Fréttir og pistlar

Helstu mistök frumkvöðla eru: 1. Að halda að maður verði ríkur srax 2. Setja ......

Haukur Guðjónsson einn af stofnendum Búngaló og ritstjóri vefsíðunnar frumkvodlar.is segir helstu mistök frumkvöðla vera: 1. Að halda að maður verði ríkur strax 2. Setja of mikinn pening í fyrirtækið 3. Ætla að leysa of mörg vandamál (einbeita sér að einni lausn og gera það vel) 4. Halda að varan selji sig sjálf (algeng mistök meðal frumkvöðla) 5. Reyna að búa til hina fullkomnu vöru (nota frekar einfalda vöru og ekki gleyma sér í smáatriðum) 6. Velja ranga samstarfsaðila (hafa í huga að tala opinskátt um alla hluti) 7. Bíða eftir fjármögnun (mjög sjaldgæft að fá strax fjármagn, finna frekar hugmynd) 8. Ísland er ekki stórasta land í heimi (Ísland er mjög lítill markaður). 9. Gleyma hvaðan tekjurnar koma (margir frumkvöðlar gleyma að hugsa um tekjurnar þ.e. að hugsa um að fá nægar tekjur. 10. Frestunarárátta (þetta eru ein algengustu mistökin, ef fyrirtækið á að verða alvöru þá verður að framkvæma strax.
Rúna Mangúsdóttir, einn af stofnendum BRANDit og alþjóðlegur stjórnendamarkþjálfi og fyrirlesari ræddi um orðspor og ímynd frumkvöðla. Það eru fyrstu 7 sekúndurnar sem skipta öllu máli, þá tökum við ellefu ákvarðanir. Við sem frumkvöðlar verðum að muna að fólk man eftir þeim í gegnum söguna sína. Leyfðu sögunni þinni að njóta sín. Hugsa með sér: Ef ég væri bíll hvernig bíll væri ég þ.e. tegund. Þegar við byggjum upp brandið þá erum við við sjálf. Rúna vinnur við að hjálpa einstaklingum að ná árangri. S-in 3 í Persónu Branding 1.Skýr (hvað lofum við að gera og hvað ekki d.bíllinn er hann fjölskyldubíll eða ekki). Fyrir hvað stendur þú? Ætlarðu að vera meðalmanneskja í atvinnulífinu eða standa upp úr. 2. Samræmi (við ætlum að koma hugmynd á framfæri. Það sem við lofum að gera, að við gerum það dag eftir dag). Hvernig er myndin sem við búum til er hún sú sama aftur og aftur. 3.Stöðugleiki. Lesa bókina um Steve Jobs hún sýnir hvernig brandið var byggt upp. Í dag eru 200millj.manns á Linkedin Það er búið að googla okkur alls staðar. Passa að hann sé réttur, þar ráðum við hvað stendur inni. Netverkið okkar er þarna inni. Við getum gert svo miklu meira á Linkedin. Það er gott að fá endurgjöf en við verðum að passa upp á að aðrir stjórni ekki hvernig við erum. Við verðum að koma inn þeirri tilfinningu að við höfum eitthvað nýtt fram að færa. Ertu aðilinn sem reynir sitt besta eða segist vera sá besti. Allir eiga sér sögu, í henni eru áskoranir, tækifæri og hindranir sem við höfum yfirstigið. Aðrir vilja heyra hvernig við fórum að því að verða þær manneskjur sem við erum í dag. Þar sjáum við meðalmanneskjuna eða þann sem stendur út úr. Með því að fókúsa á þinn styrkleika nærðu árangri. Facebook reynist mjög vel. Gott að gefa virði í þekkingu. Ef öðrum finnst áhugavert það sem þú ert að gera munu þeir fylgja þér. Allir mæla með auglýsingu á facebook. Tala líka við fyrirtæki sem vilja hjálpa frumkvölum.

Yfir 170 manns mættu á Gæðastjórnun og VMS ráðstefnuna á Natura

Rúmlega 170 manns mættu á vel heppnaða ráðstefnu faghópa um Gæðastjórnun og Lean á Natura þann 6.febrúar. Þórunn María Óðinsdóttir formaður Lean faghópsins stýrði ráðstefnunni með miklum skörungsskap og einkenndist ráðstefnan af fagmennsku og hressleika. Þrír fyrirlesarar fluttu góð erindi og eru glærur á innrivef Stjórnvísi ásamt myndum af ráðstefnunni.
VMS töflur eru mismunandi í fyrirtækjum og eru töflufundir frá 7 mínútum upp í 2 klukkustundir. Aðferðafræðin kemur upphaflega frá Japönum. Sigrún Sæmundsdóttir frá Landsbankanum sagði frá margvíslegum skemmtilegum reglum sem tengdust töflunum. Taflan nýtist Landsbankanum sem hjálpartæki við stefnuna og starfsfólkið. Á töfluna koma alls kyns hugmyndir, þar er eitt árangursblað og eitt mælikvarðablað. Töflurnar eru langhlaup ekki spretthlaup og eru stjórnendur lykilatriði í innleiðingu því eftir höfðinu dansa limirnir. Einnig var nefnt að með sjónstórnun verður allt sýnilegt, komið er í veg fyrir að verkefni stöðvist, hindranir hverfa og flæði eykst.

Umhverfishyggja og rekstur fyrirtækja. Grein í Viðskiptablaði Mbl. höf: Lára Jóhannsdóttir, nýdoktor við HÍ

