Fréttir og pistlar

Verkefnastjórnun eða verkefnavinna?

Verkefnastjórnun eða verkefnavinna hóf veturinn á kynningu á mikilvægi verkefnisskilgreininga og verkefnisáætlana sem grunninn að góðri verkefnastjórnun. Áhersla kynningarinnar var á hvort verkefnastjórar skilgreini hlutverk sitt sem verkefnavinnu og verkefnastjórnun. Fundurinn var haldinn í Háskólanum í Reykjavík og fyrirlesarinn var Sveinbjörn Jónsson, verkfræðingur og MPM, samræmingarstjóri fjárfestingaverkefna hjá Isavia. Fundinum var streymt. 

Sveinbjörn sagði að oft væru bestu sérfræðingarnir settir í verkefnastjórnun.  Verkefnastjórar virðast fyrir mörgum aldrei gera neitt, rétt eins og stjórnandi Sinfóníunnar en það er fullt í gangi.  Verkefnastjórar halda oft að valdið sé þeirra en þeir geta ekki tekið ákvörðun nema ræða við eiganda verkefnisins.  Hvenær ertu í stól verkefnastjórans og hvenær í verkefnavinnunnar.  Ómeðvitað er margt fólk að nýta sér verkfæri verkefnastjórnunarinnar.  Sveinbjörn velti upp spurningunni hvort áætlunargerð sé óþörf? Bara tímafrek og dýr? Verkefnisáætlun dregur úr hættu á deilum, hún hjálpar verkefnisstjóranum og mikilvægt að nýta hana sem samskiptatæki.  Áætlunin er samskiptatæki, staðfestir skilninginn, kemur auga á vandamál og sett eru upp viðmið um að mæla frammistöðu.

En hvernig á að byrja verkefnið.  Sveinbjörn sýndi einfalda skilgreiningu á einfaldri uppbyggingu, því minna – því betra.  Eitt sem er mjög mikilvægt er að nota sama „subject“ í tölvupósti varðandi sömu verkefni.  Rétt heiti er gríðarlega mikilvægt þannig að allir skilji hvaða verkefni er verið að tala um hverju sinni, best er að hafa lýsandi titil á heiti verkefnisins.  Þessi einfalda uppbygging felst í 1.heiti verkefnisins 2.tilgangur, grunnhugmynd og réttlæting verkefnis 3. Afmarkanir, tíma,kostnaðar-eða umhverfis 4.afurðir sem verkefnið á að skila. Hvað á að koma út úr verkefninu (deiliverables) 5. Eigandi verkefnis 6.bakhjarl 7.verkefnisstjóri 8.þátttakendur. 

Sveinbjörn tók dæmi um einfaldan hlut í flest öllum fyrirtækjum eins og haustferð.  Einhver verður eigandi haustferðarinnar – hverju á hann að skila?  Er einhver þörf á að búa til verkefni í kringum eina haustferð?  Jú, það verður að búa til afmarkanir eins og kostnaður o.fl.

Uppbygging verkefnisáætlunarinnar er mikilvæg.  Verkefnisgreinar, markmið og árangursmælikvarðar, meginrás, tímaáætlun, kostnaðaráætlun, skipurit verkefnis, framkvæmd, samvinna.  Mikilvægt er að ákveða hvort nota eigi Trelló eða e-mail. Allt um þetta má sjá í bókinni þeirra Helga og Hauks.  Gera þarf áhættugreiningu, hvað getur farið úrskeiðis og hver á árangurinn að vera.

Umtalaðasta verkefnastjórnunarslysið var í Bretlandi 2011 200billjón pund sem varðaði rafrænar sjúkraskrár.   Það sem klikkaði var að aldrei var rætt við lækni í öllu ferlinu.  Á Íslandi var mikið rætt um þegar Strætó tók við að keyra fatlaða, þá var ekki unnið nægilega með notendum en þetta er verkefni sem búið er að laga.  Gríðarlega mikilvægt er að fá stuðning yfirstjórnar.   Þeir þættir sem hafa áhrif á árangur eru 1. Vinna með notendum 2. Stuðningur yfirstjórar 3.skýr markmið 4.skýrar kröfur.

Óbeinn kostnaður er oft gríðarlega vanmetinn.  Dæmi um slíkan kostnað eru fundir starfsmanna t.d. fyrir árshátíð o.fl.  hvað kostar að fá 6 menn í eina klukkustund.  Standandi fundir eru mikilvægir því þeir stytta fundartímann.  Gott er að setja upp bjöllu og er henni hringt ef fólk er að fara of nákvæmt í verkefni.  Stuttir ræsfundir eru líka mikilvægir.  Einnig er mikilvægt að loka verkefninu formlega en því er oft sleppt vegna þess að nýtt verkefni er hafið.  Verkefnið er ekki búið fyrr en því hefur verið lokið formlega, hvað tókst vel? Hvað tókst illa? Hvað vantaði? Bera saman áætlun og raun.  Við eigum að fagna mistökum, þau gerast.  En að gera sömu mistökin aftur og aftur, það gengur ekki upp.  Muna líka að fagna áfanganum. 

Sveinbjörn endaði fyrirlesturinn sinn á því að ræða hvort þú þarft að vera sérfræðingur í verkefni sem þú stýrir.  Niðurstaðan var sú að verkefnastjórinn er að stýra verkefninu en ekki að vera sérfræðingurinn. Verkefnisstjóri á aldrei að gera áætlun einn.  Þeir sem eiga verkefnið eiga að gera hana.  Verkefnisstjóri ver 90% af tímanum sínum í samskipti, halda utan um verkefnið.   

 

 

Þjálfunarefnið “Gestrisni í ferðaþjónustu – raundæmi og verkefni”

Kynningarfundur var haldin 28 september í Húsi atvinnulífsins í samstarfi við SAF, Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og Stjórnvísi þar sem Margrét Reynisdóttir hjá Gerum betur ehf og Sigrún Jóhannesdóttir, menntaráðgjafi kynntu þjálfunarefnið fyrir fræðsluaðilum og fyrirtækjum í ferðaþjónustu.

Þær stöllur fengu styrk úr Fræðslusjóði til að vinna þjálfunarefni fyrir starfsfólk í ferðaþjónustu.

Þau svið sem tekin eru fyrir í þessu þjálfunarefni eru móttaka ferðamanna, þrif, veitingar og bílaleigur

Þjálfunarefnið byggir á raundæmum úr ferðaþjónustu og hentar fyrir þjálfun á vinnustöðum og er það jafnframt aðgengilegt fyrir starfsþjálfa á vinnustað. Það hentar líka vel sem efni á námskeiðum og er fjölþætt og sveigjanlegt. Það má nota eitt dæmi eða raða nokkrum saman fyrir lengra námskeið og hentar til að flétta saman þjálfun í persónulega hæfni  og faglegri hæfni.

