FJÓRÐA TÆKNIBYLTINGIN ER HAFIN: Hvaða stefnu og markmið eiga fyrirtæki að setja sér á þessum tímamótum tækninýjunga.

Ragnhildur Ágústsdóttir hjá Microsoft Ísland leiðir okkur í allan sannleika um það hvernig tæknin mun gjörbylta viðskiptalífinu á næstu 5-10 árum og að hverju fyrirtæki þurfa að huga ef þau ætla ekki að verða undir í samkeppninni.

Ábyrgð og árangur stjórnarmanna

Nú er komið að fyrsta fundi nýs faghóps um góða stjórnarhætti. Okkur finnst við hæfi að hefja veturinn á fyrirlestri um hlutverk, ábyrgð og árangur stjórnarmanna.

Með fundinum viljum við auka vitund á hlutverki og verklagi stjórna. 

Fyrirlesarar eru:
Svava Bjarnardóttir, ráðgjafi og meðeigandi Kapituli og vottaður ACC- markþjálfi.
Auður Ýr Helgadóttir , hdl. og meðeigandi í LOCAL lögmenn.

Svava  hefur setið í fjölda stjórna í íslensku atvinnulífi og er virk sem stjórnarmaður/stjórnarformaður í nokkrum félögum í dag. Hún leggur mikla áherslu á stefnumótun, vandaða stjórnarhætti og fagmennsku í öllum  þáttum reksturs fyrirtækja.

Auður Ýr Helgadóttir kennir góða stjórnarhætti við Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti við Háskóla Íslands.

Fundurinn er ætlaður fyrir alla sem hafa áhuga á góðum stjórnarháttum jafnt byrjendum sem lengra komna. Fundurinn er einnig kjörin fyrir þá aðila sem hafa sitið í stjórnum eða hafa hug að því að gefa kost á sér til stjórnarsetu.

Hlökkum til að sjá þig.
Vertu með okkur frá byrjun!

Viðburðurinn verður í Kviku á 1. hæð í Húsi atvinnulífsins.

Boðið verður upp á kaffi.

Stöðugar umbætur á uppgjörsferli OR

Frá því haustið 2015 hefur OR unnið að stöðugum umbótum á uppgjörsferli samstæðunnar. Erindið fjallar um umbótavinnu á uppgjörsferli og er sérstaklega miðað við ársuppgjör þó að umbótavinnan nýtist jafn vel fyrir árshlutauppgjör. Fjallað verður um hvernig verklagi var breytt og þeim árangri sem uppgjörsteymið hefur náð.

Fyrirlesari: Bryndís María Leifsdóttir, forstöðumaður reikningshalds OR

Fullbókað: Heilsueflandi Reykjavík - Áhersla á heilsueflingu starfsmanna og heilsueflandi stjórnun

Reykjavíkurborg leggur áherslu á heilsueflingu starfsmanna og hefur á árinu 2017 unnið markvisst að því að  efla heilsueflandi stjórnun  starfsstaða og staðið fyrir heilsueflandi aðgerðum fyrir alla starfsmenn Reykjavíkurborgar.   Lóa Birna Birgisdóttir fer yfir hvernig hefur verið unnið að heilsueflingu hjá Reykjavíkurborg með það að markmiði að innleiða breytingar í vinnustaðamenningu starfsstaða Reykjavíkurborgar til lengri tíma. Kynnt verður heilsu- og hvatningarverkefnið „Heilsuleikar Reykjavíkurborgar“ sem Reykjavíkurborg hefur staðið fyrir  þar sem starfsmenn eru hvattir til að sinna heilsunni með leikgleðina að leiðarljósi og sjónum hefur verið beint bæði líkamlegri og andlegri heilsu sem og mataræði. 

Helstu einkenni stjórnenda hjá bestu þjónustufyrirtækjunum og hvað má læra af þeim?

Þessi viðburður verður í janúar 2018. Nánari dagsetning mun liggja fyrir mjög fljótlega. 

