Fréttir og pistlar

Engar hindranir - Nýsköpunarhádegi Gulleggsins.

Nýsköpunarhádegi Gulleggsins var haldið í samstarfi við Stjórnvísi í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins. Yfirskrift fundarins var „Engar Hindranir“ sem er átak sem Icelandic Startups stendur fyrir til þess að hvetja konur til þátttöku í nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi með því að sýna sterkar fyrirmyndir úr sprotaumhverfinu. Í pallborðsumræðum voru að þessu sinni þær Ágústa Johnson, stofnandi Hreyfing Heilsulind,  Hrönn Margrét Magnúsdóttir, stofnandi Feel Iceland og
Sandra Mjöll Jónsdóttir, vöru- og markaðsstjóri Florealis.  Umræðustjóri pallborðsins var Helga Valfells frá fjárfestingasjóðnum Crowberry Capital
Átakið hefur nú þegar skilað sér í jafnara kynjahlutfalli í verkefnum sem Icelandic Startups stendur fyrir, þar á meðal Gullegginu.

 

Er öldrun tækifæri eða kvöð? Sviðsmyndir öldrunar 2020 -2040

Faghópur um framtíðarfræði hélt í dag einstaklega áhugaverðan fund í Íslenskri erfðagreiningu þar sem David Wood, fram´tiðarfræðingur, London Futurists fjallaði um sviðsmyndir öldrunar í framtíðinni.  Fyrirlesturinn var einstaklega áhugaverður og sjá má glærur af viðburðinum inn á facebooksíðu félagsins. 

Áhugaverð alþjóðleg ráðstefna um innleiðingu stefnu

Faghópur um stefnumótun og árangursmat vekur athygli á alþjóðlegu ráðstefnunni um innleiðingu stefnu sem verður haldin 23. september næstkomandi. Þá gefst stjórnendum og leiðtogum fyrirtækja og stofnana, ásamt stjórnendaráðgjöfum, einstakt tækifæri til að kynna sér helstu strauma við innleiðingu á stefnu. Þetta er í fyrsta sinn sem svo umfangsmikil ráðstefna um innleiðingu stefnu er haldin á Íslandi. Á ráðstefnunni munu koma saman margir helstu frumkvöðlar heims í stafrænni innleiðingu stefnu og ræða hvernig brúa megi bilið á milli stefnumótunar og innleiðingar með tæknibyltinguna að leiðarljósi. Ráðstefnan er á vegum ráðgjafar- og hugbúnaðarfyrirtækisins Decideact sem sérhæfir sig í stafrænni innleiðingu á stefnu og í samstarfi við Strategíu. Hér má nálgast dagskrá ráðstefnunnar og upplýsingar um fyrirlesara. Vakin er sérstök athygli á því að 20% afsláttur er að miðaverði út ágústmánuð.“

Ráðstefna - Áskorunin: Minni vinna, bætt heilsa - aukinn árangur

Faghópur um mannauðsstjórnun vekur athygli á ráðstefnu sem á erindi til allra sem koma að mannauðsmálum.

Áskorunin: Minni vinna

Bætt heilsa – aukinn árangur…

4.september kl. 8:30-11:45 - Á Grand Hótel

Heilsuvernd, Attentus og Sálfræðingarnir

 

Ráðstefnan á erindi til mannauðsstjóra, stjórnenda skipulagsheilda og aðila sem koma að stjórnunarlegum og heilsufarslegum þáttum starfsmanna

Á ráðstefnunni verða flutt erindi þar sjónum er beint að áhrifum langs vinnutíma á heilsufar en streita og álagstengd veikindi eru æ algengari og kulnun í starfi er víðtækt vandamál. Stjórnendur skipulagsheilda eru því í auknum mæli farin að huga að heilsufari starfsmanna sinna, leita lausna til að draga úr streitu og bæta líðan starfsmanna.

Með tilkomu nýrra kjarasamninga er nú lögð aukin áhersla á sveigjanleika og styttingu vinnuvikunnar án launaskerðinga. Í lífskjarasamningnum er samið um 45 mínútna styttingu á vinnutíma á viku frá og með 1. janúar 2020. Útfærsla styttingarinnar er í höndum hvers vinnustaðar fyrir sig.

Með styttingu vinnutímans má mögulega draga úr áhrifum langs vinnutíma á heilsufar starfsmanna, stuðla að jafnvægi milli vinnu og einkalífs og þar með auka lífsgæðin. Þetta eru stjórnunarlegar og krefjandi áskoranir sem kalla á útsjónarsemi og hæfni stjórnenda.

Tólin og tækin. Hvaða lausnum og aðferðum er hægt að beita við slíka innleiðingu? Hvað segja mælingar og kannanir þegar horft er til veikindafjarvista, yfirvinnustunda, skilvirkni og árangurs. Hver eru jákvæðu áhrifin og í hverju er ávinningur fólginn varðandi andlega líðan og starfsánægju?

Nánari upplýsingar um dagskrá og skráningu á vefsíðu Heilsuverndar

 

TRAUST er þema stjórnar Stjórnvísi 2019-2020

Í morgun hittust stjórnir faghópa  og stjórn Stjórnvísi á Nauthól á Kick off fundi.  Frábær mæting og mikill kraftur verður í félaginu í vetur því kynnt voru drög að 120 fundum veturinn 2019-2020  Drögin eru í Excel-skjali undir "ítarefni" með fundinum.  Farið var yfir ýmis atriði á fundinum sem létta stjórnendum faghópa starfið í vetur auk þess sem óskað var eftir umbótahugmyndum sem stjórn mun vinna úr.  Á vef félagsins eru góðar leiðbeiningar á myndbandi um hvernig stofna á fund, setja nýja aðila í stjórn, aðalfund faghóps o.fl. Allt efni af fundinum er undir ítarefni og myndir á facebook síðu Stjórnvísi. 

Vinnufundur nýkjörinnar stjórnar Stjórnvísi

Í dag hélt nýkjörin stjórn Stjórnvísi sinn fyrsta vinnufund.  Aðalheiður Ósk Guðmundsdóttir formaður Stjórnvísi fór yfir dagskrá og markmið dagsins.  Þá kynnti Aðalheiður  framtíðarsýn félagsins, gildi, lög og siðareglur. Mikilvægt er að gæta að fjölbreytni í stjórn Stjórnvísi og er mikilvægt að skoða lögin fyrir næsta aðalfund 6.gr og 9.gr.  Stjórn sammæltist um að þema ársins yrði „TRAUST“.  Aðalheiður kynnti hugmynd að samskiptasáttmála stjórnar 2019-2020 þar sem m.a. var rætt um að sammælast um að 1.mæta undirbúin 2.tímalega 3.taka ábyrgð á verkefnum 4.hafa uppbyggilega gagnrýni. Allar fundargerðir stjórnar Stjórnvísi má sjá á vef Stjórnvísi

 

Samfélagsskýrsla ISAVIA útnefnd besta skýrslan 2019

Hér má sjá myndir frá afhendingunni á Nauthól í hádeginu í dag.
Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð, Stjórnvísi og Viðskiptaráð Íslands veittu í dag í annað sinn verðlaun fyrir Samfélagsskýrslu ársins. Í ár hlaut Isavia verðlaunin, sem voru afhend við hátíðlega athöfn.
Markmiðið með viðurkenningunni er að hvetja fyrirtæki til að setja sér mælanleg markmið og birta reglulega opinberlega, með vönduðum hætti, upplýsingar um hvernig samfélagsábyrgð og sjálfbærni í rekstri fyrirtækja skilar þeim og samfélaginu auknum ávinningi.
Alls bárust 29 tilnefningar um 16 fyrirtæki. Í dómnefnd voru Katrín Olga Jóhannesdóttir formaður Viðskiptaráðs Íslands, Kjartan Sigurðsson við Háskólann í Reykjavík og Jóhanna Harpa Árnadóttir, verkefnastjóri hjá Landsvirkjun, sem var jafnframt formaður dómnefndar.

