Fréttir og pistlar

Viðskiptasambandið treyst með aukinni þekkingu á viðskiptavinum. Grein í Viðskiptabl.Mbl. höfundar: Brynjólfur Borgar Jónsson og Gísli Steinar Ingólfsson, ráðgjafar hjá Capacent.

Viðskiptasambandið treyst með aukinni þekkingu á viðskiptavinum
Fátt er mikilvægara fyrir fyrirtæki en að treysta sambandið við viðskiptavini sína. Til að það sé hægt er mikilvægt að öðlast dýpri skilning á jafnt stöðu viðskiptasambandsins sem þörfum viðskiptavina.
Mörgum spurningum um viðskiptasambandið verður ekki svarað nema með tölfræðilegum greiningum (customer analytics) á fyrirliggjandi gögnum. Slíkar greiningar geta til dæmis leitt í ljós hverjir eru verðmætustu viðskiptavinirnir og í hvaða hópum slíka viðskiptavini er helst að finna. Greiningar geta einnig veitt svör við því hvaða viðskiptavinir eru líklegir til að bæta við sig þjónustuþáttum eða hætta í viðskiptum á næstu mánuðum. Svörin veita þannig innsýn í þróun, stöðu og líklega þróun viðskiptasambandsins sem nýta má á kerfisbundinn hátt við ákvarðanatöku gagnvart viðskiptavinum. Samskipti verða markvissari, eftirsóknarverðum viðskiptavinum er umbunað og kerfisbundið er unnið að því að auka virði viðskiptasambandsins.
Markaðsrannsóknir eru hins vegar nauðsynlegar til að svara spurningum um viðskiptavini sem eru á forsendum þeirra, þ.e. hvernig viðskiptavinir meta fyrirtækin.
Markaðsrannsóknirnar gera ákveðna forgangsröðun mögulega út frá þörfum og áherslum viðskiptavinarins. Slík forgangsröðun getur til dæmis falist í eflingu tiltekinnar þjónustu sem viðskiptavinir meta mikils en að á móti sé dregið úr annarri sem viðskiptavinir telja skipta litlu máli. Þetta eru ákvarðanir sem byggja á því sem viðskiptavinum þykir mikilvægt. Fyrirtækið hefur tækifæri til að forgangsraða í krafti þekkingar á því sem skiptir viðskiptavini máli.
Með aukinni þekkingu á viðskiptavinum hegðun þeirra og þörfum getur fyrirtækið gripið til nauðsynlegra aðgerða í því skyni að efla viðskiptasambandið og sérsníða það að þörfum einstakra hópa. Þegar rétt er á spöðum haldið er niðurstaðan forgangsröðun sem er fyrirtækjum og viðskiptavinum í hag.
Brynjólfur Borgar Jónsson
Gísli Steinar Ingólfsson
Höfundar eru ráðgjafar hjá Capacent.

Stjórn faghóps um Innkaup og innkaupastýringu þakkar þeim fjölmörgu sem mættu á fyrsta fund og Eimskip fyrir einstaklega góðar móttökur

Sæl öll, Stjórnin þakkar enn og aftur þeim fjölmörgu sem lögðu leið sína á fyrsta fræðslufund faghóps innkaupa í gær. Tæplega 50 manns mættu til að hlýða á, Davíð Inga forstöðumann lögfræðideildar Eimskips og Þórdísi fulltrúa í skráningu og skjölum, um alþjóðlegu flutningsskilmálana Incoterms. Teknar hafa verið saman hugmyndir sem komu frá meðlimum og gestum af matsblöðum sem voru látin ganga um salinn. Við munum að sjálfssögðu hafa þær til hliðsjónar við gerð fræðsluáætlunar fyrir næsta vetur. Enn og aftur minnum við á næstu fræðslu sem verður 14. maí en nánari dagskrá verður send út síðar. Efni frá fundinum mun vonandi koma sem fyrst inn á heimasíðuna undir „ítarefni“ einnig er myndir frá fræðslunni komnar inn á síðuna okkar. Hér má sjá eftirfarandi tillögur af fræðslu: Ólíkar aðferðir við notkun á tölvukerfum Birgðarhaldskostnaður LEAN birgðarhald Hagstæðasti flutningsmátinn (sjór vs. flug vs. express) Val á birgjum Samningagerð VMI stýring birgja á birgðum Birgjasambönd Áhættumat Samvinna um vöruþróun Samningatækni Skráning á fylgibréfi & farmskírteini, má vera dæmi hverning þau líta út og hvernig mismunandi skráning hefur áhrif á ábyrgð Útfylling skírteina Tollamál Ábyrgðir /guarantees v/efnda Vöruhótel vs. lager, vöruhús í eigu fyrirtækis Praktískar kynningar fyrirtækja/heimsóknir Innkaupalög Menningarmismunur milli landa Með kveðju, Stjórnin