Flest ef ekki öll fyrirtæki vilja að viðskiptavinir sínir upplifi góða þjónustu. Það eru ýmis tæki og tól sem hægt er að beita en það verður ekki hjá því komist að hafa afar hæfa og góða stjórnendur. 

Í samvinnu við Nova og Expectus er ætlunin að fara yfir það hvað einkennir stjórnendur fyrirtækja sem ná árangri. 

Nova hefur í mörg ár átt ánægðustu viðskiptavini á fjarskiptamarkaði og því verður afar athyglisvert að fá kynningu á því hjá Þuríði Björg yfirmanni einstaklingssviðs hvað einkennir þeirra stjórnendur og stjórnendahætti. 

Með Þuríði ætlar Kristinn Tryggvi hjá Expectus að ræða hverskonar þjálfun og menntun þessir gerð af stjórnendum ætti að fá og hvaða faglega nálgun er hægt að taka til að hámarka árangur stjórnendanna. 

Árangur í markaðssetningu á netinu í ferðaþjónustu

Ari Steinarsson sérfræðingur í markaðssetningu á netinu og The Engine halda erindi um markaðssetning á netinu, hvaða gögn er unnið með ásamt því hvernig fólk þarf í teymið.

Viðburðurinn miðar að ferðaþjónustu en á sannarlega við um alla þá sem stunda stafræna markaðssetningu. 

Ari hefur starfað við stafræna markaðssetningu síðustu 10 árin og unnið fyrir mörg af stærstu fyrirtækjum landsins. Hann stofnaði fyrirtækið Netráðgjöf árið 2007 og hefur haldið fjölda námskeiða og fyrirlestra um stafræna markaðssetningu fyrir fyrirtæki og stofnanir. Hann starfaði einnig hjá TM software og sem framkvæmdastóri hjá ferðaþjónustufyrirtækinu Reykjavík Sailors. Ari starfar nú sem sérfræðingur í stafrænni markaðssetningu hjá Reykjavík Excursions.

The Engine er opinber samstarfsaðili Google eða „Premier Google Partner“.og er eina fyrirtækið á Íslandi sem hefur hlotnast þessi nafnbót. Þeir hafa stýrt herferðum fyrir fyrirtæki eins og Orange, Diadora, Santander, Sparibanken, Wow Air, Reykjavik Excursions, Arion Banka og Blue Car Rental svo nokkur séu nefnd.

Húsið opnar kl. 8:15 og fyrirlestur hefst stundvíslega kl. 08:30.

Fullbókað: Heimkaup - innkaup og birgðastýring

Heimkaup ætlar að bjóða innkaupa og birgðastýringahóp Stjórnvísi í heimsókn fimmtudaginn 9. nóvember kl. 8:45.

Guðmundur Magnason framkvæmdastjóri Heimkaupa mun taka á móti okkur í fundarsal á 16. hæð í Smáratorgi 3, Kópavogi.

Hann mun meðal annars segja okkur frá aðfangakeðju Heimkaupa, samskiptum við birgja, birgðahaldinu og framtíðaráformum fyrirtækisins. Einnig gefst kostur á að sjá lager Heimkaupa sem er í sama húsi.

 Ath. fjöldatakmörk gilda: eingöngu 30 einstaklingar geta skráð sig á þennan viðburð.

Þurfum við Lean teymi innan fyrirtækisins ?

Við innleiðingu straumlínustjórnunar hafa mörg fyrirtæki og stofnanir farið þá leið að mynda faghóp eða teymi sérfræðinga sem sérhæfa sig í aðferðarfræðinni. Hlutverk þessara teyma eru mismunandi, staðsetning í skipuriti ólík og líftími þeirra breytilegur. Á fundinn fáum við Helgu Halldórsdóttur liðsstjóra í staumlínustjórnunarteymi Arion banka og Hjálmar Eliesersson verkefnastjóra hjá Icelandair til að segja frá reynslu sinni og lærdómi.

Fjallað verður um þróun á lean verkefnum og teymum innan fyrirtækja.