Umhverfishyggja og rekstur fyrirtækja
Rekstur fyrirtækja byggir á náttúrinni, því þau sækja þangað auðlindir, beint eða óbeint. Náttúran tekur einnig við úrgangi sem fyrirtæki skapa.
Vaxandi mannfjöldi, aukin neyslu og umsvif atvinnulífs skapa aukinn þrýsting á náttúruna. Umhverfismál eru því meðal meginafla (e. megatrends) sem í vaxandi mæli hafa áhrif á rekstrarumhverfi fyrirtækja, sem ógn eða tækifæri. Umhverfishyggja (e. environmentalism), skilgreind sem áhyggjur af umhverfinu og verndun þess, hefur vaxið á undanförnum áratugum. Umhverfishyggja veldur því að fyrirtæki starfa undir auknum þrýstingi um að þau dragi úr neikvæðum umhverfisáhrifum vegna starfsemi sinnar. Vegna vaxandi umhverfislegra vandamála mun þessi þrýstingur halda áfram að vaxa á komandi árum og áratugum. Þessi þrýstingur endurspeglast m.a. í umhverfislöggjöf og alþjóðasáttmálum á sviði umhverfismála.
Þrýstingur á fyrirtæki um að axla ábyrgð kemur frá ytra umhverfi, í gegnum löggjöf og þrýsting frá mismunandi hagsmunahópum, t.d. fjárfestum, viðskiptavinum, birgjum eða almenningi. Fjárhagslegir hvatar mynda einnig þrýsting. Í þeim tilvikum átta framsýnir stjórnendur sig á því að þeir geta sparað fjármuni með því að sinna umhverfismálum, eða aukið tekjur með því að bjóða umhverfisvænar vörur eða lausnir sem draga úr neikvæðum umhverfislegum áhrifum.
Þá spilar siðfræði hér líka inn í ákvarðanatöku fyrirtækja. Í hvaða ásigkomulagi viljum við skila jörðinni til barna okkar, barnabarna og komandi kynslóða. Siðfræðin endurspeglast í gildismati þeirra sem stjórna fyrirtækjunum. Það eru þeir sem ákvarða framtíðarsýn fyrirtækjanna.
Höfurndur greinar er Lára Jóhannsdóttir,Nýdoktor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og stjórnarmaður í LSBÍ (Lífeyrissjóður starfsmanna Búnaðarbanka Íslands).

Skráðu þig í nýjan faghóp Stjórnvísi - Faghópur innkaupafólks

Faghópurinn var stofnaður í janúar byrjun 2013 og hélt sinn fyrsta fund þriðjudaginn 5. febrúar. Í stjórninni sitja 9 manns, sjá undir Faghópar - Innkaup.

Markmið með stofnun faghópsins
Meginmarkmið faghópsins er að auka vitund og skilning um mikilvægi hagkvæmra innkaupa á vörum og þjónustu innan fyrirtækja, hvort sem þau eru einkarekin eða í eigu hins opinbera. Jafnframt er markmiðið að auka ábyrgð, gegnsæi, einföldun og skilvirkni í innkaupum, menntun og sérhæfingu starfsfólks á þessu sviði ásamt því að miðla þekkingu og reynslu af, innkaupum innan fyrirtækja, útboðsmálum, verðfyrirspurnum og öðru því sem snýr að innkaupum á vörum og þjónustu í fyrirtækjum.

Hvað er faghópur um innkaup
Faghópurinn mun stuðla að því að kynna mikilvægi innkaupa í fyrirtækjum ásamt því að miðla þeim aðferðafræðum og kenningum sem tengjast innkaupamálum. Að rétt og hagkvæm framkvæmd í innkaupum verði höfð að leiðarljósi en það er m.a með því að leita eftir bestu mögulegu niðurstöðu að teknu tilliti til kostnaðar og ávinnings ásamt skýrri stjórnun og skilgreindu verklagi við innkaup á vöru og þjónustu. Mikilvægi þess að kaupa vörur á réttum tíma, á réttu verði, í réttu magni og á réttum gæðum.

Hvernig starfar hópurinn
Stefnt er að því að faghópurinn fundi a.m.k 6 sinnum á ári, dagskrá verður kynnt í byrjun hvers árs. Einnig mun hópurinn stuðla að því að vera með fyrirlestra og fræðslu er snúa að þeim þáttum sem snerta innkaup.

Fyrir hvern
Við hvetjum alla þá sem koma að innkaupum innan fyrirtækja; Stjórnendur, sérfræðinga, fulltrúa og þá sem hafa áhuga á innkaupum og telja sig hafa erindi inní hópinn að ganga til liðs við hann.

Af hverju að mæla vinnustaðamenningu? Grein í Viðskiptablaði Mbl. höf: Hildur Jóna Bergþórsdóttir, sérfræðingur hjá Capacent

Af hverju að mæla vinnustaðamenningu?

Vinnustaðamenning birtist í hegðun og samskiptum á vinnustað. Vinnustaðamenning hefur áhrif á alla starfsemi og árangur og ætti að vera kappsmál fyrir stjórnendur að byggja upp menningu sem hentar starfseminni best og hámarkar árangur vinnustaðarins.

Menningarmælitæki Capacent byggir á líkani sem fyrst kom fram á áttunda áratugnum og hefur síðan verið þróað áfram af ýmsum fræðimönnum. Líkanið gerir ráð fyrir fjórum megintegundum vinnustaðamenningar og að menning hvers vinnustaðar sé blanda þeirra. Megintegundirnar eru valdamenning, hlutverkamenning, verkefnamenning og þroskamenning.

Menningarmælitæki Capcent byggist á 15 spurningum þar sem svarendur velja annars vegar valkost sem lýsir raunstöðu á þeirra vinnustað og hins vegar æskilegri stöðu. Með þessu móti fæst samhliða mat á raunmenningu og óskamenningu starfsmanna.

Ýmsar leiðir eru færar til að vinna með niðurstöður mælinga en æskilegt er að það sé gert á vinnustofum sem margir starfsmenn koma að. Þannig má auka skilning og samstöðu meðal starfsmanna, eða vinna kerfisbundið að tillögugerð sem miðast að því að færa vinnustaðinn nær óskamenningu.

Til að prófa mælitækið lagði Capacent könnun fyrir úrtak starfandi fólks á íslenskum vinnumarkaði. Niðurstöðurnar, sem voru kynntar á fundi Stjórnvísi í síðustu viku, benda til að vinnustaðamenning hafi mikil áhrif á viðhorf starfsfólks til ýmissa þátta í vinnuumhverfinu. Má þar nefna mat á stjórnun, trú á samkeppnishæfni fyrirtækis eða stofnunar, umbótahegðun starfsmanna, tryggð starfsmanna og mat á starfsanda. Niðurstöðurnar gefa einnig til kynna að starfsfólk kýs oftast verkefnamenningu en nær enginn telur valdamenningu æskilega. Starfsfólk sem starfar þar sem valdamenning er ríkjandi hefur mun neikvæðara viðhorf til vinnustaðarins, sýnir minni hollustu og hefur minni trú á framtíðarmöguleikum hans.
Höfundur greinar er: Hildur Jóna Bergþórsdóttir, sérfræðingur á sviði fyrirtækja-og starfsmannarannsókna hjá Capacent

Hermann Björnsson forstjóri Sjóvá segir góðan stjórnanda hafa þann eiginleika að njóta þess að sjá aðra vaxa

Opni háskólinn í HR, Vendum og Stjórnvísi undirrituðu á dögunum samstarfssamning í þeim tilgangi að þjóna stjórnendum og íslensku atvinnulífi með enn faglegri og hagnýtari hætti en hingað til.