Samfélagsábyrgð og móttækileiki starfsmanna við breytingum. Frétt í Viðskiptablaði Mbl. Höf: Lára Jóhannsdóttir nýdoktor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og stjórnarmaður í LSBÍ

Samfélagsábyrgð og móttækileiki starfsmanna við breytingum

Tregða við innleiðingu breytinga er þekkt vandamál, jafnvel þótt hægt sé að ganga út frá breytingum vísum, til að mynda innan skipulagseininga. Það að hrinda breytingum í framkvæmd er því áskorun fyrir stjórnendur, því breyta þarf gildandi fyrirtækjamenningu, stefnu, hegðun, venjum, gildismati og viðhorfum.
Tregða til breytinga er oft ekki að ástæðulausu, sér í lagi ef búast má hagræðingu, niðurskurði eða uppsögnum. Ótti við hið óþekkta og vantraust eru því nátengd tregðu til breytinga. Breytingar geta einnig verið af hinu góða, t.d. ef fyrirtæki eru í vexti, sækja inn á nýja markaði eða velja að axla samfélaglega ábyrgð.
Aukinn lagalegur, samfélagslegur og markaðslegur þrýstingur er á fyrirtæki um að þau axli samfélagslega ábyrgð - að rekstur þeirra hafi æðri tilgang en að þjóna hagsmunum fárra og að græða meira í dag en í gær.
Norræn doktorsrannsókn á starfsháttum vátryggingafélaga leiddi í ljós móttækileika starfsmanna við breytingum þegar fyrirtæki velja að axla samfélaglega ábyrgð. Rannsóknin leiddi í ljós mikilvægi forystu stjórnenda við skipulagsbreytingu af þessum toga, svo og jákvætt viðhorf starfsmanna til innleiðingar á slíkri stefnu. Innleiðing samfélagsábyrgðar hefur vissulega áhrif á störf starfsmanna sem taka þurfa upp nýja starfshætti, en í ljósi samfélagslegs ávinnings af breytingunum eru þeir tilbúnir að taka á sig aukna ábyrgð og leggja sitt að mörkum til að breytingarnar nái fram að ganga. Viðhorf gagnvart breytingunum einkennist því af jákvæðni, bjartsýni og innri hvötum, svo og jákvæðum tilfinningum eins og gleði og ánægju sem felst í því að styðja samfélagslega ábyrgar aðgerðir fyrirtækja.

Egilsson A4 - nýtt í Stjórnvísi

Egilsson ehf. er ein af stærstu heildsölum landsins með ritföng, leikföng, gjafavörur og árstíðarbundnar vörur. Egilsson hf. var stofnað 1939 af Sigurði H. Egilssyni. Fyrirtækið hefur verið fjölskyldufyrirtæki frá upphafi. Egilsson hefur að skipa samhentum hópi starfsmanna sem tilbúinn er að þjóna fyrirtækjum með þægilega og fjölbreytta þjónustu að leiðarljósi í samræmi við þarfir hvers og eins.

Egilsson á og rekur verslanir Office1.

Í dag starfa um 70 manns hjá Egilsson.

AGR - nýtt í Stjórnvísi

Saga AGR nær aftur til ársins 1997, en megin lausn fyrir tækisins, AGR Innkaup, hefur verið þróuð frá árinu 2002. Lausnin er til þess að lágmarka kostnað við innkaup og birgðarhald. Þetta er gert með því að finna bestu mögulegu birgðarsamsetningu fyrirtækja, minnka vöruvantanir og að minnka tímafreka vinnu við innkaupastýringu. Lausnin er í notkun hjá yfir 60 heildsölum, smásölum og framleiðslufyrirtækjum í 12 löndum, en fyrirtækið sjálft hefur starfsemi í Bretlandi, Danmörku og á Íslandi.