Í mati dómnefndar kemur fram að skýrslan er unnin í samráði við hagaðila og fjölda starfsfólks Isavia, frá öllum sviðum fyrirtækisins. Einnig var fenginn utanaðkomandi ráðgjafi til að yfirfara og tryggja gæði upplýsinganna.
Samfélagsskýrslan fylgir alþjóðlegum stöðlum GRI standards, hún er skrifuð í samræmi við árangur fyrirtækisins í að ná settum, mælanlegum markmiðum fyrir árið 2018 sem eru ennfremur tengd lengri tíma markmiðum, svo sem sjálfbærniáherslum stjórnvalda og alþjóðlegum viðmiðum: UN Global Compact, GRI, Heimsmarkmiðunum  og Air Transport Action Group.
Ábendingum um innihald skýrslunnar er fagnað af hálfu skýrsluhöfunda og þannig leitast við að tryggja stöðugar umbætur. Fjallað er um á gagnsæjan hátt hvernig til tókst að ná markmiðum, en einnig hvað gekk ekki eftir og hvernig unnið verður áfram með þau atriði.

Þá er skýrslan sett fram á myndrænan og aðgengilegan hátt, er gefin út rafrænt sem vefsíða og hana má einnig nálgast í gagnagrunni GRI í gegnum vefsíðu GRI-samtakanna.
Í niðurlagi í mati dómnefndar segir enn fremur að „með því að fylgja sérákvæðum GRI er verið að horfa sérstaklega til þeirra áskoranna og tækifæra sem flugvellir standa frammi fyrir þegar kemur að sjálfbærni.  Niðurstaða dómnefndar er að árs- og samfélagsskýrsla Ísavía sé til fyrirmyndar og hljóti viðurkenningu sem besta skýrslan árið 2019.“

 Frétt á ISAVIA

 

Snerpa mannauðsins - Samkeppnisforskot á tímum sjálfvirkni og gervigreindar

 

Dale Carnegie í samvinnu við faghópa Stjórnvísi um mannauðsstjórnun og stefnumótun kynnti í morgun í Innovation House niðurstöður nýrrar rannsóknar sem mældi viðhorf stjórnenda og starfsmanna til sjálfvirkni og gervigreindar á Íslandi og í 11 samanburðarlöndum.

Til þess að vera snörp og skörp þá þurfa starfsmenn að vita tilgang fyrirtækisins síns.  Unnur framkvæmdastjóri Dale Carnegie talaði um hve mikilvægt væri fyrir alla að vita DNA fyrirtækisins sín.  Steve Jobs vildi sem dæmi búa til „fallega“ tækni sem fólk elskar að nota.  Starbucks hefur þann tilgang að auðga mannshugann með einum bolla af kaffi.  Oft er gott að spyrja sig hver er rauntilgangur okkar, af hverju erum við til?.  Hjá Lego er t.d. óskað eftir hugmyndum frá fólki og ef hún fær 10 þúsund atkvæðum þá fer hún í framleiðslu.  DHL er búið að halda 6000 vinnustofur um allan heim til að bæta aðstöðuna sína. Mikilvægt er í dag að fá upplýsingar frá viðskiptavinum og takast á við mannskapinn á tímum við breytilegar aðstæður. Átta atriði einkenna frábæra stjórnendur skv. reglum Google og fóru þeir í framhaldi markvisst að sinna þessum mikilvægustu þáttum.  Núna eru þættirnir orðnir 10 í stað 8 í síðustu mælingu.  Skapa þarf umhverfi þar sem í lagi er t.d. að spyrja spurninga þ.e. að samskipti séu opin og eðlileg.  Í slíku andrúmslofti eykst sköpunargleði og fólki líður vel. En hvernig vitum við hvort fólki líður vel í vinnunni?  Er það bros starfsmannsins? Góður stjórnandi spyr og spyr.  Hvernig getum við hjálpað fólki að vera jákvætt áfram?  76% allra sem svöruðu í rannsókninni sögðu mikilvægt að ef þeir vita hvað er að fara að gerast þá verði þeir jákvæðir.  Traust er einn af þremur helstu þáttum sem þarf til að starfsmenn treysti stjórnendum.  Skv. skýrslu Stjórnarráðs Íslands telst mjög líklegt að 50 þúsund störf verði sjálfvirknivædd næstu 10-15 árin.  Þeir sem treysta sínum stjórnum eru 3svar sinnum líklegri til að vera talsmenn gervigreindar og breytinga.  En hver er þá færnin sem þarf til að láta þetta gerast of hvað geta stjórnendur gert í dag?  1. Greina stöðuna í fyrirtækinu 2. Meta í framhaldi hversu tilbúin við erum í gervigreindina, hlusta á fólkið 3. Kynna fyrir öllum tilgang fyrirtækisins. Allir geta farið á www.dale.is/stjornun og sótt rannsóknina og séð niðurstöðurnar. 

Erla Ósk Pétursdóttir mannauðsstjóri Vísis hf. í Grindavík sagði frá reynslu þeirra af innleiðingu aukinnar sjálfvirkni en undanfarin ár hefur framleiðsla á hvern starfsmann margfaldast. Við innleiðingu sjálfvirkni vakna eðlilegar margar spurningar hjá starfsfólki og nýjar áskoranir verða til. Vísir gerði sér ljóst árið 2014 að sjálfvirkar skurðarvélar voru að koma.  Með þessari nýju tækni er hægt að vinna fyrir marga viðskiptavini í einu og til þess að slíkt væri hægt þá var í samstarfi við Marel hönnuð vél sem sett var upp í Grindavík.  Haustið 2014 þegar hún er tekin í notkun fór framleiðslan á dag úr 40 tonnum með 60 starfsmenn í 60 tonn með sama mannskap.  Í dag eru unnin 70 tonn með 85 starfsmönnum.  Í dag er erfitt að manna fiskvinnsluna og af 85 manns eru 2 Íslendingar. Erla segir lykil að þeim árangri sem Vísir hefur náð sé 1.skýr stefna 2. gott upplýsingaflæði og 3.góð samskipti.

Fundinum verður streymt af facebook síðu Stjórnvísi.

 

Kolefnisspor fyrirtækja – hvað getum við gert?

Mikill áhugi var fyrir fundi um Kolefnisspor fyrirtækja sem haldinn var í Eflu verkfræðistofu í morgun á vegum faghópa um umhverfi-og öryggi og samfélagsábyrgð fyrirtækja.