Helstu kostir þjálfunar  með raundæmum og verkefnum eru að þau brúa bil „sögu“ og veruleika. Starfsmenn vinna saman að lausnum,og fá tækifæri til að ræða eigin reynslu undir yfirskyni sögunnar.

Efnið getur einnig nýst í  öðrum þjónustugreinum í atvinnulífinu því auðvelt er að heimfæra það  á önnur þjónustustörf.

Verkefnið var þróað með 18 álitsgjöfum þar á meðal, SAF, Mímir símenntun, Hæfnisetur ferðaþjónustunnar, Símey símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar, Vakanum og nokkrum ferðaþjónustufyrirtækjum. Þau fyrirtæki sem hafa tilraunakeyrt þjálfunarefnið segja að það auki gæði, starfsánægju og hæfni og starfsfólk verði öruggara. Það kemur að góðum notum við  mannaráðningar, innanhúsnámskeið, símenntun, íslenskunámskeið og á starfsmannafundum. Álitsgjafar töldu efnið skemmtilegt og fræðandi. Þeir nefndu einnig að umræðan sem  verkefnin sköpuðu væri ómetanleg. Fólk lærði af mistökunum í dæmunum án þess að upplifa þau á eigin skinni og voru dugleg að koma með hugmyndir að lausnum.

Það sem gekk síst er að efnið er eingöngu á íslensku en nú er unnið að þýðingum á ensku og pólsku með styrkjum úr starfsmenntasjóðum.  

Hægt að er að nálgast efnið hjá Gerum betur ehf, gerumbetur@gerumbetur.is s 8998264

Hvernig nýtist viðurkenndur ferlarammi við að bæta þjónustu

Magnús Ívar Guðfinnsson formaður faghóps um Stjórnun viðskiptaferla (BPM) bauð Stjórnvísifélaga velkomna í Marel í morgun.  Magnús hvatti gesti til að skrá sig í faghópinn.  Í stjórn faghópsins eru í dag níu kröftugir aðilar og kynnti Magnús frábæra fundarröð sem er framundan hjá faghópnum.  „ If you can´t describe what you are doing as a process, you dont know what you´re doing“ eru mikilvæg skilaboð.  Ertu að verða betri eða lakari í að veita þjónustu? Er ferlið skráð og markvisst unnið í að bæta það?  Ef ekki eru ferlar er ómögulegt að vita rétta svarið. Ertu að mæla þjónustustigið?  Í hvorum hópnum ertu? Vonar það besta eða ertu að stjórna ferlinu?  Magnús sagði að notagildi og ávinningur ferlaramma væri margvíslegur, hann auðveldar mælingar, samanburð við önnur fyrirtæki o.fl.  Að lokum kynnti Magnús ýmsar gerðir af  ferlarömmum. 

Viðurkenndur ferlarammi eins og ráðgjafafyrirtækið Noventum beitir með viðskiptavinum sínum auðveldar ferlaskráningu og breytingar hjá fyrirtækjum og stofnunum. Noventum nýtir slíkan ferlaramma í verkefnum við að bæta þjónustu hjá viðskiptavinum fyrirtækisins víða um Evrópu og í Bandaríkjunum með góðum árangri. Hilbrand Rustema, framkvæmdastjóri Noventum, kynnti ferlarammann, notagildi og dæmi um notkun hjá viðskiptavinum fyrirtækisins við að bæta þjónustu.  Noventum er með mörg af stærstu fyrirtækjum heims í viðskiptum og er Marel stolt af að vera í þeirra hópi.  Efni frá fundinum er aðgengilegt undir „itarefni“. 

 

Hefur hlutverk innri úttektaraðila breyst?

Faghópur um gæðastjórnun og ISO staðla hélt fyrsta fund vetrarins í Blóðbankanum.  Mikill áhugi var fyrir fundinum og fullt út úr dyrum í matsal Blóðbankans. Staðlar um stjórnunarkerfi (ISO9001, ISO 14001, ISO 27001, ISO 45001, ISO 17065 o.fl.) gera kröfur um innri úttektir. Með breytingum á stöðlunum koma breyttar áherslur. Á fundinum var rætt um hvort nýjustu útgáfur staðlanna breyti hlutverk innri úttektaraðila.  Umræðunni stýrðu þau Michele Rebora, ráðgjafi og Ína Björg Hjálmarsdóttir, gæðastjóri.

 

Árangursrík starfsmannasamtöl

Faghópur um markþjálfun hóf vetrarstarfið á viðburði um starfsmannasamtöl, en það er við hæfi þar sem margir standa frammi fyrir því að taka þau um þessar mundir.  Viðburðurinn var haldinn hjá Reykjavíkurborg í Borgartúni.  Sóley Kristjánsdóttir, MS í mannauðsstjórnun og ACC markþjálfi kynnti niðurstöður rannsóknar sinnar á umræddum starfsmannasamtölum. Ágústa Sigrún Ágústsdóttir, Master í mannauðsstjórnun og vinnusálfræði og ACC markþjálfi, kynnti leiðir þess að markþjálfa stjórnendur fyrir starfsmannasamtöl. Fundinum var streymt og hægt að nálgast hann í heild sinni á facebook síðu Stjórnvísi.  Í erindum sínum svöruðu þær Ágústa og Sóley við að svara því hver ætti starfsmannasamtölin, hvernig stjórnendur undirbúa sig og hvernig eftirfylgni er háttað.  

Sóley sagði  frá niðurstöðum nýlegrar rannsóknar á nýrri aðferð starfsmannasamtala. Umrædd starfsmannasamtöl eru með breyttu sniði að því leiti að þau eru tekin fjórum sinnum á ári, með ákveðið þema að leiðarljósi hverju sinni og innan styttri tímaramma en hefðbundin starfsmannasamtöl. Einnig var fjallað um markþjálfun stjórnenda fyrir starfsmannasamtöl sem leið til að undirbúa stjórnendur að taka árangursrík starfsmannasamtöl og fylgja þeim eftir. Stjórnendur fá tækifæri til að nýta starfsmannasamtalið til fullnustu og til árangurs fyrir báða aðila. Fjölmenni var á viðburðinum.  

Alltaf jafn mikill áhugi á lean umbótavinnu

Faghópur Stjórnvísi um Lean hóf veturinn á  árlegri kynningu á grunnatriðum straumlínustjórnunar, fundurinn var haldinn í KPMG. Fjallað var um hvað felst í umbótastarfi Lean.  Þórunn M. Óðinsdóttir ráðgjafi og formaður stjórnar Stjórnvísi fór yfir nokkur dæmi um hvað getur áunnist og hvers má vænta við umbótaverkefni með aðferðum Lean. Þórunn tók fyrir raundæmi af fyrirtækjum og stofnunum bæði hér á landi sem og erlendis sem hafa nýtt sér aðferðirnar.  

