Fréttir og pistlar
Við þökkum Ástu Snorradóttur hjá Vinnueftirlitinu og Teit Guðmundssyni framkvæmdastjóra Heilsuverndar fyrir góð erindi.
Greinilega mátti heyra á báðum erindum að það hefur jákvæð áhrif á líðan og viðhorf starfsmanna til vinnu sinnar ef þeir fá stuðning og heilsueflingu í vinnunni. Ekki skipti minna máli að finna að næsti yfirmaður léti sér velferð starfsmanna sinna varða og hugi að heilsu þeirra og góðu vinnuumhverfi. Teitur sýndi einnig að mikið er verið að gera hjá fyrirtækjum sem hann þjónustar til að stuðla að velferð starfsmanna, öruggara starfsumhverfi og draga úr veikindafjarvistum.
Þetta er málefni sem verður áhugavert að fylgjast með áfram og sjá hver þróunin verður hjá fyrirtækjum á Íslandi. Hlökkum síðan til að sjá sem flesta í Velferðarráðuneytinu 14.nóv.
Á annað hundrað manns mættu á haustráðstefnu Stjórnvísi í Hörpunni á föstudag. Ráðstefnugestir voru ánægðir með nýtt og áhugavert samtalsform fyrirlesara. Þeir Jón von Tetzchner og David Martin voru ekki með eiginlega fyrirlestra heldur var samtalsformið notað. Jón G. Hauksson, ritstjóri Frjálsrar verslunar og formaður Stjórnvísi, ræddi við Jón Stephenson von Tetzchner og Sigurjón Þór Árnason, gæða- og öryggisstjóri Tryggingastofnunar ríkisins, ræddi við David Martin. Vilborg Einarsdóttir framkvæmdastjóri Mentors fór á kostum í fyrirlestri sínum þar sem hún sagði okkur frá því hvernig faðir hennar hitti naglann á höfuðið þegar hann líkti saman góðum stjórnanda og "Fjallkóngi"
Meðfylgjandi eru myndir af ráðstefnunni.
http://stjornvisi.is/vidburdir/386
Með nýsköpun í genunum
Að varpa fram nýjum spurningum, skoða nýjar leiðir og líta á óleyst vandamál frá nýju sjónarhorni krefst skapandi hugmyndaafls og markar raunverulegar framfarir í vísindinum (Albert Einstein).
Nýsköpun er afurð þeirra framfara og þrífst best í umhverfi þar sem er rými til rýnis, fjölbreytileiki og frjálst flæði hugmynda. Við slíkar aðstæður verða bestu hugmyndirnar oft til og stundum gerist eitthvað stórkostlegt, sótt er fram. Nýsköpunarferlið í sinni einföldustu mynd felst í að skapa réttu skilyrðin og virkja snjalla hugmynd svo úr verði nýjung eða lausn sem leiðir til framfara.
Marel er með nýsköpun í genunum og hefur frá upphafi lagt áherslu á framfarir og endurbætur í vöruþróun hátæknibúnaðar sem og í daglegu starfi. Innan veggja Marel skorum við sífellt hvort á annað að gera það sem vel er gert í dag enn betur á morgun. Við hvetjum til gagnrýnnar hugsunar og fögnum fjölbreytileika. Velgengni Marel byggist þannig m.a. á þeirri grunnhugsun að verðmæti felist í orkulind hugmyndaaflsins og virkjun þess.
Það besta við þessa orkulind er að hún er auðlind Íslendinga og ein sú verðmætasta. Einhver besta fjárfesting okkar til framtíðar er því að virkja sköpunargleði ungu kynslóðarinnar. Þess vegna styrkir Marel nýsköpunarstarf á öllum skólastigum í landinu allt frá leiksskólastigi til háskólastigs. En tækifærið er okkar allra. Styðjum og hvetjum ungmenni um land allt til að sækja fram, virkja hugmyndaaflið og stuðla að nýsköpun. Þannig getur nýsköpunin ein orðið að einni verðmætustu auðlind komandi kynslóða. Þá verða allir Íslendingar með nýsköpun í genunum.
