Fréttir og pistlar

Hvernig líður fólkinu á þínum vinnustað? Grein í Mbl. höf: Halldóra Hreggviðsdóttir, framkvæmdastjóri ráðgjafarfyrirtækisins Alta.

Hvernig líður fólkinu á þínum vinnustað?

Vissir þú að inniloft hefur áhrif á heilsufar og afköst starfsfólks? Og að algengustu kvartanir vegna vinnuumhverfis tengjast innilofti og gæðum þess? Umhverfi innandyra hefur bein áhrif á einbeitingu, afköst og á vinnugleði almennt. Rannsóknir sýna að með því að auka gæði innilofts þá aukast afköst til muna.

Slæm loftgæði hafa mjög ólík áhrif á einstaklinga, en algengt er að fólk finni fyrir einkennum eins og höfuðverk, húðroða, ertingu í nefi, augum og hálsi og einbeitingaskorti, án þess að tengja það beint við slæm loftgæði.

Það eru margir samverkandi þættir sem hafa áhrif á loftgæði, s.s. hita- og rakastig, loftræsing, gæði útilofts, umbúnaður í vinnurýmum, húsgögn, raftæki, þrif og hreinsiefni svo fátt eitt sé nefnt. Ókleift er í raun að mæla loftgæði beint með mælitækjum, þó vissulega sé hægt að mæla hita- og rakastig og koltvísýring á einfaldan hátt.

Besta leiðin og sú sem gefur raunhæfustu niðurstöðuna er mat starfsfólks á sinni líðan. Til eru stöðluð erlend próf sem lögð eru fyrir starfsfólk sem tengjast upplifun, hugsanlegum einkennum og óþægindum m.t.t. loftgæða, aðbúnaðar og almennra vinnuaðstæðna.

Reynslan er sú að þegar orsakasamhengi er orðið ljóst, þá er iðulega hægt að bæta gæði innilofts með einföldum aðgerðum sem snúast oft um smávægilegar breytingar á starfsháttum. Þannig má bæta líðan og afköst starfsfólks á einfaldan hátt.

Eftir Halldóru Hreggviðsdóttur, framkvæmdastjóra ráðgjafarfyrirtækisins Alta.

BREYTINGASTJÓRNUN - námskeið í desember

BREYTINGASTJÓRNUN
Námskeiðið hefst 4. desember (8 klst)

Breytingar eru eðlilegur þáttur í starfsemi fyrirtækja og stofnana. Mikilvægt er fyrir þá sem stjórna að skynja rétt þörfina fyrir breytingum bæði í umhverfinu og innan vinnustaðarins. Hugmyndin um hið nýja ástand þarf að vera skýr, bæði í huga stjórnandans og þess hóps sem ganga á í gegnum breytingarnar. Þó er ekki öruggt að breytingarnar skili tilætluðum árangri. Til þess þarf stjórnandinn að stjórna breytingunum vel og taka tillit til þeirra einstaklinga sem fara í gegnum breytingar.

Fjallað verður um eðli breytinga á vinnustöðum, aðferðafræði við stjórnun breytinga, möguleg viðbrögð fólks við breytingum sem það hefur ekki sjálft frumkvæði af, og leiðum til að styðja við fólk í breytingaferli.

Leiðbeinandi:
Ketill Berg Magnússon, MBA frá ESADE í Barcelona, kennari við Háskólann í Reykjavík og ráðgjafi á sviði samfélagsábyrgðar og viðskiptasiðfræði. Ketill hefur yfir 10 ára reynslu sem mannauðsstjóri og stjórnendaráðgjafi.

Kennslufyrirkomulag:
Kennsla fer fram miðvikudagana 4. og 11. desember frá kl. 09:00 - 13.00 báða dagana.

Verð: 49.000 kr.

Skráningarfrestur er til 27. nóvember.

Nánari upplýsingar og skráning

Haustráðstefna Stjórnvísi: Upptaka og myndir. Njótið vel!

Kæru Stjórnvísifélagar.
Færri komust að en vildu á haustráðstefnu Stjórnvísi sem bar yfirskriftina "Að ströggla við að djöggla" þar sem fjórir frábærir fyrirlesarar héldu erindi en það voru þau: Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri N1, Ragnheiður Agnarsdóttir, framkvæmdastjóri einstaklingsviðskipta og samskipta hjá TM, Teitur Guðmundsson læknir, Heilsuvernd og Ásta Bjarnadóttir, stjórnunarráðgjafi hjá Capacent. Ráðstefnustjóri var Herdís Pála markþjálfi og fyrirlesari. Hinn landsþekkti leikari Laddi skemmti gestum á sinn einstaka hátt. Hér má sjá upptökur og myndir af ráðstefnunni, Njótið vel!