Samstarfið felur í sér sameiginlega fundarröð þar sem að þungavigtarfólk úr atvinnulífinu deilir reynslu sinni og skoðunum um stjórnunarleg málefni. Í morgun var fyrsti fundurinn haldinn fyrir troðfullum sal í Háskólanum í Reykjavík þar sem að Hermann Björnsson forstjóri Sjóvá fór yfir reynslu sína sem stjórnandi. Hann notar verkefna- og valddreifingu á markvissann hátt til að ná betri yfirsýn og stíga enn sterkar inn í hlutverk sitt sem forstjóri með árangur fyrirtækisins að leiðarljósi. Hann kom með dæmi um praktísk atriði eins og að velja rétta fólkið í kringum sig og eiga markviss samskipti byggð á trausti. ,,Góður stjórnandi þarf að hafa þann eiginleika að njóta þess að sjá aðra vaxa, öðruvísi virkar verkefna- og valddreifing ekki.“ Hermann deildi persónulegum dæmum og fór yfir hvernig skipulagsbreytingar í Sjóvá hafi verið studdar í framhaldinu til dæmis með vel heppnuðum breytingum á húsnæðinu.
Alda Sigurðardóttir, stjórnendamarkþjálfi og eigandi Vendum fór yfir það sem að helst hindrar stjórnendur í vald- og verkefnadreifingu eins og meðhöndlun trúnaðargagna, skortur á tíma, skortur á starfsfólki en einnig skortur á hæfni starfsfólks, áhrif fyrirtækjamenningar og síðast en ekki síst eigin viðhorf, einnig fór hún yfir hagnýtar leiðir til að yfirstíga þessar hindarnir. Gunnhildur Arnardóttir framkvæmdastjóri Stjórnvísis sá um fundarstjórn með glæsibrag og tók meðal annars dæmi frá Jack Welch um mikilvægi þess að efla starfsfólkið í verkefna- og valddreifingu út frá þeim styrkleikum sem hver og einn býr yfir. Guðmunda Smáradóttir, forstöðumaður stjórnmenntar Opna háskólans fór í upphafi fundar yfir mikilvægi samstarfs Opna háskólans, Vendum og Stjórnvísi til að virkja sem flesta stjórnendur til að setja fókus á eigin stjórnun og þar með auka árangur síns fyrirtækis. Fundaröð sem þessi er tilvalin vettvangur til að læra af öðrum stjórnendum og í framhaldinu meta hvar maður getur eflt sig eða sitt fyrirtæki í framhaldinu.

Hér neðar eru nánari upplýsingar um samstarfsaðilana og á meðfylgjandi mynd sem tekin var við upphaf samstarfsins eru: Guðmunda Smáradóttir, forstöðumaður stjórnmenntar Opna háskólans, Alda Sigurðardóttir, eigandi Vendum, Gunnhildur Arnardóttir, framkvæmdastjóri Stjórnvísar og Unnur Valborg Hilmarsdóttir, eigandi Vendum.
Nánari upplýsingar veitir Alda Sigurðardóttir í gsm 662 0330

Meginhlutverk Opna háskólans í HR er að veita stjórnendum og sérfræðingum fræðslu og þjálfun til að viðhalda og efla samkeppnishæfni þeirra sem og fyrirtækja, atvinnulífs og samfélagsins í heild. Í Opna háskólanum má finna fjölbreytt úrval vandaðra námskeiða og þjálfunar undir leiðsögn fremstu sérfræðinga Háskólans í Reykjavík og samstarfsaðila úr íslensku atvinnulífi auk erlendra sérfræðinga. Námskeiðin eru hagnýt og taka til helstu áskorana sem stjórnendur í íslensku viðskiptalífi standa frammi fyrir hverju sinni.
Vendum þjálfar stjórnendur og leiðtoga til að ná hámarksárangri í gegnum markþjálfun (e. Executive coaching). Vendum hefur núþegar starfað með yfir 60 fyrirtækjum og er að hefja sitt þriðja starfsár. Þjónusta Vendum er ýmist í einstaklingsþjálfun og hópþjálfun og með samstarfi við Opna háskólann verða í boði fjölbreytt námskeið tengd stjórnun. Árangur er meginmarkmiðið og er áhersla lögð á að bjóða áhrifaríkustu aðferðir sem völ er á og að þjónustan skili viðskiptavinum ávinningi sem skipar þeim í fremstu röð.
Stjórnvísi er stærsta stjórnunarfélag á Íslandi með tæplega 2.000 virka félagsmenn og mjög öflugt tengslanet. Stjórnvísi er opið öllum einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum sem hafa áhuga á stjórnun; eins og stjórnendum, sérfræðingum, nemendum og öðrum áhugamönnum um stjórnun.

