Fréttir og pistlar
Samskipti í fullri alvöru
Hvað skyldi ráða mestu um það hvort við náum árangri í rekstri? Ætli það sé það sama og fær mesta athygli stjórnenda? Líklega ekki, ef marka má niðurstöður rannsókna um árangur fyrirtækja. Þær sýna að 10-30% fyrirtækja ná þeim árangri sem þau stefna að. Þetta hlutfall virðist eiga við sama hvar borið er niður. Í verkefnum um innleiðingu á stefnu eða nýjum upplýsingakerfum, í stórum mannvirkjaframkvæmdum, við samruna fyrirtækja eða í öðrum verkefnum.
Hver gæti skýringin verið? Flestum ber saman um að samskipti hafi mikil áhrif á árangur. En hversu markvisst vinnum við með samskipti á vinnustöðum og hversu mikla athygli veitum við gæðum samskipta? Mörkum við stefnu um hvernig við viljum nýta samskiptaleiðir? Ef samskiptastefna er fyrir hendi, er hún þá í takt við meginstefnu og markmið fyrirtækisins? Gerum við áætlanir um hvað við viljum fá út úr samskiptum? Reiknum við með kostnaði vegna samskipta í fjárhagsáætunum? Þjálfum við stjórnendur og starfsmenn í árangursríkum samskiptum? Mælum við árangur af samskiptum sem eiga sér stað? Hver ber ábyrð á því að samskiptin í fyrirtækinu skili árangri?
Með öðrum orðum, erum við að meðhöndla samskipti eins og aðra mikilvægi þætti í rekstri, svo sem stjórnun sölu- og markaðsmála, fjármál, framleiðslustýringu, birgðastýringu, gæðastjórnun, mannauðsstjórnun og vöruþróun? Rannsóknir sýna að fyrirtæki sem veita samskiptum athygli og vinna markvisst með samskipti eins og aðra mikilvæga þætti í rekstri, skila 47% betri rekstrarnipurstöðu en önnur fyrirtæki. Í fullri alvöru, verða samskiptin hluti af þínum áætlunum í framtíðinni?
Sigrún Þorleifsdóttir, eigandi Vendum ehf.
Hafa boðið sig fram til stjórnar Stjórnvísi 2012-2013
Kæru Stjórnvísisfélagar.
Aðalfundur Stjórnvísi verður haldinn á veitingahúsinu Nauthóli fimmtudaginn 10. maí og hefst hann kl. 15:30.
Fundurinn hefur þegar verið auglýstur með löglegum fyrirvara en í sömu auglýsingu var minnt á að allir félagsmenn geta boðið sig fram til stjórnar og formennsku. Í stjórninni sitja 7 aðalmenn og 2 varamenn.
Formaður félagsins er kjörinn til eins árs í senn og getur hann mest setið í tvö ár.
Meðstjórnendur eru kosnir til tveggja ára og þá ævinlega þrír í senn.
Tveir varamenn eru kjörnir til eins árs í senn og sitja þeir alla stjórnarfundi.
Eftirtaldir hafa boðið sig fram til stjórnar Stjórnvísi fyrir næsta starfsár 2012 til 2013:
Til formanns:
Jón G. Hauksson, ritstjóri Frjálsrar verslunar.
Til stjórnarsetu til næstu tveggja ára:
Agnes Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu-og markaðssviðs Íslenska gámafélagsins.
Fjóla María Ágústsdóttir, sérfræðingur á skrifstofu yfirstjórnar velferðaráðuneytisins.
Ingibjörg Eðvaldsdóttir, gæða- og öryggisfulltrúi Sorpu
Þorvaldur Ingi Jónsson, viðskipta-og stjórnunarráðgjafi.
