Fréttir og pistlar

Óskað er eftir tilnefningum til Stjórnunarverðlauna Stjórnvísi 2012.

Ágætu Stjórnvísifélagar

Óskað er eftir tilnefningum til Stjórnunarverðlauna Stjórnvísi 2012
Til að tilnefna smellið á hlekkinn: http://www.zoomerang.com/Survey/WEB22EMTWGAHPS
Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi 2012 verða veitt í þriðja sinn í mars næstkomandi við hátíðlega athöfn í Turninum í Kópavogi. Þrír verða útnefndir. Stjórnvísifélagar eru hvattir til að taka þátt með því að tilnefna og rökstyðja millistjórnendur/yfirstjórnendur í fyrirtækjum innan raða Stjórnvísi sem þeim þykir hafa skarað framúr. Frestur til að tilnefna rennur út 18. febrúar. Hver og einn Stjórnvísifélagi getur tilnefnt og rökstutt eins marga og hann vill. Opið er fyrir tilnefningar í öllum faghópum Stjórnvísi sem sjá má á vef félagsins; www.stjornvisi.is. Dómnefnd tekur við öllum tilnefningum, vinnur úr þeim og útnefnir verðlaunahafa.
Viðmið við tilnefningu
Að stjórnandinn hafi í starfi sínu eða einstöku verkefni sýnt af sér forystu, bæði í stjórnun og nýjum hugmyndum ásamt því að stuðla að auknum árangri í starfsemi þess fyrirtækis eða stofnunar sem hann starfar hjá.

Stjórnandinn verður að starfa hjá aðildarfyrirtæki Stjórnvísi - sjá aðildarlista hér.

Markmið verðlaunanna er að vekja athygli á framúrskarandi starfi stjórnenda sem eru í Stjórnvísi og hvetja félagsmenn til áframhaldandi faglegra starfa og árangurs.

Dómnefnd skipa eftirtaldir:
• Agnes Gunnarsdóttir, situr í stjórn Stjórnvísi og er framkvæmdastjóri sölu-og markaðssviðs Íslenska Gámafélagsins.
• Ásta Bjarnadóttir, ráðgjafi Capacent.
• Bára Sigurðardóttir formaður dómnefndar og mannauðsstjóri hjá Termu.
• Helgi Þór Ingason, dósent og forstöðumaður MPM náms við HR
• Hjörleifur Pálsson, fjármálastjóri Össurar.
• Jón Snorri Snorrason lektor við Háskóla Íslands.
• Magnús Guðmundsson, forstjóri Landmælinga Íslands og formaður Félags forstöðumanna ríkisstofnana
Nánari upplýsingar um Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi er að finna á heimasíðu félagsins www.stjornvisi.is.
Með kærri kveðju,
Gunnhildur Arnardóttir
Framkvæmdastjóri Stjórnvísi

Stjórn Umhverfis-og öryggishóps vekur athygli á áhugaverðugri ráðstefnu

Stjórn Umhverfis-og öryggishóps vekur athygli á áhugaverðugri ráðstefnu
Forvarnir í fyrirrúmi - opin ráðstefna VÍS og Vinnueftirlitsins
Fimmtudaginn 2. febrúar 13:00 -16:00
Aðalskrifstofa VÍS, Ármúla 3, 5. hæð
Aðgangur ókeypis, takmarkaður sætafjöldi
Smeltu hér til að skrá þig og sjá dagskrá
http://vis.is/fyrirtaeki/forvarnir/radstefnur/forvarnir-i-fyrirrumi-2012/
Með góðri kveðju,
starfsfólk VÍS

Stjórn Nýsköpunarhópsins hittist þann 26. janúar 2012 til að skipuleggja starfið

Þann 26. janúar 2012 hittist stjórn nýsköpunarhóps Stjórnvísis á Kringlukránni í Reykjavík þar sem snæddur var afar gómsætur hádegisverður (gufusteiktur lax). Í stjórninni um þessar mundir eru Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir sem starfar hjá Landsbankanum (nyskopun@landsbankinn.is), Eyþór Ívar Jónsson sem starfar hjá Klak Nýsköpunarmiðstöð (eythor@klak.is) og Magnús Guðmundsson sem starfar hjá Landmælingum Íslands (magnus@lmi.is). Á fundinn mætti einnig Gunnhildur Arnardóttir framkvæmdastjóri Stjórnvísis (gunnhildur@stjornvisi.is) .