Skráðu þig í nýjan faghóp hjá Stjórnvísi - Breytingastjórnun

Faghópur um breytingastjórnun var stofnaður haustið 2012 en tók formlega til starfa í janúar 2013. Hópurinn samanstendur af einstaklingum sem hafa áhuga, menntun og reynslu af breytingastjórnun. Stjórn faghópsins hvetur alla áhugasama til að skrá sig í faghópinn og fylgjast með áhugaverðri dagskrá.
Markmið: Markmið hópsins er að skapa umræðuvettvang og auka þekkingu á öllum þáttum breytingastjórnunar með miðlun á faglegri reynslu og þekkingu fyrirtækja, stofnana og fræðimanna á sviðinu.
Hvað er Breytingastjórnun: Breytingastjórnun felur í sér vel skilgreint ferli sem nýtir þekkingu og reynslu starfsmanna til að greina úrbótatækifæri og vaxtarmöguleika í rekstri, setja fram tímasett markmið til úrbóta og tryggja innleiðingu breytinga með kerfisbundnum hætti. Lykilatriði breytingastjórnunar er að skilgreina hvaða árangri á að ná með breytingunum og vinna samkvæmt markvissri aðgerðaráætlun til að svo megi verða. Í eðli sínu snýst breytingastjórnun um hegðun fólks og því felst breytingaferlið að stórum hluta í því hvernig bregðast eigi við ólíkum viðbrögðum starfsfólks, fá það til að styðja breytingarnar og leggja sitt af mörkum svo tilætlaður árangur náist. Breytingastjórnun á einkar vel við þegar bregðast þarf við breytingum á ytra rekstrarumhverfi, þegar um er að ræða röskun á innra starfi, t.d. við sameiningar fyrirtækja og stofnana eða þegar árangur er undir væntingum og grípa þarf í taumana. Breytingastjórnun er því krefjandi aðferðarfræði og dýnamísk í eðli sínu en afar árangursrík ef rétt er að málum staðið.
Hvernig starfar hópurinn: Faghópurinn stendur fyrir reglubundnum fyrirlestrum og kynningum um málefni tengdum breytingastjórnun. Slíkir fundir eru oftast með því sniði að fyrirlesari er fenginn til að fjalla um afmarkað efni og í kjölfarið eru fyrirspurnir og umræður. Hópurinn stendur einnig fyrir morgunverðarfundum og ráðstefnum í samvinnu við aðra faghópa eða virta aðila utan Stjórnvísi.
Fyrir hvern: Faghópurinn er fyrir alla sem hafa áhuga á breytingastjórnun, einkum þá sem hafa með stjórnun að gera eða eru að taka þátt í breytingaferli.
Stjórn faghóps um breytingastjórnun: Formaður faghópsins er Guðný Finnsdóttir stjórnunarráðgjafi hjá Intellecta. Aðrir í stjórn faghópsins eru Ágúst Kristján Steinarsson, stjórnunarráðgjafi hjá Intellecta, Auður Björnsdóttir, háskólanemi, Ragnhildur Ágústsdóttir, stjórnunarráðgjafi hjá Expectus, Vala Magnúsdóttir, viðskiptafræðingur og Sindri Sigurjónsson, stjórnunarráðgjafi hjá Expectus.

Stjórnvísi hvetur skráða aðila til að benda vinnufélögum og vinum á Stjórnvísi.

Stjórnvísi langar að vekja athygli félaga á að þar sem fyrirtækið þeirra er aðili að Stjórnvísi, geta allir stjórnendur í fyrirtækinu og áhugasamir starfsmenn um stjórnun, sótt fundi í faghópum félagsins sér að kostnaðarlausu. Því er kjörið tækifæri að benda vinnufélögum og vinum á að skrá sig. Virk þátttaka starfsmanna í Stjórnvísi gefur þeim færi á hagstæðri símenntun og praktískum umræðum um stjórnun. Skráning í faghópana fer fram á heimasíðu Stjórnvísi www.stjornvisi.is http://stjornvisi.is/kennsla hægra megin í horninu „nýskráning starfsmanna“. Þar seturðu inn nafn, lykilorð, starfsheiti og tengir þig síðan við fyrirtækið þitt sem er nú þegar til á skrá. Að því loknu velur þú þér þá faghópa sem þú vilt vera skráður í. Þeir sem skrá sig í Mannauðsstjórnunarhópinn fá póstsendingar um alla viðburði. Á heimasíðu Stjórnvísi www.stjornvisi.is eru upplýsingar um viðburði faghópa, ráðstefnur og áhugaverðar greinar.

Ávinningurinn af því að vera í Stjórnvísi!

  1. Hagstæð símenntun um stjórnun sem byggir fyrst og fremst á raunhæfum dæmum
    úr atvinnulífinu.
  2. Sterkt tengslanet.
  3. Virkt félagsstarf.
  4. Ókeypis aðgangur að faghópum, ráðstefnum, fundum og viðburðum um stjórnun á
    vegum félagsins.

Stjórnvísi er stærsta stjórnunarfélag á Íslandi með yfir 1.800 virka félagsmenn og um
260 fyrirtæki innan sinna raða. Félagið er sterkt og öflugt tengslanet fyrir félagsmenn.

Stjórnvísi er opið öllum einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum sem hafa áhuga á stjórnun; eins og stjórnendum, sérfræðingum, nemendum og öðrum áhugamönnum um stjórnun.

Stjórnvísi býður hagstæðustu símenntunina um stjórnun á markaðnum.

Stjórnvísi er með kjarnastarf sitt í kraftmiklum faghópum félagsmanna en jafnframt stendur félagið fyrir almennum ráðstefnum, viðburðum og verðlaunum um stjórnun.

Stjórnvísi er áhugamannafélag í eigu félagsmanna og starfar ekki með fjárhagslegan ágóða í huga.

Bestu kveðjur,
Gunnhildur Arnardóttir, framkvæmdastjóri Stjórnvísi

Glæsileg dagskrá framundan hjá faghópum Stjórnvísi

Í gær kynntu stjórnir tuttugu faghópa Stjórnvísi metnarðarfulla vordagskrá sína á Nauthól. Stjórnvísifélagar geta því aldeilis byrjað að láta sig hlakka til glæsilegra ráðstefna og funda á vormánuðum. Á fundinum voru kynntir tveir nýjir faghópar: Faghópur um breytingastjórnun sem Guðný Finnsdóttir er í forsvari fyrir og Faghópur um Innkaup sem Elín Bubba Gunnarsdóttir stýrir. Búið er að mynda stjórn í báðum faghópum og áhugasamir geta bæst í hópinn. Einnig var kynnt sameining faghóps um Nýsköpun og Sköpunargleði og má sjá frétt um það á heimasíðu Stjórnvísi. Myndir af fundinum eru á Facebook og undir viburðinum á síðu Stjórnvísi.

Sameinaður hópur nýsköpunar og sköpunargleði - vordagskrá

Sameinaðir hafa verið faghópar um sköpunargleði og nýsköpun. Fyrsti fundur sameinaðs hóps fór fram þann 21. janúar 2013. Sammælst var um ágæti sameiningar og lögð tillaga að metnaðarfullri vordagskrá:

• Febrúar Nýsköpun í opinbera geiranum

• Mars; Að framkalla hugmyndir og markmið í gegnum myndræna framsetningu (visionboards / storyboards)

• Apríl: Nýsköpun í sjávarútvegnum (mögulega heimsókn til Sjávarklasans í Grandagarði)

• Maí: Hvernig er ýtt undir nýsköpun í stærri fyrirtækjum?