Helga Jóhanna Bjarnadóttir sviðsstjóri Umhverfissviðs Eflu verkfræðistofu hóf erindi sitt á spurningunni: Hvað er kolefnisspor?  Kolefnisspor er mælikvarði sem notaður er til þess að sýna áhrif athafna mannsins á loftslagsbreytingar.  Mælikvarðinn er samnefnari á áætluðum heildaráhrifum losunar gróðurhúsalofttegunda(GHL) annað hvort fyrir rekstur eða vöru. 

Ísland ætlar sér að vera kolefnishlutlaust 2040.  En hvað þýðir að vera kolefnishlutlaus? Þá er búið að draga alla losun frá mínus bindingu.  Þær lofttegundir sem verið er tala um eru annars vegar þessar náttúrulegu: koldíoxíð, metan og tví-nituroxíð og hins vegar þær manngerðu: vetnisflúorkolefnis, klórflúorkolefni, PFC efni og SF. Stærsti valdurinn í þessum málum eru kol, olía, gas, sement, landnotkun við framleiðslu votlendis, skógar og sjór.  Heimsbyggðin er að skilja í dag að hitahækkun heimsins er af mannavöldum.  Á Global Carbon Project er að finna mikið af ítarefni.  Frá árinu 2000-2018 er verið að losa 40 gígatonn og í Parísarsamkomulaginu er verið að tala um að ná hitanum niður um eina gráðu.  Búið er að tala um þetta frá því fyrir síðustu aldamót og því er komið að ákveðnum vendipunkti núna. Við höfum 11 ár til að ná niður í gildið sem var árið 2000.  Allar aðgerðir sem gerðar eru núna skipta miklu máli.  Kína og Indland framleiða mikið fyrir alla heiminn og þar verður mikið kolefnisspor. Þessar vörur eru aðallega seldar til Evrópu og USA. Evrópa tekur inn mikið kolefnisspor. 

En hvernig gera fyrirtæki upp sitt kolefnisfótspor.  1. Vörur og þjónusta til fyrirtækis (rafmagn hiti) – 2. fyrirtæki (bílar, húsnæði)- 3. vörur og þjónusta frá fyrirtækinu.  Kolefnisspor Eflu árið 2018 var 416 tonn CO2 ígildi.  Bílar í rekstri Eflu 16%, bílar starfsmanna á vegum Eflu 15%, flugferðir erlendis 32% flugferðir innanlands 31%.  Þarna er aðalmálið augljóst sem er flugferðir og bílar.  Byrjað er að vinna í þessu með rafmagnsbílum og fjarfundarbúnaði í stað flugferða.  Varðandi kolefnisspor vörunnar sjálfrar þá þarf að horfa á vistferils vörunnar; hvaðan koma auðlindirnar, framleiðsla, flutningur til Íslands, rekstur viðhald og endurvinnsla eða förgun. 

Miklu máli skiptir með hvaða orku vara er framleidd.   Dæmi um aðgerðir til að lækka kolefnissport er að nota t.d. kísilryk í stað sements í útisteypu og 15% flugösku í stað sements í innisteypu.  Einnig að spá í hvort sami styrkleiki þurfi að vera í steypunni alls staðar. 

En hvað losar hver íbúi eftir löndum, hvert er kolefnisspor á íbúa í mismunandi löndum? Á heimasíðu Umhverfisstofnunar er hægt að fá allar upplýsingar um slíkt.  Ísland skorar mjög ofarlega út af álverunum okkar og í efsta sæti eru Bandaríkin. 

 

Á 1000 km hraða inn í framtíðina

Í morgun var haldinn fjölmennur fundur í Atvinnuvega-og nýsköpunarráðuneytinu á vegum nokkurra faghópa Stjórnvísi þar sem Fjóla María Ágústsdóttir frá Stafrænu Íslandi deildi þekkingu sinni og gaf innsýn í verklag og tól „notendamiðaðar þjónustuhönnunar (e. design thinking)“. Fjóla hefur fengið umfangsmikla þjálfun í notendamiðaðri þjónustuhönnun frá Design Thinkers Academy í London og lauk nýlega viku námskeiði í Harvard Kennedy School í Digital Transformation for Government: Innovating Public Policy and Service. 
Fjóla María byrjaði á að kynna hönnunarhugsunina„Design Thinking“ sem byggir á notendamiðaðri nálgun, samvinnu við lausnaþróun þar sem áhersla er lögð á virka skoðun og greiningu, hugmyndaríki, ítranir, hraðan lærdóm og skjóta vinnslu frumgerða (prototypa).   Margir þekkja hönnunahugsun, en upphaflega voru það hönnuðir.  Um aldamótin fer hönnunarhugsun að koma meira inn í atvinnulífið.  Fyrirtæki voru að taka þetta inn til að sjá heildarskipulag í fyrirtækjum.  Uppúr 2012 fóru ráðgjafafyrirtækin að nota þessa aðferðafræði mjög mikið.  Nú eru komnar inn deildir í fyrirtækjum og hjá ríkinu og í Bretlandi er þetta orðið að venju.  Íslenska ríkið er á fullri ferð í stafrænt Ísland og starfa í deildinni 9 manns í dag.  Markmiðið er að aðstoða ríkið í þessari þróun og byrja þarf í grunninum.  Mikil vinna er lögð í stafræna þjónustugátt www.island.is  Fjóla María kynnti vefinn www.stafraentisland.is  þar sem allir geta farið inn á og nýtt sér þá þekkingu sem þar safnast saman.  Hönnunarhugsun fer í gegnum fimm stig: 1. Setja sig í spor annarra, skoða og greina, t.d. taka upp video og sjá hvar vandinn liggur. 2. Afmarka og skilgreina áskoranirnar þannig að við áttum okkur á hverju við ætlum að breyta, laga það sem er mest áríðandi og sjá tækifærin. 3. Hugmyndasöfnun þar sem allt er leyfilegt og allt hugsað upp á nýtt frá grunni.  4. Út frá hugmyndunum sem koma eru þróaðar hugmyndir/frumgerðir þ.e. prototypa sem er ódýr en þær skipta miklu máli. Spyrja sjálfan sig: hvað myndi Arion gera í þessu máli? Disney? Munkur?   5. Frumgerðirnar eru lagðar fyrir notendur, ítraðar og prófaðar þ.e. síendurteknar lagaðar og bættar og fara síðan í framleiðslu.  Fjóla María tók sem sýnidæmi fyrirlesturinn sem hún var að halda í dag hjá Stjórnvísi. Hún ákvað að heyra í nokkrum aðilum fyrir fundinn og spyrja: „Hvað viltu heyra“ og svarið var að þeir sem haft var samband við vildu vita  hvaða tól er verið að nota. Þarna var sem sagt verið að „uppgötva“. 1. Uppgjötva. Sá sem kemur á fund hjá Stjórnvísi vill: 1. Læra eitthvað nýtt, fá hagnýtan fyrirlestur, hlusta á dæmi, hafa einfaldar glærur, finna ástríðu frá fyrirlesaranum, fá upplýsingar um tól o.fl.fl.