Erindi Ástu - http://stjornvisi.is/radstefna/Asta/Default.html

Erindi Eggerts - http://stjornvisi.is/radstefna/Eggert/Default.html

Erindi Ragnheiðar - http://stjornvisi.is/radstefna/Ragnheidur/Default.html

Erindi Teits - http://stjornvisi.is/radstefna/Teitur/Default.html

Erindi Ladda - http://stjornvisi.is/radstefna/Laddi/Default.html

https://www.facebook.com/photo.php?fbid=583123371755617&set=pb.110576835676942.-2207520000.1383586795.&type=3&theater

Ábendingar eru ókeypis ráðgjöf. Grein í Mbl. höfundur: Kristín Björnsdóttir, rekstrarhagfræðingur og ráðgjafi hjá FOCAL

Ábendingar eru ókeypis ráðgjöf

Aldrei hefur verið jafn mikilvægt og nú að leysa vel úr innri og ytri ábendingum, kvörtunum og atvikum,

því með tilkomu samfélagsmiðlanna eru þeir farvegir sem viðskiptavinir og starfsmenn hafa til að koma

óánægju og ánægju sinni á framfæri orðnir nánast endalausir. Erfitt er að fylgjast með hvert ummælin

berast og þó ummælum sé eytt út á einum stað geta þau verið á þúsund öðrum stöðum og líftími þeirra

nánast óendanlegur.

Samfélagsmiðlarnir leika nú orðið lykilhlutverk í að vernda orðspor vörumerkis og margar kannanir hafa

sýnt hvað getur gerst ef ekki er brugðist rétt við neikvæðum ummælum á samfélagsmiðlum. Til að mynda

sýnir ein könnun að ein neikvæð ummæli á Twitter geta kostað fyrirtæki 30 viðskiptavini (Convergys).

Til þess að minnka líkurnar á því að neikvæð umfjöllun rati inn á samfélagsmiðlana er einkar mikilvægt að

auðvelda viðskiptavinum og starfsmönnum að koma með ábendingar og meðhöndla þær síðan hratt og

vel.

Máttur einstaklingsins er nefnilega orðinn gríðarlegur; Nielson könnun sýnir t.d. að 70% neytenda treysta

skoðunum annarra neytenda á samfélagsmiðlunum betur en sjónvarpi (62%) og fréttablöðum (61%).

Leiðir til lausnar

En hvernig geta fyrirtæki og stofnanir brugðist hratt og vel við ábendingum frá viðskiptavinum og

starfsmönnum? Verklagið við vinnslu ábendinga, kvartana og atvika verður að vera niðurnjörvað

og vel kynnt meðal starfsmanna. Þá þarf að vera auðvelt að koma ábendingum á framfæri, t.d. með

ábendingaeyðublaði á heimasíðu fyrirtækisins og helst að rafrænt kerfi taki við skráningunum og leiði

ábendinguna áfram í feril á milli manna þar til málið hefur verið leyst.

Án slíkrar rafrænnar lausnar sem tekur á máli frá upphafi og til enda eru miklar líkur á að mál dagi uppi á

ferð sinni á milli pósthólfa starfsmanna. Ef ekki er miðlæg stýring á ábendingum verður nánast ómögulegt

að fá yfirsýn yfir stöðu mála eða draga út tölfræði til að meta umfang og draga læradóm af.

Ábendingar frá viðskiptavinum og starfsmönnum eru ókeypis ráðgjöf um hvernig hægt er að betrumbæta

þjónustu og ferla fyrirtækisins. Fjöldi rannsókna hafa sýnt að neytendur sem fá skjóta og góða úrlausn

sinna ábendinga verða traustari viðskiptavinir og segja öðrum frá góðri þjónustu.

http://www.gaedastjornun.is

Höfundur greinar: Kristín Björnsdóttir, rekstrarhagfræðingur og ráðgjafi hjá FOCAL

Fjöldi ISO vottaðra fyrirtækja árið 2012

Nú hefur ISO gefið út upplýsingar um fjölda vottaðra fyrirtækja í hverju landi árið 2012. Það eina sem þarf að gera er að velja viðkomandi staðal og þá sést fjöldi vottaðra fyrirtækja í hverju landi. Ég hvet ykkur til þess að kynna ykkur málið á eftirfarandi síðu:
http://www.iso.org/iso/home/standards/certification/iso-survey.htm?certificate=ISO%209001&countrycode=AF#standardpick

Kveðja,
Áslaug D. Benónýsdóttir
formaður ISO hóps Stjórnvísi

Viðskiptagreind hélt áhugaverðan og vel sóttan fund um Áætlunar og skýrslugerð í Innovation house

Stjórn faghóps um Viðskiptagreind hélt einstaklega áhugaverðan og fræðandi fund í dag í Innovation House þar sem Martin Thy Asmussen, ráðgjafi hjá danska fyrirtækinu Toolpack, fjallaði um áætlunar og skýrslugerð. Martin fór yfir hvemikilvægt það er hafa samræmi milli deilda í áætlunargerð og skilgreina KPI. Til þess að fylgjast vel með KPI þá er mikilvægt að hægt sé að smella upp skjali sem sýnir áætlunina, sundurliðun á mánuði, rauntölur, samanburður við tímabil f.f.ári og liti sem sýna árangur (gulur, rauður,grænn).