Höldum áfram að hafa „nýsbrjót“ á hverjum viðburði til að bæta tengslanetið.
Nánari dagskrá verður auglýst þegar nær dregur hverjum viðburði fyrir sig.

Faghópurinn er einnig opinn fyrir samstarfi um viðburði þegar það á við. Stjórnin er fjölmenn vegna sameiningar fram á vorið en hana skipa: Eyþór Ívar Jónsson hjá Klaki, Birna Dröfn Birgisdóttir hjá HR, Gunnar Sverrir Ásgeirsson hjá Motus, Haraldur U. Diego,hjá Fagráði, Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir hjá Landsbankanum, Magnús Guðmundsson hjá Landmælingum Íslands, Nótt Thorberg hjá Marel, Sigríður Indriðadóttir hjá Mosfellsbæ, Sigrún Þorleifsdóttir hjá Attentus-mannauði og ráðgjöf ehf. og Sigrún Jóhannesdóttir hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.

Hvert stefnir þú? Grein í Viðskiptablaði Mbl. Unnur Valborg Hilmarsdóttir, eigandi Vendum stjórnendaþjálfunar

Hvert stefnir þú?
Á áhugaverðum fundi Stjórnvísi um stjórnendaþjálfun nýverið kom skýrt fram hjá frummælendum að stjórnendur leggi meira upp úr því að tryggja að fólkið þeirra fái viðeigandi þjálfun og stuðning en sækja sér ekki endilega sjálfir endurmenntun eða þjálfun á þeim sviðum sem þeir þurfa á að halda. Öfugsnúið, en satt. Mikilvægi þess að stjórnendur og leiðtogar gefi sér tíma til að efla hæfni sína og getu líkt og starfsfólk þeirra er gríðarlegt. Með því að líta upp og sækja einhverskonar námskeið, fara í markþjálfun, vera í samskiptum við mentor eða lesa áhugavert efni víkkum við sjóndeildarhringinn, komum auga á ný tækifæri, eflumst sem stjórnendur, komum í veg fyrir stöðnun, hugsum fram á við og svo mætti lengi telja. Í versta falli fáum við staðfestingu á því að við erum að gera góða hluti sem styrkir okkur í því að halda áfram á sömu braut.

Spurning mín til þín kæri stjórnandi er „hvert stefnir þú?“. Hvar ætlar þú að vera eftir þrjú ár? Hvaða hæfni þarftu að tileinka þér eða styrkja enn frekar til að komast þangað sem þú ætlar þér? Til hvaða aðgerða ætlar þú að grípa til að komast þangað? Hvað gæti staðið í vegi fyrir því að þú stigir þessi skref? Hvaða afleiðingar hefur það ef þú stígur ekki þessi skref?

Gefðu þér tíma til að hugsa um þig. Hvað þú vilt og þarft að gera til að ná þeim allra besta árangri sem þú getur mögulega náð? Það þarf ekki að vera flókið en það eitt að gefa sér tíma til að hugsa um þetta og jafnvel ræða það við einhvern sem þú treystir setur kastljósið á þessi atriði og þá eru meiri líkur á því að við gerum raunverulega eitthvað í málum. „Ekki gera ekki neitt“ því í því hraða viðskiptaumhverfi sem við búum við í dag er það ávísun á stöðnun.

Unnur Valborg Hilmarsdóttir, eigandi Vendum stjórnendaþjálfunar

Til hamingju með daginn! Af hverju ertu hér?

Með þessum orðum hóf Matilda Gregersdotter, eigandi Evolvia ehf. vottaður Pcc markþjálfi með yfir 2500klst. reynslu Stjórnvísifund í hádeginu í dag. Mathilda byrjaði á að óska eftir spurningum. Hvernig velur fólk sér besta markþjálfann? Hvernig markþjálfi hentar mér? Er markþjálfun eitthvað fyrir mig? Hvernig nýtist námið þeim sem ætlar ekki einungis að vinna við markþjálfunina.
Hlutverk markþjálfans er að fá stjórnandann til að vaxa og þar með vex eða eykst rekstrarárangur fyrirtækisins. Tilfinningagreind er mikilvæg fyrir stjórnandann til þess að vera fær í samskiptum. Rannsóknir sýna að markþjálfun leiðir til aðgerða. Aðgerðir er hægt að mæla. Markþjálfun bætir samskipti á vinnustað, bætir hópavinnu, samskipti. Einnig mælist aukin ánægja, ágreiningur verður minni og aukin tryggð gagnvart fyrirtæki. Markþjálfar sjá árangur daglega.
Hvenær á stjórnendamarkþjálfun við? Þegar þú vilt: sjá leiðina, hreyfa við einhverju eða taka næsta skref strax, tekst á við nýtt stjórnendastarf, skilja undirmenn betur, skapa framtíðarsýn, efla samskiptafærni, efla þig sem stjórnanda, þróa færni í að leiða undirmenn, jafnvægi milli einkalífs og starfs, uppfæra þig sem stjórnanda, finna ástríðu þína, rækta hjónabandið, skapa þér nýjan starfsvettvang, setja markmið, forgangsraða í vinnunni, skilgreina markmið þín, skilja þig betur, o.m.fl.

Samstarfssamningur Opna háskólans í HR, Vendum og Stjórnvísi

Opni háskólinn í HR, Vendum og Stjórnvísi undirrituðu á dögunum samstarfssamning. Tilgangur samstarfsins er að þjóna stjórnendum og íslensku atvinnulífi með enn faglegri og hagnýtari hætti hætti en hingað til. Opni háskólinn í HR kynnir markþjálfun og sérfræðinga Vendum sem hluta af sinni framboðslínu og að sama skapi kynnir Vendum framboð námsleiða Opna háskólans fyrir sínum viðskiptavinum.

