Fréttir og pistlar

Arðsemi eigna - grein í Viðskiptabl.Mbl. höf: Þorsteinn Siglaugsson

Hugsum okkur að maður kaupi sjoppu fyrir tíu milljónir. Hann leggur sjálfur eina krónu í púkkið en fær afganginn lánaðan vaxtalaust hjá frænda sínum.
Eftir árið skilar sjoppan svo krónu í hagnað sem samsvarar 100% arðsemi eigin fjár.

Þetta ýkta dæmi sýnir að arðsemi eigin fjár getur verið blekkjandi mælikvarði. Oft er arðsemi eigna, sem einnig nefnist arðsemi heildarfjármagns, þ.e. alls þess fjár sem lagt er í reksturinn, miklu betri mælikvarði. Arðsemi eigna í dæminu að ofan er 0,00001%, sem sýnir auðvitað að betra hefði verið fyrir eigandann ef hann hefði fengið sér annað að sýsla við, hvað þá fyrir frændann.

Almennt má segja að réttara sé að horfa á arðsemi eigna ef lánskjör ráðast ekki á markaði. Þetta á til dæmis við þegar fyrirtæki lánar sjálft til eigin framkvæmda. En það á ekki síður við ef eigandinn sjálfur eða þriðji aðili ábyrgist lánið, til dæmis ríkið, sveitarfélög - eða bara velviljaðir frændur.

Þegar arðsemi eigna er metin þarf að gæta að því að meta rétt fjárbindingu í rekstrinum. Ef horft er á bókfært virði eigna, að frádregnum afskriftum, getur arðsemi eigna virst aukast eftir því sem líður á líftíma fjárfestingarinnar. Því er mikilvægt að reikna hana ávallt sem hlutfall af markaðsvirði eigna, en ekki bókfærðu virði. Sé þessa gætt sýnir arðsemi eigna betur hversu arðsamt verkefni eða fyrirtæki er sem slíkt en arðsemi eigin fjár, sem sýnir aðeins hvað rennur til hluthafanna og er því aðeins gagnleg ef lánskjör ráðast á markaði. Fullyrða má að í opinberum rekstri skuli ávallt miða við arðsemi eigna, nema um hreina verkefnafjármögnun sé að ræða.

Þorsteinn Siglaugsson

Hvað þarf fullorðinsfræðarinn að kunna? Ráðstefna á Nordica 12.janúar 2012

Stjórnvísi vill vekja athygli á ráðstefnu sem haldin verður þann 12.janúar 2012 . Á ráðstefnunni verður fjallað, frá ýmsum sjónarhornum, um hæfnikröfur sem gerðar eru til þeirra sem skipuleggja nám fyrir fullorðna og kenna þeim og hvaða nám stendur þeim til boða. Íslenskir fyrirlesarar munu fjalla um málið frá íslensku sjónarhorni og þrír erlendir gestir gera grein fyrir nýlegum rannsóknum á sviðinu sbr. dagskrá í viðhengi. Áhersla verður lögð á líflegar samræður og skoðanaskipti.

Ráðstefnan er einkum ætluð þeim sem koma að skipulagningu og framkvæmd alls konar náms- og þjálfunarferla fyrir fullorðna hvort sem er í skólum, fræðslustofnunum, fyrirtækjum, stofnunum, félagasamtökum eða annarsstaðar. Þátttaka er án endurgjalds en við biðjum þá sem hug hafa á að sækja ráðstefnuna um að skrá sig hér.
http://www.frae.is/skraning-a-namsstefnu-um-haefni-fullordinsfraedarans/

Ánægja og arðsemi grein í Viðskiptablaði Mbl. höf: Margrét Reynisdóttir, Gerum betur ehf.

Ánægja og arðsemi fara saman í viðskiptum. Ánægðir viðskiptavinir koma aftur og stefna hvers fyrirtækis hlýtur að vera að eignast viðskiptavini fyrir lífstíð. Það er sterk fylgni á milli ánægju viðskiptavina og viðskiptatryggðar. Þess vegna er hægt að beita fjárhagslegum rökum fyrir því innan allra fyrirtækja að leggja mikla áherslu á að góða þjónustu og ánægða viðskiptavini. Tryggir og ánægðir viðskiptavinir eru sömuleiðis bestu auglýsendurnir og laða að nýja viðskiptavini þegar þeir miðla af jákvæðri reynslu sinni af fyrirtækinu. Mörg fyrirtæki verja þess vegna meiri tíma og krafti í að grafast fyrir og skilja í hverju ánægja viðskiptavina þeirra liggur og finna leiðir til að auka hana.