 

 

Ábyrgar fjárfestingar

Fræðslufundur Stjórnvísi og Festu um ábyrgar fjárfestingar

21. nóvember 2017, kl 8:30 – 10:00, KPMG, Borgatúni 27, Reykjavík

Faghópur Stjórnvísi um samfélagsábyrgð heldur fræðslufund um ábyrgar fjárfestingar í samvinnu við Festu - miðstöð um samfélagsábyrgð, undir yfirskriftinni: Er innleiðing nýrra laga um ófjárhagslega upplýsingaskyldu og fjárfestingarstarfsemi sjóða tækifæri til nýsköpunar og aukinna sóknarfæra?

Fyrirlesarar

Tómas N. Möller, lögfræðingur Lífeyrissjóðs verslunarmanna: Lög og um fjárfestingarstarfsemi  lífeyrissjóða og upplýsingagjöf þeirra, m.a. í tengslum við sjálfbærniviðmið. Tómas mun fjalla um nýlegar breytingar á lögum og reglum um fjárfestingarstarfsemi lífeyrissjóða. Velt verður upp spurningum og ábendingum varðandi umboðsskyldu, tengsl reglnanna við aukna umræðu um ábyrgar fjárfestingar (SRI - Social Responsible Investment) og auknar kröfur varðandi umhverfismál, samfélagsábyrgð og góða stjórnarhætti (ESG - Environment, Social, Governance).

Hrefna Ö. Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Markaða Landsbanka Íslands: Innleiðing stefnu um ábyrgar fjárfestingar (RI) hjá Landsbankanum. Hrefna mun fara yfir innleiðingu Landsbankans á stefnu um ábyrgar fjárfestingar og einnig mun hún fjalla um nýstofnuð samtök um ábyrgar fjárfestingar.

Ketill Berg Magnússon, framkvæmdastjóri Festu - miðstöðvar um samfélagsábyrgð. Ketill mun fjalla um mismunandi leiðir sem fjárfestar geta valið til að innleiða stefnu um ábyrgar fjárfestingar og tækifæri sem þeim fylgja. 

Fundastjóri: Viktoría Valdimarsdóttir, CEO Business Group Luxemborg s.ár.l. og stjórnarformaður Ábyrgra lausna ehf.

Fundurinn verður hýstur í húsakynnum KPMG, Borgatúni 27, Reykjavík

Boðið verður upp á kaffi,

Talar starfsfólkið okkar sama tungumálið?

Á þessum fundi faghóps um mannauðsstjórnun verður fjallað um mikilvægi þess að starfsfólk innan sömu og þvert á þjónustugreinar tali sama tungumálið, áhrif þess á hæfni starfsfólks, þjónustugæði og orðspor.

Tungumálið er ein af undirstöðum árangursríkra samskipta og lykilþáttur þess að þjónustufyrirtæki geti eflt hæfni starfsfólks til að uppfylla þarfir og væntingar viðskiptavina. Eitt er að tala sama tungumálið en það er hinsvegar annað mál ef starfsfólkið leggur ekki sama skilning í þau fagorð og hugtök sem tíðkast nota innan starfsgreinarinnar.

Markmið fundarins er að varpa ljósi á vaxandi vanda innan ferðaþjónustunnar og afrakstur klasasamstarfs samkeppnisaðila innan greinarinnar og hagsmunaaðila um sameiginlega lausn sem getur eflt hæfni starfsfólks og gæði þjónustunnar.

Þrír fyrirlesarar munu flytja erindi á fundinum:

Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri/klasastjóri Íslenska Ferðaklasans

Kristín Sif Sigurðardóttir framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Atlantik

Björgvin Filippusson, stofnandi KOMPÁS Þekkingarsamfélagsins

Fyrirlesturinn á erindi til allra þeirra sem koma að mannauðsmálum og stjórnun, þjálfun, fræðslu, sí – og endurmenntun starfsmanna.

Fundargestir athugið. Gengið er inn aðalinnganginn að framanverðu og er fundarsalurinn á fyrstu hæð á móti afgreiðslu. Hægt er að leggja í bílastæðin við Kringluna.