Eftirfarandi var ákveðið á fundinum:

  1. Að auglýsa eftir fleirum í stjórnina þannig að hún hafi á að skipa u.þ.b. 5 manns. Áhugasamir eru beðnir að lýsa áhuga sínum með því að senda tölvupóst á framkvæmdastjóra Stjórnvísis (gunnhildur@stjórnvisi.is)

  2. Að halda mánaðarlega nýsköpunarfundi með stuttum fyrirlestrum fram til vors, fyrst í Landsbankanum um miðjan febrúar (fjármálatengt), síðan fund í tengslum við verkfræðigeirann um miðjan mars og svo um miðjan apríl fund í tengslum við hugbúnaðargeirann.

  3. Að halda sértakan vorfund í maí þar sem áætlun næsta vetrar verði rædd og ákveðin í stórum dráttum.

Fleira var ekki ákveðið en margt fleira rætt. Gunnhildi er sérstaklega þakkað fyrir stuðningin við að koma þessum nýsköpunarhópi á laggirnar og greinargóð svör varðandi skipulag og tengslanet félagsins.

PS. Myndin með þessari frétt er af Eyþóri Ívari leiðtoga stjórnar Nýsköpunarhópsins, ekki fundust myndir af hinum í stjórninni í bili en það er nú bara til að skapa eftirvæntingu fyrir næstu fréttir af starfinu.

Ritari stjórnar
Magnús Guðmundsson

Fréttir frá fyrsta fundi ISO í janúar 2012

Fyrsti fundur ISO hóps var haldinn hjá Orkuveitu Reykjavíkur fimmtudaginn 26. janúar. Þetta var umræðufundur um virkni og líf gæðakerfis og sérstaklega var rýnt í aðkomu stjórnenda og áhrif þeirra á uppbyggingu og virkni gæðakerfa. Sérstaklega var því velt upp hvernig æðstu stjórnendur takast á við meiri háttar breytingar sem verða hjá fyrirtækjum t.d. þegar nýir forstjórar eða stjórnendur koma inn í það skipulag sem lýst er í þróuðum gæðakerfum.

Guðmundur S. Pétursson gæðastjóri Landsvirkjunar var með framsögu og spunnust skemmtilegar og áhugaverðar umræður nánast allan tíman sem hann fór yfir mjög svo athyglisverða þætti og dróg fram sýn sem ekki er venjulega í umræðunni.

Vond færð og veður setti mark sitt á fundarsókn en aðeins helmingur þeirra sem skráð voru á fundinn komu.

Nýtt hráefni til stefnumótunar fyrir ferðaþjónustuaðila á Íslandi grein í Viðskiptabl.Mbl. höf: Karl

