Fréttir og pistlar

is-Project nýtt Stjórnvísifyrirtæki

is-Prject smíðar flóknar veflausnir því þær eru þeira ær og kýr. is-Project veitir einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum bestu fáanlegu veflausnir sem henta hverjum og einum. Því hver og einn er einstakur!

Oft á tíðum eru veflausnir einstakra fyrirtækja það flóknar, að ekki er hægt að kaupa tilbúnar lausnir beint úr kassanum. Oft er um að ræða flókna gagnaöflun eða birtingu gagna, hafa þarf samskipti við önnur kerfi, eða lausnin á einn eða annan hátt ekki augljós.

Jafnvel þótt fyrirtækið sé ungt er reynsla starfsmanna þess mikil. Báðir forritararnir hafa unnið í mörg ár við hönnun á flóknum veflausnum og því vel í stakk búnir til að takast á við hvert það verkefni sem rekur á fjörur þeirra.

Ekkert verkefni er það flókið að á þeim finnist ekki lausn. Við hvetjum þig til að hafa samband við okkur í síma: 847-7653 eða í tölvupósti: hilmar@is-project.org, nú eða líta við á skrifstofu okkar að Ingólfsstræti 5, 3ju hæð. Hjá okkur er alltaf heitt á könnunni og við tökum vel á móti þér

Tern Systems - nýtt Stjórnvísifyrirtæki

Tern System var stofnað haustið 1997 af Kerfisverkfræðistofu Háskóla Íslands og Flugmálastjórn Íslands og byggðist reksturinn á tveggja áratuga samstarfsvinnu þessara aðila við þróun, rannsóknir og hvers konar þekkingaröflun á sviði flugstjórnar- og flugleiðsögutækni.

Upphaflegur tilgangur stofnun Flugkerfa var að taka við þróunarstarfsemi sem vaxið hafði upp á sviði flugstjórnartækni. Í ársbyrjun 2007 þegar ábyrgð á rekstri flugvalla-, flugleiðsögu- og flugumferðarþjónustu færðist í hendur Flugstoða færðist eignarhlutur Flugmálastjórnar yfir til Flugstoða og er Háskóli Íslands áfram hluthafi. 1. maí 2010 færðist svo hlutur Flugstoða til Isavia.

Tern Systems sérhæfir sig í kerfislausnum sem lúta að flugumferðarstjórn. Markmið fyrirtækisins hefur frá upphafi verið að efla rannsóknir, þróun og þekkingaröflun á sviði flugsamgöngutækni.

Tern Systems, Flugstoðir og Háskóli Íslands hafa alla tíð starfað saman að ýmsum þróunarverkefnum fyrir flugmálayfirvöld og hafa veitt sérfræðiþjónustu sem snýr að þessum málaflokkum. Þessi samvinna hefur leitt af sér samstarfsverkefni víða um heim. Þar má nefna rannsóknarsamstarf með ýmsum fyrirtækjum og stofnunum innan Evrópu, sem fjármögnuð hafa verið af Evrópuráðinu.

Tern Systems hefur unnið að þróun kerfislausna fyrir flugstjórn. Um er að ræða lausnir sem notaðar eru í rekstri flugstjórnarmiðstöðva, flugturna og við þjálfun flugumferðarstjóra. Kerfi frá Tern Systems eru meðal annars notuð á Íslandi, Írlandi, Suður-Kóreu, Sýrlandi, Namibíu og Indónesíu.

Stjórnendahandbók - verkfærakista stjórnandans - grein í Viðskiptabl.Mbl.