Til varamanna í stjórn:
Sigurjón Þór Árnason, gæða-og öryggisstjóri Tryggingastofnunar ríkisins
Nótt Thorberg, markaðsstjóri Marel
Eftirtalin voru kosin á aðalfundi 2011 til tveggja ára og sitja áfram í stjórn næsta starfsárs:
Einar S. Einarsson, framkvæmastjóri þjónustu-og sölusviðs ÁTVR.
Hrefna Briem, umsjónarmaður BSc náms í Háskólanum í Reykjavík.
Teitur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Heilsuverndar.
Til skoðunarmanna reikninga:
Bára Sigurðardóttir viðskiptafræðingur, mannauðsstjóri Termu.
Arney Einarsdóttir, lektor í HR og framkvæmdastjóri hjá HRM - Rannsóknum og ráðgjöf.
Til fagráðs:
Auður Þórhallsdóttir, mannauðsráðgjafi hjá Samskipum.
Davíð Lúðvíksson, forstöðumaður stefnumótunar- og nýsköpunar hjá
Samtökum iðnaðarins.
Kristín Kalmansdóttir, sviðsstjóri stjórnsýslusviðs hjá Ríkisendurskoðun
Kristinn Tryggvi Gunnarsson, ráðgjafi hjá Expectus og kennari við HR.
Unnur Valborg Hilmarsdóttir, ráðgjafi hjá Vendum.
Rekstrarfélag stjórnarráðusbygginga tók vel á móti stjórnvísimeðlimum í morgun á áhugaverðum fundi um aðgangsstjórnun. Framkvæmdarstjóri félagsins Guðmundur H. Kjærnested kynnti fyrir okkur það verkefni sem þeir eru búnir að vinna að undanfarin 3 ár til að koma aðgangsmálum allra ráðuneytana í góðan farveg. Þau kölluðu lokamarkmiðið Draumalandið en í því fólst samtenging allra kerfa og aukið upplýsingaflæði. Til verksins er notað m.a. Tivoli kerfi frá IBM, Access Management (TAM) og Identity Management (TIM).
Hér má sjá myndir af fundinum: http://www.facebook.com/media/set/?set=a.332652700136020.78914.110576835676942&type=1
Hvar er hægt að beita gæðastjórnun?
Gæðastjórnun á meðal annars að draga fram hvernig fyrirtækjum er stjórnað og hvernig hlutverk stjórnenda getur skapað fyrirmyndarfyrirtæki.
Sumir eru þeirra skoðunar að gæðastjórnun eigi ekki alls staðar við, eða það borgi sig ekki að innleiða þessa stjórnarhætti vegna kostnaðar eða þá að fyrirhöfnin við innleiðingu sé of mikil, t.d. í formi skriffinnsku. Einnig eru dæmi um að þegar harðnar í ári - sparnaðarleiðir eru kortlagðar - að þá séu gæðakerfin skorin af.
Það er ekki alltaf skilningur á því hvað felst í gæðastjórnun. Öll fyrirtæki og stofnanir, s.s. heilbrigðisstofnanir eða skólar, eiga að sjá hag í því að vinna samkvæmt hugmyndafræði gæðastjórnunar. Öll fyritæki og stofnanir eiga sér viðskiptavin sem annað hvort greiðir beint fyrir þjónustuna eða nýtur hennar og greiðir fyrir t.d. í formi skatta. Það er sama hvort er. Í öllum tilfellum eiga viðskiptavinir heimtingu á að fá þá bestu þjónustu sem hægt er að veita hverju sinni; í því felst gæðastjórnunin. Það er hægt að innleiða gæðastjórnun alls staðar. Við sem þegnar þessa lands eitum t.d. heimtingu á að gæðastjórnun sé innleidd í ríkisstjórn og Alþingi - sem og í opinberri stjórnsýslu.
Algengar kröfur til gæðastjórnunar eru innleiðing á gæðastjórnunarstaðli eins og t.d. ISO 9001 sem er stjórnunarstaðall fyrirtækja eða stofnana. Þessi staðall á alls staðar við. Ég fullyrði að ef fyrirtæki eða stofnanir myndu innleiða hann og uppfylla kröfur hans þá myndi það skila ávinningi þegar í stað.