Meginhlutverk Opna háskólans í HR er að veita stjórnendum og sérfræðingum fræðslu og þjálfun til að viðhalda og efla samkeppnishæfni þeirra sem og fyrirtækja, atvinnulífs og samfélagsins í heild. Í Opna háskólanum má finna fjölbreytt úrval vandaðra námskeiða og þjálfunar undir leiðsögn fremstu sérfræðinga Háskólans í Reykjavík og samstarfsaðila úr íslensku atvinnulífi auk erlendra sérfræðinga. Námskeiðin eru hagnýt og taka til helstu áskorana sem stjórnendur í íslensku viðskiptalífi standa frammi fyrir hverju sinni.
Vendum þjálfar stjórnendur og leiðtoga til að ná hámarksárangri í gegnum markþjálfun. Gildi Vendum eru fagmennska, ástríða og árangur. Vendum leggur áherslu á fagleg vinnubrögð. Heiðarleiki, traust og vandvirkni eru fyrirtækinu mikils virði og fyrir það vill það standa. Það er ástríða Vendum að ná auknum árangri og að hjálpa öðrum að auka árangur sinn. Krefjandi verkefni á þessu sviði veitir Vendum innblástur og orku. Árangur er meginmarkmiðið og er áhersla lögð á að bjóða áhrifaríkustu aðferðir sem völ er á og að þjónustan skili viðskiptavinum ávinningi sem skipar þeim í fremstu röð.
Stjórnvísi er stærsta stjórnunarfélag á Íslandi með tæplega 2.000 virka félagsmenn og mjög öflugt tengslanet. Stjórnvísi er opið öllum einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum sem hafa áhuga á stjórnun; eins og stjórnendum, sérfræðingum, nemendum og öðrum áhugamönnum um stjórnun.
Þann 30 jan næstkomandi verður efnt til morgunfundar í Opna háskólanum undir yfirskriftinni „Árangursrík verkefna- og valddreifing“ þar sem samstarfinu verður formlega ýtt úr vör. Þar mun forstjóri Sjóvár Hermann Björnsson stíga á stokk og fjalla um reynslu sína af árangursríkri vald- og verkefnadreifingu. Þá mun Alda Sigurðardóttir eigandi og stjórnendaþjálfari hjá Vendum draga fram algengustu hindranirnar við að verkefna- og valddreifa og hvernig sé best að yfirstíga þær.
Fundarstjóri verður Gunnhildur Arnardóttir, framkvæmdastjóri Stjórnvísi.

Óskað er eftir tilnefningum til Stjórnunarverðlauna Stjórnvísi 2013.

Ágætu Stjórnvísifélagar.
Óskað er eftir tilnefningum til Stjórnunarverðlauna Stjórnvísi 2013.

Til að tilnefna smellið á hlekkinn: https://www.research.net/s/a2up13

Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi 2013 verða veitt í fjórða sinn í mars næstkomandi við hátíðlega athöfn í Turninum í Kópavogi. Þrír verða útnefndir.
Stjórnvísifélagar eru hvattir til að taka þátt með því að tilnefna og rökstyðja millistjórnendur/yfirstjórnendur í fyrirtækjum innan raða Stjórnvísi sem þeim þykir hafa skarað framúr.
Frestur til að tilnefna rennur út 12. Febrúar 2013.
Hver og einn Stjórnvísifélagi getur tilnefnt og rökstutt eins marga og hann vill innan sem utan síns fyrirtækis. Opið er fyrir tilnefningar í öllum faghópum Stjórnvísi sem sjá má á vef félagsins; http://stjornvisi.is/stjornunarverdlaunin.
Dómnefnd tekur við öllum tilnefningum, vinnur úr þeim og útnefnir verðlaunahafa.
Viðmið við tilnefningu:
Að stjórnandinn hafi í starfi sínu eða einstöku verkefni sýnt af sér forystu, bæði í stjórnun og nýjum hugmyndum ásamt því að stuðla að auknum árangri í starfsemi þess fyrirtækis eða stofnunar sem hann starfar hjá.
Stjórnandinn verður að starfa hjá aðildarfyrirtæki Stjórnvísi - sjá aðildarlista: http://stjornvisi.is/fyrirtaeki
Markmið verðlaunanna er að vekja athygli á framúrskarandi starfi stjórnenda sem eru í Stjórnvísi og hvetja félagsmenn til áframhaldandi faglegra starfa og árangurs.
Dómnefnd 2013 skipa eftirtaldir:
• Agnes Gunnarsdóttir, situr í stjórn Stjórnvísi og er framkvæmdastjóri sölu-og markaðssviðs Íslenska Gámafélagsins.
• Ásta Bjarnadóttir, ráðgjafi Capacent.
• Bára Sigurðardóttir formaður dómnefndar og mannauðsstjóri hjá Termu.
• Helgi Þór Ingason, dósent og forstöðumaður MPM náms við HR
• Hjörleifur Pálsson, fjármálastjóri Össurar.
• Magnús Guðmundsson, forstjóri Landmælinga Íslands og formaður Félags forstöðumanna ríkisstofnana
Nánari upplýsingar um Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi er að finna á heimasíðu félagsins http://stjornvisi.is/stjornunarverdlaunin