Það er ekki nóg að viðskiptavinir séu sæmilega eða frekar ánægðir. Keppikeflið hlýtur að vera mjög ánægðir viðskiptavinir til að tryggja mesta viðskiptatryggð sem aftur skilar sér í ánægjulegri tölum í ársreikningnum; þ.e. auknum hagnaði og traustari framtíðartekjum. Verðmæti allra fyrirtækja liggur fyrst og fremst í framtíðartekjum þess.

Það er útilokað að gera viðskiptavini ánægða ef hugur fylgir ekki máli; starfsmenn verða að vera sjálfir ánægðir til að geta gefið eitthvað af sér. Þess utan helst fyrirtækjum betur á ánægðum starfsmönnum sem þekkja og skilja þarfir og væntingar viðskiptavina og geta uppfyllt óskir þeirra og veitt þeim fyrirtaks þjónustu.

Í íslensku ánægjuvoginni er ánægja viðskiptavina stærstu fyrirtækja á Íslandi í nokkrum atvinnugreinum mæld einu sinni á ári. Stjórnvísi, Samtök iðnaðarins og Capacent Gallup hafa staðið sameiginlega að þessum mælingum undanfarin tólf ár; eða frá árinu 1999. Markmið Íslensku ánægjuvogarinnar er að vera með samræmdar mælingar á ánægju viðskiptavina.

Gamalt máltæki segir: Skoðaðu alla hluti frá hinni björtu hlið! Það ættu fyrirtæki að kappkosta; vitandi að ánægðir viðskiptavinir og góðir starfsmenn skapa mestu framtíðartekjurnar.

Lykillinn að velgengni Össurar

Það er stefnan og framkvæmdin sem er lykillinn að velgengni Össurar.
Össur tók vel á móti faghóp um Stefnumótun og Balanced Scorecard. Þar fór Margrét Lára Friðriksdóttir aðstoðarmaður forstjóra Össurar og director of strategic management yfir stefnumótunarferlið og hvernig starfsmönnum Össurar hefur gengið að framkvæma stefnuna. Margrét Lára kynnti fyrir okkur „húsið“ sem Össur notar við alla innri markaðssetningu. Grunnur hússins byggir á grunngildum Össurar sem eru hagsýni, heiðarleiki og hugrekki. Össur byrjar stefnumótunarvinnu sína í ágúst á hugarflugsfundi með öllum framkvæmdastjórum sem hafa bæði fyrir og eftir þann fund fundað með sínu fólki. Þegar framkvæmdastjórar eru komnir með fullmótaða stefnu er hún lögð til samþykktar hjá forstjóra sem síðan fær samþykki stjórnar. Í framhaldi eru öll skorkort yfirfarin og gerð klár.

Munum eftir að þakka fyrir - það eykur hamingju okkar!

Faghópur um sköpunargleði hélt nýlega fund þar sem Birna Dröfn Birgisdóttir ein af stjórnendum í faghópnum sagði frá þeirri reynslu sem hún öðlaðist í jógasetri í Indlandi síðastliðið sumar. Birna Dröfn fór yfir mikilvægi þess að anda rétt og kenndi viðstöddum að anda ofan í maga, niður í kvið og upp í axlir. Það eru samskipti við aðra sem valda mestri streitu í dag og því mikilvægt að eiga í sem bestum samskiptum hvort við annað. Við eigum að einbeita okkur að því sem okkur þykir gott og gleður okkur og muna að vera þakklát, t.d. að þakka alltaf í huganum fyrir góðan mat. Elísabet Reynisdóttir næringarþerapisti í Baðhúsinu fjallaði um mat sem kætir og ýtir þannig undir sköpunargleðina

Jólakveðja Stjórnvísi

Stjórnvísi óskar öllum félögum sínum óg fjölskyldum þeirra góðra stunda á jólahátíðinni. Gleðileg jól!

Ný vinnubrögð í áætlanagerð. Grein í Viðskiptbabl.Mbl. höf: Þorsteinn Siglaugsson, rekstrarráðgjafi