Höfundur: Nótt Thorberg, markaðsstjóri Marel á Íslandi og varamaður í stjórn Stjórnvísis
Það styttist í glæsilega haustráðstefnu Stjórnvísi sem fram fer í Hörpunni á föstudag kl.13:00-16:00.
Hún ber yfirskriftina: Að móta framtíðina - besta leiðin til að spá í framtíðina er að móta hana sjálfur!
Afar vel hefur tekist til með fyrirlesara að þessu sinni en þeir verða Jón von Tetzchner, frumkvöðull og stofnandi Opera Software, Vilborg Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Mentors, og David Martin, ráðgjafi í öryggismálum ríkja og stórfyrirtækja.
Ráðstefnan verður í Kaldalóni í Hörpu og verður með óvenjulegu fyrirkomulagi. Þeir Jón von Tetzchner og David Martin verða ekki með fyrirlestra heldur verður samtalsformið notað. Jón G. Hauksson ritstjóri Frjálsrar verslunar og formaður stjórnar Stjórnvísi ræðir við Jón von Tetzchner og Sigurjón Þ. Árnason, gæða- og öryggisstjóri hjá Tryggingastofnun ríkisins, ræðir við David.
Fjölmörg fyrirtæki hafa styrkt Stjórnvísi vegna ráðstefnunnar og gert okkur kleift að halda hana. Félagið þakkar þennan stuðning.
Aðgangur á ráðstefnuna í Hörpu er ókeypis og öllum félögum í Stjórnvísi opinn.
Kæru félagsmenn í Stjórnvísi.
Starfið innan Stjórnvísi hefur sjaldan byrjað eins vel og þetta starfsárið og mikil gróska einkennir félagið. Svo til allir faghópar eru komnir vel af stað og þegar hafa verið haldnar nokkrar fjölmennar ráðstefnur á vegum félagsins. Þessu ber að fagna og þakka.
Það er ekkert sjálfgefið að félagsmenn séu svo kraftmiklir og áhugasamir en fyrir vikið er félagið bæði áhugaverðara og skemmtilegra.
Mig langar að vekja athygli ykkar á stórglæsilegri haustráðstefnu Stjórnvísi í Hörpu nk. föstudag, 26. október. Hún ber yfirskriftina: Að móta framtíðina - besta leiðin til að spá í framtíðina er að móta hana sjálfur!
Afar vel hefur tekist til með fyrirlesara að þessu sinni en þeir verða Jón von Tetzchner, frumkvöðull og stofnandi Opera Software, Vilborg Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Mentors, og David Martin, ráðgjafi í öryggismálum ríkja og stórfyrirtækja.
Ráðstefnan verður í Kaldalóni í Hörpu og verður með óvenjulegu fyrirkomulagi. Þeir Jón von Tetzchner og David Martin verða ekki með fyrirlestra heldur verður samtalsformið notað. Ég ræði við Jón von Tetzchner og Sigurjón Þ. Árnason, gæða- og öryggisstjóri hjá Tryggingastofnun ríkisins, ræðir við David.
Ég hvet ykkur öll til að mæta á þessa glæsilegu haustráðstefnu í Hörpu en fjölmörg fyrirtæki hafa styrkt Stjórnvísi vegna hennar og gert okkur kleift að halda hana. Félagið þakkar þennan stuðning.
Aðgangur á ráðstefnuna í Hörpu er ókeypis og öllum félögum í Stjórnvísi opinn.
Innan raða Stjórnvísi eru núna um tvö þúsund félagsmenn og næstum 270 fyrirtæki. Svo margir hafa ekki verið í félaginu áður.
Höfum það ávallt í huga að Stjórnvísi er áhugamannafélag í eigu félagsmanna og starfar ekki með fjárhagslegan ágóða í huga.
Þungamiðjan í starfinu eru faghóparnir og án þeirra væri Stjórnvísi lítils virði.
Sem formaður hef ég lagt mikla áherslu á samheldni okkar félagsmanna og aukna félagsvitund þannig að við getum öll sagt með stolti að við séum félagar í Stjórnvísi - stærsta og virkasta stjórnunarfélagi landsins.
Að lokum vil ég þakka framkvæmdastjóra félagsins, Gunnhildi Arnardóttur, fyrir gott starf og að hafa komið faghópunum svo vel af stað á þessu hausti.