Að lokum vil ég benda á starfsemi Stjórnvísi - stærsta stjórnunarfélags landsins með yfir 1.700 félagsmenn. Þar starfa 18 faghópar með það að markmiði að efla alla þætti gæðastjórnunar. Ég hvet ykkur til að skoða starfsemi félagsins og verið velkomin upp í vagninn þið ykkar sem eruð ekki á honum nú þegar.
Höfundur texta er Guðmundur S. Pétursson, gæðastjóri Landsvirkjunar.
Náma er dótturfélag North Atlantic Mining Associates Ltd sem er skráð í UK. Náma sinnir verkefnum fyrir systurfélög sín sem halda utan um leitarleyfi fyrir málma og aðrar nátturuauðlindir á Grænlandi. Verið er að leita að járni á norð-vestur Grænlandi og á austurströnd Grænlands er verið að leita kolum og öðrum steinefnum svo sem blý, zink, gull og fl. Nánari upplýsingar um félagið er að finna á heimasíðu þess www.namaltd.co.uk
Auk þess að sjá um gerð eignaskiptasamninga fyrir fjöleignarhús býður Eignaskipting upp á ýmis konar aðra þjónustu fyrir fasteignaeigendur, húsbyggjendur og hönnuði.
- Gerð eignaskiptayfirlýsinga (eignaskiptasamninga).
- Skoðun húsnæðis vegna leigu.
- Ástandsskoðun húseigna vegna sölu/kaupa eða útleigu eigna.
- Almenn matsstörf og kostnaðarmat.
- Gerð kostnaðaráætlana vegna framkvæmda eða lagfæringa..
- Hlutlaust mat á kostnaði í deilumálum.
- Tilboðsgerð fyrir verktaka.
Hægt er að nálgast upplýsingar um alla þessa þjónustuþætti á heimasíðunni http://eignaskipting.is/ og svo er að sjálfsögðu velkomið að senda fyrirspurn og við svörum eins fljótt og auðið er.
Þann 2. -4. maí verður sannkölluð veisla fyrir Lean áhugafólk hér á landi. Þá kemur dr. Jeffrey K. Liker hingað til lands, verður einn af aðalfyrirlesurunum á ráðstefnunni Lean Ísland 2012 og býður í framhaldinu upp á þrjú hálfsdagsnámskeið sem enginn ætti að láta framhjá sér fara. Efni námskeiðanna verður eftirfarandi: Why a Long-Term Philosophy is Necessary to Create a High Performance Culture, Engaging People in Lean Transformation og síðast en ekki síst Leaders Leading Lean Transformation.
Það er mikill fengur að fá Liker hingað til lands þar sem hann er eitt af stærri nöfnunum í Lean heiminum í dag. Hann starfar sem prófessor við háskólann í Michigan, stýrir Lean ráðgjafafyrirtæki, starfar sem lean ráðgjafi og fyrirlesari, hefur gefið út 7 bækur um Lean fræðin og hefur margsinnis hlotið verðlaun og viðurkenningar fyrir skrif sín. Án efa er bókin The Toyota Way: 14 Management Principles from the World's Greatest Manufacturer, þekktasta bókin sem hann hefur skrifað af þeim sjö sem hann hefur gefið út. Samtals hefur hann hefur selt 1,3 milljónir bóka um víða veröld og hafa bækur hans verið þýddar á 26 tungumál.
Frekari upplýsingar er að finna á www.lean2012.is og má þar finna yfirlit og góða lýsingu á dagskránni sem boðið er upp á auk upplýsinga um aðra fyrirlesara á ráðstefnunni. Dagskráin er skemmtilega upp sett og er bæði ætluð byrjendum og lengra komnum í fræðunum sem hentar íslenska lean heiminum afar vel.