Ný vinnubrögð í áætlanagerð
Áætlanagerð er lykilþáttur í stjórnun flestra fyrirtækja. En stundum er óljóst til hvers áætlanir eru gerðar og notkun þeirra ómarkviss, jafnvel hamlandi. Á síðustu árum hafa ýmsir fræðimenn sett fram krefjandi spurningar um tilgang og ávinning af áætlanagerð. Sú algenga venja að meta árangur starfsmanna á grunni áætlunar er gagnrýnd, því áætlunin endurspegli þá öðru fremur niðurstöður langvinnra samningaviðræðna. Betra sé að tengja árangursmatið lykilmælikvörðum á borð við markaðshlutdeild, veltuhraða birgða eða ánægju viðskiptavina.
Annað lykilatriði er, að í stað þess að áætla aðeins út rekstrarárið, sé heppilegra að gera hlaupandi áætlun nokkrum sinnum á ári: Að fyrsta ársfjórðungi liðnum eru atburðir fjórðungsins stjórnendum í fersku minni og því auðveldara að áætla sama fjórðung á næsta ári, en ef beðið er til hausts. Áætlanir úreldast fljótt; eftir fyrsta fjórðung kunna forsendur að hafa breyst mikið. Því tíðar sem áætlað er, því hraðar eykst færni starfsmanna í áætlanagerðinni. Fyrirtæki sem beita hlaupandi áætlanagerð ná fram miklum tímasparnaði í áætlanavinnunni sem er afleiðing af straumlínulagaðri ferlum.
Vinnubrögð við áætlanagerð og árangursmat hafa batnað á undanförnum árum. Meirihluti bandarískra fyrirtækja gerir nú hlaupandi áætlanir ár fram í tímann í stað þess að leggja haustmánuðina undir gerð ársáætlunar sem úreldist fljótt. Stefnumiðað árangursmat hefur rutt sér til rúms og skilað miklum árangri þar sem vel hefur tekist að skilgreina og stýra eftir lykilmælikvörðum. Íslenskum fyrirtækjum hefur mörgum tekist að bæta vinnubrögð í áætlanagerð undanfarin ár. Mikið er þó óunnið.

Þorsteinn Siglaugsson, rekstrarráðgjafi
Sjónarrönd ehf.

Einfaldleikinn í lífsspeki fisksins - grein í Viðskiptabl.Mbl. höf: Helga Fjóla Sæmundsdóttir, framk

Á ferðalagi okkar um lífið erum við alltaf að læra eitthvað nýtt og spennandi og mismunandi hvaða fræði henta okkur á mismunandi tímaskeiðum í lífi okkar. Ég kynntist spekinni um Fiskinn, Fish philosophy, fyrir rúmum áratug, heillaðist strax og trú mín á Fisknum hefur eingöngu aukist með árunum. Ég hef oft spurt mig að því af hverju þessi fræði henta mér? Það eru óteljandi ástæður fyrir aðdáun minni en það sem stendur upp úr er einfaldleikinn. Mannleg samskipti eru flókin, og oft á tíðum erfið og allt of oft flækjum við sjálf einfalda hluti. Fiskurinn hjálpar okkur að meta einfaldleikann og að njóta lífsins, eins og það er í dag. Þeir sem tileinka sér lífsspeki Fisksins muna eftir því að leika sér, gera daginn eftirminnilegan, þeir eru til staðar og síðast en ekki síst þá velja þeir sér viðhorf. Þetta hljómar einfalt en er auðvelt að tileinka sér þessa lífsspeki? Við erum mannleg, förum í gegnum sorgir og gleði, sigra og ósigra og oft á tíðum finnst okkur lífið ekki sanngjarnt.

Við höfum hins vegar alltaf val um það hvernig við bregðumst við þeim aðstæðum sem við erum í hverju sinni. Lífið er svo sannarlega ekki alltaf auðvelt en lífspeki Fisksins hjálpar okkur að njóta ferðalagsins.

Víða í skólakerfinu er unnið eftir frábæru kerfi sem byggir á fimm grunnþörfum okkar. Grunnþarfirnar fimm eru undirstöðuþáttur í uppbyggingu og einstaklingarnir hvattir til að þekkja þarfir sínar. Það að þekkja þarfir sínar er grundvöllur þess að við skiljum hegðun okkar og getum breytt henni til betri vegar. Ein af grunnþörfum okkar er GLEÐI en oft þegar við verðum ,,stór“ einblínum við á að haga okkur eftir aldri, halda virðingu og faglegu viðmóti. Fiskurinn gefur okkur leyfi til að leika okkur, hann ýtir undir ánægju og byggir upp grunnþarfir okkar svo við getum notið okkar í starfi og í leik. Þekkir þú þínar grunnþarfir?

Þrír áhugaverðir fundir í næstu viku

Stjórnvísi vill vekja athygli á þremur áhugaverðum
fundum í næstu viku.
13.desember kl.12:00-13:00 Kynning á grunnatriðum Lean

  1. desember kl.08:30-09:30 Stefnumótun Össurar
  2. desember 08:30-09:30 Indlandsævintýri og matur sem kætir

Snjallsímar og spjaldtölvur er helsta ógnin!