Nýtt hráefni til stefnumótunar fyrir ferðaþjónustuaðila á Íslandi
Þverfaglegt samstarf í verkefninu Ísland allt árið hefur meðal annars skilað sér í útgáfu á fjölda skýrslna þar sem einstaka þættir í íslenskri ferðaþjónustu hafa verið greindir. Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Íslandsstofa hafa stýrt greiningarvinnunni í samstarfi við Samtök ferðaþjónustunnar en vinnan sjálf var unnin í samvinnu við Ferðamálastofu, Byggðastofnun og Háskólann á Hólum. Skýrslurnar sem hér um ræðir eru átta talsins, þrjár þeirra beinast að innviðum ferðaþjónustunnar og fjalla meðal annars um samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar á alþjóðavísu, niðurstöður netkönnunar sem unnin var síðastliðið sumar og auk þess um sérstöðu ákveðinna svæða og umfjöllun um klasa og almenna tölfræði. Fimm skýrslur voru unnar á sviði hagnýtra viðmiða (e.benchmarking) þar sem gerð var úttekt á stöðu fimm landa á sviði ferðaþjónustu. Samanburðarlöndin voru Finnland, Kanada, Noregur, Nýja Sjáland og Ísland. Allar þessar skýrslur er hægt að nálgast gjaldfrjálst á vef Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Íslandsstofu og hjá Ferðamálastofu.
Meginmarkmið þessarar vinnu er að afla hráefni í almenna stefnumótun fyrir greinina en jafnframt nýtist þessi vinna einstaka ferðaþjónustuaðilum við að móta sér ramma um sína eigin starfsemi og einstaka samstarfsverkefnum við að ná enn frekari árangri. Ljóst er að verulegur vöxtur er í ferðaþjónustu hér á landi og býr greinin við alla kosti og galla þess að vaxa hratt. Áskorunin snýst ekki eingöngu um að lengja ferðamannatímabilið og brúa tómarúm vetrarmánuðanna heldur einnig að greina hvort greinin sé að ná til þeirra ferðamanna sem hún sækist eftir og hvernig eigi að standa að uppbyggingu á innviði, upplifun og afþreyingu. Í þessu sambandi er nauðsynlegt að líta til framtíðar, ekki bara til næsta tímabils og miða uppbyggingu og markaðssetningu með hliðsjón af framtíðartækifærum.
Nefna má nokkur atriði sem huga þarf sérstaklega að í þessu sambandi. Það fyrsta er arðsemi greinarinnar sem ekki er viðunandi. Meginástæða þess er léleg nýting fjárfestingar í greininni á lágönn. Fleira hefur áhrif og má þar nefna markhópaval greinarinnar og val og skipulag upplifunar og afþreyingar. Gæðamál í viðtækri merkingu þess orðs er annað atriði. Þarna kemur innri viðmið um góða stjórnunarþætti og þjónustu ferðaþjónustustaða inn í myndina, umgengni um náttúruperlur og uppbygging á þeim. Síðan og ekki síst er það þolinmæði og þrautseiga að leyfa langtímasjónarmiðum að ráða för við þróun greinarinnar og markaðssetningu og nýta þannig sem best það fjármagn sem greinin hefur til umráða til að ná ásættanlegum árangri. Meðal annars á grundvelli framangreindra gagna er núna verið að vinna að stefnumótun greinarinnar og verða umrædd atriði tekin til umfjöllunar þar og viðeigandi ráðstafanir gerðar. Á velheppnuðu Ferðamálaþingi sem haldið var á Ísafirði á haustmánuðum 2011 komu fram mörg áhugaverð sjónarmið og nýjar víddir sem ekki hafa verið ofarlega í umræðunni síðustu ár. Skoða má erindin á heimasíðu Nýsköpunarmiðstöðvar Ísland: www.nmi.is. Nauðsynlegt er fyrir grein eins og ferðaþjónustuna að tileinka sér nýja hugsun við lausn sinna viðfangsefna í stað hefðbundinna lausna þar að segja „að gera meira í dag miðað við það sem gert var áður“.
Höfundur er Karl Friðriksson, framkvæmdastjóri Mannauðs- og markaðsstofu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

Undirritun samstarfssamnings milli Endurmenntunar Háskóla Íslands og Stjórnvísi

Kristín Jónsdóttir Njarðvík endurmenntunarstjóri EHÍ og Gunnhildur Arnardóttir framkvæmdastjóri Stjórnvísi undirrituðu nýlega samstarfssamning sem gildir fram í janúar 2014. Stjórnvísi vekur athygli félagsmanna sinna á því að Endurmenntun lánar Stjórnvísi kennslustofur fyrir fundi faghópa að því tilskyldu að þær séu lausar og býður faghópum Stjórnvísi að framkvæma fræðslukönnun þeim að kostnaðarlausu. Markmið könnunarinnar er að auðvelda stjórn faghópsins og Endurmenntun að koma enn betur til móts við þarfir félagsmanna með öflugum fagfundum faghópsins eða námskeiðum Endurmenntunar. Félagsmenn fá 15% afslátt af þeim námskeiðum sem auglýst eru sem samstarfsverkefni Endurmenntunar og Stjórnvísi.

Velferðaráðuneytið er með 43,6% af útgjöldum ríkisins

Fjóla María Ágústsdóttir formaður faghóps um Stefnumótun og Balanced Scorecard kynnti stefnumótunarvinnu sem velferðaráðuneytið hefur verið að vinna í ásamt því að fara yfir starfshætti og verklag ráðuneytisins. Áhugavert var að heyra að velferðaráðuneytið er með 43,6% af heildarútgjöldum ríkisins og að 13% af heildarútgjöldum ríkisins eru vextir. Efni frá fundinum verður birt á innrivef og er það einkar áhugavert.
Hér má sjá myndir af fundinum