AGR hefur mikla þekkingu á Microsoft tækninni og hefur náð stöðu Gull-Samstarfsaðila Microsoft, sem staðfestir að AGR stenst mestu kröfur um þekkingu á Microsoft tækni. AGR hefur ennfremur fengið megin lausn sína, AGR Innkaup vottaða sérstaklega af Microsoft. Þessi sterku tengsl tryggja okkur aðgang að nýjustu tækni sem völ er á við hugbúnaðarþróun í dag og gera okkur kleift að þróa launs okkar við bestu mögulegu aðstæður.

Auðmerkt - nýtt í Stjórnvísi

Auðmerkt skiltagerð aðlagar sig að þínum þörfum er kemur að framleiðslu merkinga. Hjá fyrirtækinu starfa menn með mikla reynslu af merkingum. Ekkert verk er of lítið né stórt fyrir okkur!

Icelandair Group nýtt í Stjórnvísi

Icelandair Group focuses on the international airline and tourism sectors with Iceland as a cornerstone of an international route network.

The Group consists of nine subsidiaries that are inter-related and support each other, both through revenue generation and in cost-sharing.

Icelandair is the largest subsidiary and the main drive in the Group´s operations.

Umhverfis-og auðlindaráðuneytið, nýtt í Stjórnvísi

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið mótar stefnu og umgjörð um umhverfisvernd og sjálfbæra nýtingu náttúrugæða með velferð og jafnrétti kynslóðanna að leiðarljósi.
Framtíðarsýn
Að á Íslandi ríki almennur skilningur og samstaða um mikilvægi sjálfbærni á öllum sviðum.

Meginmarkmið
Að vönduð stjórnsýsla og fagleg vinnubrögð einkenni starfsemi ráðuneytisins og skapi grundvöll gagnsæis og trausts. Lögð er áhersla á:

Skýr markmið og mælanleg viðmið í starfsemi og viðfangsefnum
Þekkingargrunn fyrir ákvarðanatöku og nýta markvisst þá þekkingu sem liggur fyrir í ráðuneytinu og stofnunum þess
Skýr skilaboð og upplýsingamiðlun bæði inn á við og gagnvart hagsmunaaðilum
Að almennur skilningur og samstaða ríki í samfélaginu um mikilvægi sjálfbærni á öllum sviðum. Lögð er áhersla á:

Forystu um upplýsta umræðu um umhverfis- og náttúruverndarmál og nýtingu auðlinda
Almenna þátttöku og aðkomu hagsmunaaðila að málefnum ráðuneytisins
Fræðslu og miðlun upplýsinga um viðfangsefni ráðuneytisins
Að vaxandi kröfum um umhverfisvernd og sjálfbærni verði mætt með því að efla stefnumótun og áætlanagerð. Lögð er áhersla á:

Aðferðafræði sjálfbærrar þróunar
Viðmið um sjálfbæra nýtingu náttúrauðlinda
Stefnumiðaða forgangsröðun og tímasetningu verkefna
Rannsóknir, vöktun, úttektir og stöðumat

Edda útgáfufyrirtæki - nýtt í Stjórnvísi

Edda er útgáfufyrirtæki sem sérhæfir sig í útgáfu bóka og rekstur áskriftarklúbba með efni frá Disney.
Fyrirtækið leggur metnað sinn í að færa fjölskyldum töfra Disney með fjölbreyttu og vönduðu lesefni.

Hraðlestrarskólinn - velkomin í Stjórnvísi

Stjórnvísi býður starfsmenn Hraðlestrarskólans hjartanlega velkomna í Stjórnvísi.

VJI - Nýtt í Stjórnvísi

Hönnun rafkerfa hefur lengi verið aðalverksvið fyrirtækisins gildir þá einu hvort um er að ræða smáspennu-, lágspennu- eða háspennukerfi svo og stýrikerfi fyrir viðkomandi rafkerfi.
VJI hefur á að skipa öflugu starfsliði á orku- og rekstrarsviði. Oft á tíðum skarast þessi svið og býður stærð fyrirtækisins upp á mikinn sveigjanleika og samnýtingu þekkingarsviða.

