Fréttir og pistlar

Sjóvá - Forvarnir eru besta tryggingin

Forvarnir eru besta tryggingin sögðu þau Auður Daníelsdóttir og Guðmundur Ingi Þorsteinsson á Tjónasviði Sjóvá þegar Stjórnvísifélagar heimsóttu fyrirtækið. Í samdrætti eru miklu færri tjón og Sjóvá hefur aldrei séð jafn fá tjón og í dsember 2012. Ástæðuna má rekja til góðrar tíðar. Sjóvá leggur mikla áherslu á samskipti við birgja þar sem birgjarnir eru framlenging á fyrirtækinu. Hrós frá viðskiptavinum er vel nýtt og komið á framfæri til starfsmanna. Hjá Sjóvá er viðskiptavinurinn í öndvegi. Sjóvá fær starfsmenn til að hugsa af hverju þau gera hlutina eins og þeir gera, get ég gert þetta einhvern veginn öðruvísi? Verkefnatöflur VMS voru innleiddar á síðasta ári og hafa þær veitt vettvang til að sjá hvað er í gangi. Frábær mæting var á fundinn og efni/glærur eru komnar á innrivef Stjórnvísi.

Staðan í rafrænni sjúkraskrá - áhugaverður fundur og góð mæting

Heilbrigðishópur fékk Inga Steinar Ingason verkefnisstjóra rafrænnar sjúkraskrár hjá Embætti Landlæknis (EL) til að koma og fjalla um stöðuna í rafrænni sjúkraskrá, þá vinnu sem er búið að leggja í rafræna sjúkraskrá og það sem framundan er í auknum aðgangi að gögnum milli stofnana innan heilbrigðiskerfisins.
Margir áhugaverðir punktar komu m.a. á að auka aðgengi lækna að lyfjagagnagrunni EL, einnig að vænst er nýrrar útgáfa af Sögu (rafræn sjúkraskrá) nú í febrúar og að unnið er að því að koma á uppflettimöguleikum milli stofnana. Nú er íslenska ríkið orðið eigandi ,,Heklu" og mun stuðla að fullri innleiðingu rafrænna lyfseðla.
Mörg önnur verkefni eru í vinnslu og hefur Velferðaráðuneytið jafnvel skoðað möguleikana á kaupum á heildstæðu sjúkraskrákerfi, en það er áætlað að kosti allt á bilinu 6-12 milljarða króna. Ekki hefur verið tekin formleg ákvörðun um neitt slíkt og því verður áfram unnið með Sögu-kerfið og samþættingu þess milli svæða amk. næstu 3 árin. Uppfærslum á Sögu verður fylgt eftir af starfsmönnum EL sem munu leggja áherslu á samræmi í skráningu.

Fundurinn var haldinn á Landsspítala og var mætingin góð eða um 70 manns.

Skiptir þjónusta alla máli? Grein birt í Viðskiptablaði Mbl. höf: Magnús Haukur Ásgeirsson Viðskiptaráðgjafi Dögun Capital

Skipulag og framkvæmd þjónustu reynist mörgum fyrirtækjum og stofnunum erfiður ljár í þúfu, er Það er ekki síst vegna eiginleika og eðli þjónustu. Þjónusta er óáþreifanleg og framreiðsla hennar á sér stað í rauntíma, með þátttöku bæði starfsfólks og viðskiptavina. Þannig er nær ógerlegt að prófa þjónustuna fyrirfram. Einmitt af þessum sökum er mikilvægt að skipuleggja og kortleggja þjónustuþætti eins og hver á að gera hvað, hvar, hvenær, hvernig og ekki síst hvað á að gera þegar eitthvað fer úrskeiðis.

Það þykir vænlegra til árangurs að skipuleggja þjónustu til að mæta þörfum viðskiptavina, frekar en að mæta einungis þörfum rekstrareininga. Þegar upp er staðið eru það viðskiptavinir sem borga launin og eru þeir líklegri til að gera það aftur, ef þjónustan uppfyllir þarfir eða fer fram úr væntingum þeirra. Við skipulag þjónustu ætti því að hafa eftirfarandi í huga.

-Vita þarfir viðskiptavina og skilja hvað skiptir þá máli.
-Hanna, teikna upp og skipuleggja þjónustuþætti út frá þörfum viðskiptavina.
-Ýta undir rétta færni og viðhorf hjá starfsfólki til að framkvæma þjónustuþættina.
-Lofa viðskiptavinum aðeins því sem hægt er að standa við.

Að uppfylla þarfir viðskiptavina með því að bæta gæði þjónustu getur skapað fyrirtækjum auknar tekjur og jafnvel samkeppnisforskot. Það þarf þó alls ekki að vera kostnaðarsamara en hönnun þjónustu án tillits til þarfa viðskiptavina. Þvert á móti getur vel útfærð þjónusta sem tekur mið af þörfum viðskiptavina, hjálpað til við að lækka kostnað með aukinni skilvirkni og fókus á það sem skiptir máli. Þetta á við um allar rekstrareiningar, hvort sem er á samkeppnismarkaði eða ekki.

Magnús Haukur Ásgeirsson Viðskiptaráðgjafi Dögun Capital

Kveðja frá formanni Stjórnvísi - Árið fer vel af stað

Kæru félagsmenn.
Ég vil byrja á að óska ykkur gleðilegs og kraftmikils árs. Árið fer vel af stað í félaginu og þegar í þessari viku eru tveir áhugaverðir og vel sóttir fundir.
Eftir hálfan mánuð, 24. janúar, er fundur á veitingastaðnum Nauthól sem mig langar að vekja athygli ykkar á. Það er fundur stjórnar með stjórnum faghópa þar sem farið verður yfir verkefni og hugmyndir allra faghópa á vormánuðum.

Þessir fundir hafa tekist afskaplega vel og sl. haust mættu um 90 manns og tóku virkan þátt í umræðum. Allir félagsmenn eru velkomnir - og hvet ég sem flesta til að mæta og taka púlsinn á starfinu.