Skinnfiskur er nýr aðili í Stjórnvísi. Allar upplýsingar um fyrirtækið má finna á www.skinnfiskur.is
Allar nánari upplýsingar um Bílaleigu Flugleiða eða Hertz er að finna á heimasíðu þeirra https://www.hertz.is/
Gullklúbbur Hertz, Hertz#1 Club Gold, auðveldar félagsmönnum sínum lífið, hvort heldur sem er við leik eða störf. Við vitum að tíminn er dýrmætur, hvort sem þú ert í viðskiptaerindum eða vilt nota tímann vel með fjölskyldunni. Gullklúbbur Hertz veitir viðskiptavinum okkar aðgang að þjónustu um allan heim og hlunnindum sem vaxa stig af stigi í hlutfalli við viðskiptaveltuna. Aðild að klúbbnum er ókeypis en getur svo sannarlega margborgað sig.
Meðlimir Gullklúbbs Hertz þurfa aðeins að sýna ökuskírteinið sitt og ná í bíllyklana á einum af 1000 afgreiðslustöðum Gullklúbbs Hertz í heiminum. Auk þess bjóða afgreiðslustaðir á fimmta tug stærstu flugvalla heims klúbbfélögum þá þjónustu að bíllinn og lyklarnir bíða hans á yfirbyggðu athafnasvæði Hertz á flugvellinum. Viðkoma á útleigustöð er þar óþörf.
Hægt er að skrá sig í Gullklúbbinn á öllum útleigustöðum Hertz á Íslandi eða sækja skjalið hér og koma því svo útfylltu á næstu útleigustöð. Einnig er hægt að senda okkur tölvupóst með nafni og heimilisfangi og við munum senda umsókn um hæl.
Stofnandi og eigandi Góðra samskipta er Andrés Jónsson. Andrés hefur starfað við fjölmiðla og almannatengsl í meira en 10 ár.
Andrés hefur haldið fjölda fyrirlestra um almannatengsl, krísustjórnun, samfélagsmiðla, markaðssetningu á netinu og atvinnuleit og hefur kennt á námskeiðum á vegum Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Akureyri. Andrés er núverandi formaður Almannatengslafélags Íslands.
Orkuveita Reykjavíkur er stærsti matvælaframleiðandi á Íslandi sagði Hafrún Þorvaldsdóttir, sölustjóri Orkuveitu Reykjavíkur á Leanfundi í morgun. OR skilgreinir sig í dag sem þjónustufyrirtæki í veiturekstri. Þörfin fyrir einfaldleikann varð þess valdandi að farið var af stað í Lean. Hjá OR ríkir mikil ISO menning. Kristjana Kjartansdóttir, gæðastjóri Orkuveitu Reykjavíkur
fór yfir þær miklu skipulagsbreytingarsem OR hefur gengið í gegnum á síðastliðnum misserum. Forsendan fyrir að ferlar virki eru mælingar og fengu fundarmenn að fara í þjónustuver OR og sjá þá mælikvarða sem eru sýnilegir öllum starfsmönnum á töflu.
Hér má sjá myndir af fundinum
http://www.facebook.com/media/set/?set=a.327123237355633.77575.110576835676942&type=1
Kæru félagar faghóps um heilbrigðismál
Faghópur um heilbrigðismál er að fara af stað aftur eftir nokkra hvíld. Mikil þörf er á samstöðu og samstarfs milli heilbrigðisstétta og að við höfum vettvang til að deila þekkingu og reynslu um stjórnun, nýsköpun og verðmætasköpun á sviði heilbrigðismála.
Eftir tvær vikur mun Héðinn sjúkraþjálfari hjá Styrk kynna verkefni sitt hreyfiseðla sem styrkt var af Velferðarráðuneytinu. Þetta verkefni er gott dæmi um framþróun á sviði heilbrigðismála.