Með von um að sjá ykkur í Hörpu næsta föstudag. Sú ráðstefna er liður í því að móta framtíðina - móta framtíð Stjórnvísi.
Kveðja,
Jón G. Hauksson, formaður Stjórnvísi.
Það ríkti mikil gleði á ráðstefnunni Ást og hatur í tölvupóstum sem Margrét Reynisdóttir eigandi Gerum betur bauð til í dag. Tilefni ráðstefnunnar var útgáfa bókarinnar 8 lyklar að árangursríkum samskiptum eftir Margréti Reynisdóttur.
Fyrirlesarar voru átta og upplýstu ráðstefnugesti um mikilvægi þess að vanda til verka í tölvupóstsamskiptum.
Helgi Jóhannesson lögfræðingur hvatti aðila til að nota tölvupóst sem allra mest. Sleppa öllum bréfum því tölvupóstur væri mun öruggari en bréfpóstur.
Kristín Ingimarsdóttir verkfræðingur hjá VSÓ var ekki á sama máli því hún taldi að hægt væri að nálgast tölvupóst á svo ótrúlega marga vegu. Hún nefndi dæmi um það þegar tölvan er send í viðgerð og þegar við erum að skrá okkur inn í tölvur erlendis t.d. á hótelum. Öryggi kostar vinnu og vð verðum að huga að því hvað má alls ekki gerast.
Friðrik Pálsson hótelstjóri á Hótel Rangá fór yfir þróun samskipta og hvernig maður slær tóninn í samskiptum.
Halldóra Traustadóttir kynnti þjónustustefnu Íslandsbanka og hvernig hún sjálf fer að þvi að skipuleggja tölvupóstinn sinn.
Ómar Örn markaðsstjóri Öryggismiðstöðvarinnar sagði frá umbótaferli í þjónustu fyrirtækisins og þeim gildum sem þeir standa fyrir.
Sigrún Viktorsdóttir OR fjallaði um átak sem OR fór í varðandi stöðluð svör í tölvupósti.
Þórunn Lárusdóttir leikkona endaði ráðstefnuna með því að kynna hina 8 lykla sem eru lykillinn að árangursríkum tölvupóstsamskiptum og endaði á að syngja lag um það hvernig svara skal tölvupósti.
Fundur á vegum faghóps um Fjármál fyrirtækja var vel sóttur. Fundurinn fjallaði um kynningu á Toolpack sem er viðbót við excel og nýtir vöruhús gagna. Raungögn eru lesin úr fjárhagskerfi yfir í vöruhús gagna. Þegar búnar eru til greiningarskýrslur í Toolpack getur kerfið sent þær áfram með tölvupósti. Fyrirtækið 1912 valdi Toolpack vegna þess að starfsmenn þekkja excelinn vel. Þeir eru búnir að byggja upp áætlunarkerfið fyrir fjögur fyrirtæki af sex.
Oft er talað um flöskuhálsa í fyrirtækjum þegar afmarkaður staður í skipulagsheildinni veldur því að líkur á hámarksárangri minnka. Flöskuhálsinn getur verið ákveðið skref í framleiðslu-, þjónustu- eða söluferlinu. Það liggur því í hlutarins eðli að flöskuhálsar geta hæglega verið einstaklingar sem með hegðun sinni gera það að verkum að ekki er hægt að uppfylla þarfir viðskiptavina (innri eða ytri) með eins skjótum hætti og best væri.
Flöskuhálsar í framleiðslu eru oft vel sýnilegir. Afkastageta véla hefur t.d. veruleg áhrif á afhendingatíma vöru. Erfiðara getur hins vegar verið koma auga á flöskuhálsa í liðsheildum og þá sérstaklega þegar svo háttar til að flöskuhálsinn er stjórnandinn sjálfur sem með hegðun sinni og vinnulagi kemur í veg fyrir að starfsfólk hans geti með góðu móti gert það sem það er ráðið til að gera.