Á annað hundrað manns sóttu Hrós-fundinn hjá Stjórnvísi í ófærðinni

Það ríkti mikill áhugi og kátína á fundi Stjórnvísi í morgun um Hrós sem stjórntæki á vegum Þjónustu-og markaðsstjórnunarhóps. Örn Árnason kenndi okkur kúnstina að hrósa á réttan hátt fyrir það sem vel er gert. Hann fór jafnframt í grunnreglurnar um hvernig á að hrósa þannig að það fari ekki á milli mála hvað er hrósað fyrir. Það var fyrirtækið Gerum betur www.gerumbetur.is sem bauð Stjórnvísifélögum upp á þennan áhugaverða fyrirlestur í fannkomunni.
Hér má sjá myndir frá fundinum
http://www.facebook.com/media/set/?set=a.270629083005049.65806.110576835676942&type=1

Metnaðarfull og spennandi vordagskrá

Stjórnir faghópa kynntu vordagskrá sína í Nauthól á fimmtudag. Dagskrá Stjórnvísi verður bæði metnaðarfull og spennandi seinni hluta vetrar og verða strax í næstu viku fjórir áhugaverðir og ólíkir fundir.
Myndir af fundinum má sjá hér
http://www.facebook.com/media/set/?set=a.269316853136272.65552.110576835676942&type=3

Leiðtogar í landsliðinu

Leiðtogar í landsliðinu
Leiðtogafræði eru fyrirferðamikil innan stjórnunar og oftar en ekki er rætt um mismunandi leiðtogastíla. Ég segi á bókarkápu nýútkominnar bókar Sigurðar Ragnarssonar háskólakennara um forystu og samskipti að tískustraumar samtímans í stjórnun snúist um að straumlínulaga rekstur fyrirtækja og að gefa starfsfólki meiri völd til að taka ákvarðanir. Við þær aðstæður sé hins vegar aldrei eins mikilvægt að hafa stekra leiðtoga sem setja stefnuna, hafa hana skýra, fái fólk til að ganga í sömu átt og hvetji það til dáða að sameiginlegu markmiði.

Íslenska landsliðið keppir núna á Evrópumótinu í handbolta í Serbíu. Nokkuð hefur verið rætt um að leiðtoginn í liðinu sé fjarverandi, þ.e. Ólafur Stefánsson. Guðjón Valur Sigurðsson er núna fyrirliði liðsins. En er Guðjón Valur leiðtogi eða verkstjóri hjá Guðmundi Þórði Guðmundssyni? Þeir eru báðir leiðtogar. Í leiknum á móti Króötum sást vel að Guðjón býr bæði yfir eiginleikum leiðtoga og stjórnanda. Hann hvatti, fór fyrir liðinu, stuðlaði að liðsheild og tók af skarið. Eftir leikinn kom hann vel fyrir í sjónvarpi, svarði fyrir hópinn, útskýrði herfræðina, var bjartsýnn og uppbyggilegur þótt fyrsti leikurinn hefði tapast naumlega. Ekki efa ég að utan vallar er Guðjón prímusmótor sem ýtir undir jákvæð og uppbyggjandi samskipti leikmanna - og að þeir leggist á eitt. Hann er góð fyrirmynd.

Um íslenska landsliðið í knattspyrnu hafa blaðamenn sagt að þar vanti hinn sterka leiðtoga, utan vallar sem innan, og það sé hluti af vandanum. Þetta leiðtogavandamál eigi líka við um 21 árs liðið.

Það er mikilvægt að þora að vera öðruvísi. Guðjón Valur reynir ekki að vera Ólafur Stefánsson. Þeir hafa mismunandi stíl. Báðir bera það með sér að vera leiðtogar - sem og auðvitað Guðmundur Þórður Guðmundsson þjálfari liðsins. Einhver segði að hann væri hinn eini sanni leiðtogi liðsins. Hann væri liðið. Hann hefur náð afburðagóðum árangri. Hefur skýra stefnu, vit á því sem hann er að gera og lætur leikmenn ganga í sömu átt. Leiðtogar liðsins í Serbíu eru þess vegna tveir.

Vissir þú að ef Henry Ford hefði verið kona þá myndum við öll keyra um á rafbílum í dag

Gísli Gíslason stjórnarformaður Northern Light Energy tók vel á móti Stjórnvísifélögum í morgun. Hann kom hópnum á óvart með því að segja okkur frá því að Clara Bryant eiginkona Henry Ford hefði einungis ekið um á rafmagnsbíl. Hvað ef Henry Ford hefði verið kona, þá myndum við keyra um á rafbílum í dag. Árið 2012 er árið þar sem allt mun gerast hjá Northern Light Energy "Nýtt upphaf". Árið 2011 var rafbíll bíll ársins í Evrópu. Það var áhugavert að heyra að það þarf einungis einn hverfil eða túrbínu í Kárahnjúkavirkjun til að keyra allan bílaflota landsmanna þ.e. ef allir skipta yfir í rafmagnsbíl.
Hér má sjá myndir af fundinum
http://www.facebook.com/media/set/?set=a.266612296740061.64998.110576835676942&type=3

Hefur þú áhuga á að skrifa grein í Viðskiptablað Mbl.?