Faghópur um Upplýsingaöryggi hélt fund í morgun hjá Deloitte þar sem Tryggvi R. Jónsson kynnti helstu niðurstöður

Menning og uppruni hefur mikil áhrif í samskiptum fólks. Grein í Viðskiptabl.Mbl.höf: Áslaug Briem

Menning og uppruni hefur mikil áhrif í samskiptum fólks. Í alþjóðlegum viðskiptum er mikilvægt að fólk sem kemur úr mismunandi menningarheimum geri sér grein fyrir og þekki menningu viðskiptamanna sinna og ekki síður sína eigin menningu. Mikilvægt er að átta sig á því hvað sé líkt og hvað ólíkt í menningu beggja viðskiptaaðila. Rannsóknir hafa sýnt að ef skilningur á þessu þáttum er ekki til staðar, getur það leitt til þess að viðskipti geta gengið erfiðlega fyrir sig eða jafnvel misfarist þegar fólk misskilur eða áttar sig ekki á framkomu annars aðilans, sem á sér skýringar í menningaruppruna viðkomandi. Fyrirtæki í alþjóðaviðskiptum ættu því að leggja áherslu á að fræða og þjálfa starfsmenn sína um mismunandi menningarheima til að auka skilning þeirra og getu til að takast á við ýmis konar aðstæður og uppákomur sem geta komið upp í viðskiptum við erlenda aðila.
Sem dæmi um menningarbundin atriði sem skipta máli í viðskiptum má nefna viðhorf fólks til tíma. Áhersla á stundvísi er til að mynda mjög mismunandi milli menningarheima. Hvernig tíminn er nýttur er annað atriði sem getur verið mismunandi og loks getur verið misjöfn afstaða fólks til þess hvað sé eðlilegt að taka langan tíma í viðskiptin, hvort fortíðin sé mikilvæg eða hvort áherslan sé á framtíðinni.
Fyrir þjónustufyrirtæki sem starfa á alþjóðlegum markaði er þekking á mismunandi menningarheimum einnig afar mikilvæg. Menningarlegur uppruni hefur áhrif á væntingar viðskiptavina og skynjun þjónustugæða. Menning hefur einnig áhrif á það hvort að viðskiptavinir kvarti eða láti í ljós óánægju, ef um slíkt er að ræða og væntingar til úrbóta.

Vefurinn allt um kring - frábær ráðstefna

Vefráðstefna þjónustu- og markaðsstjórnunarhóps Stjórnvísi, sem haldin var í húsnæði Arion banka í morgun, tókst afskaplega vel og var vel sótt. Jón G. Hauksson, formaður stjórnar Stjórnvísi, setti ráðstefnuna formlega en Ásta Malmquist, formaður stjórnar þjónustuhópsins, stýrði ráðstefnunni og umræðum með miklum glæsibrag.

Fjallað var um vefinn og þau tækifæri sem hann gefur fyrirtækjum varðandi stjórnun og markaðssetningu. Þema ráðstefnunnar var: Vefurinn allt um kring?

Maríanna Friðjónsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Green Heels Production, nefni erindi sitt: Að vera eða alls ekki að vera til.

Maríanna er kunn sem sjónvarpskona til fjörutíu ára. Hún nálgaðist viðfangsefnið skemmtilega og færði rök fyrir því hversu áhrifaríkt Netið og Fésbókin væri í markaðssókn fyrirtækja - en lagði mikla áherslu á hversu vel þyrfti að vanda til verka þótt miðillinn væri annar en hinir hefðbundnu.

Vilhjálmur Alvar Halldórsson, forstöðumaður netviðskipta Arion banka, ræddi um innra net Arion banka og hvernig almennir starfsmenn og stjórnendur notuðu það til að hafa upplýsingaflæðið innan bankans sem mest og árangursríkast. Vilhjálmur sagði að breytingar væru í vændum með innra netið - ekki síst útlit þess sem og aðgengi og aðkomu starfsmanna að því.

Atli Viðar Þorsteinsson, listrænn framleiðandi fyrirtækisins CLARA, ræddi um vaktkerfi Clöru sem nýtur sívaxandi vinsælda. Þetta er ekta sprotafyrirtæki sem byrjaði fyrir þremur árum og hefur undið upp á sig. Vaktkerfið vaktar samkvæmt beiðni alla umfjöllun um fyrirtæki og einstaklinga í fjölmiðlum og á Netinu - kerfið nær þó enn ekki til ljósvakamiðla.

Guðjón Elmar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Emoll sem er hluti af Vefpressunni og rekur m.a. vefina butik.is, mona.is og rafko.is fór yfir markaðssetningu og sölu á netinu og vísaði m.a. í kannanir sem hafa verið gerðar í Bretlandi en þar er vefverslun í miklum blóma og tíunda hver sala fer fram á Netinu. Guðjón spáði mikilli aukningu í vefverslun á Íslandi næstu árin.