Fullt út úr dyrum á haustráðstefnu Stjórnvísi

Haustráðstefna Stjórnvísi "Að ströggla við að djöggla" hlaut góðar viðtökur og var fullt út úr dyrum. Um 160 manns sóttu ráðstefnuna. Fjórir frábærir fyrirlesarar fluttu erindi en það voru þau: Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri N1, Ragnheiður Agnarsdóttir, framkvæmdastjóri einstaklingsviðskipta og samskipta hjá TM, Teitur Guðmundsson læknir, Heilsuvernd og Ásta Bjarnadóttir, stjórnunarráðgjafi hjá Capacent. Ráðstefnustjóri var Herdís Pála markþjálfi og fyrirlesari. Hinn landsþekkti leikari Laddi skemmti gestum á sinn einstaka hátt. Hér má sjá myndir af ráðstefnunni en fljótlega kemur inn á vefinn upptaka af raðstefnunni. https://www.facebook.com/photo.php?fbid=583123371755617&set=pb.110576835676942.-2207520000.1383586795.&type=3&theater

Nýsköpun í þjónustu. Grein í Viðskiptabl.Mbl. höf: Höfundur Halldór Magnússon, framkvæmdastjóri hjá Marel og félagsmaður í Stjórnvísi.

Þjónusta verður sífellt stærra hlutfall af hagkerfinu og hefur sú þróun orðið á kostnað

hefðbundinnar framleiðslu. Nýsköpun á sér stað í þjónustufyrirtækjum, eins og t.d. í

fjármálaþjónustu og verslun. Nýsköpun í þjónustu í hefðbundnum framleiðslufyrirtækjum

er oft minni gaumur gefinn. Marel er fyrirtæki sem framleiðir tæki og lausnir fyrir

matvælaiðnaðinn. Í dag eru þjónustutekjur Marel einn þriðji af tekjum fyrirtækisins,

en fyrir tæpum áratug voru þær einn tíundi. Tekjurnar koma af sölu varahluta,

viðgerðarþjónustu, uppsetningu, innleiðingu, þjálfun, uppfærslu, ástandsskoðun

og ráðgjöf. Oft er mismunandi þjónustuvörum raðað saman í “pakka” til að svara

kröfum hvers viðskiptavinar, sem í daglegu tali eru kallaðir þjónustusamningar.

Markmið þjónustu Marel er að aðstoða viðskiptavini sína til þess að finna jafnvægi milli

hámarksafkasta og nýtingar véla og afurða með sem minnstum tilkostnaði. Nýsköpun

í þjónustu getur falist í nýrri leið til að dreifa vörunni, annarri aðferð sem byggist á

gamalli tækni eða því hvernig þjónustan er skipulögð og stýrt. Öflugast er þegar vara

og þjónusta renna saman, en eitt best þekkta dæmið um slíkt er Apple og iTunes.

Þegar vel tekst til með að tvinna saman vöru og þjónustu eykst samkeppnisforskotið.

Hjá Marel eru nokkur dæmi um þetta, eins og t.d. í hugbúnaði og beinaleitartækjum.

Þjónustutekjur eru stöðugar tekjur sem eru til staðar í góðu jafnt sem slæmu árferði,

sem kom sér vel fyrir Marel í fjármálakrísunni á árunum 2008 til 2009. Öll fyrirtæki eiga

viðskiptavini sem þarf að þjónusta. Í því felast tækifæri til nýsköpunar sem geta aukið

samkeppnisforskot.

Höfundur er framkvæmdastjóri hjá Marel og félagsmaður í Stjórnvísi.

„Þjónustufulltrúar banka gefi viðskiptavinum nákvæmar upplýsingar“

Fimmtudaginn 24. október síðastliðinn var haldinn fundur í húsnæði HR á vegum faghópa Stjórnvísi um gæðastjórnun og þjónustu- og markaðsstjórnun. Um 30 manns mættu á fundinn og var meirihluti þeirra starfsmenn í bönkum.

Á fundinum fjallaði Ásdís Björg Jóhannesdóttir um meistaraverkefni sitt frá HÍ um þjónustugæði
þjónustufulltrúa banka, greindi frá aðferðafræði rannsóknarinnar og sagði frá niðurstöðum. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar er mikilvægast að að þjónustufulltrúar gefi viðskiptavinum sínum nákvæmar upplýsingar, og þegar öllu er til skila haldið eru áreiðanleiki og fagmennska þeir þættir sem koma efst í huga viðskiptavina þegar kemur að því að meta heildarþjónustugæði þjónustufulltrúa.
Gestir voru að mestu sammála þessum niðurstöðum og bætti einn þeirra við, sem að auki vinnur í banka, að viðskiptavinir kalli einnig eftir frumkvæði í þjónustu.
Að loknu erindi Ásdísar tók Hrefna Sigríður Briem forstöðumaður BSc. náms í viðskiptadeild HR við og fjallaði um nám til vottunar fjármálaráðgjafa sem stendur starfsmönnum fjármálafyrirtækja til boða. Að náminu standa Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja, HÍ, HR og Háskólinn á Bifröst ásamt Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu. Hrefna kom inn á tilurð námsins og markmið en með náminu er m.a. verið að mæta auknum kröfum viðskiptavina til starfsmanna fjármálafyrirtækja og þar með auka gæði fjármálaráðgjafar og þjónustu. Það kom fram hjá Hrefnu að 80 manns hafa þegar lokið náminu og á næsta ári útskrifast um 30 til viðbótar.