Innan raða Stjórnvísi eru núna yfir 2 þúsund félagsmenn og um 300 fyrirtæki. Svo margir hafa aldrei áður verið í félaginu og er Stjórnvísi stærsta og fjölmennasta stjórnunarfélag landsins.

Faghóparnir eru félagið. Þess vegna er það helsta verkefni stjórnar að halda vel utan um faghópana, hvetja þá til dáða en gæta þess að þeir haldi sjálfstæði sínu og frumkvæði. Stjórnvísi verður 27 ára á þessu ári og dafnar vel. Það er í harðri samkeppni við nokkur önnur félög, t.d. Dokkuna, og er sú samkeppni af hinu góða. Í þeirri samkeppni bið ég þó félagsmenn og forráðamenn fyrirtækja að hafa í huga að Stjórnvísi er áhugamannafélag í eigu félagsmanna og starfar ekki með fjárhagslegan ágóða í huga.

Markmið félagsins er að efla faglegar umræður um stjórnun - og fylgjast náið með nýjum straumum og stefnum í samvinnu við atvinnulífið og háskólaumhverfið; sem og að skerpa á gömlum og góðum gildum í stjórnun.

Það verður margt um að vera næstu vikur og mánuði og fyllsta ástæða til að fylgjast vel með og missa ekki af frjóum fundum og fljúgandi hugmyndum. Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi verða veitt í fjórða sinn í mars næstkomandi. Hátíðin er einn af hápunktum starfsins og verðlaunin hafa fest sig í sessi í viðskiptalífinu. Forseti Íslands hefur frá upphafi afhent þau og flutt áhugaverða tölu í tilefni þeirra.
Við í stjórn Stjórnvísi höfum haldið því að forráðamönnum fyrirtækja að þátttaka starfsmanna þeirra í félaginu sé hagstæðasta símenntunin á markaðnum og gefi færi á hagnýtri umræðu um stjórnun og raunhæfum viðfangsefnum.

Eflum félagsvitundina og verum öll stolt af því að vera félagar í Stjórnvísi. Ég er í Stjórnvísi, er setningin. Hvetjum alla til að hoppa á vagninn og ferðast með okkur um heim praktískra stjórnunarfræða.

Höfum eldmóð og bjartsýni ávallt að leiðarljósi í starfi sem einkalífi og heilsum árinu 2013 í góðum félagsskap.

Með kveðju,
Jón G. Hauksson, formaður Stjórnvísi.

Heildstætt nám í Lean í fyrsta sinn á Íslandi

Núna eftir áramót er í fyrsta sinn boðið upp á heildstætt nám í aðferðum Lean (straumlínustjórnunar) á vegum háskólanna. Þetta er mikill áfangi fyrir okkur Lean áhugafólk en hingað til hefur umfjöllun um Lean í háskólunum verið felld inn í námskeið sem hluti af öðrum námslínum. Haldinn verður kynningarfundur um námið þann 10. janúar kl. 09:00. Hér fyrir neðan er kynning frá HR á náminu.

ÞRÓUN VIÐSKIPTAFERLA - STÖÐUGAR FRAMFARIR

Opni háskólinn í HR býður nú í vor í fyrsta sinn upp á heildstætt nám í aðferðafræðum straumlínustjórnunar, stöðugra umbóta og þróun viðskiptaferla.
Kynningarfundur fyrir námið verður haldinn 10. janúar nk. í Opna háskólanum í HR kl. 9.00. Skráning og nánari upplýsingar um kynningarfundinn er að finna á heimasíðu HR. Boðið verður upp á léttan morgunverð.

NÁMSKEIÐSLÝSING
Markmið námsins er að þátttakendur fái innsýn í hvernig vinna megi að stöðugum umbótum og þróun viðskiptaferla. Með viðskiptaferlum er átt við þau ferli innan fyrirtækisins sem notuð eru til koma virði (vöru eða þjónustu) til viðskiptavina fyrirtækisins.

Skoðaðar verða helstu aðferðir og tól sem notuð eru við þróun viðskiptaferla þar sem sérstök áhersla verður lögð á straumlínustjórnun (e. Lean management) og stöðugar umbætur almennt (e. Continuous improvement). Farið verður yfir sögu og megin inntak þessara aðferða og sérstaklega skoðað hvernig þessar aðferðir eru innleiddar og hvað þurfi til að ná árangri.
Markmið námskeiðsins er jafnframt að sýna fram á hvernig nýsköpun í viðskiptaferlum og stjórnunarkerfi fyrirtækisins er grundvöllur þess að fyrirtækið á árangursríkan hátt geti stundað nýsköpun fyrir viðskiptavini sína.
Nokkrar af þeim aðferðum sem farið verður yfir eru;
• Continuous improvement.
• Visual management.
• Value stream mapping.
• Pull.
• PDCA.
• A3.
• Policy deployment.•
• System thinking.
• Change management o.fl.

LEIÐBEINENDUR
Pétur Arason, M.Sc. í rekstrarverkfræði frá háskólanum í Álaborg 2002. Pétur hefur sl. átta ár starfað hjá Marel sem rekstrarverkræðingur og global manufacturing strategy manager. Sérsvið hans eru straumlínustjórnun (e. Lean management) og aðferðir tengdar ferlastjórnun, umbótum á ferlum og stefnumótun og innleiðing stefnu.

Pétur Orri Sæmundsen, B.Sc í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands. Pétur starfar sem framkvæmdarstjóri Spretts sem sérhæfa sig í ráðgjöf í stjórnun og hugbúnaðarþróun.

Þórunn María Óðinsdóttir, MSc. í stjórnun frá Bifröst. Sjálfstætt starfandi stjórnunarráðgjafi frá 2007 og hefur einna helst verið að innleiða hugmynda- og aðferðafræði lean management.