Að lokum langar mig að nefna að það vantar fleiri aðila í stjórn faghópsins. Aðila sem vilja taka þátt í að byggja upp sterkan og faglegan hóp sem vill láta í sér heyra og taka reglulega púlsinn á spennandi hlutum sem eru að gerast á heilbrigðissviði. Sendið póst á undirritaða á annalara@klak.is.
Virðingarfyllst
Anna Lára Steingrímsdóttir
Stofnaður hefur verið nýr faghópur innan Stjórnvísi um samfélagsábyrgð fyrirtækja.
Markmið hópsins er að miðla þekkingu og reynslu á sviði samfélagsábyrgðar fyrirtækja. Markmiðið er einnig að kynna stefnumótun á sviði samfélagsábyrgðar, innleiðingu slíkrar stefnu, helstu verkfæri sem eru notuðog nýjar rannsóknir á þessu sviði.
Vinna við stefnumótun um samfélagsábyrgð fyrirtækja er tiltölulega ný í fyrirtækjum á Íslandi. Nýlega hafa sex fyrirtæki sameinast um að setja á laggirnar miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja, sem ber nafnið Festa. Verkefnið framundan er að efla almenna umræðu um samfélagsábyrgð, bæði innan fyrirtækja og í samfélaginu almennt. Festa er nýr meðlimur í Stjórnvísi og aðilar tengdir Festu, munu leiða faghópinn ásamt öðrum áhugasömum.
Hópurinn kemur saman einu sinni í mánuði yfir vetrartímann. Fundirnir eru oftast með því sniði að sérfræðingar og/eða þeir sem hafa reynslu á þessu sviði eru fengnir til að fjalla um tiltekið málefni sem er nánar kynnt hverju sinni. Ennfremur verða kynntar nýjar íslenskar rannsóknir á þessu sviði, en BS og meistararitgerðum um þetta málefni hefur fjölgað verulega.
Hópurinn er ætlaður
stjórnendum, sérfræðingum, háskólafólki, fulltrúum samtaka og öðrum þeim sem hafa áhuga á samfélagsábyrgð fyrirtækja.
Stjórnendur
Regína Ásvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð fyrirtækja
Finnur Sveinsson, sérfræðingur í samfélagsábyrgð, Landsbankanum
Magnús Þór Gylfason, yfirmaður samskiptasviðs, Landsvirkjun
Ketill Berg Magnússon, mannauðsstjóri Skipta
Guðný Helga Herbertsdóttir, upplýsingafulltrúi, Íslandsbanki
Gæðastjórnunarhópur Stjórnvísi hélt morgunverðarfund þann 12. apríl um gæðastjórnun í mannvirkjagerð. Aðsókn á fundinn var góð en hann sóttu um 40 manns. Fjallað var um stöðu gæðastjórnunar í mannvirkjagerð, ný mannvirkjalög og kröfur sem þar eru gerðar auk afburðaárangurs í rekstri íslenskra fyrirtækja. Greinilegt er að áhugi er fyrir málefninu og að ósk fundargesta eru nú fyrirlestrar frá fundinum aðgengilegir á innri vef Stjórnvísi. Hérna má sjá myndir af fundinum:
http://www.facebook.com/media/set/?set=a.324957620905528.77269.110576835676942&type=3
Úthrif
Þegar staða fyrirtækja er greind og stefna mótuð er yfirleitt einblínt á þætti sem tengjast rekstrinum sjálfum, viðskiptavinum, birgjum og samkeppnisumhverfi. Áhrif á umhverfi og samfélag að öðru leyti liggja oftast milli hluta. Þau ættu þó ekki endilega að gera það.
