Fréttir og pistlar
Fyrsti fundur gæðahóps Stjórnvísi var haldinn í húsakynnum Johan Rönning að Klettagörðum þann 4. september síðastliðinn. Hugmyndin að fundinum varð til í vor þegar fyrstu fyrirtækin ákváðu að innleiða jafnlaunakerfi sem byggir á nýjum íslenskum staðli þess efnis. Vinnustaðirnir Johan Rönning og Landmælingar Íslands eiga það sameiginlegt að hafa verið efstir í sínum flokkum í könnun VR og SFR á starfsumhverfi og starfsánægju síðastliðið vor og hlutu viðurkenninguna Fyrirtæki ársins 2013 og Stofnun ársins 2013. Báðir vinnustaðirnir fengu jafnlaunavottun VR í vor og voru Landmælingar Íslands fyrst opinberra stofnana til að fá vottunina.
Á fundinum var sagt frá tengslum milli jafnlaunakerfisins og gæðakerfis sem byggir á gæðastaðlinum ISO 9001. Einnig var sagt frá innleiðingarferlinu hjá báðum vinnustöðunum. Margar spurningar brunnu á fundargestum og sköpuðust líflegar umræður í kjölfarið.
Staðallinn sem jafnlaunkerfið er byggt á heitir ÍST 85:2012 Jafnlaunakerfi - kröfur og leiðbeiningar og er fáanlegur hjá Staðlaráði Íslands. Staðallinn var búinn til í þeim tilgangi að styðja við innleiðingu nýrra jafnréttislaga nr. 10/2008.
Gæðahópurinn þakkar Johan Rönning fyrir sérstaklega góðar móttökur. Á Facebook síðu Stjórnvísi má sjá myndir af fundinum en líka hér á heimasíðunni.
Það er tilhlökkkun í félögum Stjórnvísi sem nú hefja nýtt starfsár af krafti sem mun vafalaust verða viðburðarríkt og skemmtilegt.
Kynning á nýrri stjórn og faghópum félagsins fer fram í Nauthól þann 4. September þar sem kynntar verða áherslur og dagskrá haustsins. Ég vil hvetja félagsmenn til að mæta og kynna sér hana, sýna sig og sjá aðra, enda eitt af markmiðum félagsins að virkja tengslanet þeirra.
Félagið er sterkt og hefur verið að sækja í sig veðrið á undanförnum árum, viðburðir hafa verið vel sóttir og ráðstefnur á vegum félagsins verið til mikillar fyrirmyndar. Við höfum markvisst verið að efla faghópastarfið og hefur það blómstrað. Þá hafa bæst við nýjir hópar, aðrir hafa sameinast, en markmið allra er að veita faglega, eftirsóknarverða og góða símenntun á sviði stjórnunar.
Mikill hugur er í meðlimum félagsins og metnaður að gera vel, stjórnendur fyrirtækja sjá hag í því að vera meðlimir og starfsmenn þeirra kunna vel að meta það fjölbreytta úrval funda sem boðið er uppá hverju sinni í mismunandi faghópum. Auk þessa eru fjöldamargir einstaklingar og námsmenn sem nýta sér það þekkingarsamfélag sem Stjórnvísi er.
Styrkur félagsins felst í því að vera eign félagsmanna sjálfra og hugsjónum þess að efla þekkingu þeirra.
Með kveðju,
Teitur Guðmundsson, formaður Stjórnvísi
Enn er tækifæri fyrir áhugasama til að bjóða sig fram í stjórnir nokkurra faghópa. Allar upplýsingar um stjórnir faghópa má sjá á www.stjornvisi.is . Einhverjar stjórnir eru þegar fullskipaðar en aðrar eru að endurnýja sig. Það er einstaklega gefandi og skemmtilegt að starfa í stjórn faghóps, þú kynnist nýju kraftmiklu og áhugaverðu fólki, nýjum fyrirtækjum, kemur hugmyndum á framfæri og færir þínum faghóp brautargengi með áhugaverðri fræðslu og nýrri þekkingu. Einnig er tækifæri til að mynda stjórn og endurvekja þrjá faghópa en það eru faghópar um hugbúnaðarprófanir, matvælasvið og viðskiptagreind.
Áhugasamir eru beðnir um að hafa samband sem fyrst við formenn faghópa Stjórnvísi og/eða framkvæmdastjóra Stjórnvísi gunnhildur@stjornvisi.is sem veitir allar nánari upplýsingar .
Faghópur formaður netfang
Breytingastjórnun Guðný Finnsdóttir gkf1@hi.is
CAF/EFQM Sigurjón Þór Árnason sigurjon.arnason@tr.is
Fjármál fyrirtækja Runólfur Birgir Leifsson runolfurb@gmail.com
Gæðastjórnun Linda Rut Benediktsdóttir linda.benediktsdottir@tollur.is
Heilbrigðissvið Anna Lára Steingrímsdóttir annalara@klak.is
Hugbúnaðarprófanir Ný stjórn gunnhildur@stjornvisi.is
Innkaup og innkaupastýring Elín B.Gunnarsdóttir elin.bubba.gunnarsdottir@reykjavik.is
ISO hópur Ína Björg Hjálmarsdóttir ina@landspitali.is
Lean -Straumlínustjórnun Þórunn M. Óðinsdóttir thorunn@intra.is
Markþjálfun Steinunn Hall steinunn@amaxa.is
Matvælasvið Ný stjórn gunnhildur@stjornvisi.is
Nýsköpun og sköpunargleði Haraldur Unason Diegoharaldur@fagrad.is
Samfélagsábyrgð fyrirtækja Þorsteinn Kári Jónsson thorsteinnkari@ru.is
Stefnumótun og BSC Jón Halldór Jónasson jon.halldor.jonasson@reykjavik.is
Umhverfi og öryggi Ásdís Björg Jónsdóttir asdis@n1.is
Upplýsingaöryggi Rut Garðarsdóttir rutga@betware.com
Verkefnastjórnun Starkaður Örn Arnarson starkadur.arnarson@arionbanki.is
Viðskiptagreind Ný stjórn gunnhildur@stjornvisi.is
Þjónustu-og markaðsstjórnun Sigrún Viktorsdóttir sigrun.viktorsdottir@or.is
Þann 4. september kl.15:30-17:15 2013 fer fram kynning á haustdagskrá Stjórnvísi í Nauthól.