Viktoría Jensdóttir, M.Sc. í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. Viktoría starfar sem deildarstjóri umbóta og öryggis hjá Össur.

Björgvin Víkingsson, M.Sc. í supply chain management frá tækniháskólanum í Zurich. Björgvin starfar sem strategic purchasing manager hjá Marel.

KENNSLUFYRIRKOMULAG
Námið er samtals 64 klst. og samanstendur af fjórum tveggja daga lotum. Námið hefst 31. janúar 2013 og lýkur 19. apríl 2013. Hver lota er kennd á fimmtudegi og föstudegi með u.þ.b. mánaðarlegu millibili og fer kennsla fram á milli kl. 9.00-17.00 alla dagana.

Námskeiðið er byggt upp á fyrirlestrum, hópverkefnum, opnum umræðum, tilraunum/ heimaverkefnum, myndefni og heimsókn í fyrirtæki sem unnið hefur að innleiðingu þessara aðferða í fjölda ára.
Verð: 490.000 kr.

Nánari upplýsingar er að finna á slóðinni : http://www.opnihaskolinn.is/fagmennt/eventnr/565

Jólakveðja frá Stjórnvísi

Stjórn Stjórnvísi óskar þér og fjölskyldu þinni gleðilegra jóla.
Við þökkum samstarfið á árinu og hlökkum til að takast á við
ný og spennandi verkefni með þér á komandi ári.
Stjórn Stjórnvísi.

Þegar fjármál lítilla fyrirtækja sitja á hakanum. Grein í Viðskiptabl.Mbl. Höfundur Brynhildur S. Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Hagsýn

Yfir 90% af fyrirtækjum landsins eru ör- eða lítil fyrirtæki. Allt of algengt er að stjórnendur þeirra vanmeti þann tíma og kostnað sem felst í fjármálum fyrirtækisins. Þar sem bókhaldið snýr ekki að framleiðslunni sjálfri, telst það oft sem óþarfa kostnaður - sem gæti ekki verið lengra frá sannleikanum. Enda eru fjármálin jú lífæð og kompás rekstursins.

Ekki falla í þá gryfju að láta fjármálin sitja á hakanum! Þó er það ekkert nema mannlegt að fresta því sem manni finnst óþægilegt og jafnvel leiðinlegt. Eitt skothelt ráð við þessu er að eyrnamerkja sérstakan tíma í viku/mánuðinum fjármálunum. Búa sér til fastan tíma þar sem maður raðar saman nótum, fer yfir stöðu lánadrottna og viðskiptamanna. Láta dagatalið minna sig á það og taka frá tímann. Best er að gera þetta á viku eða mánaðarfresti þannig að útgjöldin séu ennþá fersk í minninu. Það er miklu tímafrekara og erfiðara að láta þessa hluti safnast upp, því hver man í desember hvað gerðist í janúar?!

Með réttu skipulagi geta stjórnendur lítilla fyrirtækja einnig sparað sér hundruðir þúsunda á ári í bókhaldskostnað - svo ekki sé talað um óþarfa áhyggjur. Algengast er að bókarar rukki eftir tímakerfi og því er mikilvægt að skila gögnunum rétt af sér. Athugaðu að bókarar lesa ekki hugsanir og koma því til með að rukka ykkur fyrir þann tíma sem fer í að finna skýringar, sem maður hefði svo auðveldlega getað leyst með því að skilja eftir viðeigandi skýringar í gögnunum.

Með því að taka bókhaldinu fastari tökum get ég lofað þér að fyrirtækið þitt á eftir að spara sér ómældan kostnað í bókhaldið og hver veit nema þú sparir þér nokkur grá hár á nýju rekstarári og öðlist loks hugarró gagnvart fjármálunum.

Brynhildur S. Björnsdóttir

Höfundur er framkvæmdastjóri Hagsýn bókhalds- og rekstrarþjónustu og M.Sc. í Viðskiptafræði (stjórnun og stefnumótun).

Jólafundur stjórnar, fagráðs og skoðunarmanna Stjórnvísi.

Nýlega funduðu stjórn, fagráð og skoðunarmenn Stjórnvísi. Markmiðið með fundinum í sambland við að eiga saman góða stund og njóta aðventunnar var að fá sýn og fagleg ráð frá fagráði og skoðunarmönnum hvernig styrkja mætti enn frekar sterka stöðu félagsins. Hlutverk fagráðs er fyrst og fremst að vera ráðgefandi fyrir stjórn félagsins varðandi stefnumótandi áherslur og að taka þátt í að efla ímynd og orðspor Stjórnvísi. Jafnframt að vera félaginu innan handar varðandi faglega stjórnunarþekkingu og aðstoð við einstök verkefni. Fagráð og skoðunarmenn félagsins er skipað miklum reynsluboltum sem hafa unnið mikið og gott starf fyrir Stjórnvísi.

Á myndinni eru frá vinstri; Davíð Lúðvíksson, Arney Einarsdóttir, Kristinn Tryggvi Gunnarsson, Unnur Valborg Hilmarsdóttir, Bára Sigurðardóttir, Auður Þórhallsdóttir og Kristín Kalmansdóttir

Ánægja starfsmanna - það er gott að gefa af sér. Grein í Viðskiptabl.Mbl. Höfundur: Sonja M. Scott starfsmannastjóri Vodafone

Ánægja starfsmanna: Það er gott að gefa af sér.
Því er jafnan haldið fram, að þátttaka fyrirtækja í samfélagslegum verkefnum sé jákvæð fyrir ímynd fyrirtækisins. Minna hefur verið rætt og ritað um þá ánægju sem starfsmenn fyrirtækja fá af því að leggja sitt af mörkum, en víða eru vísbendingar um að hún sé umtalsverð og bæti vinnuandann á hverjum stað.

Vodafone í Bretlandi hefur um nokkurra ára skeið stutt sitt starfsfólk til að vinna að góðgerðarmáli að eigin vali. Reynslan af því er afar góð, því ánægja starfsfólks hefur mælst hærri í kjölfarið og hollusta við fyrirtækið hefur aukist.