Árið 2010 hélt VJI upp á 50 ára afmæli rekstursins en árið 1960 hóf Jóhann Indriðason rafmagnsverkfræðingur sjálfstæða ráðgjöf á rafmagnssviðinu. Fyrst var reksturinn undir nafni Jóhanns en árið 1983 var stofnað hlutafélag um reksturinn.

Í gegnum árin hefur VJI þjónað opinberum stofnunum, einkaaðilum og félögum við ýmsa ráðgjöf víða um land auk ýmissa verkefna erlendis.

Lögreglustjórinn í Reykjavík - velkomin í Stjórnvísi

Stjórnvísi býður starfsmenn Lögreglustjóraembættisins hjartanlega velkomna í Stjórnvísi.

EQM gæðavottun Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins. Grein í Viðskiptabl.Mbl. Höf. Guðfinna Harðardóttir, sérfræðingur hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins

EQM gæðavottun Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins
Eitt af hlutverkum Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA) er að efla gæði fræðslustarfs og ráðgjafar hjá fræðsluaðilum sem starfa í anda laga nr. 27/2010 um framhaldsfræðslu. Árið 2006 gaf FA út handbók um gæðaviðmið í fullorðinsfræðslu og í árslok 2008 lauk verkefninu RECALL -Recognitions of Quality in Lifelong Learning sem var samstarfsverkefni átta Evrópuþjóða með styrk frá Leonardo da Vinci, menntaáætlun ESB. Verkefninu var stýrt af FA og gekk út að byggja upp gæðavottunarferlið European Quality Mark (EQM), sem byggt er á viðurkenndum samevrópskum gæðaviðmiðum fyrir fræðsluaðila í fullorðinsfræðslu. Verkefnið var valið eitt af 39 fyrirmyndaverkefnum á þessu sviði af menntaáætluninni. EQM vottunarferlið byggir á tveimur grundvallaraðferðum gæðastjórnunar, sjálfsmati og eftirliti og með vottuninni er staðfest að starfsemin uppfyllir viðmið EQM.
Árið 2011 gerði FA samning við vottunarstofu um gæðavottunarúttekt og bauð fræðslu- og símenntunarmiðstöðvum, sem eru í samstarfi við FA, að sækja um fyrstu úttektirnar. Núna er staðan sú að þrettán miðstöðvar hafa staðist gæðaúttekt og hlotið vottun skv. EQM gæðamerkinu. Þær eru: IÐAN fræðslusetur, Þekkingarnet Þingeyinga, Starfsmennt fræðslusetur, Framvegis, Farskólinn - miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra, Mímir-símenntun, SÍMEY-Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar, Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, Viska - fræðslu- og símenntunarmiðstöð Vestmannaeyja, Austurbrú, Fræðslunet Suðurlands, Fræðslumiðstöð Vestfjarða og Símenntunarmiðstöðin Vesturlandi.
Fleiri upplýsingar má finna á www.frae.is og www.europeanqualitymark.org.

Höf. Guðfinna Harðardóttir, sérfræðingur hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins

Hvað með stjórnendateymið? Grein í Viðskiptabl.Mbl. höf: Ágúst Kristján Steinarrsson Stjórnunarráðgjafi hjá Intellecta