Með kærri kveðju,
Gunnhildur Arnardóttir
Framkvæmdastjóri Stjórnvísi

Vikan framundan - þrír spennandi viðburðir

Vikan framundan - Þrír spennandi viðburðir

  1. janúar 2013 | 08:30 - 09:30 Menningarmæling Capacent: Veistu hvaða vinnustaðamenning er ríkjandi á þínum vinnustað?
    Mannauðsstjórnun Haldinn í Borgartúni 27, 105 Reykjavík
    Kynntar verða niðurstöður úr könnun Capacent meðal starfandi fólks á höfuðborgarsvæðinu, þar koma fram áhugaverðar niðurstöður um tengsl vinnustaðamenningar við hollustu og önnur lykilviðhorf starfsmanna. Niðurstöðurnar byggja á nýju mælitæki Capacent sem metur fjórar tegundir vinnustaðamenningar og á fundinum verður kynnt hvernig nýta megi þetta mælitæki til umbreytinga og þróunar. Kynningar eru í höndum Ástu Bjarnadóttur, Hildar Jónu Bergþórsdóttur og Vilmars Péturssonar ráðgjafa hjá Capacent. Capacent býður gestum Stjórnvísi upp á morgunverð frá kl. 8:00.
    Um fyrirlesara:
    Ásta Bjarnadóttir er ráðgjafi á sviði stjórnunar og mannauðsstjórnunar hjá Capacent. Ásta hefur stýrt mannauðsmálum hjá Háskólanum í Reykjavík, Íslenskri erfðagreiningu og Hagkaupum og hún er einn af stofnendum CRANET rannsóknaverkefnisins um íslenska mannauðsstjórnun. Ásta er með doktorspróf í vinnu- og skipulagssálfræði frá University of Minnesota 1997.
    Hildur Jóna Bergþórsdóttir er sérfræðingur á sviði fyrirtækja- og starfsmannarannsókna, einkum vinnustaðagreininga og ráðgjafar og umbótastarfs í kjölfar greiningar. Hún er löggiltur sálfræðingur með Cand.Psych próf frá Háskólanum í Árósum. Hildur Jóna hefur einning fjölbreytta ráðgjafarreynslu í kjölfar vinnustaðagreiningar, m.a. í formi endurgjafar til stjórnenda og stýra vinnuhópum við greiningar- og lausnavinnu.
    Vilmar Pétursson er ráðgjafi á sviði stjórnunar og mannauðs hjá Capacent. Auk ráðgjafastarfa hefur Vilmar m.a. unnið sem verkefnastjóri og stjórnandi hjá Samtökum iðnaðarins og Félagsþjónustu Reykjavíkur. Vilmar er menntaður sem félagsráðgjafi og með meistarapróf í stjórnun og stefnumótun.
  2. janúar 2013 | 12:00 - 13:30 Hvenær á stjórnendamarkþjálfun við? Hvernig vel ég rétta markþjálfann?
    Markþjálfun Haldinn að Kllapparstíg 25 - 5 hæð, 101 Reykjavík„ Markþjálfunardagurinn 2013“ Markþjálfun - Best geymda leyndarmálið?
    Evolvia býður á Markþjálfunardeginum sjálfum til hádegisfundar. Evolvia hóf fyrst kennslu í markþjálfun á Íslandi og hefur verið starfandi frá árinu 2004 (var áður Leiðtogi).
    Frumkvöðullinn Matilda Gregersdotter, PCC markþjálfi og eigandi Evolvia, mun fjalla bæði um ávinning stjórnendaþjálfunar og einnig sérstöðu, menntun og reynslu markþjálfa. Hver eru algeng viðfangsefni í stjórnendaþjálfun og þá ávinningur stjórnenda og fyrirtækja af þjálfuninni? Einnig mun Matilda útskýra mismunandi markþjálfunarnám og alþjóðlegar vottanir. Hvað þýða þessar vottanir og hvað er á bak við þær? Hvar hægt er til dæmis að leita að markþjálfa og hvað hafa ber í huga við valið?
  3. janúar 2013 | 15:30 - 17:00 Kynning á kraftmikilli vordagskrá Stjórnvísi 2013 á Nauthól, Nauthólsvegi 106.
    Fimmtudaginn 24.janúar mun stjórn Stjórnvísi og stjórnir allra faghópa kynna áhugaverða vordagskrá á Nauthól bistró. Fundurinn er öllum opinn og félagar hvattir til að koma með hugmyndir og kynna sér spennandi dagskrá vorsins.Dagskrá:
    kl.15:30 Jón G. Hauksson, formaður stjórnar Stjórnvísi
    kl.15:35 CAF/EFQM
    kl.15:38 Breytingastjórnun - kynning á nýjum faghópi
    kl.15:42 Fjármál fyrirtækja
    kl.15:45 Gæðastjórnun
    kl.15:50 Heilbrigðissvið
    kl.15:55 ISO-hópur
    kl.16:00 Lean-Straumlínustjórnun
    kl.16:05 Innkaup - kynning á nýjum faghópi
    kaffihlé
    kl.16:15 Mannauðsstjórnun
    kl.16:20 Markþjálfun
    kl.16:25 Nýsköpun
    kl.16:30 Samfélagsábyrgð fyrirtækja
    kl.16:35 Sköpunargleði
    kl.16:40 Stefnumótun og Balanced Scorecard
    kl.16:45 Umhverfi-og öryggi
    kl.16:50 Upplýsingaöryggi
    kl.16:55 Verkefnastjórnun
    kl.17:00Viðskiptagreind
    kl.17:05 Þjónustu-og markaðsstjórnun

Vandaðri vinnubrögð með CAF. Grein í Viðskiptabl.Mbl. höfundur: Pétur Berg Matthíasson, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu

Vandaðri vinnubrögð með CAF

Síðan 2011 hefur verið unnið að því innan stjórnkerfisins að meta fýsileika þess að innleiða sjálfsmatslíkan fyrir stjórnsýsluna. Erlendis hefur reynslan af slíkum líkönum verið góð, bæði fyrir einkageirann og opinbera geirann. Unnið er að því að meta CAF sjálfsmatslíkanið (Common Assessment Framework) sem hannað var sérstaklega fyrir opinberar stofnanir og sveitarfélög um aldamótin. CAF notendur eru komnir fyrir 3000 og má finna þá í flestum ríkjum Evrópu, í Asíu, Mið-Ameríku og á fleiri stöðum.

CAF sjálfsmatslíkanið hefur almennt ekki verið tekið upp á Íslandi þó dæmi sé um að stofnanir hafi notað CAF. Um mitt ár 2011 hóf fjármálaráðuneytið samstarf við velferðarráðuneytið um að vinna að innleiðingu CAF á Íslandi. Ákveðið var að hefja tilraunaferli með því að prufakeyra CAF hjá fimm stofnunum. Tilgangurinn var að afla upplýsinga um tækið svo að hægt væri að meta fýsileika þess og taka ákvörðun um hvort CAF væri tæki sem stofnanir á Íslandi eigi almennt að nota. Með tilraunaferlinu var ætlunin að meta áhrif CAF líkansins á starfsemi stofnana, safna upplýsingum er snúa að framkvæmd og úrvinnslu en jafnframt meta hvort þróa þurfi aðferðina frekar.

Tilraunaferlinu er nú lokið og má segja að tilraunastofnanir séu almennt ánægðar með CAF sjálfsmatslíkanið. Stofnanir sjá fyrir sér betri nýtingu fjármuna m.a. með endurforgangsröðun verkefna í samræmi við þarfir viðskiptavina. Einnig sjá stofnanir fyrir sér breytingar á verklagi og skipulagi til að ná betur markmiðum stofnunar. Frekari upplýsingar um CAF sjálfsmatslíkanið og tilraunaverkefnið má nálgast vef á fjármála- efnahagsráðuneytisins.