Stjórnandinn verður til dæmis flöskuháls þegar hann ætlar sér að gera of mikið sjálfur. Því miður eru enn til stjórnendur sem ekki hafa tileinkað sér nægilega hæfni í að dreifa verkefnum og/eða því valdi sem nauðsynlegt er til að starfsmaður geti eignað sér verkefnin. Með slíkri hegðun er stjórnandinn að ræna starfsmanninn möguleikann á því að vaxa í starfi og verða betri starfsmaður sér sjálfum og fyrirtækinu til heilla. Stjórnandi sem dreifir ekki valdi og verkefnum er því í raun réttri að halda starfsfólkinu sínu niðri, takmarka möguleika þeirra á að vaxa í starfi og um leið auka álag á sig sjálfan umtalsvert.
Ert þú flöskuháls í þínu fyrirtæki, og ef svo er, hvað ætlar þú að gera til að breyta því?
Unnur Valborg Hilmarsdóttir, stjórnendaþjálfari og eigandi Vendum, www.vendum.is
Á fundi Stjórnvísi, sem haldinn var nú í morgun 17. október, hélt Björgvin Filippusson stofnandi KOMPÁS áhugaverðan fyrirlestur undir yfirskriftinni “Sóknarfæri í miðlun þekkingar þar sem hann fjallaði um KOMPÁS hugmyndafræðina og stiklaði á stóru um uppbyggingu þekkingarsamfélagsins.
Í samantekt við lok fundar var það samdóma álit fundarmanna að KOMPÁS varðaði mjög marga stjórnendur og ætti mikið lof skilið fyrir hugmyndafræðina, framsetningu efnis og ávinning sem slíkur vettvangur skapar fyrir faglega stjórnun.
Hér má sjá myndir af fundinum http://www.facebook.com/media/set/?set=a.371119176304635.86919.191003920982829&type=1
Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Íslandsstofa, Rannís, Samtök Iðnaðarins og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins bjóða á ráðstefnu tekur mið af ráðstefnu sem haldin er samhliða í Brussel í tilefni af Evrópsku fyrirtækjavikunni 15. - 21. október 2012.
Lögð er áhersla á þekkingu og reynslu framúrskarandi frumkvöðlakvenna. Ráðstefnan verður haldin í Salnum, Kópavogi þann 18. október kl. 9:30-12. Skráningarfrestur er til kl. 14:00 miðvikudaginn 17. október og fer fram á vef NMI: http://www.nmi.is/um-okkur/vidburdir/frumkvoedlar-eru-framtidin/
Dagskrá ráðstefnu
Setning og fundarstjórn - Sigríður Ingvarsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands
Konur og stjórnun - Margrét Guðmundsdóttir, forstjóri Icepharma og formaður Félags atvinnurekenda
Reynsla og ferill frumkvöðuls - Svana Gunnarsdóttir, fjárfestingastjóri Frumtaks og frumkvöðull
Talsmaður evrópsku fyrirtækjavikunnar 2012 - Vilborg Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Mentors
Kaffihlé og tengslatorg
Tæknigreinar og menntun - Rakel Sölvadóttir hjá Skema og Stefanía Katrín Karlsdóttir hjá Matorku
Fjármögnun og fjárfestingar - Aðalheiður Héðinsdóttir hjá Kaffitári og Brynja Guðmundsdóttir hjá Gagnavörslunni
Alþjóðafædd - Svanhildur Pálsdóttir hjá Hótel Varmahlíð og Margrét Sigurðardóttir hjá MusikMusik
Netsamfélög kvenna - Þórunn Jónsdóttir hjá FAFU og Þóranna K. Jónsdóttur hjá Markaðsmálum á mannamáli
Skráningarfrestur er til kl. 14:00 miðvikudaginn 17. október og fer fram á vef NMI:
http://www.nmi.is/um-okkur/vidburdir/frumkvoedlar-eru-framtidin/
Kæru Stjórnvísifélagar.
Stjórnvísi hefur mikinn áhuga á að fá frá ykkur stutta grein (1.640 slög) til birtingar í Viðskiptablaði Morgunblaðsins og á vef Stjórnvísi. Undanfarna tvo vetur hafa birst vikulega áhugaverðar greinar í Viðskiptablaði Mbl. skrifaðar af Stjórnvísifélögum. Þessar greinar eru mikið lesnar.