Stjórn Stjórnvísi og stjórnir allra faghópa Stjórnvísi munu kynna hvað er framundan hjá þeim í vetur. Einnig mun fara fram stutt kynning á uppfærðri heimasíðu félagsins. Fundurinn er öllum opinn og félagar hvattir til að koma og kynna sér spennandi dagskrá vetrarins.
Dagskrá:
kl.15:30 Teitur Guðmundsson, formaður stjórnar Stjórnvísi
kl.15:35 Kynning á uppfærðri heimasíðu félagsins
kl.15.40 Þjónustu og markaðsstjórnun
kl.15:45 Viðskiptagreind
kl.15:50 Verkefnastjórnun
kl.15:55 Upplýsingaöryggi
kl.16:00 Umhverfi-og öryggi
kl.16:05 Stefnumótun og Balanced Scorecard
kl.16:10 Samfélagsábyrgð fyrirtækja
kl.16:15 Opinber stjórnsýsla
kl.16:20 Nýsköpun
kaffihlé
kl.16:25 Markþjálfun
kl.16:30 Mannauðsstjórnun
kl.16:35 Lean-Straumlínustjórnun
kl.16:40 ISO-hópur
kl.16:45 Innkaup og innkaupastýring
kl.16:50 Heilbrigðissvið
kl.16:55 Gæðastjórnun
kl.17:00Fjármál fyrirtækja
kl.17:05CAF/EFQM Sjálfsmatslíkan
kl.17:10 Breytingastjórn
STRAUMLÍNUSTJÓRNUN
Lean Management Programme
Hefst 10. október (64 klst.)
Kynningarfundur fyrir nám í Straumlínustjórnun verður haldinn fimmtudaginn 29. ágúst kl. 15:00 í Opna háskólanum í HR. Boðið verður upp á síðdegishressingu. Skráning á kynningarfund hér.
Heildstætt nám í aðferðafræðum straumlínustjórnunar, stöðugra umbóta og þróun viðskiptaferla hefur nú göngu sína í annað sinn í haust. Farið verður yfir sögu og megin inntak straumlínustjórnunar og stöðugra umbóta og sérstaklega skoðað hvernig þessar aðferðir eru innleiddar og hvað þurfi til að ná árangri.
Skráning og nánari upplýsingar
BEYOND BUDGETING
- ágúst (7 klst.)
Markmið námskeiðsins er að veita þátttakendum innsýn inn í Beyond Budgeting stjórnunarmódelið og hvernig fyrirmyndar BB fyrirtæki eru rekin án hefðbundinna fjárhagsáætlana.
Skráning og nánari upplýsingar
STJÓRNUN AÐFANGAKEÐJUNNAR
Supply chain management programme
Hefst 24. september (70 klst.)
Kynningarfundur fyrir nám í Stjórnun aðfangakeðjunnar verður haldinn fimmtudaginn 29. ágúst kl. 15:00 í Opna háskólanum í HR. Boðið verður upp á síðdegishressingu. Skráning á kynningarfund hér.
Aðfangakeðjan verður sífellt flóknari og nýjar aðferðir að líta dagsins ljós við það að gera heildaraðfangakeðjuna hagkvæmari. Áhersla verður því lögð á að dýpka þekkingu þátttakenda á heildarmynd aðfangakeðjunnar. Námið hentar sérstaklega sérfræðingum og stjórnendum fyrirtækja sem starfa á sviði framleiðslu, þjónustu, dreifingar og inn- eða útflutnings.
Skráning og nánari upplýsingar
STJÓRNUN 2.0
Management 2.0
Hefst 21. nóvember (16 klst.)
Á námskeiðinu verða kynntar nýjar og óhefðbundnar stjórnunaraðferðir sem nokkur af fremstu fyrirtækjum heims nota. Aðstæður fyrirtækja og eðli þeirra er allt annað nú en hefur verið sl. 100 ár og því kalla nýir tímar á nýjan hugsunarhátt við uppbyggingu og stjórnun fyrirtækja.
Skráning og nánari upplýsingar
Stjórn faghóps um þjónustu- og markaðsstjórnun vekur athygli á áhugaverðri ráðstefnu sem haldin verður þann 14.júní nk. sem ber yfirskriftina "Samstaða og árangur"
Áhugaverð ráðstefna sem vert er að skoða betur. 14.6, kl 8.30-16. Sjá nánar http://thjonandiforysta.is/hvad-er-thjonandi-forysta/radstefna-14-juni-2013/
Dagskrá ráðstefnunnar:
Kl. 8:30 - Ráðstefnan sett
Dr. Margaret Wheatley: Lykilfyrirlestur: Leadership in Turbulent Times: From Hero to Host. Ágrip fyrirlesturs (pdf).
Una Steinsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Íslandsbanka: Framtíðarsýn Íslandsbanka er að vera fremst í þjónustu, hvernig nær bankinn því markmiði?
Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir, skólahjúkrunarfræðingur og höfundur: Samskiptaboðorðanna. Samskiptaboðorð þjónandi leiðtoga.
Tómas Guðbjartsson prófessor og hjartaskurðlæknir Landspítala: Menntun og rannsóknir ungs fólks - forsendur nýrrar þekkingar.
Kl. 11:45 - Hádegisverður og samtal í hópum
Dr. Carolyn Crippen: Lykilfyrirlestur: Seven Pillars of Servant Leadership: An Action Plan. Ágrip fyrirlesurs (pdf).
Sigrún Gunnarsdóttir, dósent Háskóla Íslands: Rannsóknir hér á landi um þjónandi forystu.