Hvað með stjórnendateymið?
Í umfjöllun um rekstur fyrirtækja er gjarnan rík áhersla á stjórnandann og leiðtogann. Umfjöllunin er gjarnan í eintölu þar sem stjórnandanum er ýmist hampað sérstaklega fyrir góðan árangur eða gagnrýndur fyrir mistök. Í fræðibókum, námskeiðum og stjórnendaþjálfun er að sama skapi rík áhersla lögð á þennan einstakling, enda hefur stjórnandinn umtalsverð áhrif á árangur í rekstri.
Raunverulegur árangur í rekstri næst aftur á móti gjarnan með öflugu teymi stjórnenda, sem vinnur samstillt í átt að sameiginlegu markmiði. Stjórnendateymið gegnir því óumdeildu lykilhlutverki sem, þrátt fyrir allt, virðist of sjaldan fá þá athygli sem því ber.
Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að stjórnendahópur og stjórnendateymi er ekki það sama. Hópur verður sjálfkrafa til þegar einstaklingar koma saman en teymi er meira en það. Teymi verður til þegar meðvitað eru útilokaðar neikvæðar afleiðingar hópamyndunar og um leið unnið markvisst og ötullega að því að draga fram kosti þess að starfa saman í teymi.
Þannig nýtir gott stjórnendateymi sér styrkleika mismunandi einstaklinga, veit hvert það er að fara og hvaða leið verður valin. Það hefur skilgreind hlutverk fyrir alla, styðst við skipulögð og opin samskipti, endurnýjar þekkingu sína og færni, hefur sameiginlega stefnu og markmið, metur árangur jafnóðum og tileinkar sér stjórnunartakt sem tryggir samfellu í öllum störfum.
Mikilvægt er fyrir stjórnendur að doka við, vera vakandi fyrir stöðu stjórnendateymisins og vinna ötullega að því að hámarka árangur þess. Stóra spurningin fyrir alla stjórnendur er því þessi: Ert þú í hóp eða teymi?

Ágúst Kristján Steinarrsson
Stjórnunarráðgjafi hjá Intellecta
Stjórnarmaður faghóps um breytingastjórnun hjá Stjórnvísi

Frábærar móttökur hjá Gámaþjónustunni

Gámaþjónustan bauð Stjórnvísi félögum í heimsókn þriðjudaginn 26. mars 2013. Fyrirlesarar voru þau Áslaug Dagbjört Benónýsdóttir, verkefnastjóri Gámaþjónustunnar og Gunnar Bragason, markaðs- og gæðastjóri Gámaþjónustunnar. Áslaug kynnti niðurstöður meistaraverkefnis í iðnaðarverkfræði sem hún vann við Háskóla Íslands árið 2012. Verkefnið fjallar um ástæður, hindranir og ávinning af umhverfisstjórnunarkerfum. Gunnar fór svo yfir starfsemi Gámaþjónustunnar ásamt ferli innleiðingar á umhverfisstjórnunarkerfi fyrirtækisins sem uppfyllir staðalinn ISO 14001.

Það er óhætt að segja að Gámaþjónustan hafi tekið vel á móti félögum Stjórnvísi sem fjölmenntu á fundinn, en allir voru leystir út með lítilli grænni ruslatunnu að gjöf í lok fundar sem tákn um þá umhverfisvitund sem fyrirtækið setndur fyrir.

Árangur Námsgagnastofnunar við að fyrirbyggja flöskuhálsa í verkefnaflæði

Námsgagnastofnun bauð Stjórnvísi félögum í heimsókn þriðjudaginn 19. mars 2013 þar sem við fengum að fræðast um hvernig þau hafa nýtt sér Kanban til að halda utanum útgáfuferli allra þeirra námsbóka sem stofnunin gefur út á hverju ári. Áhugavert var að heyra hversu almenn ánægja er innan Námsgagnastofnunar með þann aukna sýnileika sem verkefnin hafa fengið og þann árangur sem hefur náðst við að fyrirbyggja flöskuhálsa í verkefnaflæðinu, en hugmyndin að upptöku Kanban kom úr röðum starfsmannanna sjálfra. Fullbókað var á kynninguna og kunnum við Námsgagnastofnun bestu þakkir fyrir gott heimboð.

Tækifæri á breyttum tímum - Neytendur vilja vita. Grein í Viðskiptabl.Mbl.Greinarhöfundur: Halldóra Hreggviðsdóttir, framkvæmdastjóri Alta

Tækifæri á breyttum tímum - Neytendur vilja vita
Neytendum er ekki sama hvernig vara verður til. Uppruni og hver framleiddi hana skiptir máli svo og heilnæmi. Sumir spyrja úr hverju varan er, hvort hún er lífræn, hvort gengið hafi verið á gæði náttúrunnar við framleiðslu hennar og hverjar séu aðstæður starfsfólks. Rekjanleiki og sjálfbærni eru nefnd í sömu andránni.

Að hluta til snýst þetta um upplifun og að hluta öryggi. Fyrir það eru sumir neytendur tilbúnir að greiða hærra verð.