Úthrif (e. externalities) kallast öll þau áhrif, jákvæð eða neikvæð, sem rekstur fyrirtækja og stofnana hefur á umhverfi þeirra, en leiða ekki til kostnaðar fyrir fyrirtækið né hafa áhrif á verðlagningu vöru þess eða þjónustu. Mengun er þekkt dæmi um neikvæð úthrif. Gagnsemi sem nágrannar fyrirtækisins hafa af öryggiseftirliti er aftur dæmi um jákvæð úthrif. (Atvinnusköpun, áhrif á þjóðarframleiðslu eða virði vörumerkja eru hins vegar vitanlega ekki dæmi um úthrif.)
Þótt úthrifin valdi ekki beinum, sýnilegum kostnaði eða ávinningi fyrir fyrirtækið geta þau gefið vísbendingu um atriði sem hafa áhrif á rekstur þess. Fallegar og snyrtilegar höfuðstöðvar sem fegra umhverfið, öllum til hagsbóta, gætu líka laðað að hæft starfsfólk. Óþefur og mengun gætu fælt frá.
Hefðbundin greining stöðu og samkeppnishæfni tekur úthrifin ekki með í reikninginn. Áhrif þeirra geta þó oft verið umtalsverð. Því er skynsamlegt að vinna kerfisbundna greiningu á þeim jafnhliða hinni hefðbundnu greiningu. Hún getur leitt í ljós styrkleika, sýnt fram á tækifæri og afhjúpað veikleika og ógnanir sem haft geta umtalsverð áhrif á rekstur og samkeppnishæfni. Þótt fyrirtæki njóti ekki ávinningsins eða beri kostnaðinn af úthrifunum beint geta þau gefið vísbendingu um atriði sem rétt er að taka tillit til við stefnumótun.
Þorsteinn Siglaugsson
Sjónarrönd ehf.
Gæðastjórnunar-og ISO hópur Stjórnvísi héldu sameiginlega ráðstefnu nýverið sem nær 100 manns sóttu. Markmið ráðstefnunnar sem bar yfirskriftina "Kostar gæðastjórnun ekki neitt ?" var að sýna fram á að það þarf ekki að kosta mikið og jafnvel ekki neitt að vera með gæðastjórnun. Mikil ánægja var með ráðstefnuna og höfðu ráðstefnugestir fyrir því að senda þakkarbréf. Einn gestanna skrifaði: "Mér fannst mjög gaman að hlusta á fyrirlesarana, allt svo vandað og gott. Stjórnvísi vinnur frábært starf og grasrótarstarfið er mikilvægt og skilar miklu. Það er alltaf gaman að fá að vera með ykkur. " Efni fyrirlesara er meðfylgjandi ásamt myndum af ráðstefnunni.
Meðfylgjandi eru myndir af ráðstefnunni.
http://www.facebook.com/media/set/?set=a.321343404600283.76426.110576835676942&type=1
Stofnaður hefur verið faghópur um Verkefnastjórnun
Faghópur um verkefnastjórnun starfar á víðu sviði verkefnastjórnunar.
Markmið:
Markmið faghópsins er að skapa vettvang fyrir fræðslu, upplýsingar og þróun fyrir þá sem starfa að verkefnastjórnun eða hafa áhuga á þeim málaflokki.
Hvað er Faghópur um Verkefnastjórnun?
Viðfangsefni hópsins lúta að öllu er varðar verkefnastjórnun m.a. skilgreiningu og umhverfi verkefna, markmiðasetningu, skipulag, stjórnskipulag, upplýsingakerfi, áætlanagerð, ferla, gæðamál, ræs og lúkningu verkefna og reynslusögur.
Hvernig starfar hópurinn:
Faghópurinn er vettvangur fræðslu og umræðna um málefni er varða verkefnastjórnun. Hópurinn á samstarf við MPM félagið, fagfélag á sviði verkefnastjórnunar og stendur fyrir fræðsluerindum og fyrirtækjaheimsóknum þar sem sérfræðingar ræða um málefni á sviðinu. Á fundum skapast vettvangur fyrir þverfaglegar umræður þar sem unnt er að skiptast á skoðunum og deila þekkingu og reynslu á sviði verkefnastjórnunar.
