félagsmanna á áhugasviðum þeirra og verða niðurstöður hennar notaðar við mótun dagskrár næsta vetrar. Félagsmenn eru hvattir til þess að láta til sín taka og svara könnunni og hafa þannig áhrif á dagskrána. 

Fyrsta stjórn nýstofnaðs faghóps um almannatengsl og samskiptastjórnun

Nýr faghópur hefur verið stofnaður um almannatengsl og samskiptastjórnun og kom ný stjórn saman í hádeginu í dag. Erla Björg Eyjólfsdóttir stofnandi faghóps var kosin formaður með einróma samþykki og stuðningi fundarins.

Stjórn faghópsins hvetur alla áhugasama til að skrá sig í faghópinn en það er gert með því að smella hér.  Þar er jafnframt að finna upplýsingar um markmið og tilgang þessa nýja faghóps. Stjórnin stefnir að því að halda sinn fyrsta fund í haust og kynna til leiks það sem er framundan á komandi starfsári.  

 

Stjórn þessa nýja öfluga faghóps skipa: Erla Björg Eyjólfsdóttir formaður, Andrea Guðmundsdóttir Háskólinn á Bifröst, Ásta Sigrún Magnúsdóttir Menningar- og viðskiptaráðuneytið, Eva Bergþóra Guðbergsdóttir Reykjavíkurborg, Guðmundur Heiðar Helgason Strætó BS, Gunnar Hörður Garðarsson samskiptastjóri Ríkislögreglustjóra, Gunnar Kristinn Sigurðsson KPMG, Gunnlaugur Bragi Björnsson Viðskiptaráð Íslands, Heiða Ingimarsdóttir Múlaþing og Ingvar Örn Ingvarsson Cohn & Wolfe á Íslandi.

 

 

 

 

Sjálfbærniskýrslur Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna og Play valdar skýrslur ársins

 Viðurkenningar fyrir sjálfbærniskýrslur ársins voru veittar fyrr í dag við hátíðlega athöfn á Nauthóli.  Að þessu sinni voru flugfélag og lífeyrissjóður talin hafa gefið út eftirtektarverðustu skýrslur ársins. 

Festa - miðstöð um sjálfbærni, Stjórnvísi og Viðskiptaráð Íslands veittu fyrr í dag viðurkenningar fyrir sjálfbærniskýrslu ársins. Þetta er í fimmta sinn sem slíkar viðurkenningar eru veittar og að vanda var hátíðleg stemning þegar fulltrúar útgefenda skýrslanna veittu viðurkenningunum móttöku. Viðurkenningin er veitt fyrirtækjum og stofnunum sem birta upplýsingar um sjálfbærni sína og samfélagsábyrgð með markvissum og vönduðum hætti.

Að þessu sinni voru það Lífeyrissjóður Verzlunarmanna og flugfélagið Play sem talin voru hafa gefið út eftirtektarverðustu sjálfbærniskýrslur ársins 2022, fyrir rekstrarárið 2021. Skýrslur Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna og Fly Play hf. voru valdar úr metfjölda tilnefninga en að þessu sinni bárust 48 tilnefningar þar sem skýrslur frá 33 aðilum voru tilnefndar, sem er tæplega 40% fleiri en hlutu tilnefningu árið 2021.

 

Hnitmiðuð og einlæg framsetning mikilvægra þátta

Starfsemi viðurkenningahafa ársins er afar ólík, þó miklar kröfur og strangt regluverk gildi um starfsemi þeirra beggja. Annars vegar er um að ræða lífeyrissjóð, með yfir 60 ára sögu, sem hefur það hlutverk að tryggja sjóðfélögum sínum lífeyri og hins vegar ungt lággjaldaflugfélag sem leggur sig fram um að bjóða lágt verð til skemmtilegra áfangastaða.

Í rökstuðningi dómnefndar fyrir vali ársins segir að sjálfbærniskýrsla Lífeyrissjóðs verzlunarmanna sé gott dæmi um upplýsingagjöf sjálfbærniþátta eins og best verður á kosið en í skýrslunni er farið yfir markmið, árangur og aðgerðir sjóðsins.

„Upplýsingarnar eru mælanlegar, samanburðarhæfar og viðeigandi fyrir starfsemi sjóðsins. Framsetning er skiljanleg og aðalatriði dregin fram á einlægan máta. Lífeyrissjóðir hafa gríðarleg áhrif í íslensku atvinnulífi, og því mikilvægt að aðrir lífeyrissjóðir taki sér upplýsingagjöf Lífeyrissjóðs verzlunarmanna til fyrirmyndar.“

Play er ungt félag og því að stíga sín fyrstu skref í skýrlsugerð. Til þessa var horft við mat skýrslunnar en í rökstuðningi dómnefndar segir að skýrslan sýni skilmerkilega að fyrsta sjálfbærniskýrsla fyrirtækja þurfi hvorki að vera innihaldslítil né gefa sérstaklega til kynna að fyrirtæki séu að stíga sín fyrstu skref í slíkri upplýsingagjöf.