Árni Þór Árnason, stofnandi og framkvæmdastjóri Hópakaup.is, var með síðasta erindið á ráðstefnunni sem nefndist Hópkaup - í krafti fjöldans. Þetta fyrirtæki var stofnað snemma á árinu og hefur verið talsvert í fréttum. Hugmyndin gengur út á sérstakt net-tilboð fyrirtækja á vef Hópakaupa gegn því að Hópakaup komi með lágmarks kaupendahóp. Tilboðin standa ævinlega í ákveðinn, stuttan tíma.

Fyllsta ástæða er til að hrósa þjónustu- og markaðsstjórnunarhópnum fyrir góða ráðstefnu og glæsilegan undirbúning. Sömuleiðis ber að þakka Arion banka fyrir að hýsa ráðstefnuna og bjóða upp á morgunkaffi og með því.

Forysta ehf. nýtt fyrirtæki í Stjórnvísi

Forysta er þekkingarfyrirtæki sem sérhæfir sig í þjónustu við fyrirtæki á sviði markaðsmála, vörumerkjastjórnunar og markaðssamskipta. Forysta í gegnum síðuna Markaðsmenn.is veitir þjónustu í formi ráðgjafar, „Markaðsmanna til leigu“, vörumerkjarýni, námskeiða og fyrirlestra.
Forysta ehf á og rekur vefinn www.markadsmenn.is

Viðskiptavinurinn í 3. sæti? grein í Viðskiptablaði Mbl. höf: Agnesi Gunnarsdóttur, framkvstj. sölu

Á dögunum sótti ég fyrirlestur á Hilton Hotel í Reykjavík þar sem Mary Flynn, sérfræðingur hjá hinu afburðagóða þjónustu- og upplifunarfyrirtæki Walt Disney sat fyrir svörum. Mary Flynn var spurð að því hvað gerði Walt Disney að svo góðu fyrirtæki. Hún svaraði því til að hjá Walt Disney væri viðskiptavinurinn settur í 3. sæti. Þetta kom mér á óvart! Þetta er ekki það sem við erum vön að predika. En þegar betur var að gáð, og við nánari skýringu, þá small þetta allt saman.
Mary Flynn segir að fyrirtæki þurfi að vera með frábæra leiðtoga sem geri réttu hlutina á réttan hátt. Starfsmenn, sem fá hvatningu frá stjórnanda og frjálsræði í að taka frumkvæði, hafi mun meira sjálfsöryggi sem aftur leiðir til ánægju hjá starfsmönnum sem smitast beint til viðskiptavina.
Íslenska gámafélagið hefur verið valið fyrirtæki ársins tvö ár í röð, sem staðfestir það að starfsfólki okkar líður vel í vinnunni og er stolt og ánægt með starfsandann. Sá starfsandi sem mótast hefur hjá Íslenska gámafélaginu skapast m.a. af virkri þátttöku allra starfsmanna í ýmsum atburðum á vegum fyrirtækisins en flestir þeirra lúta að því að virkja maka og fjölskyldu starfsmanna. Við lifum eftir heimspeki fisksins (e. Fish philosphy) og gengur hugmyndafræðin út á að velja sér viðhorf, vera til staðar fyrir samstarfsmenn og viðskiptavini, gera daginn eftirminnilegan og að leika sér.
Ég gæti vaknað á morgnana og valið það að vera í fúlu „ruslaskapi“ en ég vel að hlakka til að hitta mína samstarfsmenn, ég hef gaman af því sem ég tekst á við hverju sinni, horfi á ný tækifæri og vinn úr ábendingum sem geta gert mig og mitt fyrirtæki enn betra. Ég stefni ávallt að því að vera framúrskarandi. Undanfarin ár höfum við lagt fyrir viðskiptavini okkar þjónustukönnun og er niðurstaðan ótvíræð og staðfestir einnig þau fræði að með ánægðum starfsmönnum skapast ánægja meðal viðskiptavina.