Hér á landi hefur Vodafone um árabil tekið þátt í Degi rauða nefsins, fjáröflunarverkefni UNICEF á Íslandi. Auk þess að annast tæknilega framkvæmd verja starfsmenn Vodafone hundruðum klukkustunda í undirbúning og vinnu við símsvörun á deginum sjálfum. Þegar samstarf Vodafone og UNICEF hófst þurfti fyrirtækið að meta hvort kostnaðurinn og álagið sem fylgir verkefninu væri fyrirhafnarinnar virði. Eftir nokkurra ára samstarf er niðurstaðan afdráttarlaus - það er gott að gefa af sér og starfsfólk hefur mikinn áhuga á að taka þátt. Þannig eru þeir jafnan fljótir að skrá sig til þátttöku sem hafa áður tekið þátt og gildir þá einu hvort vinnuálag á viðkomandi hafi verið mikið eður ei. Við erum stolt af því að taka þátt, bæði sem einstaklingar og heild.
Í mannauðsfræðunum er rík áhersla lögð á mikilvægi þess að ráðningar, fræðsla, starfsþróun, starfslok og annað styðji við viðskiptastefnu hvers fyrirtækis. Minni áhersla hefur hins vegar verið á ýmsa innri þætti í rekstrinum, t.d. viðburðarstýringu, markaðssetningu innan fyrirtækjanna sjálfra á innri þjónustu, vörum og ólíkum hlutverkum í stórri heild. Reynsla okkar af því að reyna að samþætta innri og ytri markaðssetningu er ekki aðeins jákvæð, heldur gegnir slík samþætting lykilhlutverki í því að auka ánægju starfsmanna.

Sonja M. Scott
Starfsmannastjóri Vodafone

Vel heppnaður fundur um kvartanir og ábendingar

Þátttaka var framar vonum á fundi gæðastjórnunarhóps Stjórnvísi í húsi Orkuveitunnar síðastliðinn fimmtudag þar sem um 80 gestir hlustuðu á tvö erindi um mikilvægi ábendinga og kvartana.
Guðrún Álfheiður Thorarensen og Hallbera Eiríksdóttir fjölluðu um mikilvægi þess að meðhöndla kvartanir og ábendingar viðskiptavina á réttan hátt. Efnið var viðfangsefni mastersritgerðar þeirra í verkfræði sem þær vörðu frá Chalmers í Gautaborg sl. vor.
Í vel heppnuðu erindi þeirra kom fram að kvartanir geta gefið dýrmætar upplýsingar um þarfir, langanir og væntingar viðskiptavina. Þær lögðu áherslu á mikilvægi þess að halda vel utan um öll gögn svo hægt sé að túlka þau á réttan hátt og að finna grunnorsakir algengustu og alvarlegustu vandamála. Þá kom fram að góður ferill sem heldur utan um kvartanir og aðrar upplýsingar um viðskiptavini stuðlar á markvissan hátt að stöðugum úrbótum sem er gott innlegg inn í vöruþróunarferil fyrirtækja.
Síðara erindið fluttu gestgjafarnir Sigrún Viktorsdóttir, forstöðumaður þjónustuvers Orkuveitunnar og Kristjana Kjartansdóttir, gæðastjóri Orkuveitunnar og sögðu þær gestum á líflegan hátt frá átaki um faglega meðhöndlun ábendinga og kvartana meðal starfsmanna Orkuveitunnar. Í erindinu kom m. a fram að markmiðið með átakinu væri að gera starfsmenn meira meðvitaða um mikilvægi þess að hlusta á kvartanir og ábendingar frá viðskiptavinum og skrá þær niður, en skráning kvartana og ábendinga er forsenda þess að hægt sé að nýta þær til umbóta í þjónustu og vöruþróun.
Það felst töluverð áskorun í því að taka vel á móti kvörtunum og ábendingum og halda skrá yfir þær til að fá upplýsingar um helstu vandamálin, en stóra áskorunin er hins vegar sú að nýta þessar upplýsingar í að gera umbætur á vörum og þjónustu. Fundurinn í Orkuveitunni gaf mönnum vonandi ákveðnar hugmyndir um hvernig gott er að bera sig að í þessum efnum því vissulega skipta kvartanir og ábendingar frá viðskiptavinum miklu máli fyrir stjórnendur.

7 lyklar að árangri í ríkisrekstri - seinni hluti. Höfundur: Þorvaldur Ingi Jónsson, ráðgjafi

7 lyklar að árangri í ríkisrekstri
Í fyrri greininni í síðustu viku var fjallað um mikilvægi þess að (1) löggjöf endurspegli forgangsröðuð verkefna sem rúmast innan fjárlaga. (2) Kröfunnar til ráðuneyta um trausta, opna og vandaða stjórnsýslu. Samið verði við stofnanir um lykilverkefni, þjónustustig og árangur. (3) Forstöðumaðurinn er í miðri hringiðunni og skapar liðsheildina sem hefur hæfni, getu og vilja til að leysa verkefnin betur í dag en í gær. Seinni 4 lyklarnir eru:

  1. Stefnan, gildin og framtíðarsýn er skýr. Starfsmenn taka virkan þátt. Lifandi stefnur um mannauð, þjónustu, öryggi o.fl. Gildin virk. Hlutverkið vel skilgreint, hver eru forgangsverkefnin og hvert stefnt er til framtíðar og hvernig.
  2. Auðlindir rétt samsettar. Mannauðurinn er dýrmætasta „eignin“. Með símenntun, samvinnu og þekkingarmiðlun er auðurinn aukinn. Með virkum samskiptum við viðskiptavini og hagsmunaaðila er verkefnum forgangsraðað. Rétt samsetning á hæfni og tækni nýtt til að veita betri þjónustu.
  3. Nýsköpun og endurbætur. Skapa þarf umbótamenningu og samvinnu innan stofnana og milli stofnana/ráðuneyta. Þar er stöðug leit að þekkingu, betri ferlum og nýrri tækni beitt til að leysa verkefnin á hagkvæmari hátt í dag en í gær.
  4. Opin gagnsæ stjórnsýsla - gagnvirk samskipti við borgarana. Tryggja gott aðgengi að samræmdum upplýsingum um; megin verkefni , hvað kosta þau, hverjir vinna að þeim, hvað segja viðskiptavinir um þjónustuna og starfsmenn um stöðuna. Bent er á skýrslu undirritaðs frá 2011 um þetta efni og CAF líkanið. Sjá grein á www.stjornvisi.is
    Lögð er áhersla á að allar stofnanir birti samræmdar upplýsingar um megin verkefni, kostnað og árangur. Samspil allra lyklanna þarf að vera stöðugt sem leiðir til betri forgangsröðunar verkefna. Traust, opin og skilvirk stjórnsýsla eykur lífsgæði og samkeppnishæfni Íslands.

Þorvaldur Ingi Jónsson, ráðgjafi, viðskiptafræðingur, Ms í stjórnun- og stefnumótun. Stjórnarmaður í Stjórnvísi

Vikan framundan - fjórir áhugaverðir fundir

Vikan framundan - fjórir áhugaverðir fundir

  1. desember 2012 | 08:30 - 10:00 Gæðamál í heilbrigðsstofnunum - kröfur og eftirlit
    Heilbrigðissvið Haldinn í Endurmenntun HÍ, Dunhaga 7, 107 Reykjavík
    Fjallað verður um hlutverk Embættis landlæknis, sérstaklega er varðar gæðaeftirlit, þ.e. hugmyndafræði, tilgang, aðferðir og umfang.
    Ennfremur verður rætt um faglegar kröfur, leiðbeiningar, gagnreynda starfshætti, tölulegar upplýsingar og annað sem gæðaeftirlitið byggir á.
    Loks verður greint frá mikilvægustu atriðum sem nýta má til að efla gæði heilbrigðisþjónustu og öryggi sjúklinga.
    Anna Björg Aradóttir, sviðsstjóri Sviðs eftirlits og gæða, Embætti landlæknis
    Laura Sch. Thorsteinsson, verkefnastjóri Sviðs eftirlits og gæða, Embætti landlæknis.
    Boðið verður upp á kaffi og léttar veitingar.
  2. desember 2012 | 12:00 - 13:00 Nýsköpunarhádegi Klaks
    Nýsköpun Ofanleiti 2, 103 Reykjavík
    Nýsköpunarhádegi Klaks er “think tank” um nýsköpun sem er samstarfsverkefni Landsbankans, Samtaka iðnaðarins, Stjórnvísi, Viðskiptablaðsins, RUV og Klaks - Nýsköpunarmiðstöðvar atvinnulífsins.Viðburðurinn er öllum opinn og ókeypis til þess að auðga nýsköpunaranda lykilaðila í íslensku atvinnulífi og allra landsmanna.
  3. desember 2012 | 08:30 - 09:45 Lean Startup 101
    Lean - Straumlínustjórnun Háskólinn í Reykjavík Menntavegi 1, 101 Reykjavík
    Lean Startup er hugmyndafræði til þess að nálgast nýsköpun, hvort sem um er að ræða þróun á nýjum fyrirtækjum (startup) eða þróun á nýjum viðskiptaeiningum/vörum í rótgrónum fyrirtækjum. Hugmyndafræðin hefur farið sigurför um heiminn og fyrsta bókin sem kom út um Lean Startup fór í 2.sæti á NYTimes metsölulistanum.Einföld leið til að skilgreina Lean Startup er eftirfarandi: Lean Startup = Agile + Lean + Customer Development + nýtt orðasafn. Í fyrirlestrinum ætlar Pétur Orri Sæmundsen framkvæmdastjóri Spretts að kynna helstu atriðin í Lean Startup með sérstaka áherslu á Customer Development og nýja orðasafnið.
    Fyrirlesari er Pétur Orri Sæmundsen framkvæmdastjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Sprettur, eina fyrirtækisins á Íslandi sem sérhæfir sig í Lean og Agile hugbúnaðarþróun. Pétur er brautryðjandi í beitingu Agile aðferða á Íslandi og hefur 12 ára reynslu í upplýsingatækni þar sem hann hefur unnið bæði sem stjórnandi, ráðgjafi og forritari.Fundurinn er haldinn í Háskólanum í Reykjavík, Menntavegi 1.
    Stofan heitir M209. Hún er á annarri hæð Mars megin. Þegar gengið er inn frá Sólinni, taka þá stigann eða lyftuna upp á aðra hæð og fara inn hægra megin.
  4. desember 2012 | 08:30 - 10:00 Erindi frá Íslandsbanka - #1 í þjónustu
    Þjónustu- og markaðsstjórnun Kirkjusandi, 105 Reykjavík

    1 í þjónustu

    Með mikilli vinnu hefur Íslandsbanki náð þeim áfanga að vera í efsta sæti fjármálafyrirtækja í Íslensku ánægjuvoginni árið 2012.
    Framtíðarsýn bankans er að vera fremst í þjónustu. Birna Einarsdóttir, bankastjóri mun kynna fyrir áhugasömum hvernig bankinn vinnur að því markmiði.