Fyrir hvern
Hópurinn er fyrir verkefnastjóra, stjórnendur fyrirtækja og stofnana, og alla þá sem hafa áhuga á málaflokknum, óháð þekkingu eða reynslu.
Stjórnendur:
Starkaður Örn Arnarson Verkefnastjóri starkadur [hjá] internet.is
Óskar Friðrik Sigmarsson Sviðsstjóri ofs [hjá] staki.is
Anna Kristrún Gunnarsdóttir Verkefnastjóri annakristrun [hjá] gmail.com
Haukur Ingi Jónasson Forstöðumaður haukuringi [hjá] ru.is
Steinunn Linda Jónsdóttir Verkefnastjóri steinunnlinda [hjá] gmail.com
Berglind Björk Hreinsdóttir Deildarstjóri berglind.hreinsdottir [hjá] hagstofa.is
Fimmtudaginn 12. apríl, stendur MPM félagið, fagfélag á sviði verkefnastjórnunar, fyrir glæsilegri hálfs-dags ráðstefnu á Icelandair Hótel Reykjavík Natura (gamla Hótel Loftleiðir).
Félagið hefur tekið upp samstarf við nýstofnaðan faghóp á sviði verkefnastjórnunar hjá Stjórnvísi og markar ráðstefnan upphaf þess samstarfs, því eru félagsmenn Stjórnvísi og aðrir áhugasamir hvattir til að koma og taka þátt.
Dagskráin er metnaðarfull og spennandi, sjö fyrirlestrar í tveimur þráðum og þar af eru tveir erlendir fyrirlesarar.
Ráðstefnan ber heitið "Ný tækifæri" og á við öll þau nýju tækifæri sem skapast með hugmyndum, nýjum verkefnum og fyrir verkefnastjórnun á Íslandi.
Frekari upplýsingar um ráðstefnuna er að finna á heimasíðu MPM félagsins, http://www.mpmfelag.is/?page_id=308
Skráningin fer fram hér: http://www.mpmfelag.is/?page_id=291
Ráðstefnan er einnig gott tækifæri til að stækka tengslanetið sitt og kynnast nýjum hugmyndum.
Hlökkum til að sjá ykkur!
MPM félagið
mpmfelag@mpmfelag.is
http://www.mpmfelag.is/
Gæðastjórnunarhópur og CAF / EFQM Sjálfsmathópur Stjórnvísi stóðu fyrir sameiginlegum morgunverðarfundi þriðjudaginn 31. janúar undir yfirskriftinni: „Þarf að endurvekja íslensku gæðaverðlaunin“. Á fundinum kynnti Þór G. Þórarinsson, sérfræðingur á skrifstofu velferðarþjónustu hjá Velferðarráðuneytinu frá fyrirkomulagi Íslensku gæðaverðlaunin - lærir sem lifir. Á fundinum sagði Sigurjón Þór Árnason, gæða- öryggisstjóri hjá Tryggingastofnun, frá þeirri þróun sem orðið hefur á CAF/EFQM sjálfsmatslíkaninu á síðustu árum og aukinnar notkunar þess innan opinberrar stjórnsýslu í Evrópu. Þá sagði Guðmundur S. Pétursson, gæðastjóri Landsvirkjunar þátttöku í keppninni um gæðaverðlaunin og þá þýðingu sem það hafði að veita þeim viðtöku. Í umræðum sem fram fóru að kynningum loknum kom fram mikill áhugi og vilja fundarmanna á því að taka upp aftur Íslensku gæðaverðlaunin til að efla gæðastarf íslenskra fyrirtækja og stofnana ennfremur áhuga á notkun á CAF/EFQM sjálfsmatslíkaninu. Í lok fundarins skoruðu fundarmenn á stjórn Stjórnvísi að íhuga að taka aftur upp gæðaverðlaunin
Raftákn er verkfræðistofa á rafmagnssviði stofnuð 1. júní 1976 á Akureyri af þeim Árna V. Friðrikssyni, Gerði Jónsdóttur, Daða Ágústssyni, Gunnari Ámundasyni, Jóhannesi Axelssyni, Sigrúnu Arnsteinsdóttur og Jóni Otta Sigurðssyni.