Lean kemur upphaflega frá fyrirtækinu Toyota þar sem ríkti mikil nýsköpun. Þeir tóku bandarískar aðferðir, aðlöguðu þær að japanska kúltúrnum og úr varð Lean.  En kjarninn í lean er að veita viðskiptavininum nákvæmlega þá vöru/þjónustu í þeim gæðum á því verði á þeim tíma sem hann óskar eftir.  Þórunn fór yfir 7 tegundir sóunar: 1.bið 2.gallar 3.hreyfing 4.flutningur 5.offramleiðsla 6.birgðir 7.vinnsla og yfir mikilvægi þess að mannauðurinn upplifi að gerðar séu kröfur um árangur. 

Í allri starfsemi fyrirtækisins þarf að leita að umbótatækifærum með birgjum og starfsmönnum.  Umbótatækifæri liggja í ferlum, stjórnstrúktúr, stjórnaháttum, starfsumhverfi og tengingu við birgja og viðskiptavini. 

 

Ætlast er til að það séu gerð mistök í umbótavinnunni.  Lykilhugtökin í lean eru 1. Stöðugar umbætur 2.flæði 3. Sóun 4. Gæði 5. Stöðlun  ofl. Þórunn fór einnig yfir VMS töflur og sýndi fjölda taflna frá ýmsum fyrirtækjum.    
 

Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð UN Global Compact

Faghópur Stjórnvísi um samfélagsábyrgð hélt í morgun áhugaverðan fund þar sem kynntur var Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð UN Global Compact. Á fundinum var fjallað um ávinning þess að skrifa undir Global Compact, innleiðingu 10 viðmiða sáttmálans og reynslu fyrirtækis af því að skrifa undir. Hörður Vilberg, forstöðumaður samskipta hjá Samtökum atvinnulífsins, greindi frá ávinningi aðildar að sáttmálanum en SA eru tengiliður Íslands við Global Compact. Harpa Júlíusdóttir, viðskiptafræðingur, fjallaði um niðurstöður rannsóknar sinnar til meistaranáms á þróun aðildar að UN Global Compact hjá íslenskum fyrirtækjum og hvernig hefur gengið að innleiða samfélagsábyrgð. Að lokum lýsti Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts reynslu Póstsins af aðild UN Global Compact en Pósturinn hefur verið aðili að GC frá árinu 2009. Fundarstjóri var Ásdís Gíslason, kynningarstjóri HS Orku. Streymi af fundinum og myndir má sjá á facebook síðu Stjórnvísi.

Vel heppnuð ráðstefna og húsfyllir í Eimskip

„Virkjaðu þitt teymi á grunni trausts“ var yfirskrift ráðstefnu sem haldin var í dag í Eimskip.  Ráðstefnan var samstarfsverkefni Stjórnvísi og FranklinCovey.  Viðburðurinn höfðaði svo sannarlega til Stjórnvísifélaga því aldrei fyrr hafa jafn margir bókað sig á skömmum tíma eða 180 manns á 2 dögum.  Þar sem færri komust að en vildu var viðburðinum streymt og fylgdust 700 manns með á vefnum. https://www.facebook.com/Stjornvisi/?fref=ts   Eimskipsstarfsmenn tóku höfðinglega á móti Stjórnvísifélögum með rjúkandi kaffi, heilsudrykkjum, rúnnstykkjum og sætabrauði.  Elín Hjálmsdóttir framkvæmdastjóri hjá Eimskip setti fundinn og Gunnhildur Arnardóttir framkvæmdastjóri Stjórnvísi var fundarstjóri. Fyrirlesarar fluttu frábær erindi sem sjá má á facebook síðu Stjórnvísi ásamt myndum af viðburðinum.  Fyrirlesarar voru þau Ólafur Þór Gylfason, MMR, Steinþór Pálsson, Guðfinna S. Bjarnadóttir, LEAD consulting og Guðrún Högnadóttir, FranklinCovey. 

Á facebook síðu Stjórnvísi má sjá myndir og upptöku af ráðstefnunni.

 

Spennandi dagskrá framundan hjá Stjórnvísi

Stjórnir faghópa Stjórnvísi hafa sett fram drög að haustdagskrá félagsins sem við hvetjum félaga til að kynna sér. Smelltu hér https://www.stjornvisi.is/is/vidburdir/kynningarfundur-med-stjornum-faghopa-stjornvisi til að kynna þér þá 60 viðburði sem þegar er búið að leggja drög að á haustönn.  Einnig má sjá undir "ítarefni" frá Kick off fundinum þær glærur sem kynntar voru á fundinum.  

Dæmi um fundi:

  • Mikilvægi ferlaramma fyrir ferlaskráningu
  • Mælanleg stjórnun - breyting lykilmælikvarða til að ná bættum árangri í stjórnun
  • Mannauðsmál í ferlamiðuðu skipulagi
  • Samtalið í stjórnarherberginu
  • Konur og stjórnarhættir
  • Stjórnarhættir og samfélagsábyrgð
  • Kjölfar breytinga á ISO 9001
  • Hugmyndafræði W. Edwards Deming
  • ISO 55000 Eignastjórnun
  • Lean 6 sigma
  • Birgjamat og áhættustjórnun
  • Framsetning gæðaleiðbeininga
  • Kostnaðaráætlun
  • Grunnatriði lean
  • Umbætur í uppgjörsferli
  • Þarftu að hafa Lean teymi?
  • Að nýta sér rafræn mælaborð
  • Fiskbein í greiningum
  • Lean í opinberum rekstri
  • Heilsuefling hjá Reykjavíkurborg
  • Árangursrík starfsmannasamtöl
  • Framsýn Menntun Nú
  • Styrkleikamat einstaklinga og teyma
  • Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og markmiðasetning fyrirtækja
  • Gæðamál og samfélagsábyrgð
  • Stefnumótun og innleiðing hjá Landsbankanum
  • Click View
  • Microsoft Stefnumótun og IT
  • Árangursstjórnun byggt á þroskastigi árangursstjórnunar
  • Áhrifavaldar á samskiptamiðlum
  • Ánægðir starfsmenn - ánægðari viðskiptavinir
  • Hvaða Ísland er verið að markaðssetja
  • Hvaða máli skiptir kyn í auglýsingaheiminum o.fl.....

 

Nýju starfsári startað af krafti á Kick off fundi í dag

Í dag komu saman á Nauthól stjórnir faghópa og stjórn Stjórnvísi.  Tilgangur fundarins var að starta nýju starfsári og var mikill kraftur í stjórnum faghópanna sem búnar voru að senda inn drög fyrir fundinn að rúmlega 60 fundum.  Farið var yfir ýmis atriði til að létta stjórnendum faghópa starfið í vetur, búinn var til vettvangur fyrir faghópana til að sameinast um viðburði og rýnt í helstu áskoranir faghópastarfsins.   Á facebook síðu Stjórnvísi má sjá myndir af fundinum: https://www.facebook.com/pg/Stjornvisi/photos/?tab=album&album_id=1508719115862700

 

Nýr faghópur um góða stjórnarhætti – vertu með!