Þóra Hjörleifsdóttir, deildarstjóri við Síðuskóla Akureyri: Stjórna skólastjórnar, á Norðurlandi eystra, skólum sínum í anda þjónandi forystu?
Hulda Rafnsdóttir, hjúkrunarfræðingur og gæðastjóri á Sjúkrahúsinu á Akureyri: Árangursrík stjórnun og forysta innan heilbrigðisþjónustunnar
Charlotte Böving, leikkona og leikstjóri. Þjónandi forysta í leikhúsinu.
Jón Gnarr, borgarstjóri: Kjötiðnaðarmaður, leigubílstjóri, leikari og borgarstjóri.
Kl. 16 - Ráðstefnulok
http://thjonandiforysta.is/hvad-er-thjonandi-forysta/radstefna-14-juni-2013/
Vinnuvernd til fyrirmyndar hjá VÍS
Evrópska vinnuverndarstofnunin bendir á vinnuverndarstarf VÍS og heilsueflingu starfsfólks sem fyrirmynd að góðum starfsháttum meðal evrópskra fyrirtækja.
Á heimasíðu stofnunarinnar https://osha.europa.eu/data/case-studies/safety-and-health-promotion-in-insurance-company-in-iceland/view er fjallað um hvernig VÍS stuðlar að sem bestum félagslegum og andlegum aðbúnaði starfsmanna, starfsumhverfi og heilsueflingu á vinnustaðnum. Góð og opin samskipti eru lykilatriði í að skapa vinnustaðamenningu sem byggist á trausti, umhyggju og vellíðan starfsmanna. Þau fela meðal annars í sér reglulega upplýsingagjöf frá æðstu stjórnendum um starfsemi og rekstur fyrirtækisins, árleg starfsmannasamtöl og hvatningu til starfsmanna um opinská samskipti við stjórnendur.
Sömuleiðis er komið inn á hvernig VÍS hefur frá árinu 1999 nýtt sér niðurstöður úr árlegri vinnustaðagreiningu sem mælitæki fyrir stjórnendur í að efla heilsu- og vinnuverndarstarf fyrirtæksins. Þar er líðan starfsmanna í vinnu könnuð, ánægja með starfsumhverfi, starfsálag og samskipti milli deilda innan fyrirtækisins.VÍS leggur ríka áherslu á að skapa gott jafnvægi milli vinnu og einkalífs, stuðla að þróun í starfi og heilsueflingu starfsmanna. Til dæmis með reglulegri fræðslu um líkamlegt og andlegt heilbrigði, mataræði og streitustjórnun.
Sem tryggingafélag er VÍS öðrum fyrirtækjum til fyrirmyndar í öryggismálum og vinnuvernd starfsmanna. Að lokum tiltekur Evrópuska vinnuverndarstofnunin ávinninginn af vinnuverndarstarfinu og heilsueflingu starfsmanna; jákvæður og góður vinnustaður, gott vinnuumhverfi, góð öryggis- og forvarnarmenning og síðast en ekki síst ánægt og öruggara starfsfólk.
„Þetta er auðvitað flott viðurkenning á því starfi sem við höfum unnið með það fyrir augum að vera öðrum fyrirtækjum til fyrirmyndar þegar kemur að vinnuverndarmálum. Okkur hefur tekist að skapa hér menningu sem styður vel við forvarnir og vinnuvernd og hefur öryggisnefndin okkar verið ein mikilvægasta driffjöðrin í þeim efnum,“ segir Anna Rós Ívarsdóttir framkvæmdastjóri mannauðssviðs VÍS.
Myndatexti: Frá vinstri: Ingvar Hjálmarsson, gæðastjóri Umslags, Árni H. Kristinsson, framkvæmdastjóri BSI á Íslands og Sölvi Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri og eigandi Umslags.
Fyrirtækið Umslag hefur nú fengið ISO 27001 öryggisvottunina og er fyrst íslenskra fyrirtækja í prentiðnaði til að fá slíka vottun.
Með þessari vottun er tryggt að Umslag fylgi ströngum kröfur um rétta meðhöndlun gagna og upplýsinga sem og notkun ferla í rekstri og aðbúnaði. Vottunin nær yfir alla starfsemi Umslags og er endurnýjuð árlega af bresku staðlastofnunni BSI, sem gerir þá úttekt á öllum þáttum sem að vottuninni snúa.
Fyrirtækið Umslag leggur mikla áherslu á, að geta sýnt fram á að þeim kröfum sem settar eru fram í vottuninni, sé framfylgt með viðeigandi hætti. Slíkt sé vottur um metnað fyrirtækisins til að vera fremst í flokki fyrirtækja í prent- og gagnavinnslu.
Unnið hefur verið að innleiðingu ISO 27001 öryggisvottunarinnar hjá Umslagi í tæpt ár og hafa sérfræðingar fyrirtækisins Stika veitt ráðgjöf varðandi verkefnið.
Sölvi Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri Umslags telur engan vafa á því að þessi vottun auki enn frekar tiltrú viðskiptavina Umslags varðandi vinnslu trúnaðargagna. Ljóst sé, að mikil vakning er nú varðandi öryggismál og því kalli sé m. a. svarað af Umslags hálfu með ISO 27001 öryggisvottuninni. Umslag hafi síðastliðin 20 ár sérhæft sig í vinnslu viðkvæmra gagna og vottunin styrkir enn frekar þá vinnslu.
Þá má geta þess, að Umslag fékk Svans-vottun á árinu 2012, en slík vottun tryggir að unnið sé samkvæmt öllum umhverfisstöðlum sem slík vottun krefst.
Þá hefur Umslag verið valið sem framúrskarandi fyrirtæki af fyrirtækinu Creditinfo s. l. þrjú ár. Til að öðlast slíka staðfestingu þarf viðkomandi fyrirtæki að standast styrkleikamat Credirinfo og uppfylla ströng skilyrði sem lögð eru til grundvallar á framúrskarandi fyrirtækjum.