Það hefur færst í vöxt að mannauðsstjórar fyrirtækja útbúi stjórnendahandbækur fyrir stjórnendur fyrirtækja. Flestar stjórnendahandbækur eru í dag í formi stjórnendavefja. Markmið handbókanna er að tryggja að allar upplýsingar sem stjórnandinn þarf á að halda séu á einum stað og að allir séu í takt þvert yfir fyrirtækið.
En hvað er stjórnendahandbók og hvað inniheldur hún?
Stjórnendahandbókin er verkfærakista stjórnandans og ómissandi fyrir nýjan stjórnanda. Hún hefur að geyma hvert hlutverk stjórnandans er sem er fjölþætt; hann ber ábyrgð á innkaupum, hagmálum, fjármálum, mannauðsmálum, upplýsingatækni og fjármálum.
Til að þarfagreina hvað stjórnendahandbókin á að innihalda er gott að fara þá leið að biðja stjórnendur að þarfagreina - hvað viltu sjá í stjórnendahandbókinni?
Þarfagreiningar hafa sýnt að stjórnendur vilja sjá ferli og fræðsluefni. Einnig óska þeir eftir að hafa í sinni stjórnendagátt upplýsingar um áætlun og rauntölur, upplýsingar um þá starfsmenn sem heyra undir þá eins og fjölda, stöðugildi, kynjaskiptingu, upplýsingar um laun, yfirvinnu, veikindi, menntun, fræðslu og starfsánægju. Stjórnendahandbókin gefur því stjórnandanum góðar upplýsingar um þann mannskap sem hann er ábyrgur fyrir og þá mælikvarða sem hann á að nota og eykur öryggi því ekki er verið að senda viðkvæmar upplýsingar í tölvupóstum. Þar er líka sett inn efni eins og stjórnendafræðsla, leiðbeiningar, spurt og svarað, áhugaverðar greinar og tenglar. Stjórnendhandbókin er því sannkölluð verkfærakista stjórnandans.
Gunnhildur Arnardóttir
Framkvæmdastjóri Stjórnvísi

Haustráðstefna Verkefnastjórnunarfélagsins 22.september 2011

Haustráðstefna VSF verður haldin í Truningum Kópaovogi 22.september 2011. Ráðstefnan er hálfan dag og hefst klukkan 13:00.
Yfirskrift ráðstefnunnar er Verkefnateymið og kostnaðarstýring eða Project Team Management & Cost Enigneering og eru fyrirlesarar úr hinum ýmsu geirum atvinnulífsins með fjölbreyttan bakgrunn og reynslu sem þeir deila með ráðstefnugestum. Allar nánari upplýsingar um ráðstefnuna má sjá á www.verkefnastjórnun.is

Mannvirkjastofnun, nýtt Stjórnvísifyrirtæki

Mannvirkjastofnun tók til starfa þann 1. Janúar 2011. Hún starfar skv. lögum nr. 160/2010. Stofnunin skal tryggja samræmingu á byggingar- og eldvarnareftirliti og starfsemi slökkviliða í samráði við viðkomandi stjórnvöld og hafa yfirumsjón með rafmagnsöryggismálum. Meðal helstu verkefna Mannvirkjastofnunar eru:

  1. að annast gerð leiðbeininga, verklagsreglna og skoðunarhandbóka á fagsviði stofnunarinnar í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og aðra hagsmunaaðila,

  2. að bera ábyrgð á markaðseftirliti með byggingarvörum,

  3. að annast aðgengismál,

  4. að hafa eftirlit með vörnum gegn hættu og tjóni af raforkuvirkjum, neysluveitum og rafföngum og truflunum af þeirra völdum o.fl.

Felur kvörtun í sér verðmæti? Grein Kristínar Lúðvíksdóttur í Viðskiptablaði Mbl.

Felur kvörtun í sér verðmæti?

Viðskiptavinur er óánægður ef hann upplifir þjónustu undir væntingum og sýna flestar kannanir að fæstir kvarta með formlegum hætti. Að kvarta kostar tíma og fyrirhöfn og oft vita viðskiptavinir ekki hvar á að koma kvörtunum á framfæri. Þeir sem láta þjónustuveitanda ekki vita af óánægju sinni eru líklegri til að segja vinum og vandamönnum frá og geta margföldunaráhrif slíkrar umræðu orðið veruleg. Sumir túlka hugtakið kvörtun á neikvæðan hátt, en í raun á það fremur skylt við jákvæð hugtök, endurgjöf, ábendingu, ráðgjöf o.s.frv. Sá sem leggur fram kvörtun er að standa vörð um réttindi sín. Hann fer ýmist fram á leiðréttingu á umræddum mistökum, skaðabætur eða vill einfaldlega koma ábendingu á framfæri. Vel framsett kvörtun eykur líkur á farsælli úrlausn. Æskilegt er að kvörtun sé hnitmiðuð, að hún lýsi helstu staðreyndum máls og skýrt sé hverjar væntingar um úrlausn eru. Mikilvægt er að sá sem kvartar dragi ekki úr mikilvægi kvörtunarinnar því hann er að gera þjónustuveitandanum greiða. Þjónustuveitandi sem tekur faglega á móti kvörtunum og hefur gott aðgengi fyrir slík erindi gefst tækifæri til að bæta fyrir það sem miður fer. Ef viðskiptavini er gert erfitt fyrir að koma kvörtun á framfæri eru meiri líkur á að óánægja hans aukist, hann gefist upp og segi öðrum frá upplifun sinni.Kvörtun getur falið í sér mikil verðmæti ef hún er meðhöndluð rétt. Með faglegri meðhöndlun kvörtunar nær þjónustuveitandi að koma í veg fyrir frekari skaða, gera óánægðan viðskiptavin ánægðan og læra af mistökum. Að taka fagnandi á móti kvörtun og leysa hana á farsælan hátt felur í sér þau verðmæti að þjónustuveitandinn stendur uppi með ánægðan og tryggan viðskiptavin og bætt þjónustustig