Markmiðið er að þetta séu greinar um hagnýtt efni fyrir stjórnendur til að lesa ásamt því að vera kynning á Stjórnvísi, ykkur sem einstaklingum og þeim fyrirtækjum sem þið starfið hjá.
Greinarnar hafa verið birtar á bls. 8 í Viðskiptablaðinu og lengdin er 1.640 slög með línubilum (characters with spaces) ásamt ljósmynd af viðkomandi.
Hlakka til að heyra frá ykkur og hvet ykkur til að senda inn grein sem allra fyrst.
Hugtakið atvinnuhæfni (employability) hefur fengið aukna umfjöllun í mannauðsfræðum undanfarin 15-20 ár. Fræðimenn benda á að horfa megi á atvinnuhæfni frá þremur sjónarhornum. Frá sjónarhorni samfélagsins, sem vísar til almenns heilbrigðis vinnumarkaðarins og atvinnustigi. Frá sjónarhorni fyrirtækisins, því máli skiptir að atvinnuhæfir einstaklingar séu á vinnumarkaði og að lokum frá sjónarhorni einstaklingsins, það er þeirra tækifæra sem bjóðast til að fá og halda góðu starfi á vinnumarkaði. Þessir aðilar hafa mismunandi sýn á atvinnuhæfni en í grunninn snýst málið um einstaklinginn sjálfan.
Víð skilgreining á atvinnuhæfni felur í sér færni, getu og vilja einstaklingsins til að nýta hæfileika sína á vinnumarkaði á þann hátt sem líklegur er til að skila árangri miðað við aðstæður og forsendur viðkomandi. Um er að ræða afstætt hugtak sem er háð lögmálum framboðs og eftirspurnar á vinnumarkaði. Því er nauðsynlegt að skilgreina það vítt og taka með innri og ytri þætti. Þröng skilgreining á atvinnuhæfni er hæfileiki einstaklingsins til að halda í vinnuna sem hann hefur eða til að fá vinnuna sem hann hefur áhuga á. Miklu máli skiptir að gera sér grein fyrir því efnahagslega umhverfi og félagslega samhengi sem um ræðir hverju sinni.
Samfélagsþróun undanfarinna ára og breytingar sem má gera ráð fyrir að verði á næstu árum hafa í för með sér tilfærslu í uppbyggingu starfsferla og breytingu á sambandi starfsmanna og atvinnurekanda. Þekking og skilningur á atvinnuhæfni með aðstoð fagaðila getur skipt máli hvort sem einstaklingurinn er í starfi eða í atvinnuleit og leitt af sér ný tækifæri fyrir aðila samfélagsins.
Helga Rún Runólfsdóttir
INTELLECTA - Sérfræðingur í ráðningum
Faghópur um markþjálfun fagnar nýjum aðila í stjórn faghópsins en það er Annetta Ragnarsdóttir, ACC markþjálfi.
Kynning á Annettu: Vorið 2008 náði markþjálfun athygli minni, ég heillaðist strax og ákvað að mennta mig í faginu. Fyrir mér er markþjálfunin ekki bara mögnuð aðferð til að bæta og þroska mannleg samskipti heldur líka máttugt verkfæri fyrir okkur til þess að komast að því hvað við raunverulega viljum og hjálpa okkur að koma okkur á þá braut.
Markþjálfun er samband sem miðar að því að viðskiptavinurinn taki skref sem gera framtíðarsýn, markmið og óskir hans að veruleika.
Markþjálfi notar ferli spurninga sem hvetja til persónulegra uppgötvana og efla vitund og ábyrgð viðskiptavinarins. Hann kennir ákveðnar aðferðir og veitir viðskiptavini sínum stuðning og endurgjöf.
Markþjálfunarferlið ýtir undir að viðskiptavinurinn nái að skilgreina og ná markmiðum sínum á skjótan og áreynslulausan hátt.
Ég hef markþjálfað yfir 450 tíma, bæði innan fyrirtækja og einstaklinga. Endilega kíkið á heimasíðuna mína anra.is.