Að öllu jöfnu ætti áhersla á samfélagsábyrgð fyrirtækja að leiða til góðs, en það er þó ekki alltaf raunin. Af þeim sökum hafa orðið til hugtök eins og grænþvottur (e. greenwashing) og hugtakið „nicewashing“ sem gæti kallast ímyndarþvottur á íslensku. Fyrrnefnda hugtakið snýr að umhverfisþáttum, en það síðara að samfélagslegum og siðrænum þáttum. Í báðum tilvikum er lögð meiri áhersla á að auglýsa upp aðgerðir, fremur en á raunverulegar aðgerðir, til að mynda með því að þykjast vera góður, grænn, siðrænn eða sjálfbær. Fyrirtæki ganga stundum langt í því að villa um fyrir neytendum með því að ýkja jákvæð áhrif, eða draga úr neikvæðum áhrifum af starfsvenjum, vörum eða þjónustu, eða með því að brjóta vísvitandi starfsleyfi í þeim tilgangi að hagnast á kostnað neytenda eða almennings. Með réttu er hugtakið hvítþvottur, þ.e. þegar fyrirtæki reyna að hreinsa sig af áburði um skaðlega eða saknæma starfshætti eftir að upp um þau hefur komist, af svipuðum meiði. Það hefur m.a. verið notað í tengslum við peningaþvætti, þ.e. þegar slóð illa fengins fjár.
Áhrif af starfsemi sem tengist umræddum þvottahugtökum eru misskaðleg, en skaðinn getur t.d. verið fjárhagslegur, umhverfislegur eða heilsufarslegur. Besta forvörnin felst í þekkingu á því hvað samfélagsábyrgð felur í sér, mælanlegum markmiðum, gagnsæi (e. transparency) og aðhaldi almennings. Mælanleg markmið og gagnsæi er til ávinnings fyrir þau fyrirtæki sem raunverulega axla samfélagsábyrgð, því séu öll spilin á borðinu má draga úr neikvæðum smitunaráhrifum þegar upp kemst um úlfana í sauðagæru samfélagsábyrgðar.
Höfundur: Lára Jóhannsdóttir, höfundur er nýdoktor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og stjórnarmaður í LSBÍ.
Opinberir aðilar veita formleg leyfi til rekstar. Fyrirtæki þurfa engu að síður að starfa í sátt við samfélagið. Því hefur hugtakið samfélagslegt rekstrarleyfi (e. social license to operate) orðið til. Það felur í sér að fyrirtæki fá óformlegt leyfi samfélagsins til rekstrar, umfram leyfi frá opinberum aðilum. Fyrirtæki geta einungis öðlast samfélagslegt rekstraleyfi með víðtæku almennu samþykki samfélagins þar sem þau starfa. Skortur á samfélagslegu rekstarleyfi felur í sér aukinn kostnað og alvarlegar tafir á starfseminni .
Það eru engar fyrirliggjandi leiðbeiningar um það hvernig fyrirtæki öðlast samfélagslegt rekstrarleyfi, aðrar en þær að leita samráðs við mismunandi hagsmunaaðila. Skortur á samfélagslegu rekstrarleyfi getur stuðlað að því að fyrirtæki leggi upp laupana. Missi fyrirtæki traust, og þar með samfélagslegt rekstrarleyfi, er það þvingað til að starfa undir strangari lögum og reglugerðum. Það á t.d. við um hrossakjöts hneykslið í Evrópu og aðgerðir yfirvalda í kjölfarið . Samfélagið þvingar því stjórnvöld sem og fyrirtæki til aðgerða.
Samfélagslegt rekstarleyfi felur í raun í sér að ekki sé brotið á vilja fjöldans, af fyrirtækjum og/eða opinberum aðilum sem eiga fjárhagslegra hagsmuna að gæta. Ýmsar leiðir eru færar til að styrkja samfélagslegt rekstrarleyfi, til það mynda sjálfboðavinna starfsmanna og stjórnenda í verkefnum sem eru til hagsbóta fyrir viðkomandi samfélag.
Höfundur: Lára Jóhannsdóttir, höfundur er nýdoktor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og stjórnarmaður í LSBÍ.
Stjórnvísifélögum er boðið í útgáfugleði vegna fyrstu íslensku bókarinnar um Markþjálfun. Þau Arnór Már Másson, Matilda Gregersdotter ásamt Hauki Inga, eru höfundar bókarinnar og bjóða þau ykkur velkomin í Eymundsson í dag, fimmtudag, kl. 17 í Eymundsson í Austurstræti.
Þetta er frábært framtak hjá þeim og án efa marga sem hlakkar til að lesa þessa bók!
Endilega kíkið við eftir vinnu, fáið ykkur léttar veitingar, skoðið bókina og óskið þeim til hamingju!
Að varpa fram nýjum spurningum, skoða nýjar leiðir og líta á óleyst vandamál frá nýju sjónarhorni krefst skapandi hugmyndaafls og markar raunverulegar framfarir í vísindinum (Albert Einstein).
Í dag munu hugmyndasmiðir, á aldrinum 10 -12 ára, varpa fram nýjum spurningum og sínum hugmyndum í Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda. Markmið keppninnar er að hvetja til sköpunargleði meðal grunnskólabarna og skapa vettvang þar sem þau hljóta þjálfun í að koma hugmyndum í framkvæmd.
Vettvangur sem þessi, þar sköpunarkraftur barnanna fær sín notið og frumkvöðlahugsun er efld, er góð fjárfesting til framtíðar. Það vita þeir sem eitt sinn hafa fengið snjalla hugmynd, því hugmyndin ein og sér er oft lítils virði verði hún ekki að veruleika. Þess vegna er mikilvægt að hefja þjálfun í að framkvæma hugmyndir snemma hjá ungu kynslóðinni.