En hvenær er hönnunarhugsun notuð? Þegar búa á til öpp, þegar búa á til hugbúnað, skipulagsbreytingar o.fl.  Upphafsfarsinn er mjög mikilvægur.  Þá þarf að greina þær betur og ávinningsmeta þær.  Hver er fjárhagslegi ávinningurinn, hvað er þetta mikil auknum á þjónustu? Hve marga starfsmenn snertir þetta verkefni? Hve marga notendur snertir þessi breyting? Þegar búið er að ákveða hvað eigi að skoða er farið í hönnunarsprett og út frá því kemur frumgerð.  Þarna koma lagaleg málefni sem skoða þarf með tilliti til hvað er til.  Þarna er erfiðasti punkturinn það er að hugmynd og þarfir notenda fylgi í framleiðsluna.  Okkar venja er að laga allt út frá því sem við þekkjum en þarna er notað út frá notendanum og inn.  Þess vegna þarf sama fólkið að fylgja verkefninu alla leið.  Svona verkefni eru Agile verkefni ekki Waterfall.  Í upphafi er ferlið mjög erfitt því það er kaótísk og yfir það þarf að komast þ.e. hvað á að vinna með. 

En hverjir þurfa að koma að gerð stafrænna lausna? 1. Vörueigandi (product owner), vörustjóri (product manager) , verkefnastjóri (project manager)hann tryggir að þjónustan passi inn í þjónustuna, það sem verið er að kaupa inn, gagnagrunna o.fl. , þjónustueigandi (getur verið sá sami og verkefnastjóri), markaðsgreinandi, skilastjóri, prófari og notendarýnir (passar að frumgerðir séu lagðar fyrir), efnishönnuður (content designer) hvernig alllt er framsett, vefhönnuður og forritari.  Einnig þurfa að koma að lögfræðingur, markaðsfólk, aðrir sérfræðingar, tækni, arkitektrú og fulltrúar þeirra sem reka hugbúnað. Það er svo mikilvægt að setja sig í spor annara til að fá dýpri innsýn: sjá hvernig upplifun notenda er á núverandi lausn, skrá hjá sér upplifun, nýta myndbandsupptöku, taka viðtöl við fólk, spyrja af hverju, finna snertifleti, veri skuggi einhvers. 

Allir í teyminu ættu að taka þátt í að setja sig í spor notenda.   Taka svo allar niðurstöður og sjá hvað er að gerast.  Búa til mynd sem er hringur og greina út frá miðju mikilvægi hvers og eins.  Varðandi skilgreiningu á persónu þá er mikilvægt að skilgreina fleiri en eina persónu.  Skoða tiltölulega tæknivæddan einstakling, taka flækjustig þar sem manneskjan lendir í vandræðum, búa til samyggðarkort til að setja sig í spor viðkomandi í þessum aðstæðum eins og „Úff við hvern á ég að tala“ hvar finn ég upplýsingar, hringja í mömmu og pabba, finna borgaraþjónustuna.  Með því að búa til persónuna saman þá hugsum við hvernig er týpan og þetta þarf að gera áður en ferillinn er búinn til.  Hvar koma stresspunktarnir upp?  Passa að hafa textann einfaldan og góðan.  Hvar eru óþægindapunktarnir? Flokka þá saman og finna út úr þeim.  Varðandi gerð prototypa þá er hún alls konar.  (t.d. teikna upp skjámynd, legóa, leika,) allt á að vera sett myndrænt fram og þetta á að vera ódýrt og fljótlegt.  Á þessu stigi er fólk oft hrætt og um að gera að hafa nóg af fylgidóti, alls kyns dóti.  Síðan þarf að fá fólk til að prófa og ítra.  Mikilvægt að fara í framendann og laga og laga þar til þetta fer í framleiðslu.  Fjóla mælti með „This is service design thinking og Sprint bókunum og fleiri bókum.  www.mrthinkr.com  og www.servicedesigntools.org  eru frábærar síður til að nýta sér.

Fjölþjóðlegur vinnustaður – auður og áskoranir

Fyrsti fundur nýstofnaðs faghóps um málefni erlendra starfsmanna var haldinn í dag í húsakynnum Reykjavíkurborgar í Borgartúni.  Fundurinn bar yfirskriftina Fjölþjóðlegur vinnustaður – auður og áskoranir og var streymt af Facebooksíðu Stjórnvísi. Fyrirlesari dagsins var Dr. Hallfríður Þórarinsdóttir mannfræðingur og framkvæmdastjóri Mirru, fræðslu og rannsóknarseturs. 

Hallfríður sagði að mestur núningur í samskiptum væri í tímaskynjun, mismunandi skilningi á umhverfi og tíma.  Helstu áskoranirnar væru að aðlagast og mætast á miðri leið, árekstrar í samskiptum, þekkingarleysi og ólíkur skilningur, fordómar og mismunun eru oft fylgifiskar margbreytileikans, fordómar og mismunun ekki náttúrulögmál og að mannfólkið er meira líkt en ólíkt. Mikilvægt er að spyrja sig stöðugt hvaðan okkar eigin hugmyndir koma.  Á Íslandi ríkir mikil einsleitni. Vinnustaðir endurspegla þjóðfélagið sem við búum í.  Innflytjendum hefur fjölgað um 80% frá árinu 2000.  Í dag er 5 hver manneskja á vinnumarkaði af erlendum uppruna.  Þetta hefur gerst á 20 árum á meðan það gerist á 60-80 árum annar staðar.  Þetta eru því gríðarlegar breytingar á stuttum tíma. 

Menning er manngerð, lærð og lifandi.  Ef hún væri það ekki gætum við engu breytt.  Viðhorf breytast og við erum stöðugt að breyta menningunni t.d. til kvenna með kvennabaráttunni.  Við sjáum ekki breytinguna fyrr en við berum saman eitt tímabil við annað. 

 

 

Samfélagsskýrsla ársins verður afhent 13. júní nk. í Nauthól

Festa, Stjórnvísi og Viðskiptaráð veita viðurkenningu fyrir Samfélagsskýrslu ársins 2019 þann 13.júní nk. Óskað var eftir tilnefningum í maí og rann frestur út þann 28.maí sl.  Viðurkenningu fyrir samfélagsskýrslu ársins hlýtur fyrirtæki eða stofnun sem birtir upplýsingar um samfélagsábyrgð sína með markvissum, vönduðum og nútímalegum hætti í skýrslum sem geta verið í formi vefsíðna, rafrænna skjala eða öðrum hætti sem hentar þeim sem áhuga hafa, s.s. fjárfestar, viðskiptavinir, samstarfsaðilar, yfirvöld og/eða almenningur.Dómnefnd skipuð fulltrúum félaganna þriggja metur allar tillögur sem berast og getur einnig byggt val sitt á eigin frumkvæði. Fyrirtækjum og stofnunum er frjálst að tilnefna eigin skýrslu.
Við mat á samfélagsskýrslu ársins er horft til eftirfarandi þátta:

- Fjallar skýrslan um samfélagsábyrgð (SÁ) og tekur hún bæði á félagslegum-, umhverfisþáttum og stjórnarháttum?