Fyrirtækið Gerum betur býður þér á spennandi ráðstefnu um tölvupósta sem haldin verður á Grand hóteli, 18. október, frá kl. 8.30 -11:00.
Tilefnið er útgáfa bókarinnar „8 lyklar að árangursríkum tölvupóstsamskiptum“ eftir Margréti Reynisdóttur, framkvæmdastjóra Gerum betur. 8 fyrirlesarar munu miðla af reynslu sinni og er fyrirsögnin hér að ofan sótt í einn fyrirlesturinn: Tölvupóstar - Ást og hatur.
Gerum betur hefur síðastliðin 8 ár unnið ötullega að því að efla þjónustu hérlendis með námskeiðahaldi, útgáfu á bókum og kennslumyndböndum.
Stjórn faghóps um Stefnumótun og Balanced Scorecard vill vekja athygli faghópsins á því að þriðjudaginn 16. október kl. 12-13 heldur Runólfur Smári Steinþórsson erindi á málstofu Viðskiptafræðideildar undir yfirskriftinni Stefna og forskot í HT-101
http://www.hi.is/vidburdir/stefna_og_forskot
Áhugaverður viburður sem vert er að benda á.
Stjórnin
Góður stjórnandi býr yfir fjölbreyttum eiginleikum, allt frá skipulagningu og útdeilingu verkefna til miðlunar upplýsinga og hvatningar. Ásamt fyrrgreindum hæfileikum er yfirgripsmikil og sérhæfð þekking á stjórnun og sjúkrahússtarfsemi talin nauðsynleg öllum stjórnendum á Landspítala.
Á Landspítala er lagt mat á starfsumhverfið með reglubundnum hætti en tilgangurinn er að kanna stöðu innra starfs spítalans og upplifun starfsmanna á vinnustað, meðal annars stjórnun, boðleiðum og öðrum mikilvægum þáttum sem snúa að innri ferlum. Mælingar taka mið af starfsánægju, starfsanda, trausti til stjórnenda og yfirmanna svo eitthvað sé nefnt. Slík greining getur lagt grunn að umbótastarfi, sé þess þörf, veitir stjórnendum aðhald, segir þeim hvað vel er gert og hvað má betur fara á vinnustaðnum til að starfsfólki líði vel.
Niðurstöður síðustu könnunar (2012) bentu til þess að starfsumhverfið væri að mörgu leyti í góðu lagi en þar væru líka ákveðin tækifæri til þess að gera betur. Stjórnendur njóta til að mynda mikils trausts starfsmanna sinna (4,26)*, leggja áherslu á hagkvæmni í rekstri (4,43), setja almennt fagmennsku í forgang (4,25) og hafa skýra framtíðarsýn og vinna í anda stefnu LSH (4,28). Flestir eru í auknum mæli meðvitaðir um jákvæð áhrif þess að hrósa en hins vegar sýna kannanir fram á að starfsmenn telja endurgjöf um frammistöðu í starfi ábótavant (3,67).
Við leggjum upp úr því að vinna með niðurstöður slíkra kannana og grundvöllur stjórnendaþjálfunar tekur mið af þeim nú þegar ný námskeið hefjast á Landspítala. Góð endurgjöf skiptir miklu fyrir starfsanda og þar eru stjórnendur í lykilhlutverki. Hrós er hvetjandi þegar vel gengur og leiðbeinandi endurgjöf getur verið lykilatriði þegar bæta þarf frammistöðu og ná árangri. Okkar markmið er að hafa góða stjórnendur sem gera endurgjöf að einu af þeim öflugu verkfærum sem skapa gott starfsumhverfi á Landspítala.
*Meðaltal á Likert skala (1-5) þar sem 5 er hæsta gildi.
Greinarhöfundur er Arna Pálsdóttir, M.Sc í vinnusálfræði og verkefnastjóri á mannauðssviði Landspítala.
Mannauðsstjórnunarhópur Stjórnvísi vill vekja athygli félaga í hópnum á þessum áhugaverði fundi sem haldinn verður mánudaginn 22. október n.k. hér á landi á vegum NIVA um einelti á vinnustöðum.
NIVA er menntastofnun á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar og er fundurinn liður í hringferð um Norðurlöndin þar sem farið er með sambærilega dagskrá til allra Norðurlandanna.