Urta Islandica - Nýtt Stjórnvísifyrirtæki

Urta Islandica er jurtahönnunarfyrirtæki sem hannar, framleiðir og selur matvöru og matargjafavöru út íslenskum jurtum. Við seljum í heildsölu til annarra verslana, seljum vörurnar okkar á vefsíðunni urta.is og einnig í verslun okkar að Austurgötu 47 í Hafnarfirði þar sem framleiðslan fer einnig fram. Fyritækið hefur verið í undirbúningi frá því í byrjun árs 2009 en kom fyrst með vörur á markað í október 2010. Þóra Þórisdóttir myndlistarmaður er aðaleigandi, hönnuður og hugmyndafræðingur fyrirtækisins og er með fimm fasta starfsmenn á launaskrá. Urta Islandica pakkar íslenskum jurtum og jurtablöndum í tepoka, framleiðir jurtasýróp, jurtakryddsalt og smávegis af sultum. Stefna urta islandica er að framleiða sanngjarna og sjálfbæra vöru þar sem allir sem að framleiðslunni koma fái sanngjarnan skerf af söluverði vörunnar. Þannig viljum við ekki pressa niður verð á jurtum og berjum frá tínslufólkinu okkar sem kemur alls staðar af landinu né reka láglaunastefnu í framleiðslunni. Hráefnið í vörurnar okkar samanstendur að miklu leyti af villtum íslenskum jurtum og berjum. Urta Islandica er í samstarfi við aðra aðila á Íslandi sem framleiða vörur úr íslenskum jurtum og ber þar hæst samvinna við Blóðbergsgarðinn en einnig við listamenn og hönnuði t.d Gler í Bergvík og Leir 7 á Stykkishólmi.

Reynslusaga í notkun á CAF og nýr upplýsingavefur CAF

Fundur haldin hjá Velferðarráðuneytinu Hafnarhúsinu 30.nóvember 2012

Pétur B. Matthíasson frá Fjármála- og efnahagsráðuneytinu fjallaði um CAF sjálfsmatslíkan fyrir stofnanir og sveitarfélög, en ráðuneytið hefur nýlega opnað upplýsingavef fyrir CAF, sem hann kynnti. Hallgrímur H. Gröndal fjallaði um CAF reynslu hjá Ríkiskaupum. Um 20 manns sóttu fundinn.

Hér má finna slóðina inn á CAF vef Fjármála- og efnahagsráðuneytis http://www.fjarmalaraduneyti.is/verkefni/umbaetur_i_rikisrekstri/caf_sjalfsmatslikan/

7 lyklar að árangri í ríkisrekstri - fyrri grein. Birt í Viðskiptablaði Mbl.Höfundur: Þorvaldur Ingi Jónsson, ráðgjafi, viðskiptafræðingur, Ms í stjórnun- og stefnumótun. Stjórnarmaður í Stjórnvísi

7 lyklar að árangri í ríkisrekstri - fyrri grein
Fagleg og árangursrík stjórnsýsla og opinber rekstur stuðla að samkeppnishæfara samfélagi. Skatttekjur ríkisins eiga að duga fyrir samtíma samneyslu. Opin gagnsæ samskipti við borgarana er lykilforsenda fyrir réttu vali á forgangsverkefnum - hverju á að sinna og hverju ekki. Árangur hjá ríkinu verður mestur ef gætt er að eftirfarandi 7 lyklum - þeir rétt samsettir og stöðug miðlun upplýsinga og þekkingar á milli almennings, stofnana, ráðuneyta og Alþingis.

  1. Lög - Fjárlög. Almennt er gerð krafa um að lög skapi skýrar og skilvirkar leikreglur fyrir einstaklinga og atvinnulífið. Lög afmarki skýrt verkefnin sem ríkið ætlar í raun að sinna og fjárveiting í samræmi. Með því að ákveða ramma fjárlaga til 3 ára minnkar óvissa og stefnan verður markvissari.
  2. Ráðuneytin. Þar er mesta krafan til hins faglega stjórnsýslustarfsmanns sem nýtur trausts ráðherra, stofnana og hagsmunaaðila. Ráðuneytin eiga að vera í skilvirkum faglegum samskiptum við stofnanir og gera samninga við þær um lykilverkefni, þjónustustig og árangur. Sérstaklega þarf að gæta að því að ráða til ráðuneyta reynslumikla og hæfa sérfræðinga og stjórnendur.
  3. Forstöðumaður stofnunar er í miðri hringiðunni. Hann nýtur trausts hjá ráðuneyti, starfsfólki og hagsmunaaðilum. Hann stendur faglega að ráðningum og símenntun. Hann skapar menningu þar sem stöðugt er reynt að finna leiðir til að leysa verkefnin á framúrskarandi hátt.
    Í síðari greininni verður fjallað um seinni 4 lyklana tengdum stefnu, auðlindum, nýsköpun og opinni stjórnsýslu. Mikilvægt er að allir 7 lyklarnir séu settir í rétt samhengi. Stöðug síendurtekin leit að betri lausnum er leiðin að auknum lífsgæðum og samkeppnishæfara Íslandi. Sjá grein á www.stjornvisi.is
    Þorvaldur Ingi Jónsson, ráðgjafi, viðskiptafræðingur, Ms í stjórnun- og stefnumótun. Stjórnarmaður í Stjórnvísi

Myndbönd frá haustráðstefnu Stjórnvísi

Myndbönd frá haustráðstefnu Stjórnvísi. http://stjornvisi.is/radstefna
Á annað hundrað manns mættu á haustráðstefnu Stjórnvísi í Hörpunni. Ráðstefnugestir voru ánægðir með nýtt og áhugavert samtalsform fyrirlesara. Þeir Jón von Tetzchner og David Martin voru ekki með eiginlega fyrirlestra heldur var samtalsformið notað. Jón G. Hauksson, ritstjóri Frjálsrar verslunar og formaður Stjórnvísi, ræddi við Jón Stephenson von Tetzchner og Sigurjón Þór Árnason, gæða- og öryggisstjóri Tryggingastofnunar ríkisins, ræddi við David Martin.

Vilborg Einarsdóttir framkvæmdastjóri Mentors fór á kostum í fyrirlestri sínum þar sem hún sagði okkur frá því hvernig faðir hennar hitti naglann á höfuðið þegar hann líkti saman góðum stjórnanda og "Fjallkóngi"

Meðfylgjandi eru myndbönd frá ráðstefnunni

Fimm fróðleikfundir hjá Stjórnvísi í næstu viku - er fyrirtækið þitt ekki örugglega aðili?