-  Hversu vel er fyrirtækið að fjalla um þætti sem teljast verða mikilvægir miðað við starfsemi fyrirtækisins (t.d. ef augljóst er að starfsemin raskar náttúrunni á tiltekinn hátt, er fyrirtækið með markmið um minna rask á því sviði)?

- Hefur fyrirtækið birt mælanleg markmið um SÁ í skýrslu sinni?

- Hefur fyrirtækið lagt mat á árangur sinn út frá settum markmiðum um SÁ?

- Er jafnvægi milli þeirra jákvæðu upplýsinga sem fyrirtækið segir frá og þeirra áskorana sem það stendur frammi fyrir?

- Hefur fyrirtækið náð raunverulegum árangri í starfi sínu um SÁ?  (Er breyting milli ára t.d. dregið úr losun GHL, aukið kynjajanfrétti eða öðrum áskorunum SÁ.)

- Hefur fyrirtækið lagt sig fram við að kynna skýrsluna sína opinberlega?

Fresturinn til að senda inn tillögur rann út þann 29. maí 2019.

Viðurkenningin verður afhent við hátíðlega athöfn þann 13. júní 2019.

Farið verður með nöfn þeirra sem tilnefna sem trúnaðarmál, eingöngu aðgengileg dómnefnd.

Eru umhverfismál markaðsmál?

Eru umhverfismál markaðsmál?  

Umhverfismál eru að verða áleitnara efni um allan heim og hér á Íslandi er mikil vakning um þessar mundir. Við erum að verða meðvitaðri sem neytendur og hægt, kannski of hægt erum við að breyta hegðun okkar í átt að umhverfisvænari lífstíl. En erum við að fara of hægt – getum við markaðsfólk lagt okkar á vogaskálarnar. Leitað var svara við þessum spurningum á fundi faghópa Stjórnvísi um umhverfi og öryggi, þjónustu-og markaðsstjórnun, samfélagsábyrgð fyrirtækja og kostnarstjórnun í Háskólanum í Reykjavík í morgun.

Fyrirlesarar voru þau Ólafur Elínarsonar, sviðsstjóri markaðsrannsókna Gallups sem kynnti Umhverfiskönnun Gallup og Silja Mist Sigurkarlsdóttir, markaðsstjóri Nóa Sirius.  

Ólafur talaði um mikilvægi þess að skilja viðskiptavininn.  Ekki halda eitthvað, skoðaðu það með tölum.  Skv. rannasóknum í dag telja flestir að loftslagsbreytingar séu af mannanna völdum.  Mikilvægt er að kynna sér hvað fólki finnst og það er meirihluti allra á Íslandi sem hafa áhyggjur af loftslagsmálum og telja þær af manna völdum.  75% þeirra sem eru á aldrinum 18-29 ára  telja að hlýnun jarðar muni hafa alvarlegar afleiðingar.  Þegar við vitum hvernig fólki líður getum við í framahaldi haft áhrif. Góð greining skilar árangri. Níu af hverjum Íslendingum segjast vera að breyta hegðun sinni hvort heldur þeir trúa á loftslagsbreytingar af manna völdum eða ekki.  En hefur fólk breytt venjum sínum? Spurt var hvort þú gætir hugsað þér að kaupa rafmagnsbíl og/eða hlaðanlegan blendingsbíl? Flestir gátu hugsað sér það. Spurt var: Hefurðu gert eitthvað á síðustu 12 mánuðum til að draga úr þeim áhrifum sem þú hefur á umhverfis-og loftslagsbreytingar?  89% voru farnir að flokka sorp, 76% hafa minnkað plastnotkun, 45% hafa keypt umhverfisvænar vörur.  Fleiri skila plasti og gleri til endurvinnslu skv. forstjóra Sorpu.  En hvað fær fólk til að breyta hegðun? Konur eru stærstur meirihluti þeirra sem kaupa vörur.  En hvað vilja Íslendingar fá frá fyrirtækjum? 86% telja að fyrirtæki eigi að gera eitthvað sem hefur jákvæð áhrif.  En hvað einkennir þá hópa sem eru tilbúnir að breyta sér?  Ólafur vísaði í nýja erlenda rannsókn frá USA sem sýnir að 41% eru sammála að borga meira ef varan er lífræn, 30% ef hún tekur á samfélagsábyrgð, 38% ef hún er úr sjálfbærum efnum.  En hverjir eru hvatarnir til að kaupa?  Treysta vörumerkinu, hún þarf að hafa góð áhrif á heilsuna, fersk náttúruleg og lífræn hráefni, vörumerki sem er umhverfisvænt.  www.nielsen.com er góð síða til að veita upplýsingar um hvert heimurinn er að fara.  Þeir greiða ekki einungis US markað heldur einnig aðra markaða.

Silja Mist hjá Nóa Síríus sagði að sterk tengsl væru á milli umhverfis-og markaðsmála.  Silja Mist velti upp spurningunni: Hver ber ábyrgðina á samfélagsábyrgð?  Stjórnendur stjórna neyslu neytenda.  Mikilvægt er að vera einlægur.  Árið 2017 ætlaði Nói Síríus að sleppa öllu plasti innan í páskaeggjunum og tóku því plastumbúðir af piparmintumola sem leiddi til þess að út af uppgufun inn í egginu þá kom piparminntubragð af súkkulaðinu í eggjunum mörgum til lítillar ánægju.  Þegar útskýrt var af einlægni hver upphaflegi tilgangurinn var þá var neytandinn fljótari að fyrirgefa þessi mistök. Núna er öllu suðusúkkulaði pakkað í pappír sem var góð fjárfesting.  Að innleiða breytingar tekur tíma? Hugsaðu til þess hver þinn markhópur er og hvað gefur þínum neytendum mesta virðið.  Mont – má það?  Já segir Silja. Nói er í samstarfi við kakóbændur þar sem er verið að stuðla að hreinu vatni og aukinni menntun.  Palmkin olía hefur smátt og smátt verið tekin úr framleiðslunni. Mikilvægt er að treysta neytandanum Ikea treystir neytandanum til að taka rétta ákvörðun og auglýsir aldrei lágt verð.  Dominos fékk alla starfsmenn til að fara út og tína rusl sem var frábært framtak, en það koma alltaf einhverjir með athugasemdir.  Pressan til að breyta kemur að utan t.d. frá Whole Foods. Aldrei segja að neitt sé vonlaust, til að ná fram breytingu þarf fólk að taka ákvörðunina sjálft og hvert lítið skref skiptir máli.  

Ný stjórn faghóps um Umhverfi og öryggi

Aðalfundur faghóps um umhverfi og öryggi var haldinn 15. maí hjá EFLU verkfræðistofu. Nýja stjórn skipa: 

Á fundinum voru einnig sett fram tillögur að spennandi dagskrá fyrir starfsárið 2019-2020 sem mun hefjast strax í maí með fundi um kolefnisbókhald hjá EFLU. 