Nýr faghópur hefur verið stofnaður um góða stjórnarhætti.  Stjórn faghópsins hvetur alla áhugasama til  að skrá sig í faghópinn en það er gert með því að smella á https://www.stjornvisi.is/is/faghopar/godir-stjornarhaettir  þar er jafnframt að finna allar upplýsingar um markmið og tilgang þessa nýja öfluga faghóps.  Stjórn faghópsins skipa Lísbet Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Starfsafls sem jafnframt er formaður, Harpa Guðfinnsdóttir rekstrarstjóri hjá Marel, Bára Mjöll Þórðardóttir forstöðumaður markaðs-og samskiptamála Vodafone, Laufey Guðmundsdóttir Markaðsstofu Suðurlands, Helga Hlín Hákonardóttir Strategíu, Björg Ormslew Ásgeirsdóttir markaðsstjóri Vaka, Vala Magnúsdóttir, deildarstjóri rekstrar og þjónustu á Borgarsögusafni á Menningar- og ferðamálasviði Reykjavíkurborgar, Helga R. Eyjólfsdóttir, öryggis-og gæðastjóri Isavia, Skúli Örn Sigurðsson sölustjóri Strætó og Auður Ýr Sveinsdóttir rekstrarstjóri Völku.   Meðal tillagna að áhugaverður fundum í vetur má nefna 1. Samtalið í stjórnarherberginu 2. Árangursmat á stjórnarháttum 3. Hlutverk í stjórnum 4. Rannsóknarverkefni á vegum rannsóknarmiðstöðvar um stjórnarhætti 5. Stjórnarhættir í minni fyrirtækjum og ört vaxandi fyrirtækjum 6. Ráðgjafastjórn.  

Nýr faghópur um góða stjórnarhætti

Stofnaður hefur verið nýr faghópur um góða stjórnarhætti. Markmið faghópsins er að stuðla að og styðja við góða stjórnarhætti innan fyrirtækja með því að skapa vettvang fyrir fræðslu og miðlun upplýsinga um málaflokkinn. Tilgangur hópsins er að gefa starfandi meðlimum í stjórnum, nefndum og ráðum og öðrum sem hafa áhuga á málaflokkinum tækifæri til að efla hæfni sína. 

Tilgangurinn með góðum stjórnarháttum felur í sér að stjórnarhættir séu ávallt í samræmi við lög og reglur og að þeir styrki jafnt innviði fyrirtækja sem og efli almennt traust á markaði. Til að stjórnendur geti tileinkað sér góða stjórnarhætti er því mikilvægt að hlutverk og ábyrgð þeirra sé þeim skýrt og ljóst.

Hlutverk faghópsins er að því skapa vettvang um fræðslu og upplýsinga fyrir þá sem starfa í eða hafa áhuga á stjórnun skipulagsheilda: í stjórnum fyrirtækja, stjórnum á vegum stofnana, nefnda eða ráða.

Faghópurinn mun  leitast við að vekja athygli á mikilvægi góðra stjórnarhátta innan eða á vegum skipulagsheilda,  horfa til og vekja athygli á því sem vel er gert, auka umræðu og efla fræðslu um mikilvægi og þá ábyrgð sem felst í stjórnarstarfi og áhrifum þess á skipulagsheildina, vera vettvangur til vekja athygli á straumum og stefnum í stjórnarháttum og tækifæri til að efla þá sem eru starfandi stjórnarmenn eða hafa áhuga á að taka virkan þátt í stjórnarstörfum.

Á fundum hópsins skapast vettvangur fyrir þverfaglegar umræður ásamt miðlun þekkingar og reynslu á sviði stjórnunar.  Þá er hópurinn góður vettvangur tengslamyndunar.

Tillögur að áhugaverðum fundum:

 

-        Samtalið í stjórnarherberginu

-        Árangursmat á stjórnarháttum

-        Hlutverk í stjórnum

Rannsóknarverkefni á vegum rannsóknarmiðstöðvar um stjórnarhætti

-        Stjórnarhættir í minni fyrirtækjum og ört vaxandi fyrirtækjum

-        Ráðgjafastjórn

Hæfnishús gæðastjórans

Komin er út grein um gæðastjórnun eftir Helga Þór Ingason og Elínu Ragnhildi Jónsdóttur

The house of competence of the quality manager
https://www.cogentoa.com/article/10.1080/23311975.2017.1345050

Í greininni sem er birt í “Cogent OA”, ritrýndu, opnu tímariti, er leitast við að svara þeirri spurning, hvaða almennu hæfni gæðastjórar þurfi að búa yfir í flóknu og marbreytilegu umhverfi fyrirtækja. Niðurstöður eru fengnar með margvíslegum aðferðum, m.a. með leit í fræðiritum og greinum, með hugarflugsfundi með reyndum gæðastjórum og með því að leggja spurningakönnun fyrir gæðastjórnunarhóp Stjórnvísis. Síðasta skrefið fólst í flokkun hugtaka eftir því hvort um var að ræða þekkingu, færni eða hæfni. Niðurstöður eru settar fram sem sem líkan - Hæfnishús gæðastjórans, sjá mynd. Líkanið getur nýst gæðastjórum til þess að skilja betur hvernig styrkja megi hæfni sína í starfi en einnig fyrirtækjum til þess að sjá hvaða hæfni ber að leita eftir þegar ráða á gæðastjóra.

Samfélagsskýrslur fyrirtækja

Í morgun var haldinn á Icelandar Hótel Natura fjölmennur fundur á vegum Festu og faghóps um samfélagsábyrgð fyrirtækja þar sem markmiðið var að kynna samfélagsskýrslur fyrirtækja og ræða hvernig mæla megi árangur í umhverfis- og samfélagsmálum. Fundarstjóri var Soffía Sigurgeirsdóttir hjá KOM.  Þorsteinn Kári Jónsson, Marel, varaformaður Festu útskýrði hvað felst i samfélagsskýrslu, hvað á hún að innihalda og hver er lesandinn, þ.e. fyrir hvern er skýrslan.  Þá fjallaði Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR um samfélagsskýrslu ÁTVR 2016.  Skýrslan er í dag alfarið í rafrænu formi.  Hún þarf að falla að heildarstefnunni og samsama sig heildaraðilanum.  Í fyrsta skipti spurði ÁTVR í vinnustaðagreiningu hvort starfsfólk teldi sig þekkja áherslur Vínbúðarinnar á sviði samfélagsábyrgðar og voru starfsmenn almennt mjög sammála því.