Verkefnið: World Scout Moot á Íslandi

Í sumar fór heimsmót eldri skáta (World Scout Moot) fram á Íslandi og var það í fimmtánda skipti sem slíkt mót er skipulagt. Viðburðurinn stóð yfir í níu daga, á ellefu stöðum víðsvegar um landið, og hann sóttu 5200 einstaklingar frá 90 mismunandi löndum. Yfir 450 íslenskir skátar komu að undirbúningi mótsins sem var að mestu í sjálfboðavinnu, en eins og gefur að skilja er flókið að skipuleggja viðburð af þessari stærðargráðu.

Mótstjóri var Hrönn Pétursdóttir og hún ætlar að segja frá skipulagi heimsmótsins út frá verkefnastjórnunarlegum forskriftum á þessum fyrirlestri sem er í boði MPM-námsins við HR í samstarfi við MPM-alumni félag og Stjórnvísi. Hann fer fram í kennslustofum M325/M326 í Háskólanum í Reykjavík.

Fundarstjóri er Svava Björk Ólafsdóttir formaður MPM-alumni félags.

Fyrirlesturinn er öllum opinn og aðgangur gjaldfrjáls.

Verið velkomin!
Nánari upplýsingar má sjá hér

Styrkleikar – leysa þeir líka loftslagsvandann?

Oft heyrist sagt að við eigum að vera besta útgáfan af sjálfum okkur og því sé svo gagnlegt að þekkja styrkleika sína. Við eigum að einblína á þá, nýta þá betur og hætta að velta okkur uppúr veikleikunum – sem við þekkjum þó oftast mun betur. Það er minna rætt um það að þegar við ofnýtum styrkleika geta þeir jafnvel dregið úr okkur lífsgleði og kraft. Vannýttir styrkleikar bíða hins vegar eftir því að vera virkjaðir okkur til heilla og hamingju. Eitt af því sem jákvæða sálfræðin boðar einmitt er að það að nýta styrkleika á nýjan hátt getur aukið hamingju okkar.

Almenningur hefur aðgang að nokkrum styrkleikaprófum á netinu, á þessum viðburði verður eitt þeirra, Strengths Profile, kynnt til sögunnar. Strengths Profile býður upp á styrkleikamat fyrir einstaklinga og teymi. Það gefur auga leið að það að hafa yfirsýn yfir styrkleika teymis getur gagnast á ýmsan hátt, til dæmis bætt afköst og anda.

Viðburðurinn er hugsaður fyrir þá sem vilja hagnýta eigin hestöfl sem best og fá sem mesta ánægju út úr deginum. Einnig tilvalið fyrir stjórnendur til að kynna sér hvernig styrkleikamatið geti hámarkað árangur í teymisvinnu.

Ragnhildur og Ágústa Sigrún eru mannauðsráðgjafar og ACC markþjálfar hjá Zenter. Þær nýta Strengths Profiler við markþjálfun og í vinnu með einstaklingum eða teymum. Helsti styrkleiki Ragnhildar skv. Strength Profiler er kímnigáfa og Ágústa hefur hugrekki í efsta sæti.

Þátttakendum býðst að fá styrkleikamat og endurgjöf í tengslum við viðburðinn á sanngjörnu verði.

Fullbókað: Hefur aukin þátttaka kvenna í atvinnulífinu haft áhrif á stjórnarhætti?

Faghópur Stjórnvísis um góða stjórnarhætti heldur morgunverðarfund í samvinnu við fræðslunefnd FKA þann 27. nóvember kl. 8:30 í Húsi Atvinnulífsins, Borgartúni 35, 1. hæð

Á fundinum verður fjallað almennt um einkenni stjórna og þá vitundarvakningu sem orðið hefur á síðustu árum um góða stjórnarhætti.

1. Fjórar ólíkar stjórnargerðir,
Jón Sigurðsson, löggiltur endurskoðandi frá PwC fjallar um hvernig má flokka stjórnir í fjórar tegundir stjórna, málamyndastjórn, leppstjórn/stimpilstjórn, ráðgefandi stjórn og virka stjórn.