„Sjálfbærniskýrsla Play er hnitmiðuð, beinir ljósum að mikilvægum þáttum fyrir fyrirtækið, í þessu tilviki losun gróðurhúsalofttegunda. Í skýrslunni er einnig farið yfir hvernig fyrirtækið ætlar að beita sér í loftslagsmálum, sem er jákvætt að sjá fyrir fyrirtæki í jafn mengandi iðnaði og flugiðnaðurinn er.“

 

Tenglar:

 

Dómnefnd og nýskipað fagráð

Í dómnefnd ársins sátu þau Reynir Smári Atlason, forstöðumaður sjálfbærnimála hjá Creditinfo sem var formaður fómnefndar, Jóhanna Hlín Auðunsdóttir, forstöðumaður loftslags og umhverfis hjá Landsvirkjun og Stefán Kári Sveinbjörnsson, verkefnastjóri í stefnumótun og sjálfbærni hjá Isavia.

Reynir Smári Atlason, formaður dómnefndar, segir að mörg íslensk fyrirtæki eigi hrós skilið fyrir vandaða upplýsingagjöf:

„Upplýsingagjöf sjálfbærniþátta margra Íslenskra fyrirtækja er nú orðin að sömu gæðum og við sjáum hjá þeim sem standa sig best erlendis,“ sagði Reynir Atli Smárason, formaður dómnefndar og útskýrir að þessi fyrirtæki séu betur undirbúin fyrir komandi regluverk og ákall fjárfesta en þau fyrirtæki sem ekki hafa lagt áherslu á slíka upplýsingagjöf.“

Markmið Festu, Stjórnvísis og Viðskiptaráðs með viðurkenningunni er meðal annars ýta undir notkun mælanlegra markmið og vandaðrar upplýsingagjafar á sviði sjálfbærni. Til að sinna því, samhliða stórauknum fjölda útgefinna sjálfbærniskýrsla, var að þessu sinni sett á laggirnar sérstakt fagráð sem lagði mat á allar þær skýrslur sem hlutu tilnefningu og undirbjó störf dómnefndar.

Fagráðið var skipað þremur nemendum við Háskólann í Reykjavík sem hafa lokið sérstöku námskeiði með áherslu á sjálfbæran rekstur og upplýsingagjöf, þeim Nikólínu Dís Kristjánsdóttur, Ísak Grant og Söru Júlíu Baldvinsdóttur.

 

Hvatning til áframhaldandi góðra verka

Það var Guðmundur Þ. Þórhallsson, framkvæmdastjóri, sem veitti viðurkenningunni móttöku fyrir hönd Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna. Guðmundur sagðist taka við viðurkenningunni með stolti og hún væri stjórn, stjórnendum og öllu starfsfólki sjóðsins mikil og góð hvatning til að halda áfram á sömu braut:

„Það krefst góðrar samvinnu og úthalds að breyta starfsháttum og viðteknum venjum. Við gerð skýrslunnar var leitað eftir viðhorfum sjóðfélaga varðandi sjálfbærni í rekstri sjóðsins og kom þar fram rík áhersla þeirra á mikilvægi ábyrgra fjárfestinga og góðra stjórnarhátta.  Með sjálfbærniskýrslu LV kynnir sjóðurinn fyrir sjóðfélögum og öðrum haghöfum stefnumótun, markmið og árangur í sjálfbærnivegferð lífeyrissjóðsins. Opið og upplýst samtal við þá sem hagsmuna hafa að gæta skiptir miklu máli fyrir öflugan rekstur og aðlögun sjóðsins að síbreytilegu rekstrarumhverfi.“

Fyrir hönd Fly Play hf. var það Birgir Jónsson, forstjóri, sem veitti viðurkenningunni móttöku. Birgir sagði það að hljóta viðurkenningu sem þessa á fyrstu metrum flugfélagsins væri fyrirtækinu mikill heiður en ekki síður hvatning:

„Frá fyrsta degi hefur PLAY lagt mikla áherslu á sjálfbærni. Það skiptir okkur máli að sjálfbærni sé hluti af viðskiptamódeli félagsins og þar með hluti af allri ákvarðanatöku. Við höfum nú þegar byggt upp sterkan grunn og sett okkur háleit markmið í þessum efnum. Næstu skref eru að innleiða og fylgja eftir þeim markmiðum og lykilmælikvörðum sem við höfum sett okkur. Við förum tvíelfd inn í þá vegferð eftir að hafa hlotið þessa ánægjulegu viðurkenningu.“ 

Mynd

Á mynd, frá vinstri: Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, Gunnhildur Arnardóttir, framkvæmdastjóri Stjórnvísi, Gunnlaugur Bragi Björnsson, samskiptastjóri Viðskiptaráðs, Guðmundur Þ. Þórhallsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna, Birgir Jónsson, forstjóri Play, Harpa Júlíusdóttir, verkefnastjóri Festu, og Hrund Gunnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Festu.