Agnes Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Íslenska gámafélagsins.
ERGO=>1. sterk forysta =>2. ánægðir starfsmenn =>3. ánægðir viðskiptavinir og töfrar gerast

Melónumyntukokteill og hollráð frá Vendum

Stjórnvísifélagar fengu góðar móttökur í nýjum húsakynnum Vendum í morgun þar sem boðið var upp á rauðgrænan melónukokteil. Alda Sigurðardóttir varpaði fram spurningunni: "Hver er tilgangurinn með því að efla áhuga og eldmóð í starfi". Margvísleg svör komu t.d. að tilgangurinn væri að koma í veg fyrir kulnun, auka árangur, minnka veikindi, auknar nýjungar koma fram, samvinna, óttaleysi og að fá meira út úr starfinu. Það sem fær okkur til að mæta í vinnuna er starfshvatningin. Starfshvatningin er hlesti áhrifaþáttur varðandi frammistöðu og árangur. Sigrún Þorleifsdóttir fræddi fundinn um helstu hvatakenningarnar Vitales (1953) sem tengdi saman hugtökin "performance" og "motivation". Það skiptir ótrúlega miklu máli að vita til hvers er ætlast af okkur í starfi. Einnig kynnti Sigrún þarfakenningar Maslow, XY kenningar McGregor og markmiðakenningu Lockers.

Unnur Valborg sló botninn i fundinn. Hún fór m.a. yfir mikilvægi þess að stjórnendur setji sér skrifleg skýr markmið sem þeir fara yfir reglulega t.d. með öðrum stjórnanda til þess að skuldbinda sig til að klára verkefni.
Myndir af fundinum má sjá hér:
http://tinyurl.com/5vslqtj

Gæðastjórnun er fyrir viðskiptavin. Grein í Viðskiptabl.Mbl. höf: Guðmundur S. Pétursson gæðastj.

Gæðastjórnun er fyrir viðskiptavin

Eitt öflugasta hjálpartæki stjórnenda eru ISO gæðastjórnunarstaðlarnir. Þegar kröfustaðallinn 9001 er skoðaður sést að kröfurnar sem þarf að uppfylla snerta alla helstu þætti sem vel rekin fyrirtæki þurfa að huga að og vakta. Allar kröfurnar lúta að einu markmiði; að uppfylla kröfur og væntingar viðskiptavina.

Margir spyrja sig hvort innleiðing gæðastjórnunar þurfi að auka skriffinnsku og flækju. Sumir ganga svo langt að segja að hún sé ekki ómaksins virði. Meiri pappír, aukið flækjustig, íþyngjandi ákvarðanataka og fleira er dregið fram til að hafa afsökunina nógu sterka. Svar mitt er að flækjan minnkar og reksturinn verður auðveldari vegna þess að skipulagið verður betra. Það þarf hins vegar að skrá það sem skiptir máli. Þær upplýsingar, sem hafa ef til vill ekki verið aðgengilegar, verða það. Jákvætt ekki satt?

Stundum er afsökunin sú að það kosti of mikið að koma gæðastjórnun á og innleiða svokallað gæðakerfi. Það er auðvelt að halda utan um þann kostnað sem hægt er að færa á gæðakerfi, en það erfiðara er að sjá í beinum tekjum hverju það skilar. Veltum fyrir okkur hvað mistök geta kostað við búnað eða öryggi; hvað það kostar að missa viðskiptavin vegna þess að hann er ekki ánægður með þjónustuna; hvaða þýðingu það hefur fyrir rekstur fyrirtækisins að fá fleiri viðskiptavini. Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að sjá að viðskiptavinir koma frekar til fyrirtækis sem stendur sig vel og er þekkt af vönduðum vinnubrögðum.

Það þarf ekki að vera flókið né kostnaðarsamt að koma á gæðastjórnun hjá fyrirtæki sem er tilbúið að fylgja og innleiða kröfur til starfseminnar. Fyrst af öllu þarf þó eitt skilyrði að vera uppfyllt; stjórnendur og starfsmenn verða að vilja og vera staðráðnir í að veita viðskiptavinum góða þjónustu.

Guðmundur S. Pétursson,
gæðastjóri Landsvirkjunar

Myndir frá glæsilegri afmælisráðstefnu Stjórnvísi

Hér má sjá myndir frá glæsilegri afmælisráðstefnu Stjórnvísi.
http://tinyurl.com/697ysby

Afmælisræða - Afmælisráðstefnu Stjórnvísi 27.október 2011 flutt af Jóni G. Haukssyni formanni stjórn

Kæru félagsmenn í Stjórnvísi,
velunnarar,
háttvirtu fyrirlesarar,
góðir ráðstefnugestir.

TIL HAMINGJU MEÐ DAGINN.

Þetta er fallegur dagur; merkisdagur í sögu félagsins. 25 ára.
Það er ástæða til að fagna slíkum tímamótum með góðri afmælisráðstefnu. Enda segjum við að þessi ráðstefna sé blanda af fræðum og fögnuði. Við höfum fengið til liðs við okkur góða fyrirlesara:

Brynju Guðmundsdóttur, forstjóra Gagnavörslunnar.
Árna Odd Þórðarson, forstjóra Eyris fjárfestingarfélags og stjórnarformann Marels.
Guðnýju Rósu Þorvarðardóttur, framkvæmdastjóra Parlogis
og síðast en ekki síst Tómas Má Sigurðsson, forstjóra Alcoa á Íslandi og formann Viðskiptaráðs.