2. Reynslusaga, fyrir og eftir fræðslu um góða stjórnarhætti
Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Viðlagatryggingar Íslands fjallar um hvaða áhrif diplomanám í góðum stjórnarháttum höfðu á verklag og vinnubrögð hennar í hlutverki framkvæmdastjóra.

3. Af ólíkum sjónarhornum
Martha Eiríksdóttir, sjálfstætt starfandi ráðgjafi og stjórnarkona fjallar um um reynslu sína af því að vera í ólíkum hlutverkum í atvinnulífinu. Martha hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu sem frumkvöðull, stjórnandi og stjórnarmaður m.a. í Reitum, Innnes, Olíudreifingu, Farice og Ísfelli.

4. Þroskaferill stjórna með aukinni stjórnarþátttöku kvenna
Margrét Guðmundsdóttir, fyrrverandi forstjóri Icepharma, stjórnarformaður N1 og varaformaður stjórnar Isavia fjallar um hvort og þá hvaða breytingar hafa orðið á stjórnarháttum með aukinni stjórnarþátttöku kvenna

Boðið verður upp á kaffi.  

Ráðlagt er að mæta tímanlega þar sem erfitt getur reynst að fá bílastæði.  

 

GDPR - gæða- og öryggismál

Einungis sex mánuðir eru þangað til að persónuverndarreglugerð ESB (General Data Protection Regulation) tekur gildi. GDPR leysir af hólmi rúmlega 20 ára gamla persónuverndarlöggjöf sem ekki hefur fylgt eftir þeim breytingum sem hafa átt sér stað í hinum stafræna heimi.

Mörg skilyrði GDPR tengjast bæði gæða- og öryggisstjórnun fyrirtækja og á þessum fundi verður farið yfir helstu þætti gæðastjórnunar sem nýtast við hlítingu GDPR.

Dagskrá er eftirfarandi:

Arna Hrönn Ágústsdóttir, lögfræðingur hjá Nýherja mun segja frá GDPR innleiðingunni hjá félaginu með áherslu á mikilvægi starfsmannaþjálfunar

Maria Hedman, Lausnaráðgjafi og product owner hjá Nýherja, mun fjalla um kortlagningu verkferla og sýna raunhæf dæmi um ferla sem krefjast endurbóta vegna tilkomu GDPR.

Anton Már Egilsson, Lausnastjóri hjá Nýherji, mun fjalla um helstu þætti öryggismála í tengslum við hlítingu GDPR

Í lokin gefst tími fyrir spurningar og umræður.

 

Starfsemi alþingis út frá sjónarhóli verkefnastjórnunar

Alþingi er æðsti handhafi löggjafarvalds á Íslandi og er margbrotin stofnun sem sinnir mikilvægum og flóknum verkefnum. En hvernig skyldi starfsemin líta út frá sjónarhóli verkefnastjórnunar?

Jón Steindór Valdirmarsson MPM tók sæti á alþingi haustið 2016 fyrir hönd þingflokks Viðreisnar og hann ætlar velta fyrir sér hvernig störf alþingis og skipulag falla að fræðum og kenningum verkefnastjórnunar. Fyrirlesturinn er í boði MPM-námsins við HR í samstarfi við MPM-alumni félagið og Stjórnvísi.

Jón Steindór er menntaður lögfræðingur og útskrifaðist úr MPM-náminu árið 2013. Hann hefur meðal annars starfað sem framkvæmdastjóri iðnaðarins, setið í fjölda stjórna og verið í eigin rekstri. Síðar söðlaði hann um og snéri sér að stjórnmálum og er einn af frumkvöðlum þess að flokkurinn Viðreisn varð til.

Fyrirlesturinn fer fram í stofu M101 í Háskólanum í Reykjavík og fundarstjóri er Helgi Þór Ingason forstöðumaður MPM-námsins við HR.

Aðgangur er öllum opinn og er gjaldfrjáls. Nánar um viðburðinn má sjá hér

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?