Vikulega birtast áhugaverðar greinar í Viðskiptablaði Mbl. skrifaðar af Stjórnvísifélögum. Þessar greinar eru mikið lesnar og því áhugi fyrir að halda samstarfinu áfram.
Markmiðið er að þetta séu greinar um hagnýtt efni fyrir fyrirtæki til að lesa ásamt því að vera kynning á Stjórnvísi, ykkur sem einstaklingum og þeim fyrirtækjum sem þið starfið hjá.
Greinarnar hafa verið birtar á bls. 8 í Viðskiptablaðinu og lengdin er 1.640 slög með línubilum (characters with spaces) ásamt ljósmynd af viðkomandi.
Greinarnar óskast sendar á póstfangið gunnhildur@stjornvisi.is

Stjórnvísi óskar eftir tilboði í áhugaverðar vinnustofur fyrir stjórnir faghópa

Stjórnvísi ætlar að bjóða þeim félögum sem starfa í stjórnum faghópa upp á áhugaverða vinnustofu í febrúar. Ætlunin er að verðlauna fyrir gott starf og er markmiðið efling einstaklingsins, hvati og fagleg uppbygging.
Óskað er eftir tilboði og tillögum í tvær vinnustofur 2,5-3klst. aðra kl.08:30-11:00 og hina frá kl.16:30-19:00. Fjöldi stjórnenda í faghópum er á bilinu 60-70 manns. Tilboð skulu berast fyrir 1.febrúar á netfagnið gunnhildur@stjornvisi.is

Er hugleiðsla lykillinn að frama? Grein í Viðskiptabl.Mbl. höf: Birna Dröfn Birgisdóttir doktorsnemi

Albert Einstein sagði: „Innsæið er fágæt gjöf og rökhugsun trúr þjónn. Við höfum skapað samfélag sem heiðrar þjóninn en hefur gleymt gjöfinni“. Innsæi eða gjöfin eins og Einstein nefnir er þessi dýpri skynjun og skilningur sem aðstoðar okkur meðal annars í samskiptum við aðra og ekki síst að komast að bestu lausninni. Innsæið er því mikilvægt fyrir frama fyrirtækja og einstaklinga.
Samkvæmt The National Institutes of Health, The University of Massachusetts og The Mind/Body Medical Institute í Harvard University þá eflir hugleiðsla innsæi og einbeitingu sem skiptir sköpum hvað varðar góðar ákvarðanir. Hugleiðsla getur jafnvel minnkað verki sem plaga starfsmenn hvað mest.
Aðrar rannsóknir hafa einnig gefið til kynna að hugleiðsla getur:
• Minnkað streitu
• Gert starfsmenn færari í að þjóna viðskiptavinum og sjá fyrir þarfir þeirra
• Eflt teymisvinnu
• Bætt tímastjórnun
• Aukið sköpunargleði
Hugleiðsla snýst um að þjálfa hugann í að vera einbeittur sem er áskorun í nútíma samfélagi því áreitið er mikið. Hugleiðsla þarf ekki að vera flókin og í sinni einföldustu mynd er niðurtalning frá 100 í huganum hugleiðsla. Hver og einn þarf að finna hvaða hugleiðsluaðferð hentar og stunda reglulega.
Það er nokkuð ljóst að hugleiðsla getur haft jákvæð áhrif á frama. Mikilvægt er að kenna starfsfólki að stunda hugleiðslu og jafnframt að útbúa hugleiðsluaðstöðu innan veggja fyrirtækja til að efla innsæi og jákvæða fyrirtækjamenningu.