Samskipti hafa mestu áhrif á ánægju verkkaupa

Samtök iðnaðarins tóku rausnarlega á móti Stjórnvísifélögum á þessum fallega haustdegi í höfuðborginni. Anna Hulda Ólafsdóttir kynnnti niðurstöður meistaraverkefnis síns "Áhrif gæðastjórnunar á mannvirkjagerð". Anna Hulda nefndi að almennt væri staða gæðastjórnunar í mannvirkjagerð frekar slök og finnst 61% verktaka vanta stöðlun í útboðsgerð. Helstu vandamálin við innleiðingu á gæðastjórnun í mannvirkjagerð er skortur á ISO 9001. Mjög sterk fylgni er á milli öryggismála og þess hvort verktaki vinnur eftir stöðluðu gæðastjórnunarkerfi. Þeir þættir sem hafa mestu áhrif á ánægju verkkaupa eru 1. verkfundir, því fleiri fundir eða samskipti því meiri ángæja 2) þjónustulund 3)gæði verksins 4)gæðatrygging 5)vönduð tímaáætlun 6)umgengni 7)öryggismál 8)starfslýsingar. Verkefni Önnu Huldu er einstaklega vel unnið og niðurstöðurnar áhugaverðar. Slæður af fundinum munu birtast á innrivef Stjórvísi.

Farðu í mat! Grein Unnar Valborgar birtist í Viðskiptablaði Mbl. 8.sept.2011

Farðu í mat!
Það kannast flestir við þá tilfinningu að koma til vinnu að nýju eftir gott sumarfrí. Vissulega bíður margt afgreiðslu en eftir frí getum við tekist á við nánast hvað sem er. Við erum uppfull orku og krafti og höfum jafnvel fengið ótrúlega góðar hugmyndir í fríinu sem við erum spennt að hrinda í framkvæmd (Þeir sem ekki kannast við þessa tilfinningu ættu kannski að íhuga að taka lengra sumarfrí eða skipta um vinnu!). Nokkur fyrirtæki erlendis sáu sér leik á borði eru farin að bjóða starfsfólki meira frí en lög gera ráð fyrir til að auka afköst. Það er vissulega ein leið til að viðhalda „eftirsumarleyfisorkuskotinu“ en til eru einfaldari og ódýrari leiðir.
Tony Schwartz og rannsóknarteymi hans í The Energy Project, sérhæfa sig í því að viðhalda háu orkustigi starfsmanna fyrirtækja og auka þar með árangur þeirra. Þau hafa sýnt fram á að með einföldum aðgerðum geti fyrirtæki og starfsmenn margfaldað afköst og aukið starfsánægju svo um munar. Hér eru örfá einföld ráð frá Tony og hans fólki:

  1. Farðu alltaf í mat - stattu upp frá vinnunni, farðu út af vinnustaðnum, teygðu úr þér og talaðu við fólk um eitthvað annað en vinnuna.
  2. Hreyfðu þig - fátt viðheldur orkunni betur en regluleg líkamleg áreynsla.
  3. Borðaðu reglulega yfir daginn - hollar, litlar máltíðir til að koma í veg fyrir orkuleysi og slappleika sökum of- eða sykuráts.
  4. Gefðu þér 90 mínútur - byrjaðu alltaf daginn á því að verja 90 mínútum í að skipuleggja verkefni þín. Þannig tryggir þú vinnu við mikilvægustu verkefnin hverju sinni og þar með aukinn árangur.
    Hugsaðu þér...það er ekki flóknara en þetta að koma meiru í verk! Því ekki að prófa?
    Unnur Valborg Hilmarsdóttir, stjórnendamarkþjálfi hjá Vendum ehf.