Horft verður til framtíðar í fyrirlestrum dagsins.

Yfirskriftin er:
Ísland 2015 - forgangsverkefni stjórnandans.

Vonandi verður framtíðarsýnin og Ísland árið 2015 blanda af fræðum, framtakssemi og fögnuði.

Stjórnvísi hét upphaflega Gæðastjórnunarfélag Íslands og það var einmitt í tíð Guðrúnar Ragnarsdóttur sem formanns félagsins sem nafninu var breytt í Stjórnvísi.

Það er mikill heiður að Guðrún, sem er framkvæmdastjóri Lánasjóðs íslenskra námsmanna, flytji hátíðarávarp þessarar afmælisráðstefnu.

Góðir gestir!

Það er í sjálfu sér enginn munur á gæðastjórnun og venjulegri stjórnun. Venjuleg stjórnun á að vera gæðastjórnun. Stjórnun snýst um aga, virðingu og gæði.

Oft er spurt:

Hvað er Stjórnvísi?
Stjórnvísi er félag þar sem kjarnastarfið fer fram í fjölda faghópa á hinum ýmsu sviðum stjórnunar.

Stjórnvísi fæst við nýjustu stefnur og strauma í stjórnun - og af því leiðir að tengslin við háskólasamfélagið og fyrirtækin í landinu eru mikil.

Stjórnvísi er líka félag sem stendur fyrir almennum ráðstefnum, viðburðum og verðlaunum um stjórnun.

Á síðasta starfsári voru haldnar átta ráðstefnur og fluttu 135 fyrirlesarar erindi á ráðstefnum og fundum faghópa - og voru gestir yfir 2.600 talsins á viðburðum félagsins.

Stjórnvísi er stærsta stjórnunarfélag á Íslandi með yfir 1.200 félagsmenn og innan raða þess eru núna yfir 240 fyrirtæki.

Stjórnvísi er áhugamannafélag í eigu félagsmanna og starfar ekki með fjárhagslegan ágóða í huga.

Félagið er opið öllum sem hafa áhuga á stjórnun; eins og stjórnendum, sérfræðingum, nemendum og öðrum áhugamönnum um stjórnun.

Ég hef stundum sagt að starfið í faghópum félagsins lyfti hinum venjulega starfsdegi félagsmanna upp í hærri hæðir.

Faghópafundur að morgni sem byrjar á heimsókn í fyrirtæki þar sem sérfræðingar þess miðla af góðum vinnubrögðum í stjórnun með raunverulegum dæmum er ekki aðeins byrjun á góðum degi - heldur þekking sem smitar út frá sér þegar félagsmenn koma „heim til vinnu“ í sínum fyrirtækjum.

Stjórnun og rekstur fyrirtækja er ekki eitthvað sem er endanlegt - það er viðfangsefni hvers dags. Vegna þess að stjórnun snýst um fólk og mannlega þætti.

Við erum ekki búin til úr stáli og steypu - þótt við séum auðvitað heilsteypt. Í okkur rennur blóð - og við höfum tilfinningar sem koma fram í daglegum samskiptum á vinnustöðum; góðum sem slæmum.

Þegar ég var ráðstefnustjóri á stórri ráðstefnu hjá Gæðastjórnunarfélaginu fyrir nákvæmlega nítján árum undirbjó ég mig m.a. með því að spyrja hárskerann minn að því hvað gæðastjórnun væri.

Ræðir maður ekki alltaf við hárskerann sinn.

Hann svaraði: Ég veit ekki nákvæmlega hvað þetta gæðastjórnun er: En ég veit það eitt að góð stjórnun felst í að ráða gott fólk - þá sparar maður sér vandræði, mistök, kvartanir og tímasóun við að gera hlutina upp á nýtt.

Þetta voru vísindi á einföldu máli.

Gleymum því aldrei að góð stjórnun er ekki fyrir þann sem stjórnar - heldur fyrst og fremst fyrir kröfuharða viðskiptavini.

Veislugestir góðir.

Margir hafa komið að undirbúningi þessarar ráðstefnu. Afmælisnefnd félagsins skipulagði dagskrána hér í dag í samvinnu við stjórn. Hún ýtti verkefninu úr vör.

Í afmælisnefndinni voru Margrét Reynisdóttir, fyrrverandi formaður Stjórnvísi, Ásta Malmquist og Sólveig Hjaltadóttir.