Dagmar Ýr Stefánsdóttir, fjölmiðlafulltrúi Alcoa Fjarðaáls kynnti samfélagsskýrslu Acoa Fjarðaáls 2016.  Eitt af hennar fyrstu verkefnum var að ganga til liðs við Festu og er forstjóri Alcoa eigandi verkefnisins.  Alcoa er stórt fyrirtæki í litlu samfélagi sem hefur áhrif á umhverfið og því mikilvægt að huga vel að því.  Litið er á að fyrirtækið þurfi samþykki samfélagsins til að starfa.  Alcoa fagnar 10 ára afmæli í ár.  Markmiðið er að vera í góðu samstarfi við verktaka og deila verkefnum sem víðast.  Samfélagsskýrslan er ekki hluti af ársskýrslu.  Alcoa notar GRI viðmið, forstjóri og tveir stjórnendur eru í stýrihópnum.  Alcoa er fyrirtæki sem mengar og er því að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að gæta að umhverfinu.  Mikið hefur verið plantað af trjám.  Varðandi mannauðsmál þá eru öryggismál ávallt í öndvegi.   Metnaðarfull markmið eru varðandi jafnréttismál.  Í dag starfa 25% konur á svæðinu.  Hvatt er til sjálfboðavinnu og þess að gefa af sér.  Alcoa hlaut menntaverðlaun atvinnulífsins 2017.  Stærsti einstaki styrkurinn í fyrra var til Vatnajökuls.  Þeir sem verða birgjar hjá Alcoa þurfa að undirganga ströng skilyrði er varða að stunda jákvæð viðskipti.  Dagmar sagði að lokum að í næstu skýrslu yrði texti styttur og meira myndrænn, gerð yrði vefútgáfa, hugað betur að tölum sem náðist ekki núna, hvað veldur? Finna tækifærin til að gera betur og virkja áhuga starfsmanna betur. 

Að lokum kynnti Hrönn Ingólfsdóttir, forstöðumaður Verkefnastofu Isavia Árs- og samfélagsskýrsla Isavia 2016.  Nærsamfélag ISAVIA er allt landið.  Stjórn ákvað að farið yrði í UN Global Compact.  Forstjóri var mjög áhugasamur og er eigandi verkefnisins. Skýrslan var gerð skv. GRI.   Byrjað var á að móta stefnu og markmið sem var samþykkt af stjórn.  Eigandi skýrslunnar er almenningur, skýrslan er á íslensku og ensku, er bæði til prentuð og á netinu.  Henni verður skilað sem framvinduskýrslu í UN Global í haust.  Samfélagsábyrgðin er nú tekin beint inn í stefnuna.  Stefnan er að samfélagsábyrgðin verði i DNA-inu.

 

Skert starfsgeta og ábyrgð fyrirtækja

Faghópar um samfélagsábyrgð fyrirtækja og mannauðsstjórnun stóðu í morgun fyrir fundi í Húsi atvinnulífsins sem hafði það markmið að ná athygli forstöðumanna fyrirtækja á ábyrgð þeirra á að mæta þörfum er tengjast skertri starfsgetu og varpa ljósi á ávinninginn sem felst í því að sinna þessu á markvissan hátt. Á fundinum var fjallað um ábyrgð fyrirtækja að sinna starfsmönnum með skerta starfsgetu sem felst meðal annars í því að bjóða upp á hlutastarf bæði fyrir starfsmenn innan fyrirtækja sem eru að fara í langvinn veikindi eða koma til baka til starfa. 


Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og fyrrverandi stjórnarformaður VIRK bauð gesti velkomna og sagði frá samstarfi SA og Virk. Hannes ræddi um aðdragandann að stofnun VIRK.  Árið 2004 höfðu ASÍ og SA miklar áhyggjur af vaxandi örorkutíðni og þann 7.mars sama ár var samið um 2% hækkun lífeyrissjóðs. Árið 2008 var VIRK stofnað og skipulagsskrá staðfest.  Vigdís Jónsdóttir var ráðin fyrsti starfsmaður VIRK og starfar enn í dag sem framkvæmdastjóri VIRK. Á árinu 2016 var slegið Íslandset í nýgengi örorku þegar 1.800 manns fengu úrskurð um 75% örorkumat.  Á árinu var nýgengi örorku í fyrsta sinn meira en náttúruleg fjölgun starfsfólks á vinnumarkaði.  Þessi öfugþróun í nýgengi örorku gerist á sama tíma og VIRK er að ná miklum árangri í starfsendurhæfingu einstaklinga sem glímt hafa við veikindi eða afleiðingar slysa og snúa inn á vinnumarkaðinn að henni lokinni.  Upptaka starfsgetumats í stað örorkumats býður upp á allt aðra nálgun og hugmyndafræði en gildandi örorkumatsstaðall sem einblínir á að vangetu fólks og færnisskerðingu. Mikilvægt er að ná uppbyggilegu samstarfi milli TR og VIRK.       

Jónína Waagfjörð, sviðsstjóri þróunar atvinnutengingar hjá VIRK Starfsendurhæfingarsjóði talaði stuttlega um ráðgjöf og þjónustu VIRK og jafnframt þann samfélagslega ávinning sem hlýst af því að koma einstaklingum aftur út á vinnumarkaðinn eftir starfsendurhæfingu. Í því sambandi ræddi hún um mikilvægi innleiðingar ákveðinna verkferla inni á vinnustaðnum sem auðveldað geta einstaklingum með skerta starfsgetu að vera áfram í vinnunni og/eða að snúa aftur til vinnu eftir veikindi eða slys. Allir sem leita til VIRK fá ráðgjafa en þeir eru 50 um land allt.  Margir þeirra sem leita til VIRK eru með mikla menntun.  Algengustu ástæðurnar eru stoðkerfis-og geðræn vandamál. Rannsóknir staðfesta að tíminn hefur mikið að segja varðandi hvort starfsmenn snúa aftur inn á vinnumarkaðinn, því lengur sem starfsmaður er frá vinnu því minni líkur á að hann snúi aftur.  Því er gríðarlega mikilvægt að atvinnurekendur fylgist með og taki ábyrgð, vísi starfsmönnum á VIRK.  Starfsgeta þeirra sem eru útskrifaðir hjá VIRK er frá 3-100%.  Af þeim sem voru útskrifaðir 2016 voru 50% með 50% starfsgetu, 25% með 75%, 8% með 100%.  En hver er ábatinn af starfsemi VIRK?  Ábatinn er í milljörðum króna öll þau ár sem VIRK hefur starfað.  Það eru TR, lífeyrissjótðurinn, skatturinn og einstaklingarnir sjálfir sem skapa þennan ábata.  Mikilvægt er að fyrirtæki gæti að aðilum sem eru ekki með fulla starfsgetu og aðlagi starfið að þeim.  Að vera í sambandi við starfsmanninn á meðan hann er í langtímaveikindum er það mikilvægasta af öllu til að viðkomandi komi aftur.  Að skrá fjarveru er mikilvægt og einnig að skoða hver er ástæða fjarverunnar.  Þetta er ábyrgð stjórnenda.   Virk segir: „Vinna er úrræði“, vinnan eflir einstaklinginn. 