Nýstárleg leið til að kynna framtíðarsýn Marel

Marel tók vel á móti Stjórnvísifélögum í morgun á fyrsta viðburði á vegum Lean faghópsins þetta starfsárið. Pétur Arason kynnti nýja leið til að kynna framtíðarsýn félagsins fyrir starfsfólki sem var einstaklega áhugaverð. Pétur sagði jafnframt frá því hvað það væri sem sameinaði starfsmenn alls staðar í heiminum og hvernig Marel byggir upp traust. Axel Jóhannsson sagði frá því helsta sem Marel hefur verið að vinna við í straumlínustjórnun og að lokum fór Rósa Björg Ólafsdóttir yfir það helsta sem vöruþróunarferli Marel hefur verið að vinna að í Agile/Lean málum.

Dynax ehf., nýtt Stjórnvísifyrirtæki

Dynax ehf. er rúmlega ársgamalt hugbúnaðarfyrirtæki sem samanstendur af öflugum hópi sérfræðinga með áratuga reynslu í upplýsingatækni. Þekking og reynsla starfsmanna spannar vítt svið og má þar m.a. nefna rekstur tölvu- og hugbúnaðarkerfa, smíði og innleiðingu hugbúnaðarlausna, smíði og innleiðingu gæðakerfa, verkefnastjórnun hugbúnaðar- og gæðaverkefna, stjórnun tölvudeilda fyrirtækja, þjónustu við upplýsingakerfi, ráðgjöf við val á hug- og vélbúnaðarlausnum, fræðslu og námskeið í upplýsingatækni ofl..
Helstu vörur og þjónusta eru:
• Þjónusta við Microsoft Dynamics AX (Axapta) ásamt smíði á sérlausnum og vörum.
• Söluaðilar Microsoft Dynamics AX.
• Rekstur Microsoft Dynamics (AX / NAV) viðskiptakerfa 365 daga á ári fyrir fast mánaðargjald.
• Smíði veflausna m.a. innri vefir, ytri vefir sem byggja á SharePoint eða öðrum vefumsjónarkerfum.
• Smíði vefþjónusta fyrir t.d. tengingar milli kerfa þ.e. samþætting upplýsingakerfa.
• Nori, skráningar- og greiðslukerfi fyrir tómstundastarf, ráðstefnur, fundi ofl.
• Verkefnastjórnun hugbúnaðar- og gæðaverkefna
• Ráðgjöf í upplýsingatækni t.d. val á vélbúnaði, hugbúnaði, gagnagrunnum ofl.
• Ráðgjöf i gæðamálum
• Sérhæfð fræðsla og námskeið í upplýsingatækni

Það ríkir mikill hugur í stjórn og forsvarsmönnum faghópa Stjórnvísi

Það ríkti mikill hugur í stjórn og forsvarsmönnum faghópa Stjórnvísi þegar þeir kynntu metnaðarfulla haustdagskrá sína á sameiginlegum fundi í gær. Góð mæting var og dæmi um fundi sem eru framundan: Hvernig á að stjórna stjörnum? Stefnumótun og framkvæmd hjá Velferðaráðuneytinu, Stefnumiðuð stjórnun og árangur Landspítalans, Stjórnun mismundandi kynslóða á vinnumarkaði, Árangur í stefnumótun, Heilsustefnu o.m.fl. Fjöldi spennandi ráðstefna og funda er framundan og félagar því hvattir til að fylgjast vel með viðburðum sem birtast á heimasíðu félagsins.

Við erum ólík - pistill Helgu Fjólu Sæmundsdóttur í Mb l. 1.sept.2011

Ég tel mig vera lánsama að vinna í fyrirtæki þar sem ég fæ og næ að vera ég sjálf. Ég þyki svolítið hávær, tala mikið, hlæja hátt og vera blátt áfram. Svo á ég það til að vera örlítið þrjósk - hver er það ekki? Þetta eru »eiginleikar« sem sjálfsagt stuða einhverja; sumir hafa gaman af og aðrir umbera.

Það er hins vegar hluti af fyrirtækjamenningu Íslenska gámafélagsins að við berum virðingu fyrir því gildi að við erum ólík. Við einbeitum okkur að styrkleikum okkar, gerum grín að veikleikum og höfum rétt á að vera við sjálf.

Fræðimenn rökræða enn um raunverulega skilgreiningu á fyrirtækjamenningu og merkingu hugtaksins. Hún byggist á fjölmörgum þáttum eins og gildum, viðhorfum, trú, samskiptamynstri og hegðun. Erfitt er að kortleggja hana vegna þess að hún er flókin. Það er heldur ekki hægt að tala um rétta eða ranga fyrirtækjamenningu; í rauninni er engin betri eða verri. Menninguna þarf að skoða út frá því hvernig fyrirtækið er og umhverfinu sem það starfar í.