Í undirbúningi þessarar ráðstefnu hefur þó mest mætt á framkvæmdastjóra félagsins, Gunnhildi Arnardóttur.

Ég þakka þeim þeirra þátt.

Góðir gestir.

25 ára afmælisráðstefna Stjórnvísi er sett og gefum afmælisbarninu hressileg lófaklapp.

höfundur og flytjandi: Jón G. Hauksson, formaður stjórnar Stjórnvísi 2011

Vertu velkomin í dag á afmælisráðstefnu Stjórnvísi

Stjórnvísi fagnar í dag 25 ára afmæli félagsins. Í tilefni afmælisins er öllum félögum og velunnurum Stjórnvísi boðið á afmælisráðstefnuna.

Afmælisráðstefna Stjórnvísi, sem er stærsta stjórnunarfélag á Íslandi með yfir 1200 félagsmenn verður haldin milli kl. 16:00 og 19:00 hinn 27. október nk. í Natura, nýjum ráðstefnusal Icelandair Hótel Reykjavík Natura við Reykjavíkurflugvöll; gamla Loftleiðahótelinu.

Þema hátíðarinnar er Ísland 2015 - forgangsverkefni stjórnandans.
Fyrirlesarar eru:

Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa á Íslandi
Brynja Guðmundsdóttir, forstjóri Gagnavörslunnar
Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Eyris og stjórnarformaður Marels
Guðný Rósa Þorvarðardóttir, framkvæmdastjóri Parlogis

Ráðsefnustjóri er Jón G. Hauksson formaður stjórnar Stjórnvísi og ritstjóri Frjálsrar verslunar.

Hátíðarávarp flytur Guðrún Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri LÍN. Guðrún var formaður Stjórnvísi 2000-2002

Iðnaðarráðherra Fr.Katrín Júlíusdóttir heiðrar fyrrverandi formenn Stjórnvísi

Allir félagsmenn í Stjórnvísi eru hvattir til að mæta á afmælisráðstefnuna sem verður hin glæsilegasta, blanda af fræðum, fögnuði og léttum veitingum.

Krafan um árangur í ríkisrekstri -grein e. Þorvald Inga Jónsson, viðskiptafræðing, Ms í stjórnun-

Krafan um árangur í ríkisrekstri
Þegar ákveða á fjárveitingar til verkefna ríkisins þarf að meta með faglegum hætti þörfina á þjónustunni og setja fram skýrar kröfur um árangur. Grunnur að farsæld samfélags er fagleg stjórnsýsla sem nýtur trausts. Til þess að svo megi verða þarf m.a. að tryggja að allir hafi aðgang að lykilupplýsingum um starfsemi ríkisins.
Í nýútkominni skýrslu „Samræmt yfirlit um hlutverk og árangur í ríkisrekstri“ er sett fram hugmynd í þessum anda. Markmið yfirlitsins er að Alþingi, yfirstjórn ráðuneyta, stjórnendur stofnana og almenningur, hafi samræmdar upplýsingar til að meta mikilvægi og árangur verkefna ríkisins. Með því er verið að auka á gegnsæi í ríkisrekstrinum og auka aðhald. Einnig að opna á virkari viðbrögð almennings og gagnvirkari samskipti við hagsmunaaðila ráðuneyta og stofnana. Það eykur líkur á því að verkefnum verði forgangsraðað eftir mikilvægi.
Í skýrslunni er birt hugmynd að samræmda yfirlitinu. Þar er fyrst gert ráð fyrir að birt sé stutt lýsing á hlutverki og meginverkefnum stofnunar og tenging við lög og stefnu. Sérstaklega eru síðan birtar lykilupplýsingar um fjármál, starfsmenn og viðskiptavini. Viðhorf starfsmanna gefa góða vísbendingu um stöðu stofnunar. Viðskiptavinirnir gefa upplýsingar um mat þeirra á núverandi þjónustu og benda á það sem betur má fara. Slíkar upplýsingar leiða til úrbótaverkefna. Krafa er gerð um viðvarandi endurmat og úrbætur til hagkvæmari reksturs, þannig að fjármunum verði betur varið í samræmi við mikilvægi þjónustunnar.
Ljóst er að ekki verða breytingar á þessu sviði nema Alþingi og framkvæmdavaldið taki ákvörðun um slíkt eins og gert var með lögum um fjárreiður ríkisins (88/1997).
Þorvaldur Ingi Jónsson, viðskiptafræðingur, Ms í stjórnun- og stefnumótun.
Hægt er að nálgast skýrsluna hér: http://stjornvisi.is/skjol/Samraemt_yfirlit_um_hlutverk_og_arangur_i_rikisrekstri.pdf

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?