Fimm fróðleikfundir hjá Stjórnvísi í næstu viku

27.nóvember. Hefur þú upplifað vandamál á þínum vinnustað vegna áfengis og vímuefna? Er kominn tími á faglega stefnu? Páll Þór Jónsson verkefnastjóri SÁÁ kynnir fyrirtækjaþjónustu SÁÁ, skaðastjórn vegna fíknisjúkdóma og meðvirkni.Hildur Atladóttir, leiðtogi heilbrigðismála hjá Rio Tinto Alcan á Íslandi fjallar um stefnu fyrirtækisins um áfengis- og vímuefnalausan vinnustað, undirbúning og innleiðingu stefnunnar. Fundurinn er haldinn í Von-SÁÁ, Efstaleiti 7 og er á vegum mannauðsstjórnunarhóps.

28.nóvember. Kópavogsbær er fyrst íslenskra sveitarfélaga með ISO 9001 vottun fyrir gæðakerfi á stjórnsýslusviði. Kópavogsbær býður í heimsókn þar sem Árni Þór Hilmarsson gæðastjóri mun kynna gæðakerfi stjórnsýslusviðs. Hann mun segja frá innleiðingunni, vottunarferlinu og þeim lærdómi sem draga má af því. Fundurinn verður haldinn í Fannborg 2, 4. hæð, Kópavogi og er á vegum gæðastjórnunarhóps.

29.nóvember. Umhverfis- og öryggismál og tengsl við samfélagsábyrgð. Guðrún Þóra Magnúsdóttir leiðtogi umhverfismála hjá ISAL mun fjalla um hvernig umhverfis og öryggismál fyrirtækisins tengjast samfélgsábyrgð föstum böndum. Í erindinu verður komið inn hvernig samráði og samskiptum er háttað við samfélagið og hver ávinningurinn er af því samráði. Fundurinn er haldinn hjá ISAL, Straumsvík Hafnarfirði og er á vegum faghópa um umhverfi og öryggi og samfélagsábyrgð fyrirtækja.

30.nóvember. Reynslusaga í notkun á CAF og nýr upplýsingavefur CAF. Pétur B. Matthíasson frá Fjármála- og efnahagsráðuneytinu mun fjalla um CAF sjálfsmatslíkan fyrir stofnanir og sveitarfélög, en ráðuneytið hefur nýlega opnað upplýsingavef fyrir CAF. Hallgrímur H. Gröndal mun fjalla um CAF reynslu hjá Ríkiskaupum. Fundurinn verður haldinn í Velferðarráðuneytinu Hafnarhúsinu Tryggvagötu og er á vegum faghóps um CAF/EFQM

  1. nóvember. Hver er staða stjórnendaþjálfunar á Íslandi? Landslag stjórnunar á Íslandi hefur breyst mikið undanfarin ár og stjórnendur standa frammi fyrir nýjum og erfiðum áskorunum. Á fundinum verður fjallað um stjórnendaþjálfun á Íslandi á nokkuð breiðum grundvelli og munu þrír fræðslustjórar stórra fyrirtækja deila reynslu sinni af skipulagningu stjórnendaþjálfunar. Hvað er það sem íslenskir stjórnendur sækjast eftir, er þessi hópur frábrugðinn öðrum hópum í atvinnulífinu þegar kemur að fræðslu og þjálfun og hvert er stjórnendaþjálfun á Íslandi að þróast, hvaða aðferðir eru mest notaðar o.s.frv. Á fundinum munu framsögumenn varpa ljósi á svör við þessum og fleiri spurningum.
  2. Kristín Jónsdóttir Njarðvík, endurmenntunarstjóri opnar fundinn.
  3. Hildur Arnars Ólafsdóttir fræðslustjóri Actavis - „Ups and downs“ í stjórnendaþjálfun.
    Hildur segir frá því sem hefur gengið vel í stjórnendaþjálfun og hvað ekki undanfarin ár. Hún mun einnig segja frá því sem er framundan hjá „nýju“ fyrirtæki og mikilvægi stjórnendaþjálfunar í því samhengi.
  4. Elísabet Helgadóttir fræðslustjóri Íslandsbanka. - Stjórnendaþjálfun hjá Íslandsbanka.
    Elísabet leitast við að svara eftirfarandi spurningum:
    Hvaða hæfni þarf stjórnandi að búa yfir til að ná árangri?
    Hvernig stillum við þjálfun upp í samræmi við hæfniskröfur Íslandsbanka?
    Hvernig styðjum við stjórnendur?
    Hvernig mælum við árangur?
  5. Harpa Björg Guðfinnsdóttir leiðtogi fræðslumála Alcan. - Leiðin að slysalausum vinnustað.
    Harpa segir frá stjórnendaþjálfun á vegum móðurfélagsins, Rio Tinto, þar sem áhersla var m.a. á að kenna stjórnendum að grípa inn í aðstæður sem ekki teljast fullkomlega öruggar og leiðbeina starfsmönnum að gera hlutina á sem öruggastan hátt.
    Fundarstaður: Endurmenntun Háskóla Íslands, Dunhaga 7, 107 Reykjavík.

Hagstæðasta símenntunin - kveðja frá formanni stjórnar Stjórnvísi

Ágæti viðtakandi.

Ég undirritaður, Jón G. Hauksson, ritstjóri Frjálsrar verslunar, er formaður stjórnar Stjórnvísi og langar að vekja athygli á félaginu og hversu gagnlegt og hagkvæmt er fyrir fyrirtæki að vera í því.

Stjórnvísi býður upp á hátt í hundrað ókeypis viðburði um stjórnun á hverju ári, félagsmönnum að kostnaðarlausu. Fyrirtækin greiða hins vegar fast árgjald fyrir starfsmenn sína og er hægt að fullyrða að þátttaka í Stjórnvísi er ódýrasta símenntunin á Íslandi. Stjórnvísi hét á árum áður Gæðastjórnunarfélag Íslands.