Berglind Helgadóttir, starfsmannasjúkraþjálfari/starfsmaður öryggisnefndar: „Starfsendurhæfing samhliða vinnu“ – sagði frá þróunarverkefni Landspítala og VIRK um starfsendurhæfingu starfsmanna Landspítala samhliða vinnu. Markmið verkefnisins, sem hófst í september 2016, var að stuðla að endurkomu til vinnu í fyrra starfshlutfall eftir tímabundna skerta vinnugetu vegna heilsubrests. Landspítalinn leggur mikla áherslu á teymisvinnu og fjarvistastjórnun. Þegar vinnan hófst voru fjarvistir háar 6,6% 2016.  Markmiðið var að vera undir 6%.  Erfiðustu fjarvistarmánuðirnir eru fyrstu þrír mánuðirnir.  Til að innleiða var haldin vinnustofa fyrir alla stjórnendur.  Mikilvægt er að finna út hvað það er sem veldur veikindunum, er það eitthvað sem tengist vinnustaðnum?  Berglind vísaði í áhugaverða rannsókn varðandi íhlutun á vinnustað: What works at work? Darcy Hill, Daniel Lucy, Clare o.fl.   Skoðað er hvað starfsmaðurinn getur gert, hvað getur vinnustaðurinn gert og eftirfylgni.  Tilgangur fjarverusamtals (+10%) er að fara yfir stöðu og ástæðu veikinda, aðstæður á vinnustað og annað.  Boðið er upp á hlutaveikindi þ.e. að viðkomandi starfsmaður komi inn í hlutastarf.  Starfsmaður sem er í 100% starfi fær 50% starf og 50% hjá Virk.  Trúnaðarlæknir metur hvort viðkomandi sé hæfur í verkefnið.  Virk ákveður síðan hvort viðkomandi er starfsendurhæfur, gerður er skriflegur samningur.  En hvernig hefur þetta gengið?  Sex hafa farið inn í verkefnið, einn hefur lokið endurhæfingu og er kominn í fullt starf. Kveikjan við að koma þessu af stað var sú að starfsmaður hefur oft ekki fjármagn nema fara þessa leið.   


Guðmundur Maríusson, fjármálastjóri Íslensku auglýsingastofunnar, sagði að lokum frá reynslu fyrirtækisins varðandi samstarf við Virk. Með samningi við Virk vildi Íslenska leggja sitt af mörkum.  Skjólstæðingur Virk er lögblindur, aðeins með 5% sjón.  Lögblindur maður þarf stóran tölvuskjá og sæti við endann á 6 manna borði.  Að læra á húsnæðið var mikið mál og einstaklingurinn var fljótur að aðlagast, tengjast öðrum starfsmönnum.  Viðkomandi var í 50% vinnu en gat lesið tölvupósta.  Íslenska upplifði mikla jákvæðni með verkefninu sem stóð yfir í 8 vikur.  Menn sáu stöðu hans og fóru að taka tillit til náungans, annarra starfsmanna.  Eftir þessar 8 vikur sagði einstaklingurinn að hann finni fyrir miklu meira öryggi, auðvelt var að fá aðstoð ef eitthvað kom upp á í tölvunni.  Þessi einstaklingur fékk í framhaldi að mæta á vinnustaðinn og fá aðstöðu fyrir eigin verkefni því þangað fannst honum gott að koma.  Þessi upplifun var gagnkvæm. 

Fundarstjóri var Ásdís Gíslason, kynningastjóri HS Orku.

 

 

Reynsla og hringborðsumræða varðandi Lean Vinnurými - War Room - Obeya

Faghópur um Lean hélt í morgun fund í HR sem fjallaði um Lean vinnurými (War room, Obeya) en slík vinnurými bjóða  upp á sérstakan stað og tíma fyrir samvinnu og samráð í lausnamiðaðri vinnu, er ætlað að létta á tregðu sem getur verið í samskiptum milli deilda eða innan skipurita. Aðgengileg sjónræn stjórnun með öllum þeim upplýsingum sem nauðsynleg eru til að klára verkefni á fljótlegri og skilvirkari máta. 

Svanur Daníelsson hjá Munck Íslandi, Andrea Ósk Jónsdóttir hjá Arion og Kristjana Emma Kristjánsdóttir hjá Arion deldu reynslu sinni af því að setja upp og vinna verkefni í slíkum rýmum.  Svanur fjallaði um stjórnherbergi Munck en fyrsta herbergið sem þeir bjuggu til var í hellisheiðavirkjun.  Í herberginu var sett um kort af svæðinu, base line áætlun sem innihélt hvað ætti að verka, verklýsing, 3ja mánaða áætlun, 3ja vikna skipulag, hömlutafla til að sýna ef eitthvað hamlar því að þú getir haldið áfram í þínu verki – sett er ábyrgð á verkið að því ljúki sem fyrst, skipurit og tengiliðir, helstu teikningar byggingar og lagnaleiðir, undirstöðuskrá og öryggismál.  Sýndar voru myndir af uppsetningu herbergisins og einnig af herbergjum frá Þeistareykjavirkjun, Mánatúnio.fl.  Sama fyrirkomulag er þar, kort af svæðinu o.þ.h. Fundarfyrirkomulagið er þannig að einn stýrir fundinu, þátttakendur eiga að vera upplýstir um sitt hlutverk á fundinum.  Reynslan er sú að þátttakendur eru betur upplýstir, verkefni ganga betur tímalega og kostnaðarlega, stjórnendur fá betri yfirsýn, minnkar álag á stjórnendur og þátttakendur verða að eiga ábyrgðina.

Þær Andrea Ósk og Kristjana Emma frá Arion hafa verið að gera tilraunir með War room í Arion banka.  Í Arion banka er stríðsherbergi þar sem sett er upp risa miðaveggur með tímalínu, ábyrgðaraðilum og verkþáttum.  Stundum flytja lykilaðilar í stríðsherbergið.  Yfirleitt er þetta notað i stórum verkefnum og ef verkefnið kallar á mikla samvinnu.  Tekið var dæmi um úthýsingu á rekstri tölvukerfa Arion banka. Fyrsta skrefið var að halda vinnustofu, hverju þurfum við að huga að? Innput var fengið og 280 atriði komu fram.  Síðan var herbergi tekið frá í 7 herbergi og það sett upp í vörður.  Verkþættir fyrir eina vöru í einu var sett á vegg.  Málaflokkur og ábyrgðaraðilar lóðrétt, í dag, í vikunni og komandi vikur lárétt.  Haldnir voru daglegir morgunfundir.  Á töflunni var sett:  „Nýtt inn“ (í þennan póst mátti setja hvað sem er og var þetta það fyrsta sem tekið var fyrir á fundunum), „lokið“ (sett í excel), „ákvarðanir og sigrar“ og „mikilvægar dagsetningar“.   Áhættumat var framkvæmt og aðgerðum bætt við miðavegg sérmerkt.  