Leiðin frá hugmynd til nýsköpunar krefst þekkingar og færni á fjölbreyttum sviðum. Á næstu dögum munu nemendur njóta leiðsagnar og þjálfunar sérfræðinga með breitt þekkingar- og áhugasvið úr atvinnulífinu og fræðasamfélaginu. Segja má að aðkoma þessara fjölmörgu aðila að keppninni endurspegli ágætlega það umhverfi sem þarf til að nýjar hugmyndir verði að veruleika. Því oftar en ekki markast árangur í nýsköpun af samstarfi þeirra aðila sem koma að verkefninu og hversu vel þeim tekst að miðla þekkingu sinni og auðlindum. Um helgina munu ungu hugmyndasmiðirnir einmitt spreyta sig á þessu sviði og njóta góðs af þekkingu og styrkleikum jafnaldra sinna sem og leiðbeinenda.
Ef til vill verður einn stærsti lærdómur ungu frumkvöðlanna þetta árið sá að nýsköpun spretti úr samstarfi.
Höfundur: Nótt Thorberg, markaðsstjóri Marel á Íslandi og stjórnarmaður í Stjórnvísi.
Ný stjórn Stjórnvísi var kjörin á aðalfundi félagsins á dögunum. Teitur Guðmundsson læknir, framkvæmdastjóri Heilsuverndar var kjörinn formaður félagsins.
Stjórnvísi er stærsta stjórnunarfélag á Íslandi með yfir 2000 félagsmenn sem koma frá á þriðja hundrað fyrirtækja. Það er áhugamannafélag í eigu félagsmanna og starfar ekki með fjárhagslegan ágóða í huga. Félagið er orðið þekkt fyrir góða og upplýsandi fundi og ráðstefnur og starf sem einkennist af eldmóði, leikgleði og ánægju.
Félagið er opið öllum einstaklingum og fyrirtækjum sem hafa áhuga á stjórnun - og vilja fylgjast með nýjustu stefnum og straumum í stjórnun hverju sinni. Félagið var stofnað fyrir 27 árum síðan og hét áður Gæðastjórnunarfélag Íslands. Kjarnastarfið fer fram í átján faghópum um stjórnun.
Mikill kraftur var í félaginu á síðasta starfsári. Það hélt sex ráðstefnur, yfir 90 fundi og fluttu 160 fyrirlesarar erindi á ráðstefnum og fundum faghópa og voru gestir yfir 3.500 talsins.
Eftirtaldir eru í nýrri stjórn Stjórnvísi: Teitur Guðmundsson læknir, Heilsuvernd, Agnes Gunnarsdóttir, Íslenska gámafélaginu, Fjóla María Ágústsdóttir, Forsætisráðuneytinu, Þorvaldur Ingi Jónsson, Þor, Sigurjón Þór Árnason, Tryggingastofnun ríkisins, Nótt Thorberg, Marel á Íslandi og Ásta Malmquist, Landsbankanum.
Varamenn í stjórn eru Guðmunda Smáradóttir, Háskólanum í Reykjavík og Jóhanna Jónsdóttir, Distica.
Í fagráð voru eftirtaldir kjörnir:
Davíð Lúðvíkssson, Samtökum iðnaðarins.
Kristín Kalmansdóttir, Ríkisendurskoðun.
Hrefna Sigríður Briem, Háskólanum í Reykjavík.
Einar S. Einarsson, ÁTVR.
Margrét Reynisdóttir, Gerum betur.
Skoðunarmenn reikninga voru kjörnir:
Bára Sigurðardóttir, Termu.
Arney Einarsdóttir, Háskólanum í Reykjavík.
Framkvæmdastjóri Stjórnvísi er Gunnhildur Arnardóttir.
Hér má sjá myndir af fundinum:
https://www.facebook.com/media/set/?set=a.506070169460938.1073741843.110576835676942&type=3
Stjórnvísi hefur aldrei verið fjölmennara og líklegast aldrei sterkara en á þessu starfsári. Félagið er orðið þekkt fyrir góða og upplýsandi fundi og ráðstefnur og starf sem einkennist af eldmóði, leikgleði og ánægju.
Fundir á vegum faghópa verða sífellt fjölmennari og er svo komið að fundir á bilinu 50 til 100 manns þykja ekki lengur neitt tiltökumál. Stjórnvísi er núna mun þekktara en áður á meðal forráðamanna fyrirtækja og atvinnulífið gerir sér betur grein fyrir að þátttaka starfsmanna í félaginu er ódýrasta símenntunin á markaðnum.
Félagsmenn eru núna um 2.150 og fjölgaði um hátt í fjögur hundruð frá síðasta aðalfundi. Alls voru haldnir 95 viðburðir á starfsárinu. Það sem meira er um vert; hvorki fleiri né færri en 3.500 félagsmenn hafa mætt á þá og tekið þátt af miklum áhuga. Í fyrra voru 72 viðburðir sem um 2.300 félagar sóttu.
Ég vil þakka öllum félagsmönnum í Stjórnvísi fyrir áhugann og leikgleðina - og að gera félagið jafn virkt og sterkt og raun ber vitni. Góður starfsandi leysir krafta úr læðingi.
Stjórn félagins hélt 14 fundi á starfsárinu og var mæting á þá mjög góð. Unnið hefur verið samviskusamlega eftir stefnu fyrri ára um að halda vel utan um faghópana og efla þá til dáða. Það hefur m.a. verið gert með því að efna til fjölmennra funda með stjórnum faghópanna í byrjun starfsárs að hausti og um miðbik þess í janúar. Mætingin hefur verið sérlega góð og gefandi, eflt félagsandann og hefur eldmóður fundarmanna hvatt bæði faghópa og stjórn til dáða. Kjarninn í stefnu félagsins er einfaldur: Faghóparnir eru lífæð félagsins.
Stjórnin hefur sömuleiðis fylgt mótaðri stefnu um að gera félagið þekktara innan atvinnulífsins. Þar vegur þyngst haustráðstefna félagsins, Stjórnunarverðlaunin og ekki síst glæsileg þátttaka í Íslensku ánægjuvoginni, en hún nýtur mikillar virðingar á meðal stjórnenda. Aukið fé hefur verið lagt í kynningar og auglýsingar á þessum glæsilegu viðburðum. Þá hefur verið lögð rík áhersla á samstarf við önnur félög - þar sem það á við. Gott dæmi þar um er þátttaka í hádegisfundaröð Klaks - Nýsköpunarmiðstöðvar atvinnulífsins.