Þjálfun stjórnarmanna í faghópum Stjórnvísi

Í morgun var haldinn í fyrsta sinn að vori sérstakur þjálfunarfundur fyrir allar stjórnir faghópa Stjórnvísi. Ósk um þennan fund kom fram á Kick off fundi sl.haust og brást stjórn strax við þessari áhugaverðu umbótahugmynd.  Tilgangur fundarins var að kynna fyrir öllum í stjórnum faghópa félagsins starfsárið 2019-2020 ábyrgð og hlutverk stjórnarmanna og formanna faghópa.  Einnig að kynna tímalínu starfsársins, fara yfir hvernig stofna á viðburð, senda út fréttir og viðburði, kynna siðareglur, nýtt mælaborð o.fl.  Meginmarkmiðið var að samræma og einfalda vinnubrögð allra stjórna faghópa Stjórnvísi fyrir næsta starfsár.  Vel var mætt á fundinn og það var samróma álit að fundurinn var einkar þarfur og nytsamlegur. 

Smellið hér til að sjá mælaborð sem var kynnt á fundinum og glærur fylgja með í ítarefni.  

Morgunverðarfundur um Eignastjórnun

Í morgun hélt faghópur um ISO og gæðastjórnun morgunverðarfund hjá Staðlaráði. Fyrirlesarinn Sveinn V. Ólafsson  fjallaði um ISO55000 og 55001 sem nýlega hefur verið þýddur yfir á íslensku. Þetta er ISO staðall um Eignastjórnun. 

Margt felst í eignastjórnun og mikið hefur verið rætt hvort staðallinn eigi  að heita verðmætastjórnun frekar en eignastjórnun en fyrirtæki leggja töluverð fé í fjárfestingu í búnaði, eignir og íhluti. Þá er mikilvægt að hafa stjórnkerfi í lagi þar sem það þarf að skipuleggja viðhald og skrá bilanir. 

Að lokum gafst tækifæri í spjall og umræður. 

Þetta var síðasti viðburðinn fyrir þessara önn og formaður hvatti hlustendum að hafa samband ef þeir vilja bjóða Stjórnvísi í heimsókn því við lærum af hvort öðru og þetta er góð leið til að veita innblástur til aðra þegar gott gæðastjórnunarstarf er að ræða.  

Hvers virði er þjónusta og sala á tímum þrenginga og breyttu umhverfi?

 

Faghópar um þjónustustjórnun, kostnaðarstjórnun og breytingarstjórnun héldu í morgun fund í Háskólanum í Reykjavík. Fyrirlesarar voru þau Aðalheiður Sigursveinsdóttir og Gunnar Andri Þórisson.
Með því að veita góða þjónustu færðu tryggð sem þú hefur aldrei getað ímyndað þér.  Aðalheiður sagði sögu af því hvernig hún eignaðist sinn fyrsta bíl í gegnum frábæra þjónustu sem hún veitti viðskiptavini. Viðmót á staðnum skiptir meira máli en  upplýsingar.  Fyrirtæki þurfa að ákveða með hvaða hætti er unnið og því er þjónustustýring hluti af stefnumótun.  Það sem margir flaska á er að gleyma að setja fram mælikvarða.  T.d. að lágmarka kvartanir er þjónustumarkmið, hve lengi viðskiptavinurinn bíður eftir þjónustu er þjónustumarkmið.  En í þjónustu eru ekki öll augnablikin eins mikilvæg.  Það fer eftir hvað verið er að fjalla um í hverju og einu tilfelli.  Það er mikilvægara að klikka aldrei þegar verið er að fjalla um kvartanir heldur en þegar verið er að óska eftir nýrri þjónustu.  Fókusa á hvar mestu tekjurnar koma? Mikilvægustu augnablikin eru 1. Auglýsingar á samfélagsmiðlum sem vekja nýja þörf 2. Umsagnir á netinu um vöruna 3. þegar viðskiptavinurinn sér vöruna þ.e. kemur inn í verslunina 4.  Þegar viðskiptavinurinn fær vöruna, er upplifun miðað við væntingar 5. Umsagnir umtal.  Tryggð er sú upplifun sem það tengir þjónustu eða einstaklings.  Dæmi um það er þegar þú færir þig milli vinnustaða og viðskiptavinurinn fylgir með þ.e. hættir hjá fyrirtækinu og fer til samkeppnisaðila.   Því þarf að greina virðisstraum þjónustunnar og fara alla leið.  Hvað er sagt á samfélagsmiðlum um okkur?  Byrja þarf þar.  En hvaða þarfir er viðskiptavinurinn með? Hvaða þarfir uppfylli ég?

Bankar láta t.d. drauma rætast með því að opna dyr að því að eignast nýja hluti en ekki að skilja skilmálann að láninu.  Það sama á við um tryggingar þær veita hugarró.  Sóun í þjónustu er margs konar; óþarfa bið, ekki leyst úr kvörtunum, ekki samræmi milli tilbðs og virðis o.fl.  Einnig þarf að skoða hvar er ósveigjanleiki? Og hvernig er fyrirtækið okkar uppbyggt?

Núna eru gríðarlegar breytingar og þær gerast hratt.  Dæmi um það eru bankar þar sem allt er orðið sjálfsafgreiðsla; sama menntunarstig en allt aðrar lausnir.  En hvað eiga Spotify, Google, Uber og Amazon sameiginlegt? Þau hafa sett fram nýtt þjónustuumhverfi og breytt um leið þjónustunni.  Ný þörf=ný þjónusta. Öll störf eru að fara að breytast á næstu árum því gervigreind breytir því hvernig störfin eru unnin.  Ríkisstjórn Íslands var að láta að gera greiningu á fjórðu iðnbyltingunni og skoða hvaða störf eru að breytast eða hverfa t.d. bankastarfsemi, innheimta, bókarar.  Þetta þýðir minni sóun í pappír og færslum. 

Þjónstugustigin 0=sjálfsafgreiðsla (engin persóna talar við þig) og virðið er mikið 1=fyrsta snerting getur lokið þjónustubeiðni (ekki þarf að ræða við annan til að klára málið) 2=sérhæfðari sérfræðingar sem styðja við þjónustuúrlasun.  Burðarás í þjónustu eru tengsl við viðskiptavininn og forskotið næst með auknu trausti.  Í dag þarf því að sýna samkennd, setja sig í spor annarra og sýna örlæti.

Gunnar Andri sagði frá því hvernig hann fékk hugmynd að söluskóla og einnig af sínu fyrsta sölustarfi.  Virði er það sem öllu máli skiptir.  Ef við erum eitthvað krumpuð þá finnst okkur virðið okkar minnka.  Góð þjónusta leiðir af sér sölu.  Tímarnir eru að breytast og þeir breytast ótrúlega hratt. Hvað getum við gert í breyttu umhverfi? Netverslun er að aukast mikið en kjarninn í okkur hann hefur ekkert breyst og við erum að leita eftir upplifun.  Við erum alla daga stöðugt að selja hugmyndir okkar heima og að heiman. Gunnar fór yfir kauphita 0 og kauphita 10.  Viðskipti ganga út á að ná í viðskiptavin og halda honum.  Í kauphita 0 þekkir viðskiptavinurinn ekki vöruna en í 10 þá kaupir hann beint.  Einnig er til viðskiptavinur í mínus kauphita þ.e. hann vill ekki skipta við viðskiptavininn.  Sala er ferill.  Undirbúningur, fyrsta snerting, fá viðskiptavin í lið og loka sölu.  (tímalína). Viðskiptavinurinn kaupir út frá tilfinningu og notar síðan rök til að sannfæra sig um að kaupin séu rétt.  Snerting við viðskiptavininn er mjög mikils virði.  Gæðasala er þannig að kaupandi og seljandi fara sáttir fá borði win-win. En hvað er hægt að gera til að ná gæðasölu?  Veita betri þjónustu og spá í hvernig við getum aukið virði.  Fólk fjárfestir miklu meira í afþreyingu en endurmenntun. Það er mikilvægt að passa upp á endurmenntun starfsmanna.  Walt Disney á engan viðskiptavin, einungis gesti.  Ef hægt er að fá viðskiptavin til að brosa eða hlæja þá er hægt að fá hann til að kaupa.  Fólk kaupir fólk.  V= skiptir miklu máli – það vex það sem þú beinir athyglinni að v=viðskiptavinur v=virði v=victory

 

Er hægt að bregðast við þrengingum með öðrum hætti en beinum niðurskurði?  