Sterk og sveigjanleg fyrirtækjamenning er hins vegar oft talin skýringin á góðum langtímarekstri og hefur verið sýnt fram á að hún skilar t.d. minni starfsmannaveltu og aukinni framleiðni svo eitthvað sé nefnt. Þar sem fyrirtækjamenning er flókið fyrirbæri verða stjórnendur að vera meðvitaðir um að menningin verður til í samskiptum manna og aðstæðna á löngum tíma og því ekki raunhæft að ætlast til skjótra breytinga.

Ég hvet alla stjórnendur til að íhuga þá menningu, sem er í fyrirtækjum þeirra, og reyna að kortleggja hana þrátt fyrir flækjustig. Það eykur skilning á sjálfu fyrirtækinu og kemur sér vel við ýmis tækifæri s.s. í ráðningum og þjálfun nýrra starfsmanna

Kveðja frá Jóni G. Haukssyni formanni stjórnar Stjórnvísi

Kæru félagsmenn í Stjórnvísi.

Starfið í Stjórnvísi er að komast á skrið aftur eftir sumarfrí.

Staða félagsins er sterk og það er mikill einhugur í stjórninni um að viðhalda því kraftmikla starfi faghópa sem var svo áberandi síðasta vetur.

Ég hvet alla félagasmenn til að mæta á fund stjórnar með forráðamönnum faghópa næstkomandi fimmtudag, 1. september, að Ofanleiti 2. Fundurinn hefst kl. 15:30 og munu stjórn og faghópar ræða um það sem verður efst á baugi í félaginu næstu mánuði.

Þetta er sams konar fundur og var haldinn í byrjun september í fyrra og gafst hann einstaklega vel - auk þess sem ánægjulegt var að sjá hversu margir almennir félagar sáu sér fært að mæta.

Stjórnvísi fagnar 25 ára afmæli á þessu ári og er við hæfi að halda upp á þau tímamót á þessu starfsári.

Rétt er að geta þess að á síðasta stjórnarfundi tilkynnti einn stjórnarmanna, Einar Skúli Hafberg, að hann væri að flytjast til Noregs og að hætta í stjórninni.

Einari Skúla eru þökkuð afar vönduð og góð störf fyrir félagið - ekki síst hefur hann látið vef félagsins til sín taka.

Ég hlakka til að sjá ykkur sem flest á fundinum í Ofanleiti nk. fimmtudag.

Dugmikið og gefandi starf er framundan.

Með kveðju,
Jón G. Hauksson, formaður stjórnar Stjórnvísi.

Áhugaverð haustdagskrá Stjórnvísi kynnt 1.september

Allir Stjórnvísifélagar eru hvattir til að mæta þegar stjórnir faghópa kynna áhugaverða haustdagskrá sína. Kynningin verður haldin fimmtudaginn 1.september kl.15:30 í Ofanleiti 2.

Nýr vefur Stjórnvísi opnaður

Það er Stjórnvísi mikil ánægja að tilkynna félgsmönnum að nýr vefur hefur verið opnaður. Vefurinn er í vinnslu og verið er að setja inn upplýsingar.

Mannauður er sterkasta vopnið

Grein skrifuð af Júlíu Þorvaldsdóttir, sviðsstjóra farþegaþjónustusviðs Strætó birtist í Viðskiptablaði Mbl. 12.maí. 