 Stjórnvísi er stærsta stjórnunarfélag á Íslandi með tæplega 2.000 virka félagsmenn  
 og um 285 fyrirtæki innan sinna raða.

       Stjórnvísi er áhugamannafélag í eigu félagsmanna og starfar ekki með
       fjárhagslegan ágóða í huga.

 Stjórnvísi er opið öllum einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum sem hafa áhuga   
 á stjórnun; eins og stjórnendum, sérfræðingum, nemendum og öðrum 
 áhugamönnum um stjórnun.

       Stjórnvísi býður hagstæðustu símenntunina. Flest námskeiðin eru ókeypis fyrir 
       félagsmenn.

       Stjórnvísi er með kjarnastarf sitt í kraftmiklum faghópum félagsmanna en 
       jafnframt stendur félagið fyrir almennum ráðstefnum, viðburðum og verðlaunum 
       um stjórnun.

Nýlega hélt Stjórnvísi haustráðstefnu sína í Hörpunni sem vakti verðskuldaða athygli. Ráðstefnan bar yfirskriftina AÐ SKAPA FRAMTÍÐINA. Fyrirlesarar voru þeir Jón von Tetzchner, frumkvöðull og stofnandi Operu Software í Noregi, Vilborg Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Mentors og David Martin, sérfræðingur í öryggismálum ríkja og stórfyrirtækja.

Með kveðju,
Jón G. Hauksson, formaður stjórnar Stjórnvísi.

Samskiptamynstur. Grein í Viðskiptablaði Mbl. höfundur: Annetta Ragnarsdóttir ACC markþjálfi

Ég tel að þrátt fyrir að við séum meðvituð um hluta af okkar samskiptamynstri sé stór hluti sem við erum okkur ekki meðvituð um.
Ef þú vilt breyta eða bæta samskipti þín er góð leið að byrja á því að skoða hvernig þau birtast þér í dag. Það getur hjálpað að skrifa það niður eða að ræða við aðila sem þú treystir. Síðan getur þú bætt við hvers vegna þú vilt breyta eða bæta samskipti þín. Ef þú sérð engin mynstur í þínum samskiptum sem þú vilt breyta eða bæta er gott að skrifa niður eða ræða um hvað einkennir góð samskipti og hvers vegna þessi atriði skipta máli.
Þessi aðferð getur auðveldað þér að koma auga á hvar þú getur bætt þig hvað samskipti varðar. Þegar þú veist hverju þú vilt breyta eða bæta í þínum samskiptum er gagnlegt að skrifa niður eða ræða um hvernig þú sérð samskipti þín fyrir þér eftir þessar breytingar.
Hvað einkennir vinnudaginn, heimilislífið og aðrar aðstæður eftir þessar breytingar?
Hverju breytir það þegar þú hefur bætt eða breytt þínum samskiptum við sjálfan þig og aðra?
Er hugsanlegt að þú getir stuðlað að því að aðrir bæti sig í samskiptum?
Þegar þú hefur farið yfir þau samskipti sem vilt sjá hjá sjálfri/um þér getur þú ákveðið hvernig þú ætlar að bæta samskipti þín við sjálfa/n þig og aðra. Flest getum við verið sammála um að það sé mikilvægt að eiga góð samskipti við okkur sjálf og þá sem eru í kringum okkur.

Annetta Ragnarsdóttir ACC markþjálfi Eigandi og framkvæmdarstjóri Anra

Allir með! Grein í Viðskiptablaði Mbl. höfundur: Teitur Guðmundsson, framkvæmdastjóri hjá Heilsuvernd og stjórnarmaður í Stjórnvísi

Allir með!
Það er þekkt fyrirbæri að þau fyrirtæki sem skara frammúr byggja öllu jöfnu á skýrum markmiðum og stefnu. Viðskiptavinir þeirra eru í öndvegi. Skipulagsheildin er reiðubúin að mæta breytingum hratt og örugglega, stjórnendur deila upplýsingum og eru opinskáir gagnvart starfsfólki sínu og hampa hæfileikum þess. Starfsmenn sýna jákvæðni og hrósa reglubundið samstarfsfólki sínu og hvetja það til dáða. Fyrirtækið hugsar vel um heilsu einstaklingsins , býður honum verkefni við hæfi og síðast en ekki síst skilgreinir það vel ábyrgð í verkum og verkferlum.
Þessi atriði hljóma kannski mjög einföld, en til þess að ná sem lengst verða stjórnendur og starfsmenn að leggja sig alla fram um að ná þeim. Það þarf að skapa liðsanda þar sem allir eru með og finna að þeir skipta máli, byggja upp andrúmsloft þar sem er lögð áhersla á lausnir í stað vandamála. Mikilvægt er að fagna þeim áföngum sem nást og sýna í verki þakklæti fyrir þann árangur sem samstillt átak skilar.
Það má líkja þessu við þá hugmyndafræði sem tíðkast í stríði og hjá hermönnum þar sem enginn verður skilinn eftir, einn fyrir alla og allir fyrir einn! Ég geri mér grein fyrir því að þetta hljómar klisjulega en þetta einfaldlega virkar og stjórnendur þurfa að átta sig á því hvernig þeir ná þessum markmiðum. Það þurfa þeir að gera fyrir utan hin hefbundnu verkefni þegar kemur að stjórnun og skipulagi í rekstri fyrirtækja. Leiðin liggur í gegnum mannauð fyrirtækjanna sem er ætíð þeirra verðmætasta eign. Hugsum vel um fólkið okkar, gefum því tækifæri, nýtum orku þess og hugmyndir, sýnum virðingu og hlustum á það því þannig stillum við saman strengina og náum árangri.

Höfundur:
Teitur Guðmundsson, framkvæmdastjóri hjá Heilsuvernd og stjórnarmaður í Stjórnvísi

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?