Í lokin tók Hanna Dóra Jóhannesdóttir til máls og sagði frá því hvernig vottunarnámið hefði nýst henni og styrkt í starfi sínu sem viðskiptastjóri hjá Íslandsbanka. Það kom fram hjá Hönnu Dóru að frá hruni hafi starf þjónustufulltrúa mikið til snúist um greiðsluerfiðleika og hin venjulegu bankaviðskipti aðeins vikið til hliðar og því hafi námið komið sér afar vel og nefndi hún sérstaklega siðfræðina.
Út frá reynslu Hönnu Dóru er hægt að draga þá ályktun að vottunarnám ýti undir aukinn styrk
í starfi, auki öryggi og stuðli að auknum áreiðanleika og fagmennsku í starfi og auki þar með
heildarþjónustugæði.

Kröfur og eftirfylgni verkkaupa aukast

Fundur var haldinn í morgun þann 29.október hjá Samtökum Iðnaðarins. Fyrirlesari var Ferdinand Hansen verkefnastjóri í gæðastjórnun.

Samtök Iðnaðarins(SI) hafa komið að borðinu frá upphafi til þessa dags í samstarfi við ýmsa aðila með það að markmiði að gera gæðastjórnun einfaldari og skilvirkari. Þar á meðal má nefna námskeið, vottanir í fjórum þrepum og miðlægt gæðakerfi sem félagsmenn SI geta fengið aðgang að til uppbyggingar á eigin gæðahandbók.
Ferdinand sýndi fundargestum dæmi um uppbyggingu gæðakerfis hjá SI. Þeir sem vilja kynna sér vottanir SI og gæðakerfi geta nálgast upplýsingar á heimasíðu SI: http://www.si.is/malaflokkar/gaedastjornun-og-rekstur/gaedavottun-si/

Fyrir hönd stjórnarinnar vil ég þakka Ferdinand fyrir áhugvert erindi. Glærur frá fundinum eru nú aðgengilegar hér á vefnum.

Næsti fundur er 27.nóvember næstkomandi sem ber heitið ,, Staðla- og stjórnunarkerfi frá ISO“. Fyrirlesari er Guðrún Rögnvaldardóttir framkvæmdarstjóri hjá Staðlaráði.
Nánari upplýsingar og skráning hér: http://stjornvisi.is/vidburdir/501

Með kveðju,
Áslaug D. Benónýsdóttir
formaður ISO hópsins

Haustráðstefna Stjórnvísi verður haldin 30.október á Grand hótel kl.13:00-15:30

Á þessu ári verður þema haustráðstefnu Stjórnvísi Samspil vinnu og einkalífs. Við höfum fengið til liðs við okkur áhugaverða einstaklinga sem munu fjalla um rannsóknarþáttinn, staðreyndir, úrlausnir, raunsögur, togstreituna milli þessara tveggja hlutverka og hvað getur auðveldað okkur að ná jafnvægi á millu vinnu og einkalífs. Einnig verður slegið á létta strengi og mætir hinn landsfrægi leikari, söngvari, tónskáld og skemmtikraftur Laddi og bregður á leik.
Fyrirlesrara eru þau Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri N1, Ragnheiður Agnarsdóttir, framkvæmdastjóri einstaklingsviðskipta og samskipta hjá TM, Teitur Guðmundsson læknir, Heilsuvernd, Ásta Bjarnadóttir, stjórnunarráðgjafi hjá Capacent o.fl.
Ráðstefnustjóri verður Herdís Pála markþjálfi og fyrirlesari, ráðstefnan verður verður haldin á Grand Hótel frá kl.13:00-15:30 miðvikudaginn 30.október frá kl.13:00-15:30

Boðið verður upp á kaffihlaðborð og eru allir Stjórnvísifélagar hjartanlega velkomnir.

Upplýsinga- og skjalastjórnun, gæðastjórnun og verkefnastjórnun; Fræðigreinar sem vinna saman

Morgunfundur gæðastjórnunarhóps Stjórnvísi „Skjalastjórnun - Gæðastjórnun - Stjórnun upplýsinga“ var haldinn hjá Endurmenntun 23. september síðastliðinn. Fyrirlesarar voru þær Jóhanna Gunnlaugsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands og Gunnhildur Lilja Sigmundsdóttir, skjalastjóri hjá Motus.

Í erindi sínu fjallaði Jóhanna annars vegar um mikilvægi stjórnunar upplýsinga fyrir gæðastjórnun og hins vegar um niðurstöður meistararannsóknar Ingibjargar Hrundar Þráinsdóttur. Markmið rannsóknarinnar var að leitast við að greina hvort munur væri á milli opinberra stofnana, hvað skjalastjórnun varðar, sem hafa fengið ISO 9001 vottun á gæðastjórnunarkerfi sitt og opinberra stofnana sem ekki eru með vottað gæðastjórnunarkerfi.