Stjórnin sendi síðastliðið haust bréf til hundraða stjórnenda í atvinnulífinu til að vekja athygli þeirra á hvílíkur fjársjóður félagið er fyrir starfsmenn vegna ólíkra og mjög svo skapandi funda um stjórnun almennt sem og nýjustu strauma í stjórnun hverju sinni.
Í bréfinu var lögð áhersla á að námskeiðin og fundirnir væru félagsmönnum nánast alltaf að kostnaðarlausu og að fyrirtækin greiddu fast árgjald fyrir starfsmenn sína og var því hiklaust haldið fram að þátttaka í Stjórnvísi væri ódýrasta símenntunin á Íslandi.
Bent var sérstaklega á eftirfarandi:
Stjórnvísi er stærsta stjórnunarfélag á Íslandi með 2.150 virka félagsmenn og yfir 300 fyrirtæki innan sinna raða.
Stjórnvísi er áhugamannafélag í eigu félagsmanna og starfar ekki með fjárhagslegan
ágóða í huga.
Stjórnvísi er opið öllum einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum sem hafa áhuga á stjórnun; stjórnendum, sérfræðingum, nemendum og öðrum áhugamönnum um stjórnun.
Stjórnvísi býður hagstæðustu símenntunina. Flest námskeiðin eru ókeypis fyrir
félagsmenn.
Stjórnvísi er með kjarnastarf sitt í kraftmiklum faghópum félagsmanna en jafnframt
stendur félagið fyrir almennum ráðstefnum, viðburðum og verðlaunaveitingum í
stjórnun.
Stjórnvísi vinnur náið með háskólasamfélaginu og er afar mikilvægt að það samstarf haldi áfram enda félaginu nauðsynlegt að tengjast viskubrunni fræðanna.
Ég vil þakka framkvæmdastjóra félagsins, Gunnhildi Arnardóttur, fyrir mjög gott og óeigingjarnt starf. Hún hefur hvatt faghópana til dáða og haldið af festu utan um allt starf félagsins síðastliðin þrjú ár.
Að lokum vil ég þakka félögum mínum í stjórninni starfsárið 2012 til 2013 fyrir árangursríkt og skemmtilegt samstarf. Þetta eru þau Einar S. Einarsson, Þorvaldur Ingi Jónsson, Hrefna Briem, Teitur Guðmundsson, Agnes Gunnarsdóttir, Fjóla María Ágústsdóttir, Nótt Thorberg og Sigurjón Þór Árnason. Tvö síðastnefndu eru varamenn í stjórn en þeir sitja alla fundi stjórnar og taka þátt í starfinu sem stjórnarmenn væru.
Ég hverf núna úr stjórn eftir fjögurra ára setu, þar af síðustu tvö árin sem formaður. Þetta hefur verið einstaklega ánægjulegur tími fyrir mig og forréttindi að hafa kynnst svo mörgu og áhugasömu fólki um stjórnun. Gangi félaginu allt í haginn á komandi árum.
Jón G. Hauksson, formaður stjórnar Stjórnvísi.
Kæru Stjórnvísifélagar!
Ég hvet ykkur til að mæta á aðalfund félagsins sem haldinn verður á Hótel Borg í dag.
Stjórnvísi hefur aldrei verið fjölmennara og líklegast aldrei sterkara en á þessu sarfsári og bera fundir á vegum faghópa þess merki. Núna þykja faghópafundir á bilinu 50 til 100 manns ekki lengur tiltökumál. Félagið er þekktara en áður á meðal forráðamanna fyrirtækja sem gera sér grein fyrir að þátttaka starfsmanna í félaginu er ódýrasta símenntunin á markaðinum.
Aðalfundur hvers félags á ætíð að vera í hávegum hafður og þess vegna er við hæfi í jafnsterku félagi og Stjórnvísi að sem flestir mæti og taki .þátt í umræðunni. Glæsileg og yfirgripsmikil ársskýrsla verður lög fram á fundinum, auk þess sem kosið verður í stjórn, varastjórn og fagráð. Þætti mér afar vænt um að sjá sem flesta í dag.
Boðið verður upp á tvo spennandi fyrirlestra eftir venjuleg aðalfundarstörf. Veitingastjóri hótelsins, hinn þekkti Völli Snær, ræðir um veitingar og stjórnun í alþjóðlegu samhengi og Ásgeir Jónsson, lektor við HÍ og efnahagsráðgjafi hjá Gamma, fjallar um fasteignamarkaðinn og horfur næstu árin.
Að fundi loknum býðst gestum að fara í skoðunarferð um þetta sögufræga hótel sem gengið hefur í gegnum endurnýjun lífdaga og er allt hið glæsilegasta.
Ég hverf núna úr stjórn eftir fjögurra ára setu, þar af síðustu tvö árin sem formaður. Þetta hefur verið einstaklega ánægjulegur tími fyrir mig og forréttindi að hafa kynnst svo mörgu og áhugasömu fólki um stjórnun.
Gangi félaginu allt í haginn á komandi árum.
Höfum eldmóð, leikgleði og ánægju að leiðarljósi í dag sem aðra daga.
Sjámumst á Borginni.
Jón G. Hauksson, formaður Stjórnvísi.
Jafnlaunavottun er málið!
Þann 17. apríl gerðist sá sögulegi atburður að þrjú fyrirtæki fengu fyrst fyrirtækja Jafnlaunavottun VR. Þau uppfylla kröfur jafnlaunastaðals sem byggir á vinnu frá Staðlaráði Íslands. Úttektin er framkvæmd af BSI á Íslandi (British Standards Institution). Þrátt fyrir að komið sé fram á árið 2013 er óútskýrður launamunur kynjanna ennþá víða fyrir hendi. Nú gefst atvinnurekendum tækifæri, með viðurkenndri aðferðafræði og samræmdum viðmiðum, að sýna svart á hvítu að mannauðsstefna, jafnréttisstefna og/eða launastefna þeirra mismuni ekki starfsmönnum.