Mótun mannauðsstefnu:  Það er nauðsynlegt að fyrirtæki geri upp við sig hvernig það vill kynna og sýna mannauð sinn fyrir hagsmunaðilum. Hægt er að segja að þau fyrirtæki sem aðhyllast nútíma stjórnunarháttum hafi mörg hver valið að kynna sig í gegnum mannauð sinn og tefla honum fram sem sterkasta vopninu til árangurs.
Mannauðsstefna segir til um hvernig fyrirtæki vill líta út gagnvart starfsfólki sínu og getur verið öflugt tæki sem tengir saman leið starfsfólks og stjórnenda að sameiginlegum markmiðum og leggur að jöfnu hagsmuni stefnu fyrirtækis og starfsfólks. Hægt er að líta á mannauðsstefnu sem áætlun í mannauðsmálum sem byggir á að fyrirtæki hafi rétta aðila, á réttum stað, í réttum störfum hverju sinni. Tilgangur mannauðsstefnu innan fyrirtækja styður við nýtingu mannauðsins til að ná settum markmiðum, því skýrari sem hún er því auðveldara ætti að vera fyrir starfsfólk að fylgja heildarstefnu fyrirtækisins. Mannauðsstefna ætti að geta upplýst starfsfólk um hverju það getur átt von á frá því fyrirtæki sem það starfar hjá. Ásamt því ætti stefnan að innihalda væntingar fyrirtækisins til starfsfólks svo það geri sér grein fyrir hvers er vænst af því.
Hægt er að líta á mannauðsstefnu hvers fyrirtækis sem einstaka, að því leyti að starfsmannahópurinn er hvergi eins. Þau fyrirtæki sem skilgreina sig sem þjónustufyrirtæki gætu skapað aukið virði meðal viðskiptavina sinna með uppbyggingu góðrar þjónustu sem erfitt er að leika eftir fyrir önnur fyrirtæki. Velgegni þessara fyrirtækja ræðst oft af hæfileikum þeirra til að bæta starfsemi sína og styrkja hana. Við þá vinnu er samsetning mannauðs gífurlega mikilvæg og mikilvægi mannauðsstefnu ljós.
Við mótun mannauðsstefnu er skynsamlegt að þeir stjórnendur sem bera ábyrgð á henni hvetji starfsfólk til þátttöku við vinnuna. Við þá vinnu er æskilegt er að ná til hóps starfsfólks sem mannauðsstefnan á að tilheyra. Ef það á að takast þarf að vera góð samvinna á milli aðila svo gagnkvæmur skilningur verði á sýn mannauðsmála innan fyrirtækisins. Með því eykst virðing starfsfólksins fyrir stefnunni, það upplifir frekar eignarhald sitt á hönnun hennar, gagnkvæmur skilningur skapast á milli stjórnenda og starfsfólks ásamt því að það finnur til sín vegna þeirrar vinnu sem það hefur lagt til. Til viðbótar við stjórnendur og starfsfólk er mikilvægt að ólíkir aðilar komi að vinnunni, þar sem hver og einn kemur sjónarmiðum sínum og áherslum á framfæri. Hægt að nefna utanaðkomandi aðila í því samhengi líkt og sérhæfða ráðgjafa og fræðimenn á því sviði sem mannauðsstefna tilheyrir.
Skynsamlegt er talið að þegar kemur að mótun mannauðsstefnu ætti að hafa skýra áætlun um tiltekna hönnun, áætlanagerð mannauðs. Þá er oft á tíðum horft til stefnumiðaðrar mannauðsstjórnunar og stefnumótunar. Áætlanagerð getur virkað sem öflugt stjórntæki sem er til margs nýtt, sem dæmi má nefna ólíkar hugmyndir við stefnumótunarvinnuna þar sem settar eru fram orsakir og afleiðingar. Ekki má gleyma að oft á tíðum getur áætlanagerð virkað hvetjandi á stjórnendur og ýtt undir skapandi hugsun.
Með nýrri og breyttri áherslu í stjórnun fjölmargra fyrirtækja gera stjórnendur sér grein fyrir hversu dýrmætt það er að búa yfir stöðugleika í starfsumhverfinu og að hlúa að starfsfólki eflir starfsmannahópinn. Með mótun og innleiðingu mannauðsstefnu getur fyrirtæki vænst þess að nýir þættir komi fram eða að þeir sem fyrir eru eflist, þeir þættir geta verið fléttaðir saman við innihald mannauðsstefnu eða geta verið bein afurð virkrar mannauðsstefnu.
Mannauðsstefna er eins og allar aðrar stefnur, áætlun um það sem verða vill. Mannauðsstefnan ætti að endurspegla heildarstefnu hvers fyrirtækis og vera óaðskiljanlegur partur af henni. Mannauðsstefna er undirstefna og nær aldrei lengra en heildarstefna hvers fyrirtækis, ef fyrirtækið hefur ekki skýra framtíðaráætlun er ekki hægt að sjá hver framtíðaráætlun þess er í mannauðsmálum.

Júlía Þorvaldsdóttir.
Sviðsstjóri farþegaþjónustusviðs Strætó.
 

Grein eftir Vilhjálm Kára Haraldsson:Hvað gefst vel í stjórnun?