Gunnhildur kynnti niðurstöður meistararannsóknar sinnar. Markmið hennar var að öðlast innsýn í innleiðingu og viðhald vottunar á ISO 9001 gæðastjórnunarkerfi hjá íslenskum skipulagsheildum með tilliti til þess hvaða ávinning gæðastjórar teldu hafa hlotist af vottuninni og hvað hvatti skipulagsheildir til að öðlast og viðhalda henni.

Í máli Jóhönnu og Gunnhildar kom meðal annars fram að upplýsinga- og skjalastjórnun, gæðastjórnun og verkefnastjórnun eru fræðigreinar sem vinna saman.

Skjalfesting og skjalastýring eru ekki markmið í sjálfu sér heldur virðisaukandi starfsemi til stuðnings skilvirku gæðastjórnunarkerfi. Skjalastjórnun á að tryggja að hægt sé að endurheimta skjöl fljótt og örugglega og þannig auka skilvirkni í rekstri skipulagsheilda. Ennfremur að fyrirbyggja að skjöl verði fyrir skemmdum, tapist eða komist í hendur óviðkomandi aðila, auk þess að afstýra ótímabærri eyðingu þeirra og koma í veg fyrir óþarfa uppsöfnun upplýsinga á skrifstofum og í geymslum.

Meginmarkmið gæðastjórnunar er að ná fram mestu gæðum í framleiðslu eða þjónustu. Með gæðastjórnunarkerfi er kerfisbundinni stjórnun komið á. Kerfisbundin stjórnun miðar almennt að samkeppnisforskoti með bættri frammistöðu, auknum verðmætum með sjálfbærum starfsháttum og/eða lágmörkun rekstrartruflana með skilvirkri áhættustjórnun. Ferlastjórnun er þar kjarninn; ferlar eru skjalfestir m.a. í þeim tilgangi að samræma verklag, auðvelda rýni og úrbætur á því (stöðugar umbætur, þróunarstarf).

Verkefnið innleiðing gæðastjórnunarkerfis kallar á verkefnastjórnun. Verkefnastjórnun leggur meðal annars áherslu á undirbúning og áætlanagerð, eftirfylgni og samskipti. Að hafa gott innleiðingarmódel skiptir sköpum í undirbúningi og áætlanagerð. Í módelinu sem að þessu sinni var kynnt er meðal annars gert ráð fyrir að; stuðningur æðstu stjórnenda sé tryggður, einn aðili sé ábyrgur fyrir verkefninu (verkefnisstjóri), komið sé á þverfaglegri nefnd, umfang gæðastjórnunar sé skilgreint, þarfagreining fari fram, gerð sé tíma- og kostnaðaráætlun, hugað sé að andstöðu (stjórnun breytinga) og verkefnið sé kynnt meðal starfsmanna, þeir virkjaðir og hljóti viðeigandi menntun og þjálfun.

ISO vottun SORPU - vegferð til framtíðar

Fundur var haldinn í morgun þann 22.október hjá Sorpu. Fyrirlesari var Ragna Ingibjörg Halldórsdóttir Deildarstjóri Umhverfis-og fræðsludeildar Sorpu.

SORPA fékk ISO 9001 vottun árið 2010 og í fyrirlestrinum var komið inná hvernig stjórntækið ISO 9001 hefur dregið fram verklag og ferla hjá öllum starfsstöðvum fyrirtækisins. Í dag eru ferlar og verklag öllum sýnileg, auðfundin og eiga allir starfsmenn sinn þátt í því.
Einnig var komið inná í fyrirlestrinum hvernig umhverfisfyrirtækið SORPA stefnir ótrauð áfram inná lendur gæða- umhverfis og öryggisstjórnunar.

Allir fundargestir fengu veglega innkaupapoka og endurvinnslupoka að gjöf.
Fyrir hönd stjórnarinnar vil ég þakka Rögnu fyrir áhugvert erindi. Myndir frá fundinum eru nú aðgengilegar hér á vefnum.

Næsti fundur er þann 29.október næstkomandi sem ber heitið ,, Kröfur og eftirfylgni verkkaupa aukast“ Fyrirlesari er Ferdinand Hansen verkefnastjóri Samtak iðnaðarins í gæðastjórnun. Fyrirlesturinn er haldinn í höfuðstöðvum Samataka Iðnaðarins í Borgartúni.
Nánari upplýsingar og skráning hér: http://stjornvisi.is/vidburdir/500

Fyrir hönd stjórnarinnar vil ég hvetja alla til þess að kynna sér áhugaverða dagskrá ISO hópsins núna í vetur, en búið er að setja inn alla fundi undir ,,Viðburðir".