En hvað reyndist vel?  Daglegir morgunfundir, því ótrúlega margt leystist, allir upplýstir um stöðuna, góðar umræður, alltaf rétta fólkið til staðar og tími í lok fundar fyrir fólk til að ræða saman.  Dálkurinn „nýtt inn“ reyndist líka vel því þá gleymdist ekkert lengur í tölvupósti.  Mikið gerðist á stuttum tíma og fókusinn hélst.  En hvað var erfitt?  Stærsta áskorunin var að stjórna morgunfundunum og að ná öllu því sem þurfti að fara yfir.  Kristjana fór síðan yfir verkefnið „Opnun útibúa á Keflavík“.  Í því verkefni voru settir upp 8 straumar og snerti verkefnið flest öll svið innan bankans.  Áskorunin var samvinna straumanna, vinna verkefnið innan ákveðins tímaramma.  Í upphafi var sett upp verkáætlun og yfir 400 verkþættir komu.  Allt var sett upp í stórt excelskjal til að raða og sjá tímaröð verkefnanna.  Verkáætlunin innihélt einnig lykildagsetningar.  Sérherbergi var tekið undir verkefnið þar sem 4 starfsmenn unnu stöðugt í verkefninu og allir verkefnafundir fóru fram í herberginu. Töflufundir voru í hverri viku 1 klst. með öllum straumstjórum.  Hver straumur var með sitt svæði þar sem skrfaðir voru niður þeir verkþættir sem átti að vinna í hverri viku.  Aðrar upplýsingar á töflunni voru lykildagsetningar, tímalína, heildar verkáætlun, verkefnaskipulag.  Áskoranir og umbætur skráðar.  Notaðar voru alls konar merkingar til að auka sjónræna stjórnun og yfirsýn.  Gulur, rauður og grænn.  Einnig notaðir þumlar sem sýndu upp og niður.  Betra heldur en að lesa.   

Ný stjórn Stjórnvísi 2017-2018

Ný stjórn var kosin á aðalfundi félagsins þann 3.maí fyrir næsta starfsár. Formaður Stjórnvísi 2017-2018 var kjörin Þórunn María Óðinsdóttir, sérfræðingur hjá KPMG.  Þórunn María hefur setið í stjórn félagsins sl. 3 ár og var formaður faghóps um lean til fjölda ára.

Eftirtalin voru kosin á aðalfundi 2015 til tveggja ára og sitja þ.a.l.  áfram í stjórn næsta starfsárs:

  • Jón Halldór Jónasson, fjölmiðlafulltrúi hjá Reykjavíkurborg.
  • María Guðmundsdóttir, fjármálastjóri hjá Vaka fiskeldiskerfum.

Eftirtalin voru kjörin í aðalstjórn:

  • Aðalheiður Ósk Guðmundsdóttir, vörustjóri dagsferða hjá Kynnisferðum.
  • Gyða Hlín Björnsdóttir, verkefnastjóri MBA námsins í Háskóla Íslands.
  • Jón S. Þórðarson, framkvæmdastjóri hjá PROevents.
  • Kristjana Kjartansdóttir, gæðastjóri hjá OR. 

Eftirtalin voru kjörin í varastjórn:

  • Berglind Björk Hreinsdóttir, ráðgjafi hjá Attentus.
  • Guðmundur S. Pétursson, gæðastjóri hjá Tollstjóra.

Eftirtaldir buðu sig fram í fagráð Stjórnvísi og voru kjörnir samhljóða:

  • Guðmunda Smáradóttir, forstöðumaður Opna háskólans í Reykjavík (2016-2018).
  • Guðrún Högnadóttir, framkvæmdastjóri Franklin Covey á Íslandi (2016-2018).
  • Hafsteinn Bragason, framkvæmdastjóri mannauðssviðs Íslandsbanka (2017-2019).
  • Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR (2016-2018).
  • Sigurjón Þórðarson, framkvæmdastjóri Nolta (2017-2019)

Skoðunarmenn voru kosnir til tveggja ára á síðasta aðalfundi og sitja því áfram:

  • Ásta Malmquist, deildarstjóri fyrirtækjaþjónustu Landsbankans (2016-2018).
  • Agnes Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Perlu norðursins (2016-2018).

Vistvænar byggingar og lausnir.

Faghópar um Samfélagsábyrgð og Umhverfi og öryggi héldu í morgun fund í Ikea um vistvænar byggingar og lausnir.  Finnur Sveinsson, ráðgjafi fjallaði um gamlan draum að byggja umhverfisvænt hús.  Hann er að byggja fyrsta umhverfisvottaða íbúðarhúsið á Íslandi og mun það verða vottað með norræna umhverfismerkinu Svaninum.  Hver sem er sem er að fara að byggja getur farið inn á gagnagrunn Finns og séð hvaða efni hann notar.  Hann fær staðfestingu frá framleiðendum allra byggingarefna.  Skandinavar byggja umhverfisvæn hús og blokkir í dag.  Byggingariðnaðurinn á Íslandi er kominn á fullt aftur og fjöldi fyrirtækja í byggingarhugleiðingum.  Byggð er að þéttast í Reykjavík og ný hverfi að myndast.  Það er enginn stikk frí í umhverfismálum og við erum hluti af lausninni.  Helsta eign Íslendinga eru náttúruauðlindir og hreint umhverfi.  Varðandi val á vottunarkerfum þá kynnti Finnur mörg kerfi t.d. Passive houses, Zero energy houses, Leed, DGBV, Miljöbyggnad, Breeam og Svaninn.  Sjálfur valdi hann Svaninn. 