Grein eftir Vilhjálm Kára Haraldsson "Hvað gefst vel í Stjónun" birtist í Viðskiptablaði Mbl. nýlega.  Að mati margra er eftirsóknarvert að stjórna. Flestum finnst það krefjandi en umfram allt gefandi og stjórnendur eru alla ævi að móta sinn stjórnunarstíl. Í stjórnunarnámi mínu opnaðist mér fjársjóðskista full verkfæra til að nýta í stjórnunarstarfinu. Þegar síðan á hólminn var komið og stjórnunarstarfið tók við kom margt í ljós, það sem átti að gefast vel virkaði ekki alltaf. Ég hef fengið tækifæri til að taka þátt í uppbyggingu og þróun þjónustu- og mannauðsmála hjá sveitarfélaginu Garðabæ og langar að deila reynslu minni um hvað hefur gefist vel?
Margar stofnanir setja sér gildi til að starfa eftir en það er ekki nóg, gildin þurfa að vera skýr, endurspegla menningu vinnustaðarins og vera sýnileg.  Flestum tekst vel upp við gerð gilda en oft er erfitt að fá starfsmenn til að lifa gildin. Hvort sem verið er að innleiða gildi eða huga að öðrum þáttum stjórnunar er mikilvægt að hlusta á raddir fólksins. Árangursrík leið til að hlusta á þessar raddir eru mælingar.
Mælingar eru öflugt tæki til að hafa áhrif á stjórnun. Mælt er með því að leggja fyrir kannanir eða hafa rýnihópa en stærsta áskorunin felst í hvað gera eigi við niðurstöðurnar?
Í fræðslumálum þarf að nýta vel fjármuni og skilgreina þarfir því margt er í boði. Að nýta þekkinguna sem býr í starfsmannahópnum er ein leið sem hægt er að fara því allir einstaklingar búa yfir hæfileikum og geta miðlað því sem þeir eru góðir í til hinna í hópnum. Miklum fjármunum er varið í námskeið en sjaldan er það krufið til mergjar hvort námskeiðið skilar einhverju til starfsmannahópsins. Mikilvægt er að hafa markmiðin skýr, kerfisbundnar mælingar fari fram og málum sé fylgt eftir til að tryggja árangursríka stjórnun.
Þrátt fyrir ógrynni verkfæra til að bæta stjórnun kemur ekkert í staðinn fyrir hið mannlega innsæi, því þegar öllu er á botninn hvolft þá er verkefni stjórnanda að stýra fólki sem hefur tilfinningar.
Vilhjálmur Kári Haraldsson
mannauðsstjóri Garðabæjar

Aðalfundur Stjórnvísi 2011

Ný stjórn Stjórnvísi var kjörin á aðalfundi félagsins á dögunum. Jón G. Hauksson, ritstjóri Frjálsrar verslunar, var kjörinn nýr formaður félagsins til eins árs og tók hann við af Margréti Reynisdóttur sem gegnt hefur formennskunni sl. tvö ár.
 
Stjórnvísi er stærsta stjórnunarfélag á Íslandi með yfir ellefu hundruð félagsmenn sem koma frá á þriðja hundrað fyrirtækja. Það er áhugamannafélag í eigu félagsmanna og starfar ekki með fjárhagslegan ágóða í huga.
 
Félagið er opið öllum einstaklingum og fyrirtækjum sem hafa áhuga á stjórnun – og vilja fylgjast með nýjustu stefnum og straumum í stjórnun hverju sinni. Félagið er tuttugu og fimm ára á þessu ári og hét áður Gæðastjórnunarfélag Íslands. Kjarnastarfið fer fram í nítján faghópum um stjórnun.
 
Mikill kraftur var í félaginu á síðasta ári. Það hélt átta ráðstefnur og fluttu 135 fyrirlesarar erindi á ráðstefnum og fundum faghópa og voru gestir yfir 2.600 talsins.
 
Eftirfarandi eru í nýrri stjórn Stjórnvísi: Jón G. Hauksson formaður, Einar Skúli Hafberg, Guðmundur S. Pétursson, Hrefna Briem, Sigríður Þrúður Stefánsdóttir, Einars S. Einarsson og Teitur Guðmundsson.
 
Varamenn í stjórn eru Agnes Gunnarsdóttir og Fjóla María Ágústsdóttir.
 
Framkvæmdastjóri Stjórnvísi er Gunnhildur Arnardóttir.
 