Markaðsaðstæður breytast hratt og stýring þjónustu- og vöruframboðs ber þess glöggt merki. Ytra rekstarumhverfi og örar tæknibreytingar kalla á sveigjanleika og hröð viðbrögð í þjónustu og rekstri.

Í þessum hagnýta fyrirlestri varr farið yfir hvernig virði þjónustu og sölu fer saman. Á hnitmiðaðan hátt var farið yfir virðishugtakið út frá viðskiptavinum annars vegar og rekstarmódeli fyrirtækja hins vegar. Fléttað var saman umræðu um þjónustu- og sölustýringu innan fyrirtækja, mikilvæg augnablik og mikilvægi gæðasölu  á tímum breytinga.

Fyrirlesarar voru tveir:

Gunnar Andri hefur haldið námskeið og fyrirlestra fyrir þúsundir einstaklinga og fjöldann allan af fyrirtækjum jafnt stór sem smá frá árinu 1997 ásamt því haldið málstofur fyrir fyrirtæki í öllum geirum viðskipta. Meðal viðskiptavina Söluskóla Gunnars Andra (SGA) eru fjármálastofnanir, tryggingafélög og fjarskiptafyrirtæki. Að auki hefur hann margoft verið gestafyrirlesari í Háskólanum í Reykjavík. Gunnar Andri  er stofnandi og eigandi SGA2fyrir1leikhus.isoffer.is og happyhour.is.

Gunnar Andri er höfundur bókarinnar "Message From The Middle Of Nowhere", er höfundur og útgefandi  „55 ráð sem skila árangri í þjónustu!“ sem hefur notið mikilla vinsælda hér á landi ásamt því að vera einn af meðhöfundum bókarinninnar í Against the Grain sem gefin er út af Brian Tracy.

Aðalheiður er stjórnunarráðgjafi og markþjálfi. Hún hefur starfað með mörgum fyrirtækjum og stofnunum við stefnumótun og ráðgjöf við innleiðingu breytinga í þjónustu og rekstri. Aðalheiður hefur mikla reynslu í að aðstoða fyrirtæki og stofnanir við að takast á við nýjar áskoranir, straumlínulaga ferla og bæta rekstur þeirra og styðja við stjórnendur og starfsmenn í breytingum.Aðalheiður hefur kennt við Opna háskóla HR, Tækniskólanum og haldið fjölmarga fyrirlestra og námskeið um þjónustustjórnun, straumlínustjórnun og áskoranir í breytingum.
Fyrri reynsla Aðalheiðar er viðtæk en hún meðal annars  unnið sem rekstarstjóri, mannauðsstjóri, þjónustustjóri og starfað sem aðstoðarmaður ráðherra.  Aðalheiður er sjálfstætt starfandi ráðgjafi og rekur www.breyting.is og er ráðgjafi hjá FranklinCovey á Íslandi.

 

Stjórnarskiptafundur - nýr formaður Stjórnvísi Aðalheiður Ósk Guðmundsdóttir

Stjórnarskiptafundur Stjórnvísi var haldinn þann 8.maí á Skólabrú og var formönnum allra faghópa, fagráði og skoðunarmönnum félagsins boðið. Markmið fundarins sem er veglegri en allir aðrir stjórnarfundir var að þakka fyrir vel unnið starf, gleðjast og kynnast betur. Nýr formaður Stjórnvísi Aðalheiður Ósk Guðmundsdóttir, vörustjóri dagsferða hjá Kynnisferðum tók formlega við formennsku af Þórunni M. Óðinsdóttur stjórnunarráðgjafa hjá Intra.  

Ný stjórn Stjórnvísi kosin á aðalfundi í dag.

Á aðalfundi haldinn 8.maí 2019 voru kosin í stjórn félagsins:
Aðalheiður Ósk Guðmundsdóttir, vörustjóri dagsferða hjá Kynnisferðum, formaður (2019-2020)
Ásdís Erla Jónsdóttir, forstöðumaður Opna háskólans í HR (2019-2020)
Berglind Björk Hreinsdóttir, mannauðsstjóri Hrafnistuheimilanna (2019-2020)
Guðjón Örn Helgason, sérfræðingur í mannauðsmálum hjá Reykjavíkurborg (2019-2020)
Guðný Halla Hauksdóttir, forstöðumaður þjónustuvers-og innheimtu Orkuveitu Reykjavíkur (2019-2021)
Ingi Björn Sigurðsson, verkefnastjóri Icelandic Startups (2019-2021)
Jón Gunnar Borgþórsson, vottaður stjórnendaráðgjafi CMC – Certified Management Consultant (2019-2021)
Kristján Geir Gunnarsson, forstjóri Kassagerðarinnar (2019-2020) 
Sigríður Harðardóttir, sviðsstjóri mannauðs- og gæðasviðs hjá Strætó (2019-2020)

Kosið var í fagráð félagsins.
Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar (2018-2020)
Einar Snorri Einarsson framkvæmdastjóri stjórnunarsviðs Landsnets (2019-2021)
Jóhanna þ. Jónsdóttir, framkvæmdastjóri aðfangakeðju Innnes (2018-2020)
Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs (2018-2020)
Nótt Thorberg,  forstöðumaður loyalty hjá Icelandair (2019-2021)  

Kosnir voru á aðalfundi tveir skoðunarmenn til 2ja ára 2018-2020

Oddný Assa Jóhannesdóttir, endurskoðunarsviði KPMG (2018-2020)
Guðný Helga Guðmundsdóttir, sviðsstjóri endurskoðunarsviðs KPMG (2018-2020)


Hér má sjá Ársskýrslu Stjórnvísi 2019.  Ársskýrslan hefur að geyma myndir frá starfsárinu, reikninga félagsins, yfirlit yfir viðburði faghópa o.fl.  

Dagskrá aðalfundar
Venjuleg aðalfundarstörf:

Kjör fundarstjóra og ritara.

Skýrsla formanns.

Skýrsla framkvæmdastjóra.

Reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar.

Breytingar á lögum félagsins.

Kjör formanns.

Kjör þriggja stjórnarmanna til næstu tveggja ára.

Kjör tveggja varamanna í stjórn til næstu tveggja ára.