Með nýjustu tækni aflar neytandinn sér þekkingar um vörur beint í smartsímann. Þar með skapast ný tækifæri við að tengja saman tiltekna vöru og sérstakar þarfir viðskiptavina, “the long tail” á markaðnum. Virðiskeðjan verður styttri í raun, tækifæri gefast fyrir fyrirtæki til að vera nær markaðnum og fækka þar með milliliðum.

“Verkfærin” sem fyrirtæki í fararbroddi nýta til að byggja upp innra verklag nýsköpunar, tryggja eiginleika vöru og miðla til neytenda eru m.a. vottuð umhverfismerki s.s. Norræni svanurinn, Evrópublómið, MSC og KRAV, Fairtrade, auk staðla um umhverfis- og gæðastjórnun, samfélagsábyrgð og yfirlit um kolefnisspor eða vistspor. Þau sem skara framúr hafa tileinkað sér þessi tæki, skilja orðfærið og eru hluti af lausninni.

Lykillinn er nýskapandi hugsun þar sem sérstaðan er skilgreind og sett í samhengi með þeim verkfærum sem neytandinn þekkir. Hér á landi höfum við það sem til þarf; úrvals hráefni, hreint vatn, staðaranda og fyrirtæki sem fylgja lögum um vinnuvernd.Reynslan hefur sýnt að með því að nýta verkfærin og miðla þessum eiginleikum um hágæða vöru, má skila meiri hagnaði.

Greinarhöfundur: Halldóra Hreggviðsdóttir, framkvæmdastjóri Alta

Að vera hluti af lausninni. Grein í Viðskiptablaði Mbl. greinarhöfundur: Hulda Steingrímsdóttir, ráðgjafi hjá Alta

Að vera hluti af lausninni
Samfélagsleg ábyrgð felst í því að fyrirtæki leggja sitt af mörkum til framfara í samfélaginu við að efla komandi kynslóðir. Samfélagsleg ábyrgð tengist öllum rekstrarþáttum fyrirtækja, hvort heldur þeir eru efnahagslegir, lagalegir eða siðferðislegir. Flest fyrirtæki vinna nú markvissar að samfélagslegri ábyrgð og flétta hana inn í áætlanir sínar til langs tíma. Auk kröfu um aukinn hagnað þurfa stjórnendur að glíma við væntingar hagsmunaaðila og taka ábyrgð á ákvörðunum og aðgerðum sem snerta umhverfi, efnahag og samfélag. Nýlegar rannsóknir sýna að fyrirtæki sem vinna skipulega með samfélagslega ábyrgð og sjálfbærni vegnar betur, þegar horft er til lengri tíma.

Lykillinn að vinnu við samfélagslega ábyrgð er nýskapandi hugsun:; að hugsa hlutina út frá nýju sjónarhorni með það fyrir augum að vera hluti af lausninni en ekki vandamálinu. Nýsköpunin hjá fyrirtækjum getur orðið á fimm mismunandi stigum:; í þróun vöru og þjónustu; með bættum ferlum í fyrirtækinu:; með endurskoðun og breytingum á hagnaðarmódeli fyrirtækisins:; með breytingum á viðskiptahugmynd eða breytingum innan atvinnugreinar. Hér á landi hafa fá fyrirtæki unnið skipulega með þessi mál en gera má ráð fyrir að fyrirtæki í útflutningi og/eða erlendu samstarfi séu þau sem fyrst finna fyrir þörfinni. Þá gildir að vera undirbúin.

Ávinningur er margþættur, t.d. betri yfirsýn og fyrirhyggja varðandi komandi kröfur, sem minnkar áhættu. Hagsmunaaðilar eru ánægðari, umhverfisáhrif minni, starfsmannamál betri, tækifæri opnast í vöruþróun, stjórnarhættir og neytendastarf batnar. Bætt samband við samfélag og hagsmunaaðila leiðir til hugmynda að gagnlegum verkefnum og orðsporið batnar.