Fréttir af fundi faghóps um Nýsköpun sem haldinn var í samstarfi við FFR

Í morgun hélt faghópur um Nýsköpun einstaklega vel heppnaðan og áhugaverðan fund í Vinnumálastofnun þar sem verðlaunahafar í samkeppni um nýsköpun í ríkisrekstri kynntu verkefni sín.
Meðfylgjandi er slóð á sérstaka vefsíðu sem var stofnuð um nýsköpun og þar má sjá verkefnin sem hlutu verðlaun og viðurkenningu:
www.nyskopunarvefur.is
Glærur með kynningum verkefnanna eru á nýskopunarvefnum á þessari slóð: http://www.nyskopunarvefur.is/nyskopunarverdlaun_2011

Hér má sjá myndir af fundinum
http://www.facebook.com/media/set/?set=a.262323987168892.64143.110576835676942&type=3

Nýárskveðja frá formanni Stjórnvísi

Kæru félagsmenn í Stjórnvísi.

Ég vil byrja á að óska ykkur gleðilegs árs og þakka fyrir liðið ár sem var á allan hátt gleðilegt og árangursríkt fyrir okkur í Stjórnvísi.

Félagið fagnaði 25 ára afmæli sínu með veglegri afmælishátíð á haustmánuðum og tókst hún einstaklega vel og sýndi styrk félagsins á þessum tímamótum.

Innan raða Stjórnvísi eru núna yfir 1.500 félagsmenn og 260 fyrirtæki. Svo margir hafa ekki verið í félaginu áður.

Flagið er bæði sterkt og stórt - og hefur grónar rætur. Það er vel, því ekki fer alltaf saman að vera stór og sterkur. Styrkleiki félagsins felst í mikilli virkni félagsmanna á faghópafundum.

Í desember síðastliðnum hélt stjórnin fund með fagráði félagsins. Á þessum fundi kom skýrt fram hversu mikilvægir faghóparnir eru fyrir félagið og án þeirra væri Stjórnvísi ekki svipur hjá sjón.

Það er því mikilvægasta verkefni stjórnar að hlúa vel að faghópunum, aðstoða þá eftir þörfum um leið og þeir halda sjálfstæði sínu og frumkvæði.

Stjórnvísi hefur lagt áherslu á það við forráðamenn fyrirtækja að virk þátttaka starfsmanna þeirra í Stjórnvísi gefi þeim færi á hagstæðri símenntun og praktískum umræðum um stjórnun - umræðum sem byggjast á raunhæfum viðfangsefnum.

Nýja árið lofar góðu og margt er á döfinni hjá stjórn og faghópum. Það er von mín að samheldni okkar birtist í aukinni félagsvitund og stolti af því vera félagar í Stjórnvísi.

Höfum það ávallt í huga að Stjórnvísi er áhugamannafélag í eigu félagsmanna og starfar ekki með fjárhagslegan ágóða í huga.

Það hefur verið góður kraftur í stjórn félagsins og faghópunum og það er von mín og vissa að svo verði áfram.

Framkvæmdastjóri félagsins, Gunnhildur Arnardóttir, hefur unnið mjög gott starf og verið faghópunum til halds og trausts og þakka ég henni fyrir vel unnið verk.

Vinnum saman á nýju ári og gerum 2012 að enn einu merkisári í sögu félagsins.

Nýárskveðja,
Jón G. Hauksson, formaður Stjórnvísi.

Velferðaráðuneytið - nýtt í Stjórnvísi

Velferðarráðuneytið tók formlega til starfa 1. janúar 2011 samkvæmt lögum um breytingu á Stjórnarráð Íslands sem samþykkt voru á Alþingi 9. september 2010. Með lagabreytingunni voru heilbrigðisráðuneytið og félags- og tryggingamálaráðuneytið sameinuð og var velferðarráðuneytið stofnað á grunni þeirra. Verkefni velferðarráðuneytisins varða velferðar- og fjölskyldumál, heilbrigðisþjónustu, húsnæðismál, vinnumarkaðsmál og jafnréttismál.

Velferðarráðherra, fer með yfirstjórn ráðuneytisins og ber ábyrgð á öllum stjórnarframkvæmdum þess.

Ráðuneytisstjóri stýrir ráðuneytinu undir yfirstjórn ráðherra.

Skrifstofur velferðarráðuneytisins samkvæmt skipuriti þess eru átta; skrifstofa yfirstjórnar, fimm fagskrifstofur og tvær stoðskrifstofur. Fagskrifstofurnar eru skrifstofa lífskjara og vinnumarkaðar, skrifstofa greiningar og hagmála, skrifstofa velferðarþjónustu, skrifstofa gæða og forvarna og skrifstofa réttindaverndar. Stoðskrifstofur eru skrifstofa fjárlaga og skrifstofa rekstrar og innri þjónustu.