Næsti viðburður 7. júní kl 13: áhrif fjarvinnunnar á eftirspurn eftir skrifstofuhúsnæði - lokaverkefni MBA

Næsti viðburður okkar verður haldinn þriðjudag 7. júní en þá kynna Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri og lögmaður hjá Lagastoð, og Unnur Ágústsdóttir, stjórnunarráðgjafi hjá Eflu, lokaverkefnið í MBA námi þeirra en stjórn faghóps okkar tók þátt í könnun sem er hluti af rannsókninni. Þær koma til með að verja verkefnið um viku eftir þennan viðburð, við fáum þar með smá forskot á þekkingu um þessa áhugaverða þróun fjarvinnunnar og áhrif hennar á skrifstofuhúsnæði.

Endilega mætið sem flest og skráið ykkur á viðburðarsíðunni.

Making work healthy for all – Andreas Holtermann

Þú bókar þig á viðburðinn hér.
Leó Sigurðsson, sem situr í stjórn Vinnís og í stjórn faghóps um öryggisstjórnun og loftlagshóps hjá Stjórnvísi, vekur athygli á mjög áhugaverðum viðburði sem verður þann 25.maí n.k. þegar  Andreas Holtermann hjá dönsku rannsóknarstofnuninni í vinnuvernd (NFA) mun halda hádegisfyrirlestur (12:00-12:45) sem nefnist „Making Work Healthy for All“ sem byggir á nýrri hugmyndafræði innan vinnuvistfræðarinnar „The Goldie Lock Principle“. Í  neðangreindum hlekk er hægt að fræðast nánar um þessa hugmyndafræði og þeim rannsóknum sem hún byggir á: https://nfa.dk/GoldilocksWork.

Í framhaldi af fyrirlestrinum verður vinnustofa (13:15-15:15) þar sem þátttakendur fá tækifæri til að kafa dýpra og ræða hvernig þessi  hugmyndafræði getur nýst á íslenskum vinnumarkaði.

Hægt verður að mæta eingöngu á fyrirlesturinn en einnig halda áfram og taka þátt í vinnustofunni.

Boðið verður upp á léttar veitingar.

Verð:

Frítt er fyrir félaga í Vinnís - en annars er gjaldið 3.500 kr.

Ef þið eruð ekki félagar í Vinnís eruð þið hvött til að gerast félagar – þátttökugjaldið að viðburðinum verður þá að árgjaldi í félaginu fyrir tímabilið 2022-2023. Hægt er að ganga frá slíkri skráningu á fundinum.

Staður:

Vinnueftirlitið, Dvergshöfai 2, 2. hæð, 110 Reykjavík

Tími:

Fyrirlestur kl. 12:00-12:45   (2. hæð)

Vinnustofa kl. 13:15-15:15  (8. hæð)

 

"Ertu á svölum vinnustað?" Örráðstefna og vinnustofa um streitustigann 18. maí

Góðan dag

VIRK, embætti landlæknis og Vinnueftirlit ríkisins bjóða upp á örráðstefnu um heilsueflandi vinnustaði með Marie Kingston - höfundi bókarinnar Stop stress og Streitustigans – á Grand Hótel miðvikudaginn 18. maí kl. 10:30 - 12:00. Aðgangur á ráðstefnuna er ókeypis.

Mary Kingston stendur einng fyrir vinnustofu sama dag um streitu og vinnustaði sem nýtist t.d. stjórnendum á Grand Hotel kl. 13:00 - 16:00, miðvikudaginn 18. mars. Vinnustofan fer fram á ensku og aðgangseyrir á vinnustofuna er kr. 9.000.

Vinsamlegast athugið að skilyrði fyrir þátttöku á vinnustofunni er seta á örráðstefnunni fyrr um daginn þar sem að Marie Kingston leggur þar grunn að þeim þáttum sem unnið verður með á vinnustofunni og mun hún ekki endurtaka þann grunn.

Fjöldi þátttekanda í vinnustofunni er takmarkaður og því mikilvægt að skrá sig á virk.is.

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?