Guðný Camilla Aradóttir, umhverfisstjóri fjalla um hvernig sjálfbærni er ein grunnstoðin í hönnun IKEA á hverri einustu vöru.  Sjálfbærni hefur verið hluti af IKEA frá upphafi.  Nýtni og vinnusemi hefur verið í hávegum höfð og sjálfbærni er hluti af því.  Árið 1976 gaf Ikea út handbók þar sem fjallað var um að sóun væri versti sjúkdómur mannkynsins og passa þyrfti upp á hana í hverri einustu vöru.  Árið 2012 voru sett fram markmið til ársins 2020 varðandi auðlindir og orku, fólk og samfélagið og sjálfbærara heiilislíf.  Af 10þúsund vörum eru 2300 vörur á lista yfir msl@h vörur og þeim fer hratt fjölgandi.  Healthy living er nýr flokkur.  Þær grunnstoðir sem stuðst er við með hverja einustu nýja vöru eru: notagildi, hönnun, lágt verð, sjálfbærni og gæði.  Með þessu er tryggt að sjálfbærni sé hluti af hverri vöru.  Nú er notaður betri bómull, vottaður viður, bambus og vatnahýasinta.  Vatnahýasinta vex eins og arfi, búnar eru til úr henni fiskamottur o.fl.  Flatar pakkningar eru notaðar til að koma sem mestu í hvern gám, notaðar eru pappapallettur og ekkert frauðplast er notað lengur hjá Ikea.  Í stað frauðplastsins er notaður pappír sem er umhverfisvænn.  Þetta tók mörg ár því sannfæra þurfti birgja um að hætta að nota frauðplast.  Ikea selur Kungsbacka eldhúsinnréttingar sem unnar eru úr endurunnu plasti og viðarspóni. Í einni hurð eru 25 plastflöskur.  Blöndunartækin eru öll með vatnssparandi búnaði og nota 40% minna af vatni en þrýstingurinn er sá sami. Led lýsingin er núna innleidd og nú eru eingöngu seld ledljós í Ikea.  Í fyrra seldi Ikea 79 milljónir LED pera í heiminum.  Heimilistæki eru í A++.

 

Nýjungar í innri úttektum - aðalfundur gæðastjórnunar og ISO

Fimmtudaginn 27. apríl var sameiginlegur fundur ISO og gæðastjórnunarhópa Stjórnvísis haldinn í húsakynnum Háskólans í Reykjavík. Fundurinn hófst með aðalfundi þar sem Elín Ragnhildur Jónsdóttir, gæðastjóri Ríkiskaupa og formaður gæðastjórnunarhópsins, greindi frá starfi beggja hópa á árinu 2016 ásamt því að bera fram tillögu um sameiningu.

Fundurinn markaði tímamót hjá hvorum hópi fyrir sig þar sem fundarmenn samþykktu einróma sameiningu hópanna tveggja. Nýr hópur mun taka við verkefnum beggja hópa undir yfirskriftinni „Gæðastjórnun og ISO staðlar“ og fjalla um gæðastjórnun, ISO staðla og aðra staðla til stjórnunar en einnig faggilda vottun á grundvelli staðla.

Þá var óskað eftir aðilum í nýja stjórn og gáfu nokkri sig fram til stjórnarsetur. Þess má geta að hóparnir tveir voru með flesta þátttakendur á viðburðum Stjórnvísishópanna á árinu 2016 og gera má ráð fyrir því að bjartir tímar séu framundan í starfi nýs hóps.

Að loknum aðalfundarstörfum tók Kristjana Kristjánsdóttir gæðastjóri hjá Orkuveitunni við stjórn fundarins og kynnti til leiks fjóra framsögumenn sem fjölluðu um innri úttektir í ljósi breytinga sem urðu á ISO 9001 með útgáfuni árið 2015.

Sveinn V. Ólafsson, sérfræðingur hjá Jensen ráðgjöf, hóf umræðuna og fjallaði um almennar breytingar á staðlinum með sérstaka áherslu á aukin áhrif stjórnenda og áhættustjórnun. Þá miðluðu þrír gæðastjórar reynslu sinni af innri úttektum. Fyrstur tók til máls Bergþór Guðmundsson, gæðastjóri Norðuráls, þá Ína B. Hjálmarsdóttir, gæðastjóri Blóðbankans, og að lokum Guðrún E. Gunnarsdóttir, gæðastjóri 1912. Athyglisvert var að sjá að nálgun fyrirlesara á innri úttektir var ólík en allir voru þó að uppfylla kröfur þeirra staðla sem unnið er eftir. Fundarmenn voru sammála um að ólík nálgun gefur byr undir báða vængi og er hvatning til þess að nálgast viðfangsefnin út frá þörfum hvers fyrirtækis fyrir sig.

Að loknum erindum stýrði Kristjana Kjartansdóttir opnum umræðum þar sem fundarmenn lögðu sjálfir fram umræðuefnin. Umræður fóru fram á fjórum borðum og að þeim loknum var stutt samantekt þar sem þátttakendur lýstu ánægju sinni með fyrirkomulagið og efnistök dagsins.

Stjórnir beggja hópa, ISO hóps og Gæðastjórnunar, þakka fyrir ánægjulegt samstarf á árinu 2016 og óska nýrri sameiginlegri stjórn velferðar á nýju ári.

 

 

-----

Hér má sjá lýsingu á nýjum sameinuðum hópi en ný stjórn fær það verkefni að móta starfið ennfrekar.

 

Heiti: Gæðastjórnun og ISO staðlar.

Lýsing: Faghópur sem fjallar um gæðastjórnun, ISO staðla og aðra staðla til stjórnunar en einnig faggilda vottun á grundvelli staðla.

 

Markmið og leiðir:

Faghópurinn um gæðastjórnun og ISO staðla vinnur að því að efla þekkingu á gæðastjórnun, ISO stöðlum og öðrum tengdum stöðlum, svo og faggildri vottun.

Hópurinn stuðlar einnig að tengslamyndun og miðlun á reynslu þeirra sem starfa að málum tengdum stjórnun innan fyrirtækja eða stofnana.

Stjórn hópsins skipuleggur fundi þar sem fengnir eru fyrirlesarar sem hafa framsögu um málefni sem áhugavert er að ræða í tengslum við gæðastjórnun eða staðla. Einnig eru rædd þau viðfangefni sem koma upp og ábendingar um leiðir til að leysa þau. Hópurinn er samheldinn og innan hans ríkir trúnaður og traust.

Ennfremur skipuleggur stjórn hópsins ráðstefnur um ýmis málefni tengdum gæðastjórnun og stöðlum, gjarnan í samstarfi við aðra faghópa.

Faghópafundir eða ráðstefnur nýtast bæði byrjendum í heimi gæðastjórnunar og staðla og þeim sem lengra eru komnir allt eftir efni funda eða ráðstefna.  

Orðskýringar

Stjórnunarkerfi, þ.m.t. gæðastjórnunarkerfi, felst í aðgerðum sem fyrirtæki eða skipulagsheild beitir til þess að greina markmið sín og ákvarða þá ferla og auðlindir sem þarf til þess að ná þeim árangri sem sóst er eftir. Hina ýmsu hluta stjórnunarkerfis skipulagsheildarinnar má sameina í eitt stjórnunarkerfi. Hér má nefna sem dæmi gæðastjórnunarkerfi ISO 9001 og ISO 14001 umhverfisstjórnunarkerfi.

 

Stjórnarskiptafundur Stjórnvísi á UNO.

Stjórnarskiptafundur Stjórnvísi var haldinn á UNO þann 4.maí. Meginmarkmið þessa fundar er að formenn faghópa, stjórn, fagráð og skoðunarmenn félagsins kynnist og eigi saman góða stund. Komin er hefð fyrir þessum fundi sem var einstaklega skemmtilegur og gefandi. 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?