Með kveðju,
Áslaug D. Benónýsdóttir
formaður ISO hópsins

Styttri verkefnalisti? Já takk! - Grein í Mbl. höfundur: Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri

Verkefnalistar stjórnenda eru gjarnan mílulangir og flestir sjá aldrei fram á að ljúka honum þar sem sífellt bætist á hann. Stærsta verkefni þeirra er oftar en ekki að koma meiru í verk á skemmri tíma, hvort sem það er um að ræða að klára sín verkefni fyrr eða styðja starfsfólk sitt í að afkasta meiru. Það getur hins vegar verið mjög yfirþyrmandi að sjá aldrei ganga á blessaðan verkefnalistann og þegar til lengdar lætur jafnvel leitt til kulnunar í starfi. Það er því mikilvægt að sjá listann góða öðru hvoru styttast í annan endann. Nýttu þér þessi einföldu ráð til að „rusla“ listanum hraðar af:

  1. Kláraðu þrjú atriði fyrir hádegi. Það lið sem er yfir í hálfleik er líklegra til að sigra! Gerðu það sem þú getur til að þú getir fagnað áfangasigri yfir hádegismatnum og þá mætirðu fílefld(ur) til leiks eftir mat (mundu nauðsyn þess að fara í „alvöru“ mat, ekki bara gleypa í sig við tölvuna!).
  2. Stóru steinarnir fyrst. Brjóttu stærri verkefni niður í minni einingar og byrjaðu á þeim sem lengstan tíma taka. Ef þú byrjar á þeim styttri eru meiri líkur á að þær lengri sitji á hakanum því erfiðara er að hafa sig í stór verkefni þegar langt er liðið á daginn og orkan er farin að dvína.
  3. Sameinaðu lík verkefni. Endurtekningin er góð til að ná upp hraða. Leggðu þig fram um að vinna lík verk í sömu atrennu og náðu þannig upp slagkrafti sem skilar þér auknum afköstum.
  4. Skerðu niður. Líkur eru á að þú komist aldrei yfir allt sem er á listanum. Sættu þig við það frekar en að láta það íþyngja þér, komdu þeim verkefnum annað, eða strikaðu þau hreinlega út!
    Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri

Eru umbótaverkefni verkefni?

Fundur var haldinn í morgun þann 17.október hjá Póstinum.
Fyrirlesari var Sigríður Jónsdóttir gæðastjóri Póstsins.

Sigríður gerði rannsókn meðal allra ISO 9001 vottaðra fyrirtækja á Íslandi um hvernig umbótaverkefni fyrirtækjanna eru meðhöndluð. Hvort hefðbundnar aðferðir verkefnastjórnunar væru notaðar. Kannað var hvort slík verkefni hefðu mælanleg markmið og hvaða verkfæri væru notuð við vinnslu umbótaverkefna.

Þetta verkefni er eitt af fimm verkefnum útskrifaðra nema 2013 sem var valið til kynningar á alþjóðlegri verkefnastjórnarráðstefnu IPMA í október.

Hægt er að nálgast verkefni Sigríðar á heimasíðu Skemmunnar í gegnum eftirfarandi link:
http://skemman.is/stream/get/1946/16297/36551/1/Sigridur_Jonsdottir_Skil_f_Skemmuna.pdf

Fyrir hönd stjórnarinnar vil ég þakka Sigríði fyrir áhugvert erindi. Glærur og myndir frá fundinum eru nú aðgengilegar hér á vefnum.

Næsti fundur er þann 22.október næstkomandi. Fundurinn ber heitið: ,,ISO vottun SORPU - vegferð til framtíðar?“ Nánari upplýsingar og skráning hér: http://stjornvisi.is/vidburdir/507

Fyrir hönd stjórnarinnar vil ég hvetja alla til þess að kynna sér áhugaverða dagskrá ISO hópsins núna í vetur, en búið er að setja inn alla fundi undir ,,Viðburðir".

Með kveðju,
Áslaug D. Benónýsdóttir
formaður ISO hópsins

Stjórnandinn og kærleikurinn. Grein í Viðskiptablaði Mbl. Höfundur Þorvaldur Ingi Jónsson, ráðgjafi, viðskiptafræðingur, Ms í stjórnun- og stefnumótun. Stjórnarmaður í Stjórnvísi