Íslenska Gámafélagið lét þetta tækifæri ekki fram hjá sér fara og fór strax í verkið. Vinnan sem liggur að baki slíkri vottun er auðvitað töluverð en þar sem Íslenska Gámafélagið hefur einnig hlotið gæða- og umhverfisvottanir ( ISO 9001 og ISO 14001) þá var grunnvinnan til staðar. Jafnlaunavottunin er ekki eingöngu staðfesting á því að mismunun eigi sér ekki stað hjá konum og körlum í launum. Jafnréttis- og jafnlaunastefna Íslenska Gámafélagsins kveður t.d. á um að hver starfsmaður sé metinn að eigin verðleikum og allri mismunun eftir kynferði, aldri, kynþætti, kynhneigð, þjóðerni, trúar-eða stjórnmálaskoðunum samræmist ekki stefnu félagsins og að henni sé útrýmt komi hún í ljós. Vinnan að baki Jafnlaunavottuninni tryggir einnig betra skipulag, meiri yfirsýn, færri mistök og nákvæmari skjalavinnslu.
Ég ber ábyrgð á ákvörðun launa ásamt launavinnslu Íslenska Gámafélagsins. Ég get stolt sagt að við erum búin að fá staðfestingu á því að mismunun eigi sér ekki stað hjá Íslenska Gámafélaginu. Ég trúi því að fleiri fyrirtæki og stofnanir taki sömu stefnu svo við getum sem íslensk þjóð verið „Stórasta land í heimi“ sem ekki mismunar.Greinarhöfundur: Helga Fjóla Sæmundsdóttir.
Framkvæmdastjóri starfsmannasviðs Íslenska gámafélagsins
Gætirðu þrefaldað fjárfestinguna?
Að gera hlutina aftur og aftur með sama hætti og búast við nýrri útkomu - jaðrar við geðveiki! Þetta er haft eftir Albert Einstein. Það sem reynist flestum erfiðast þegar þeir læra eitthvað nýtt er að tileinka sér það. Taka út gömlu aðferðina og innleiða nýja. Við erum jafnvel líkleg til að prófa nýju aðferðina fyrst til að byrja með en smátt og smátt renna svo aftur í sama gamla farið og skilja á sama tíma ekkert í því af hverju við náum ekki þeim árangri sem við ætluðum okkur. Við lærum á námskeiðum aðferðir til breytinga en námskeið geta alla jafna ekki skilið eftir nema um 30% lærdóm þ.e. við tileinkum okkur 30% af því sem við lærðum og notum það hugsanlega (skv. ASTD). Með því að bæta coaching (markþjálfun) við í kjölfar eða með námskeiði má ná þessari lærdómsprósentu upp í allt að 89% (skv. ASTD) sem er þreföldun. Sum námskeið eru reyndar byggð upp með coaching svo sem ýmis Dale Carnegie námskeið. En af hverju þessi stóri munur? Við erum ekkert nema vaninn og allt að 90% af okkar daglegu athöfnum eru byggðar á vana. Að vita er ekki sama og að gera og í eðli okkar erum við raunverulega værukær og jafnvel löt. Við leggjum ekki á okkur nema við þurfum þess. Hvati til breytinga er sprottinn af tvennu. Til að forðast sársauka annarsvegar og til að upplifa ánægju hinsvegar. Það er ekki nóg að langa til að breyta við þurfum að hafa einhverja kveikju. Þessi kveikja getur einmitt verið coaching. Þú færð aðstoð við að tengja lærdóminn inn í veruleikann. Eins og einn viðskiptavinur minn sagði „að fá markþjálfun í kjölfar námskeiðs er eins og að fá einkaþjálfara í ræktinni -það er punkturinn yfir i-ið“.
Ragnheiður Aradóttir
Höfundur er stjórnendamarkþjálfi og Dale Carnegie þjálfari
Tengslanet fyrirtækja - vannýtt auðlind
Á bak við formleg skipurit fyrirtækja leynist óformlegt skipulag þeirra - það tengslanet sem starfsmenn reiða sig á í störfum sínum. Mikilvægt er fyrir stjórnendur að skilja þetta tengslanet og hvernig það fellur að skipulagi og markmiðum fyrirtækisins. Á námskeiðinu er stjórnendum kenndar aðferðir til að efla tengslanet fyrirtækja og virkja það betur. Ennfremur er fjallað um hvernig best er að greina, virkja og byggja upp innri og ytri tengslanet fyrirtækja og starfsmanna þeirra.
Á námskeiðinu verður fjallað um aðferðir til að byggja upp skilvirkt tengslanet fyrir fyrirtækið í heild en einnig verður fjallað um hvernig einstaklingar geta nýtt tengslanet sitt til að auka afköst sín og hvernig þeir geta þróað tengslanet sem fellur að þörfum þeirra.
Á námskeiðinu er fjallað um:
Aðferðafræði við mælingu tengslaneta í fyrirtækjum.
Virkjun tengslaneta til að bæta þjónustu fyrirtækisins.
Greining á lykilhnútpunktum og veikum hlekkjum.
Þróun á tengslanetum yfir tíma.
Samanburður á „upplýsingatengslanetum“ og „áhrifatengslanetum“.
Tengslanet og breytingastjórnun.
Tengslanet og nýsköpun.
Tengslanet á Íslandi í alþjóðlegum samanburði.
Ávinningur þinn:
Aukinn skilningur á tengslaneti fyrirtækis þíns.
Meðvitund um mismunandi gerðir tengslaneta.
Aðferðir við að nýta tengslanet við ýmsar aðstæður.
Aukinn skilningur á tengslanetum einstaklinga innan fyrirtækisins.
Persónuleg skýrsla með leiðbeiningum um næstu skref í þróun þíns eigin tengslanets.