Greinarhöfundur: Hulda Steingrímsdóttir, ráðgjafi hjá Alta

Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi: Fengu verðlaun Stjórnvísi

Þrír kunnir stjórnendur fengu stjórnunarverðlaun Stjórnvísi 2013 við hátíðlega athöfn félagsins í Turninum í gær. Þetta voru þau Egill Jónsson, framleiðslustjóri Össurar, Ásbjörn Gíslason, forstjóri Samskipa og Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, forstjóri Actavis á Íslandi. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson afhenti verðlaunin að viðstöddu miklu fjölmenni. Þetta er í fjórða árið í ráð sem verðlaunin eru veitt og hefur forseti Íslands afhent þau frá upphafi.
Stjórnvísi er stærsta stjórnunarfélag á Íslandi með yfir 2 þúsund félagsmenn og yfir þrjú hundruð fyrirtæki innan sinna raða. Innan félagsins starfa um nítján faghópar á mismunandi sviðum stjórnunar. Þannig fékk Ásbjörn Gíslason verðlaun fyrir þjónustu og markaðsstjórnun, Egill fyrir framleiðslu- og straumlínustjórnun og Guðbjörg Edda fyrir stefnumótun. Bára Sigurðardóttir, formaður dómnefndar, flutti ræðu fyrir hönd dómnefndar.
Á verðlaunahátíðinni fluttu þrír kunnir stjórnendur fyrirlestra sem vöktu mikla athygli. Það voru þau Janne Sigurðsson, forstjóri Alca Fjarðaáls, Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu og Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group og nýkjörinn formaður Samtaka atvinnulífsins.
Stjórnvísi er opið öllum einstaklingum og fyrirtækjum sem hafa áhuga á stjórnun og vilja fylgjast með nýjustu stefnum og straumum á þeim vettvangi. Félagið verður 27 ára á þessu ári og hét upphaflega Gæðastjórnunarfélag Íslands.

Markmið stjórnunarverðlaunanna er að vekja athygli á faglegu og framúrskarandi starfi
stjórnenda. Allar nánari upplýsingar um stjórnunarverðlaunin er að finna á heimasíðu Stjórnvísi; stjornvisi.is

Myndatexti:

Verðlaunahafar ásamt forseta Íslands. Ásbjörn Gíslason, forstjóri Samskipa, og Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, forstjóri Actavis á Ísland, voru erlendis. Frá vinstri: Auður Þórhallsdóttir, mannauðsráðgjafi Samskipa og Bára Mjöll Ágústsdóttir, mannauðsstjóri Samskipa, sem tóku við verðlaunum fyrir hönd Ásbjörns Gíslasonar, Eyjólfur Þ. Haraldsson læknir, sem tók við verðlaunum fyrir hönd eiginkonu sinnar Guðbjargar Eddu Eggertsdóttur, Egill Jónsson, framleiðslustjóri Össurar, og Ólafur Ragnar Grímsson, forseti
Íslands, sem afhenti verðlaunin.

Kveðja frá formanni Stjórnvísi - Fjölmennum í Turninn

Kæru félagsmenn!

Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi verða veitt í glæsilegu hófi í Turninum í Kópavogi á morgun, þriðjudaginn 12. mars. Þetta er einn af helstu viðburðum félagsins á hverju ári og hvet ég félagsmenn til að fjölmenna á þessa glæsilegu hátíð. Aðgangur er ókeypis og veitingar í boði félagsins. Forseti Íslands veitir verðlaunin og flytur ávarp. Þrír kunnir stjórnendur flytja fyrirlestra á hátíðinni. Þeir eru Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group og nýkjörinn formaður Samtaka atvinnulífsins, Janne Sigurðsson, forstjóri Alcoa-Fjarðaáls, og Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. Ekki verða pallborðsumræður en gestir geta beint spurningum til fyrirlesara.

Þetta er fjórða árið í röð sem Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi eru veitt og hefur forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, afhent þau frá upphafi auk þess að flytja ávarp um sína sýn á íslenskt atvinnulíf.
Mikill kraftur hefur annars verið í starfi faghópa í vetur og er augljóslega mikill byr með félaginu. Margir hafa lagt hönd á plóginn og vil ég þakka öllum fyrir hið kraftmikla starf í félaginu. Þungamiðjan í starfinu eru faghóparnir og án þeirra væri Stjórnvísi lítils virði.

Ég hvet ykkur enn og aftur til að mæta í Turninn á morgun kl. 16:00. Fjölmörg fyrirtæki styrkja hátíðina og þakkar Stjórnvísi fyrir þann stuðning.

Kveðja,
Jón G. Hauksson, formaður Stjórnvísi.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?