Stjórnandinn og kærleikurinn
Hvaða stjórnanda hefur þér líkað best við? Stjórnandann sem telur sig vita best og gefur beinar skipanir, er áberandi og alltaf „fremstur“? Eða er það stjórnandinn sem lætur þér líða vel, veitir skýrt umboð og treystir þér til að leysa verkefnin? Í dag er talað um þjónandi stjórnanda. Í þessari stuttu grein vil ég benda á mikilvægi þess að stjórnendur leggi áherslu á að byggja upp og efla sjálfstraust starfsmanna sinna. Starfsmenn finna, að stjórnandinn vill í raun og leggur sig fram um að starfsmönnum líði vel í eigin skinni.
Hvað þarf til? Grunnforsenda að góðum rekstri er að stefnan sé skýr. Leiðtoginn innleiðir stefnuna með starfsmönnum, það er vilji og geta til að fylgja markmiðum eftir og árangurinn er mældur. Hver er forsenda fyrir því að starfsmenn leggi sig 100% fram og sýni fyrirtækinu tryggð? Það eru ekki hæstu launin, heldur að starfsmönnum finnist þeir vera að ná árangri og þeir eru í liðinu sem vinnur saman að því að ná sigrum. Það er ekki hægt til lengdar að ná árangri og bæta samkeppnisstöðuna nema með því að starfsmenn hafi sjálfsöryggi og metnað fyrir verkefnunum sem þeir vinna.
Rannsóknir sýna að þau fyrirtæki sem ná mestum árangri hafa stjórnendur, leiðtogar, sem hafa skýra sýn, óbilandi metnað og trú á að hægt sé að gera betur. Þeir er til staðar fyrir og með sínum starfsmönnum. Þeir taka á sig vandamálin en njóta sigra með starfsmönnum. Starfsmenn fá hólið og hvatninguna. Það er gaman í vinnunni, markmiðin og umboðið skýrt og tíminn er vel nýttur til að sinna mikilvægustu verkefnunum.
Góður stjórnandi sem vill ná árangri til lengri tíma þarf að vera góð fyrirmynd, leggja áherslu á að allir starfsmenn leggi hverjir öðrum lið, byggi upp velvild, samstöðu og gleðjist saman yfir sigrum. Viljinn er þá til staðar til að bæta. Starfsmenn eru óttalausir - vilja miðla mistökum - lærdómi. (Ekki mistök fyrr en þau eru endurtekin). Nú leggja fyrirtæki eins og Google mikla áherslu á að starfsmenn fái námskeið í „hugrækt“ - byggi upp innri styrk. Stjórnendur er annt um velferð starfsmanna sinna. Sjá vef www.siyli.org. Kærleikurinn er uppbyggjandi og skilar meiri árangri.
Þorvaldur Ingi Jónsson, ráðgjafi, viðskiptafræðingur, Ms í stjórnun- og stefnumótun. Stjórnarmaður í Stjórnvísi

Frábærar móttökur Sjávarklasans.

Á fyrsta fundi faghóps um nýsköpun og sköpunargleði, sem haldinn var í lok september, var farið í heimsókn í hús íslenska sjávarklasans. Þar tók á móti okkur Þór Hauksson, framkvæmdastjóri sjávarklasans, og kynnti hugmyndafræði klasans, söguna um upphaf hans og kynnti okkur fyrir skemmtilegum verkefnum og fyrirtækjum sem tengjast klasanum. Fyrir hönd stjórnar faghópsins þökkum við kærlega fyrir frábærar móttökur.

Hægt er að kynna sér starfsemi sjávarklasans nánar og fyrirtæki sem tengjast honum á www.sjavarklasinn.is.

Sigurvegari í verðlaunagetraun

Samhliða kynningum var verðlaunagetraun. Þórhildur Halldórsdóttir vann til verðlaunanna sem eru tveir miðar á Iceland Innovation UnConference, nýstárlegan nýsköpunarviðburð, sem haldinn verður á Háskólatorgi þann 9. nóvember næstkomandi. Nánar um viðburðinn á www.landsbankinn.is/unconference.

Spurningar og svör úr getrauninni:

Hvaða fyrirtæki er best í því að eyða því sem ekki sést með berum augum? - DIS
Allir starfsmenn fyrirtækisins hafa tekið sundsprett í Ermasundi - Novo foods
Nafn fyrirtækisins byrjar eins og nafn bjórtegundar - Pólar togbúnaður (Polar beer)
Í klasanum er óvanaleg útgerð. Hvað gerir hún út? - Hannar fatnað, Útgerðin
Á frumkvöðlasetrinu er teymi þar sem meirihluti þess er staðsettur á Bolungarvík - Kaldpressað lýsi

Við bendum á fróðlega fundi Klak Innovit og Landsbankans sem kallast nýsköpunarhádeig og haldin eru á hverjum þriðjudegi kl. 12-13 að Innovation house Eiðistorgi.

Fyrsti fundur ISO hóps Stjórnvísi hjá AZAZO

Fyrsti fundur ISO hóps Stjórnvísi var haldinn í morgun þann 8.október hjá AZAZO/Gagnavarslan.
Fyrirlesarar voru Brynja Guðmundsdóttir forstjóri AZAZO og Guðmundur S. Pétursson ráðgjafi hjá AZAZO.
Brynja fjallaði um AZAZO og Guðmundur fjallaði um efnið: ,,Geta virk gæðakerfi lognast útaf? Þáttur stjórnenda í uppbyggingu gæðakerfa".

Það var mjög áhugavert að hlusta á erindi þeirra beggja. Það er greinilegt að mikil þekking og reynsla er innan veggja fyrirtækisins hjá þeim í gæðamálum. Nánar má fræðast um fyrirtækið á eftirfarandi link: http://www.azazo.com/

Fyrir hönd stjórnarinnar þá vil ég þakka starfsmönnum AZAZO fyrir áhugvert erindi og hýsingu fundarins og einnig vil ég þakka fundarmeðlimum fyrir góða mætingu. Glærur og myndir frá fundinum eru nú aðgengilegar hér á vefnum.

Næsti fundur er þann 17.október næstkomandi. Fundurinn ber heitið: ,,Eru umbótaverkefni ISO 9001 vottaðra fyrirtækja hefðbundin verkefni eða ekki?“ Fyrirlesarinn heitir Sigríður Jónsdóttir og er gæðastjóri hjá Póstinum. Fyrirlesturinn er haldinn í höfuðstöðvum póstsins að Stórhöfða 29 í Reykjavík.