Fyrir hverja: Stjórnendur í fyrirtækjum, stofnunum og félögum, millistjórnendur og mannauðsstjóra, auk annarra sem takast á við starfsmannastjórnun eða uppbyggingu fyrirtækja.
Kennarar: Magnús Þór Torfason er lektor við Harvard Business School (HBS) í Boston. Hann stundar kennslu og rannsóknir á sviði tengslaneta og frumkvöðlastarfsemi. Magnús hefur starfað við HBS síðan hann lauk doktorsgráðu í stjórnun við Columbia Business School í New York árið 2010. Magnús var stofnandi og þróunarstjóri Handpoint og útskrifaðist úr grunnámi (BS/CS) í bæði rafmagnsverkfræði og tölvunarfræði við HÍ.
Tími: Fim. 16. maí kl. 9:00-17:00
Verð: 95.000 kr.
Staður: Endurmenntun HÍ, Dunhaga 7
Nánari lýsing og skráning hér
Fleiri áhugaverð námskeið á sviði stjórnunar og forystu
Magnús Þór Torfason, lektor við
Harvard Business School (HBS) í Boston
Stjórn faghóps um fjármál vill vekja athygli á fjármálanámskeiðum sem hefjast í maí.
ADVANCED COST ANALYSIS - HEFST 2. MAÍ
Opni háskólinn í HR kynnir 8 klst námskeið fyrir sérfræðinga og stjórnendur þar sem áhersla er lögð á umbætur í fjármálastjórnun. Námskeiðið fer fram á ensku og mun Carsten Rohde, prófessor frá Copenhagen Business School í Danmörku, sjá um kennslu.
„The purpose of the course is to offer the participants the opportunity to develop their knowledge on how to improve the financial management of their company. The focus is on how to design, implement and use different conventional as well as modern cost & management accounting models and techniques for analysis, decision making and control purposes.“ Carsten Rohde
Nánari upplýsingar og skráning
SAMSTÆÐUREIKNINGSSKIL FYRIRTÆKJA - HEFST 6. MAÍ
Opni háskólinn kynnir 9 klst námskeið þar sem farið verður yfir íslensk lög um samstæðureikningsskil, hvaða alþjóðlegir staðlar gilda og helstu atriði þeirra. Rætt verður m.a. um óbeint eignarhald þ.e. í gegnum önnur félög eða með sérsamningum og hvernig taka skal á þessu í samstæðureikningsskilum. Einnig verða kenndar aðferðir við bakfærslu á öllum algengustu innbyrðis viðskiptum innan samstæðu, svo eitthvað sé nefnt. Leiðbeinandi námskeiðsins er Árni Tómasson cand. oecon og löggiltur endurskoðandi.
Nánari upplýsingar og skráning er í Háskólanum í Reykjavík
Þú uppskerð eins og þú sáir
Fyrir nokkrum árum síðan sat ég fyrirlestur þar sem fjallað var um nokkrar hliðar atvinnuleitar þar sem ferilskráin var eitt af aðal umræðuefnunum. Fram að þessum fyrirlestri hafði ég lítið pælt í því hvernig ætti að setja upp ferilskrá, hvað hún ætti að innihalda og hvað vel unnin ferilskrá skiptir í raun og veru miklu máli. Þegar ég setti mína fyrstu ferilskrá saman fór ég þessa almennu leið, tók saman helstu upplýsingar um sjálfan mig, menntun, starfsreynslu, áhugamál o.fl án þess að bæta einhverju aukalega við og pæla í framsetningu. Þetta á eflaust við marga sem eru að setja saman sína fyrstu ferilskrá.
Það er eflaust ekki til hin eina rétta leið við að setja upp ferilskrá en það eru til margar rangar og allt of margir eru að brenna sig á þeim. Ég myndi seint telja mig einhvern sérfræðing í gerð ferilskráa, en á síðustu árum hef ég fengið tækifæri við að aðstoða, lagfæra og meta ferilskrár hjá hinum og þessum. Ég tók þá eftir að allt of marga skortir metnað og þekkingu við að setja upp einfalda ferilskrá.
Af hverju ætti fyrirtæki að búast við metnaðarfullum starfskrafti ef hann hefur ekki metnað til að senda frá sér almennilega ferilskrá ?
Gefðu þér tíma og leggðu metnað í ferilskránna, því hún eru fyrstu kynni fyrirtækisins á þér. Taktu fram það sem þú hefur afrekað í fyrri störfum og hvað þú lærðir á þeim tíma sem getur gagnast þér í nýja starfinu. Ekki eyða plássi í upplýsingar sem skipta minna máli eins og til dæmis áhugamál. Ferilskráin á að vera vel hnitmiðuð, þ.e. 1-2 blaðsíður í mesta lagi.Eibeittu þér að því að setja inn upplýsingar sem eiga við það starf sem þú sækir um.
Eftirfarandi atriði er t.d. gott að taka fram :
Almennar upplýsingar um umsækjenda | Nafn, Kennitala, GSM, Vefpóstur, Heimilisfang
Menntun | Ár, Skóli, Námsbraut
Starfsferill | Talið upp frá nýjasta starfi til þess elsta | Eðli starfs, Afrek, Lærdómur
Verkefni og/eða Félagsstörf
Aðrar upplýsingar | Tölvu og Tungumálakunnátta
Umsagnaraðilar
Hér heima er venjan að hafa mynd af umsækjanda í ferilskrá og því er kostur að hafa góða mynd, því engin mynd er betri en léleg mynd. Innsiglaðu svo góða vinnu með því að vista ferilskránna á PDF skjali áður en þú sendir hana frá þér.
Seinast en ekki síst þá er hvet ég lesenda til að Googla nafnið þitt, því það eru meiri líkur en minni að aðilinn sem þú sækir um vinnu hjá muni gera það. Þá er gott að vera búinn að hreinsa út allt sem gæti haft áhrif á umsóknarferlið.
Vonandi að þessi færsla komi að góðum notum þegar kemur að því að setja saman ferilskrá.
Gangi þér vel !