Núverandi eigendur Raftákns eru Anna Fr. Blöndal, Árni V. Friðriksson, Brynjólfur Jóhannsson, Finnur Víkingsson, Gerður Jónsdóttir, Gunnar H. Reynisson, Jóhannes Sigmundsson, Jóhannes Axelsson, Jón Heiðar Árnason, Jón Viðar Baldursson og Sigrún Arnsteinsdóttir.
Hjá Raftákni eru nú 25 starfsmenn, verkfræðingar, tæknifræðingar, iðnfræðingar, tækniteiknarar og skrifstofumaður.
Undanfarið hefur Raftákn verið að koma upp, skjalfesta og innleiða Gæðakerfi og nú er sú vinna það vel á veg komin að kerfið er tilbúið til vottunar. Fyrirtækið hefur samið við Vottun ehf um úttekt og vottun á kerfinu og vonast er til að þeirri vinnu verði lokið fyrir áramót 2010 - 2011.
Fyrirtækið er rekið í þrem deildum eða sviðum, byggingasviði, iðnaðarsviði og fjarskiptasviði.
Byggingasvið sér um hönnun allra almennra raflagna í íbúðarhús og stærri byggingar ásamt grunnlögnum s.s. lögnum í götur og vegi, stofnlagnir að mannvirkjum o.s.frv. Á byggingasviði starfa níu starfsmenn, hönnuðir og teiknarar.
Iðnaðarsvið sér um hönnun stýringa og stjórnkerfa, forritun og prófanir. Þar er um að ræða virkjanir, veitur, jarðgöng ásamt smærri verkum. Á iðnaðarsviði starfa 12 starfsmenn, hönnuðir og teiknarar.
Fjarskiptasvið sér um hönnun jarðsímalagna, gerð tengiskema og skráningar. Á fjarskiptasvið starfa þrír starfsmenn, hönnuðir og teiknari.
Raftákn tekur að sér hönnun raflagna, lýsingar og loftræsikerfa í ýmsar gerðir nýbygginga svo sem skóla, íþróttahús, verslunar- og skrifstofuhús af ýmsum stærðum og gerðum. Fyrir hafnir hefur stofan hannað lýsingu hafnarsvæða og landtenginu skipa.
Raftákn tekur að sér forritun iðntölva fyrir stjórnun verksmiðja, veitna, virkjana og fl. ásamt skjákerfum. Skjákerfin sem Raftákn hefur aðalega forritað eru unnin á hugbúnað frá Seven Technologies í Danmörku og nefnist IGSS. Yfir 90 kerfi eru í notkun á landinu og er allt notendaumhverfið á íslensku. IGSS er eina skjákerfið sem í boði er á íslensku.
Raftákn sá um alla hönnun raflagna í Hvalfjarðargöng, Fáskrúðsfjarðargöng, Almannaskarðsgöng og Héðinsfjarðargöng, þ.e. alla þætti er lúta að rafmagni. Raftákn sá einnig um hönnun lýsingar- og rafkerfa fyrir Hófsgöngin á Suðurey í Færeyjum, Múlagöng, Strákagöng og Vestfjarðagöng.
Forritun ljósastýrikerfa svo sem Instabus (EIB) hefur verið vaxandi þáttur í starfssemi Raftákns að undanförnu.
Eitt stærsta stýriverkefni Raftákns um þessar mundir er forritun stjórnkerfis fyrir Hellisheiðarvirkjun en það verk er unnið fyrir Siemens í Þýskalandi.