Fyrir hönd stjórnarinnar vil ég hvetja alla til þess að kynna sér áhugaverða dagskrá ISO hópsins núna í vetur, en búið er að setja inn alla fundi undir ,,Viðburðir".

Með kveðju,
Áslaug D. Benónýsdóttir
formaður ISO hópsins

Þegnskapur fyrirtækja. Grein í Viðskiptablaði Mbl. Höfundur: Lára Jóhannsdóttir, höfundur er nýdoktor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og stjórnarmaður í LSBÍ.

Hugtakið þegnskapur fyrirtækja (e. corporate citizenship) tengist áherslum um samfélagsábyrgð og sjálfbærni. Samkvæmt hugtakinu hafa fyrirtæki samfélagsleg réttindi og skyldur umfram að hámarka arð hluthafa. Þegnskapurinn felur í sér að bætta úr samfélagslegum vandamálum og tengist þannig einni af víddum sjálfbærni, en hinar eru efnahagslegs og umhverfislegs eðlis.
Hnattrænn þegnskapur fyrirtækja (e. global corporate citizenship) er víðara hugtak. Það felur í sér að fyrirtæki fást við vandamál sem hafa munu skaðleg áhrif á móður jörð og íbúa hennar, til að mynda loftslagsbreytingar, vatns-, fæðu- og menntunarskort, glímuna við fátækt, viðbrögði við hamförum, alþjóðlega glæpastarfsemi o.fl.
Bestur árangur næst ef viðfangsefnin tengjast kjarnastarfsemi fyrirtækjanna. Útivistafataframleiðandinn Patagonia leggur mikið upp úr því að sýna þegnskap í verki með því að stuðla að sanngjörnum vinnuskilyrðum í fataverksmiðjum og með samvinnu við framleiðendum vefnaðar með það að markmiði að þróa hágæða efna samhliða því að lámarka neikvæð umhverfisleg og samfélagsleg áhrif. Fyrirtækið ánafnar 1% af árlegri sölu til aðgerðarsinna í umhverfismálum til að vinna gegn umhverfisskaða sem starfsemin veldur. Grameen bankinn í Bangladesh er annað dæmi um fyrirtæki sem sýnir þegnskap í verki, en stofnandi bankans er handhafi friðarverðlauna Nóbels fyrir störf í þágu friðar og fátækra. Bankinn hefur breytt lífsskilyrðum margra til hins betra með samfélags- og heilbrigðisfræðslu, kennslu í lestri og skrift og örlánastarfsemi (e. microcredit) til kvenna.
Þegnskapur fyrirtækja byggir á viðhorfum þeirra sem þar ráða ríkjum, en gildismat þeirra er annað og meira en fjárhagslegur gróði, þó svo rekstrarniðurstaða geti og þurfi einnig vissulega að vera jákvæð.

Gagnlegir örfundir - grein í Viðskiptablaði Mbl. höfundur er Ásta Malmquist,

Gagnlegir örfundir / örfundir halda okkur við / Vertu með
Haustið er tími breytinga og oft upphaf að einhverju sem við höfum ætlað að gera lengi. Nú er tíminn kominn og við skulum gæta okkur á að missa hann ekki úr greipum okkar. Fyrir þá stjórnendur sem eru að berjast við tímaskort en langar til að halda sér við í sínu fagi eða kynnast nýjungum í hinum ýmsu greinum sem stjórnendur fást við alla daga langar mig til að benda á Stjórnvísi. Stjórnvísi er stærsta stjórnunarfélag á Íslandi sem byggir starfsemi sína fyrst og fremst á öflugum faghópunum, sem eru yfir tuttugu. Í hópunum er að finna stjórnendur úr ýmsum áttum sem leggja sig fram við að bjóða upp á spennandi og faglega dagskrá allan veturinn. Þar er að finna fjölbreytt úrval fyrir stjórnendur, sérfræðinga og nema. Háskólanemar fá fría aðild að félaginu í boði þeirra fyrirtækja sem eru aðilar að félaginu og greiða þannig aðgang fyrir starfsmenn sína að óþrjótandi möguleikum að sækja sér þekkingu í faghópa Stjórnvísis. Faghóparnir standa fyrir stuttum og hnitmiðuðum örfundum, sem ýmist eru haldnir í byrjun dags, hádeginu eða í lok dags. Allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi og Stjórnvísi er klárlega einn hagkvæmasti og áhrifaríkasti kostur í fræðslu og endurmenntun hjá fyrirtækjum í dag. Iðulega tekur maður eitthvað með sér „heim“ sem hægt er að nýta á okkar vinnustað, eftir fund hjá Stjórnvísi eða fengið vissu um að við séum á réttri leið eða jafnvel að maður sé að gera enn betur og það styrkir mann í trúnni á að halda áfram. Síðast en ekki síst þá er vettvangur Stjórnvísis góður staður til að styrkja tengslanetið, kynnast fagfólki alls staðar að úr atvinnulífinu. Skráðu þig strax í Stjórnvísi og veldu þér faghóp, þá ert þú með á nótunum í vetur.
Ásta Malmquist
Situr í stjórn Stjórnvísi

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?