Kjör fagráðs.

Kjör skoðunarmanna reikninga.

Önnur mál.

Lagabreyting.  Lögð verður fram breyting á 6.grein laga félagsins sem var samþykkt.

Grein 6. hljóðar svona núna: 

6. gr. Í stjórn Stjórnvísi eru sjö stjórnarmenn og tveir varamenn. Á aðalfundi er formaður kosinn sérstaklega til eins árs í senn, og getur hann setið í tvö ár sem formaður, að hámarki. Aðrir stjórnarmenn eru kosnir til tveggja ára í senn og geta að hámarki setið í tvö ár. Varamenn skulu kosnir til eins ár í senn og geta að hámarki setið í tvö ár. Meginreglan skal vera sú að á hverju ári láti þrír stjónarmenn af störfum. Ef atkvæði eru jöfn skal hlutkesti ráða úrslitum. Leitast skal við að halda kynjahlutfalli sem jöfnustu innan stjórnar. Á aðalfundi skal einnig kjósa tvo skoðunarmenn til tveggja ára í senn, þó þannig að árlega gangi annar þeirra út og nýr komi inn. Á fyrsta stjórnarfundi skiptir stjórnin með sér verkum og kýs sér varaformann og ritara til eins árs í senn. Stjórnin tekur ákvarðanir varðandi stjórnun félagsins og daglegan rekstur, þ.m.t. nýjungar í starfseminni og eftirfylgni, í samstarfi við framkvæmdastjóra. Þá setur stjórnin félaginu markmið og ber ábyrgð á skuldbindingum félagsins

Tillaga að  lagabreytingu. 

6. gr. Í stjórn Stjórnvísi eru níu stjórnarmenn. Á aðalfundi er formaður kosinn sérstaklega til eins árs í senn, og getur hann setið í tvö ár sem formaður, að hámarki. Aðrir stjórnarmenn eru kosnir til tveggja ára í senn og geta að hámarki setið í tvö ár.   Meginreglan skal vera sú að á hverju ári láti fjórir stjórnarmenn af störfum. Ef atkvæði eru jöfn skal hlutkesti ráða úrslitum.  Leitast skal við að halda kynjahlutfalli sem jöfnustu innan stjórnar. Á aðalfundi skal einnig kjósa tvo skoðunarmenn til tveggja ára í senn, þó þannig að árlega gangi annar þeirra út og nýr komi inn. Á fyrsta stjórnarfundi skiptir stjórnin með sér verkum og kýs sér varaformann og ritara til eins árs í senn. Stjórnin tekur ákvarðanir varðandi stjórnun félagsins og daglegan rekstur, þ.m.t. nýjungar í starfseminni og eftirfylgni, í samstarfi við framkvæmdastjóra. Þá setur stjórnin félaginu markmið og ber ábyrgð á skuldbindingum félagsins

 

 

Verkefnamiðuð markþjálfun

Í morgun héldu faghópar um markþjálfun og verkefnastjórnun sameiginlegan fund þar sem leitað var svara við þremur spurningum: Hvað eiga verkefnastjórnun og markþjálfun sameiginlegt? Hvaða tækifæri liggja í að nota tæki og tól verkefnastjórnunar í markþjálfun? Hver er ávinningurinn fyrir verkefnastjóra og verkefnateymi að nýta sér markþjálfun? Fyrirlesarar voru þær Áslaug Ármannsdóttir og Laufey Guðmundsdóttir stofnendur Manifest. 

En hvað er markþjálfun? Markþjálfun er samtalsferli á milli tveggja eða fleiri einstaklinga, uppbygging á trausti, virk hlustun, meðvitund, eftirtekt og speglun, kröftugar spurningar, stuðningur, uppgötvun, framtíðarsýn og markmiðasetning, vöxtur, þroski og skuldbinding. Markþjálfar vinna eftir 11 grunnhæfniskröfum og ýmsum módelum.

Verkefnastjórnun er hins vegar áherslan á undirbúninginn, hún er áætlunargerð, eftirlit og stýring á öllu.  Í verkefnisáætlun er verkefni og umfang þess skilgreint til að fara ekki af leið. Í verkefnastjórnun eru breytingarnar settar upp sem verkefni og eru verkefni skilgreind sem viðfangsefni með skilgreint upphaf  sem og skilgreindan endi ásamt því að hafa skýr og mælanleg markmið að leiðarljósi, hvernig á að mæla og hvert er markmiðið, tæki og tól, kostnaðaráætlun, gæðaviðmið, greiningar, samskiptaáætlun og vörður.   

 

Í hinni einföldustu mynd er hægt að halda því fram að hvoru tveggja verkefnastjórnun og markþjálfun snúist um að ná fram einhvers konar breytingum hvort sem um er að ræða hjá einstaklingum, teymum, stofnunum eða fyrirtækjum.  Með markþjálfun leitast markþegar eftir því að finna tilgang sinn og drauma, nýjar leiðir og lausnir að bættri frammistöðu og árangri. Líkt og í verkefnastjórnun eru markmið dregin fram í markþjálfunarferlinu sem styðja markþega við að ná fram þeim breytingum sem þeir vilja sjá í ferlinu.

Áhugavert er því að skoða samleið þessara tveggja aðferða, hvernig þær geta stutt hver við aðra og hvaða tæki og tól geta leynst í handraðanum.  

Það sem er sameiginlegt með verkefnastjórnun og markþjálfun  að ná fram einhvers konar breytingum, skilgreina umfang, ferli með upphaf og endi, mikilvægt er að brjóta niður íaðgerðir, halda upphaflegri sýn á lofti o.fl.  það sem verkefnastjórinn getur nýtt sér í markþjálfun er SVÓT, óvissugreining, forgangsröðun verkefna, AHP greining, hagaðilagreining, skilamat og lærdómur, setja sér vörður og fagna sigrum, og verkefnisáætlun. 

Undirstaða alls árangurs í teymisvinnu er traust.  Að taka ábyrgð er einnig mikilvægt, skýrleiki í samskiptum, hver gerir hvað.  Allt snýst um samskipti í ferlinu.  Markþjálfun snýst markvisst um að traust og er lykilþáttur í leiðtogahæfni í dag. Vald verkefnastjóra er svo oft óformlegt og hann þarf að finna leiðir til að finna leiðir og koma með skapandi lausnir.

Áslaug Ármannsdóttir útskrifaðist með meistaragráðu í verkefnastjórnun (MPM) árið 2015 og er með Ba gráðu í mannfræði. Jafnframt hún lokið námi í stjórnendamarkþjálfun frá Opna háskólanum í HR. Áslaug starfar sem sjálfstæður verkefnastjóri og markþjálfi og er önnur stofnenda Manifest – verkefnamiðuð markþjálfun.

Laufey Guðmundsdóttir útskrifaðist með meistaragráðu í verkefnastjórnun (MPM) árið 2015 og er með Bs gráðu í viðskiptafræði. Þar að auki lýkur hún námi í stjórnendamarkþjálfun frá Opna háskólanum í HR í maí. Laufey starfar sem verkefnastjóri hjá Markaðsstofu Suðurlands og er önnur stofnenda Manifest – verkefnamiðuð markþjálfun.

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?