Boot Camp nýtt fyrirtæki í Stjórnvísi

Stjórnvísi býður Boot Camp hjartanlega velkomið í hóp Stjórnvísifyrirtækja. Boot Camp er sérþróuð æfingaraðferð sem byggist á æfingum og þekkingu þeirra Arnalds Birgis Konráðssonar og Róberts Traustasonar sem upphaflega mótuðu kerfið.
Með tilkomu Boot Camp árið 2004 varð vakning í líkamsræktargeiranum á Íslandi. Í áraraðir höfðu Íslendingar sótt í stóra tækjasali og æft þar á hlaupabrettum og í hinum ýmsu tækjum. Boot Camp vakti aftur upp áhugann á því að þjálfa á einfaldan og árangursríkan hátt og fólk áttaði sig á því að það er hægt að hafa gaman af því að æfa.
Allir þjálfarar Boot Camp hafa klárað sérstakt þjálfaranámskeið Boot Camp sem byggir á þeim kröfum sem Boot Camp gerir til allra þjálfara sinna; að þeir hafi sjálfir upplifað æfingarnar og meira til. Þjálfararnir læra því fljótt á mörk hvers og eins og  skiptir þá engu máli í hvernig formi fólk er. Hver og einn kemur hingað með því markmiði að fá sem mest út úr hverri æfingu og með ákveðnum en jákvæðum hvatningum þjálfara er öruggt að allir fara þreyttir en ánægðir út.
Höfuðstöðvar Boot Camp eru að Suðurlandsbraut 6b og eru meðlimir stöðvarinnar um 1000. Boot Camp hefur náð mikilli útrbreiðslu á landsbyggðinni og má þar nefna Akureyri, Akranes, Bifröst, Hveragerði, Hellu, Hvolsvöll, Keflavík og Selfoss.
Fyritækjaþjálfun er stór hluti af starfsemi Boot Camp. Má þar nefna samstarf við Marel, KPMG, VÍS, Samskip og fleiri fyrirtæki. Boot Camp hefur frá árinu 2010 unnið með Vinnumálastofnun
í þeim tilgangi að styrkja einstaklinga í atvinnuleit.
Stofnendur Boot Camp þeir Arnaldur Birgir og Róbert hafa gefið út tvær bækur í samstarfi við Forlagið. Fyrri bókin kom út árið 2009 og er uppseld. Sú seinni kom út árið 2011.
Það er markmið okkar að vera leiðandi á sviði líkamsræktar og í því sem við gerum best, að bjóða trausta og góða þjónustu

Grein eftir Guðrúnu Hafsteinsdóttur: Tækifæri í öllum aðstæðum

Grein eftir Guðrúnu Hafsteinsdóttur, markaðsstjóra hjá Kjörís og stjórnarmaður í SI birtist í Viðskiptablaði Mbl. 28.apríl sl.
Efnahagslegt umhverfi Íslendinga ætti að hvetja okkur til að finna þau tækifæri í viðskiptalífinu sem eru allt í kringum okkur. Síðustu misseri hefur verið  einblínt um of á það sem hefur farið úrskeiðis; hvað okkur vantar í stað þess sjá hvað við höfum og hvað við eigum til að spila úr; -  sem er heilmikið. Í þessu ljósi langar mig að rifja upp nokkra örlagaþætti sem höfðu mikil áhrif á rekstur þess fyrirtækis sem ég tengist, Kjörís. Þeir eiga það sammerkt að finna tækifæri í stöðu sem oft á tíðum virtist vonlaus.
Þegar niðurgreiðslur á smjöri til ísgerðar voru afnumdar 1969 var tekin sú ákvörðun að nota jurtafitu í ísinn í stað smjörs. Þarna náðist að snúa ógnun upp í tækifæri.
Starfsmenn Kjörís sáu fyrstir tækifæri í að framleiða frostpinna á Íslandi sem styrkti grunn fyrirtækisins svo um munaði.
Þrátt fyrir úrtöluraddir fólst tækifæri í því að leggja niður starfsstöð fyrirtækisins í Reykjavík og færa reksturinn undir eitt þak í Hveragerði.   
Þegar plastverð hækkaði eftir efnahagshrunið sáu starfsmenn tækifæri í því að hverfa til fortíðar og bjóða upp á ís á nýjan leik í umhverfisvænum pappaöskjum. Neytendum líkaði þetta vel og við náðum að halda verðinu í horfinu.
Vegna hækkandi verðs leituðum við leiða til að framleiða í auknum mæli hráefni til framleiðslunnar; hráefni sem áður voru flutt inn.
Í upphafi efnahagshrunsins voru allir starfsmenn fyrirtækisins virkjaðir og beðnir um að koma auga á mögulegan sparnað. Fjöldi verkefna, stórra sem smárra, komu út úr þeirri vinnu. Öll hafa þau átt sinn þátt í því að fleyta fyrirtækinu í gegnum öldusjó núverandi efnahagslægðar.
Þetta eru aðeins lítil brot sem sýna okkur að tækifærin eru alltaf handan við hornið. Það er skylda okkar allra að horfa á aðalatriðin og sjá skóginn í heild en einblína ekki á einstök tré. 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?