Vörumerking - Nýtt Stjórnvísifyrirtæki

Grunnur að starfsemi Vörumerkingar var lagður 1962. Fyrstu tíu ár starfseminnar bar það nafnið Karl M. Karlsson & Co en frá 1972 hefur það borið núverandi nafn, Vörumerking.

Fyrstu árin var framleiðslan að mestu leyti áprentuð límbönd, fólíur og ýmislegt annað sem ekki hafði áður verið prentað hérlendis. Smám saman jókst áherslan á framleiðslu límmiða sem hefur enn frekar styrkst undanfarin ár
Starfsemi Vörumerkingar er í sífelldri þróun og eru starfsmenn vakandi fyrir nýjum tækifærum sem tengjast umbúðum og merkingu á vörum með prentun á pappír, plastefni og álfólíu í samstarfi við viðskiptavini fyrirtækisins.

Prenttækni tekur stöðugum framförum og enn koma fram nýjar gerðir hráefnis sem henta fyrir sérhæfða notkun á þessu sviði.

Vélakostur Vörumerkingar er mjög fullkominn og er megináhersla lögð á gæði framleiðslunnar. Í samvinnu við mörg fremstu fyrirtæki landsins á nánast öllum sviðum atvinnulífsins hefur tekist að byggja upp mjög virkt eftirlitskerfi sem gerir fyrirtækinu kleift að þróast og stækka eins og raun ber vitni. Ánægjulegt samstarf við þessi fyrirtæki hefur gert það að verkum að Vörumerking er fremst á þessu sérhæfða sviði sem framleiðsla fyrirtækisins er.

ÁRAMÓTAHEIT UM NÝJA SIÐI grein birt í Viðskiptabl.Mbl. höf: Haraldur U. Diego hugmyndabóndi

Ég ætla mér að verða betri maður á árinu 2012, bæði betri og léttari. Hvað með þig?
Fyrirtæki geta líka strengt áramótaheit - stefnumótandi loforð um bót og betrun. Ekki þarf að mæta í líkamsrækt. Ræktin á að fara fram innan veggja fyrirtækisins og huga þeirra sem þar starfa. Áramótaheitin felast í að setja markmið, stefna að þeim og meta árangur.
Margir íslenskir stjórnendur hafa kynnt sér hvað felst í samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja og er það vel. Ég vil meina að ekkert fyrirtæki geti hunsað þá ábyrgð til langs tíma. Þar erum við ekki einvörðungu að ræða um fjárhagslega og lagalega ábyrgð fyrirtækja, heldur líka siðferðilega og mannúðlega; hluta þeirrar samfélagslegu skyldna sem ætlast er af hálfu samfélagsins. Sjálfbærni og gegnsæi eru nefnilega ekki lengur bara tískuorð til nota á hátíðarstund.
Mörg erlend fyrirtæki hafa sniðið rekstur sinn að leiðbeiningum eða stöðlum á við UN Global Compact, Global Social Compliance Programme (GSCP) og ISO 26000. Unnið er að íslenskun þess síðastnefnda. Uppbygging hans svipar til bæði ISO 9001 og 14001 staðlanna, en hann er þó ekki til vottunar.
Mat á árangri verkefna innan ramma samfélagslegrar ábyrgðar er órjúfanlegur hluti heildarmyndarinnar. Þau fyrirtæki sem má taka til fyrirmyndar greina frá árangrinum í ársskýrslum sínum. Sú samantekt er ekki gerð til að vera montplagg með upptalningu styrkveitinga eða gjafa til mannúðarmála, heldur til að skýra frá því með hreinskiptum hætti hvernig fyrirtækinu tekst til.
Hvatningin er skýr. Tíminn er núna. Ekki láta ársskýrsluna snúast einungis um fjárhaglega velgengni, heldur líka velgengni í því samfélagi sem við lifum öll í.

Haraldur U. Diego er hugmyndabóndi.

Gleðilegt nýtt ár með Stjórnvísi

Stjórnvísi óskar öllum félögum gleðilegs nýs árs.

Við þökkum frábært samstarf á liðnu ári og hvetjum alla til að kynna sér og taka þátt í spennandi vordagskrá félagsins.

Kær kveðja,

Gunnhildur Arnardóttir, framkvæmdastjóri Stjórnvísi.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?