Hingað til lands koma góðir fræðimenn á sviðinu og gefst því tækifæri til að hlusta á það sem er efst á baugi varðandi þetta efni.
Hér eru almennar upplýsingar og einnig hægt að skrá sig á netinu:
http://www.niva.org/home/article-22841-15700-nordic-tour-2012-bullying-and-harassment-at-work-6210
Hér er síðan prógrammið:
http://www.niva.org/Site/Widget/Editor/611/files/courses/2012/nt_bullying_6210/Programme%20Reykjavik.pdf
Á fundi upplýsingaöryggis sem haldin var í Háskólanum í Reykjavík í morgun ræddi Ýmir Vigfússyni um núverandi stöðu tölvuöryggis á Íslandi og hvað við getum gert til að bæta okkur. Niðurstaða Ýmis er sú að hætturnar eru til staðar sem aldrei fyrr og við hér á Íslandi getum gert mun betur. Peningar, njósnir og völd eru þeir þættir sem gera tölvuinnbrot aðlaðandi fyrir skúrkana og í dag eru þetta oft glæpasamtök sem standa að baki innbrota. Það er úr nægu fyrir þá að moða því að öryggisholur er víða að finna og t.d. kóði stýrikerfa margfalt umfangsmeiri í dag heldur en fyrir 10 árum. Framtíðin er líka ekki allt of björt því að Ýmir spáir því að virði og umfang tölvuárása muni aukast ásamt fjölda öryggisveikleika kerfa. Aftur á móti er hættan fyrir einstaklinga óljós, það eru ekki allir skúrkar sem að finnst borga sig að ráðast á einstaklingstölvur og sérhæfa sig frekar í að ráðast á stærri skotmörk.
Hvað getum við gert hérna á Íslandi? Að mati Ýmis þá er það annaðhvort að kaupa lausnir á borð við öryggisúttektir eða "Offensive Security" eða þjálfa upp starfsfólk. Þjálfun eða menntun er mjög mikilvæg og mikið meira sem mætti gera bæði fyrir þá sem eru að læra hugbúnaðarþróun og eins á sviði símenntunar fyrir þá sem eru út í atvinnulífinu. Háskólinn í Reykjavík hefur árlega boðið upp á 6 eininga tölvuöryggisnámskeið sem er opið fyrir alla (3 vikna) og einnig árlegar keppnir í tölvuhakki. Næsta tölvuhakkskeppni HR verður einmitt næstkomandi fösudag í sal 1 í Háskólabíói (kl 21:30) og eftir spennandi innbrotskeppni sem háð verður á staðnum, kemur í ljós hver er hakkari ársins 2012!
Faghópur um upplýsingatækni vekur athygli á ráðstefnu í Nauthól 28.september; Réttur til að vita ...
Ráðstefna 28. september
Nauthóli - Nauthólsvík
kl. 9 - 12
„Réttur til að vita ...“
„Hvar liggja mörk trúnaðar og upplýsingagjafar?“
Skráningarform
Taktu þátt í umræðunni á Twitter: @SkyIceland #Rettur
Ráðstefnan er haldin í tilefni af „International Right to Know Day“ sem haldinn hefur verið víða um heim þann 28. september frá árinu 2003. Tilgangur dagsins er að leggja áherslu á að réttur einstaklinga til upplýsinga sé virtur og aðgengi að upplýsingum sem vistaðar eru hjá stjórnvöldum sé opið og gagnsætt.
Lögð verður áhersla á þátt upplýsingatækninnar. Ráðstefnan er ætluð þeim sem hafa áhuga á að rétturinn til að vita sé virtur, bæði borgurum og þeim sem bera ábyrgð á vistun og miðlun upplýsinga.
Leitast verður við að svara eftirfarandi spurningum:
- Hvað felst í þessum degi?
- Hvað gera önnur lönd?
- Hver eru vandamálin við upplýsingagjöf á Íslandi í dag?
- Hver er réttur almennings til upplýsinga?
- Hvernig er lagaumhverfið?
- Hvað get ég fengið að vita um sjálfan mig?