Pétur Berg Matthíasson, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu

Markþjálfunardagurinn 24.janúar 2013

Félag markþjálfunar á Íslandi stendur fyrir Markþjálfunardeginum, 24. janúar.

Margir af færustu markþjálfum landsins verða með upplýsandi og upplífgandi erindi frá kl. 8.30 að morgni til kl 19 að kvöldi.

Markþjálfunardagurinn er kjörið tækifæri til þess að fræðast um spennandi fag, eflast í lífi og starfi, fá hugmyndir og innblástur og byrja árið með krafti! Fundurinn er haldinn á tveimur stöðum yfir daginn, viðburður um morguninn kl 8:30 og einnig dagskráin í hádeginu kl 12, verða í Ofanleiti 2 og dagskrá seinnipartinn verður samfelld í Opna háskólanum.

Láttu árið 2013 - verða árið þitt !

Dagskrá:

Morguninn

Linda Baldvins & Helga Jóhanna - Markþjálfunarkúltúr í fyrirtækjum.
Kl. 8.30 - 9.10 Ofanleiti 2, 2. hæð / Klak
María Lovísa Árnadóttir - Hverjir eru markþjálfanlegir?
Kl. 9.10 - 9.50 Ofanleiti 2, 2. hæð / Klak

Hádegið - Stjórnvísi:

Matilda Gregersdotter - Hvenær á stjórnendamarkþjálfun við?
Kl. 12 - 13.30 Klapparstígur 25. 5. hæð

Eftirmiðdagurinn

Rúna Magnúsdóttir - Leyndarmálið að velferðinni þinni.
Kl. 16.00-16.30 Opni Háskólinn / Stofa M216

Hrefna Birgitta - NLP og Enneagram coaching.
Kl. 16.30-17 Opni Háskólinn / Stofa M216

Herdís Pála Pálsdóttir - Að hætta að umbera hlutina og gera 2013 að besta ári lífs míns, bæði í einkalífi og starfi.
Kl. 17.15-17.45 Opni Háskólinn / Stofa M216

Ragnheiður Aradóttir - Áhrif þess að hafa markþjálfun með og /eða í kjölfar námskeiðs.
Kl. 17.15-17.45 Opni Háskólinn / Stofa M217

Sigríður Jónsdóttir - ADHD markþjálfun.
kl. 17.50-18.20 Opni Háskólinn / Stofa M216

Matti Ósvald Stefánsson - Kjarninn í þér.
Kl. 17.50-18.20 Opni Háskólinn / Stofa M217

Vildís Guðmundsdóttir - Þú ert óskrifað blað. Hvað viltu fyrir þig?
Kl. 18.25-18.55 Opni Háskólinn / Stofa M216

Steinunn Hall - Hver er árangur stjórnendaþjálfunar? - kynning á niðurstöðum mastersritgerðar á meðal íslenskra stjórnenda.
Kl. 18.25-18.55 Opni Háskólinn / Stofa M217

Stærsta áskorunin er að láta brjóstvitið ráða!

"Stærsta áskorunin er að láta brjóstvitið ráða" sagði Hanna María Jónsdóttir framkvæmdastjóri rekstrar-og fjármálasviðs Reiknistofu bankanna á fjölmennum fundi Mannauðsstjórnunarhóps Stjórnvísi í morgun. Þar vísaði hún til þeirrar áskorunar sem stjórnendur standa frammi fyrir þegar fyrirtæki sameinast. Fyrir hálfu ári síðan sameinuðust Teris og RB og upplýsti Hanna María og fleiri starfsmenn RB Stjórnvísifélaga um breytingarferlið, samrunann, og uppbyggingu framtíðarsýnar. Eftir að Samkeppnisstofnun samþykkti samrunann var hafist handa við að skipa ritstjórn innrivefs og vefurinn efldur. Í framhaldi var haldinn starfsdagur í Þjóðfundarfyrirkomulagi og þá voru gildi RB valin. Viðskiptavinir RB komu einnig að þeirri vinnu. Sá lærdómur sem þau hafa helst dregið af þessari vinnu er að þrátt fyrir mikla vinnu er upplýsingastreymi aldrei nógu gott og það tekur ákveðinn tíma að leyfa menningu nýs RB að koma í ljós.

Nýtt Stjórnvísifyrirtæki - Mentor

Mentor var stofnað árið 1990 undir nafninu Menn og mýs. Frá upphafi hefur fyrirtækið unnið með grunnskólum og er því komið með 20 ára reynslu af þróun og rekstri upplýsingakerfa. Mentor sameinaðist fyrirtækinu P.O.D.B árið 2007 en erlendis er fyrirtækið rekið undir nafninu InfoMentor (sjá www.infomentor.se).

Vefkerfið Mentor.is er aðal lausn fyrirtækisins.Fyrstu árin voru það eingöngu grunnskólar sem nýttu kerfið en árið 2001 kom fyrsta útgáfa fyrir leikskóla og sveitarfélög. Í dag er Mentor heildstætt upplýsinga- og námskerfi fyrir alla sem starfa með börnum í skólum og tómstundastarfi.

Mentor er notað í fjórum löndum en auk höfuðstöðvanna á Íslandi er fyrirtækið með skrifstofu í Svíþjóð þar sem 18 starfsmenn vinna við ráðgjöf, sölu og þjónustu við sænska viðskiptavini. Á Íslandi starfa 23 starfsmenn þar af eru 15 tölvunarfræðingar sem vinna við þróun kerfisins.

Nýtt Stjórnvísifyrirtæki - LOGOS

LOGOS, stærsta lögfræðistofa Íslands, liðsinnir viðskiptavinum sínum frá öflugum skrifstofum á Íslandi og í Bretlandi. LOGOS sérhæfir sig í þjónustu við íslenskt og alþjóðlegt viðskiptalíf og er jafnframt sú íslenska lögfræðistofa sem á sér lengsta sögu, allt aftur til ársins 1907. Þótt margt hafi breyst á þeirri rúmu öld sem liðin er, eru þau grunngildi sem stofnandinn, Sveinn Björnsson, síðar fyrsti forseti Íslands, hafði að leiðarljósi þó enn óbreytt. Heiðarleiki, fagmennska og metnaður eru sá grunnur sem velgengni LOGOS rís af, bæði hér heima og erlendis.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?