- Hvernig má nýta upplýsingatæknina betur?
Dagskrá:
08:50-09:00 Afhending ráðstefnugagna
09:00-09:40 Leyna stjórnvöld mikilvægum upplýsingum sem eiga erindi við almenning?
Niðurstöður könnunar kynntar.
Jóhanna Gunnlaugsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands
09:40-10:00 Rétturinn til að þekkja eigin upplýsingar
Vigdís Eva Líndal, lögfræðingur, Persónuvernd
10:00-10:20 Eru upplýsingalögin að virka?
Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri hjá forsætisráðuneyti
10:20-10:40 Kaffihlé
10:40-11:00 Sjónarhorn “eiganda gagna. Hvenær má veita upplýsingar og hvenær ekki?
Anna Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Tæknisviðs Símans
11:00-11:20 Hvað skráir lögreglan hjá sér og í hvað notar hún það?
Árni E. Albertsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóranum
11:20-11:40 Þjónusta ríkisskattstjóra
Gunnar Karlsson, sviðsstjóri einstaklingssviðs hjá ríkisskattstjóra
11:40-12:00 Bætt aðgengi að upplýsingum og samskiptum
Gunnar Grímsson og Róbert Bjarnason, Íbúar ses
12:00 Fundarlok
Fundarstjóri: Jóhanna Gunnlaugsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands
Undirbúningsnefnd: Jóhanna Gunnlaugsdóttir hjá Háskóla Íslands, Halla Björg Baldursdóttir hjá Þjóðskrá Íslands, Ásta Möller hjá Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands og Arnheiður Guðmundsdóttir hjá Ský
Verð fyrir félagsmenn Ský: 4.900 kr.
Verð fyrir utanfélagsmenn: 7.900 kr.
Verð fyrir aðila utan vinnumarkaðar: 3.000 kr.
Skráningarform
Hvetjum alla til að fylgjast með Ský og vera virk á Twitter, Facebook og LinkedIn
Bestu kveðjur,
Skýrslutæknifélag Íslands
www.sky.is sky@sky.is
Samfélagsábyrgð fyrirtækja er í raun tæki til að vinna með viðskiptavinum og samfélagi á einfaldan og árangursríkan hátt.
Atriði sem stuðla að góðu orðspori:
Sýnin um að vera hluti af lausninni - Verkefni á sviði umhverfismála og samfélags þarf að leysa, hvert er hlutverk fyrirtækisins og hvaða tækifæri hefur það til að leggja sitt af mörkum til úrbóta? Miðlið sýn fyrirtækisins og lausnum.
Láta verkin tala - Orðsporið byggir á aðgerðum og árangri. Að auglýsa ímynd án innistæðu getur skaðað meira en að gera ekkert. Útlistið í hverju áskoranir ykkar liggja og hverju þið ætlið að áorka.
Starfsmenn virkjaðir - Starfsmenn þarf að virkja; það veitir ánægju að tilheyra hópi sem hefur eitthvað meira fram að færa en hagnað. Því skýrari skilaboð sem starfsmenn fá, því auðveldara er að taka réttar ákvarðanir, efla fyrirtækið og vera eftirsóttur vinnustaður.
Fræða viðskiptavini - Að fræða viðskiptavinina er árangursrík leið. Með því að deila lausnum fyrirtækisins út á við sýnið þið frumkvæði, hafið keðjuverkandi jákvæð áhrif í virðiskeðjunni og eflið orðsporið.
Beita áhrifum - Með þrýstingi má hafa jákvæð áhrif á markaðinn, t.d. á stefnumótun, innkaup og lagasetningu. Stuðningur frá atvinnulífi er mikilvægur til að bæta umhverfi og samfélag.
Vinna með hagsmunasamtökum - Hlustið á væntingar annarra með lausnir í huga, þannig gefst tækifæri til að læra og deila upplýsingum.
Segja sögu fyrirtækisins - Vandið ykkur við að miðla sögu, lærdómi og áherslum fyrirtækisins.
Miðlun þarf vera smekkleg og með tilfinningu fyrir hagsmunaaðilum.
Góðar reynslusögur - Góð dæmi um árangur berast víða og smita út frá sér.